31.10.1955
Neðri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í C-deild Alþingistíðinda. (1890)

63. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv., sem ég flyt í þriðja skipti hér, vildi ég aðeins segja fyrst nokkur orð almennt viðvíkjandi okkar stefnu í því að leysa húsnæðisvandamálin.

Það er að vísu gífurlegt verkefni, sem fyrir okkur Íslendingum hefur legið og liggur að byggja íbúðarhús, sómasamleg, varanleg íbúðarhús yfir fólkið í okkar landi, meira verkefni en flestar aðrar þjóðir hafa á þessu sviði, vegna þess að þegar við hófumst handa um aldamótin að byggja varanleg hús hér á Íslandi, þá var svo hverfandi litið til af húsum, sem væru til frambúðar, þannig að það hefur svo að segja orðið að byggja yfir allt landsfólkið, það sem af er þessari öld.

En er það nú það, sem gerir okkur svona erfitt, að við höfum haft svona mikið að vinna viðvíkjandi húsabyggingunum? Ég held, að þetta verkefni hafi ekki verið það erfiðasta fyrir okkur að eiga við. Okkar þjóð er svo dugleg, það er unnið það mikið, hennar tæki, nú upp á síðkastið a.m.k., bæði þau almennu, sem hún notar við framleiðslugreinarnar, eins og sjávarútveginn, og þau, sem hún notar nú við húsabyggingarnar, eru svo afkastamikil, að við erum raunverulega ekki í vandræðum með að vinna stórvirki, og þar að auki erum við í þeirri aðstöðu, að fiskimiðin, sem við fyrst og fremst byggjum okkar auð á, eru svo auðug, að við getum á skömmum tíma ausið upp úr þeim auðlegð, sem nægir okkur til þess að kaupa allt byggingarefni og allt til bygginga frá útlöndum. Það er ekki það, sem hefur verið það erfiðasta fyrir okkur, að verkefnið hafi verið svo stórt að byggja yfir þjóðina. Það, sem hefur gert okkur erfiðast i sambandi við húsnæðismálin, er, að húsbyggingarnar og húsaleigan, það að búa í húsi, hefur í æ ríkara mæli verið gert að braskfyrirtæki, verið gert að féþúfu í staðinn fyrir að tryggja, að byggt væri með það fyrir augum, að þar með kæmu íbúðarhús, sem fólk gæti búið í, á þann ódýrasta hátt, sem hægt væri að byggja.

Ég vildi mega setja hér fram útreikning um, hvað menn ættu að þurfa að borga í húsaleigu á mánuði, ef allt væri með felldu hjá þjóðinni, og ég vil leyfa mér að halda því fram, að hver Íslendingur, hver íslenzk fjölskylda eigi að geta komizt af með að borga 10% af sínum launum í húsaleigu, svo framarlega sem rétt er að farið. Og ég skal færa rök fyrir mínu máli.

Ef við hugsum okkur afstöðu þjóðarbúsins sem einnar heildar í þessu, þá kemur fyrsta spursmálið fyrir okkur, hvað við þurfum að reikna með að byggja mikið á einu ári, margar íbúðir, til þess bæði að útrýma þeim gömlu og heilsuspillandi og til þess að skapa íbúðir handa unga fólkinu, sem er að reisa bú, og handa þeim, sem eru að flytja sig.

Það var reiknað með í fyrra, þegar ríkisstj. lagði fram sitt frv. um húsnæðismálastjórn, að við þyrftum að byggja 900 íbúðir á ári. Ég vil nú jafnvel reikna með hærri íbúðatölu. Við skulum segja, að við reiknum með, að frá 1000 og upp í 1200 íbúðir á ári yrðu að byggjast, og þó veit ég, að ef það mikið væri byggt, þá mundum við á skömmum tíma geta útrýmt öllum þeim lélegu íbúðum, sem nú er búið í, jafnt til bæja og sveita.

Í öðru lagi er spurningin, hvað við eigum að reikna með að það kosti að byggja meðalíbúð. Ríkisstjórnin reiknaði með í sínu húsnæðisfrumvarpi í fyrra 150 þús. kr., vafalaust miðað við þriggja herbergja íbúð að meðaltali. Við skulum segja, að jafnvel þó að við reiknuðum með hærra, þó að við færum upp undir 200 þús. kr. í þessu efni; ef við byggjum á ári 1200 íbúðir, þó að þær kostuðu 200 þús. kr., þá þýðir það 240 milljónir.

Þá þurfum við í öðru lagi að reikna með, hvað við þurfum í viðhald á þeim húsum, sem nú eru fyrir. Þær íbúðir, sem nú eru fyrir í landinu, kosta að brunabótamati 4000 millj. kr., þ.e. 14 milljarða. Ef maður þarf að reikna með viðhaldi af þeim, raunverulega viðhaldi, þá er það ekki hærra en 1%, eða 40 millj. kr. á ári í viðhald á þessum íbúðum. Ef hinum útreikningum mínum væri haldið, að reikna með 1200 íbúðum á 200 þús. kr., þá þýðir þetta til samans 280 millj. kr., sem þjóðin þyrfti að verja á ári til þess að byggja nýjar íbúðir og það þetta margar og þetta dýrar og að viðhalda þeim gömlu.

Þessar 280 millj. kr., og þá reikna ég með miklu hærri tölum en ríkisstj. gerði í fyrra, það er það, sem okkar þjóðarbú þarf að leggja fram á einu ári, til þess að fólk geti búið í húsum í landinu, góðum, varanlegum húsum. Þetta samsvarar um 10% af þjóðartekjunum, og það þýðir, að m.a. hver verkamannafjölskylda ætti að komast af með að greiða 10% af sínum launum í húsaleigu, ef tveim skilyrðum er fullnægt: í fyrsta lagi, ef laun verkamannsins eru í réttu hlutfalli við þjóðartekjurnar, og í öðru lagi, ef ekkert brask og enginn gróði er leyfður í sambandi við íbúðarhúsabyggingar. Og ég vil benda hv. þm. á, að i meiri hlutanum af löndum Evrópu er því svo komið fyrir, að menn borga ekki nema frá 6 upp i 8% af sínum launum i leigu. Og einnig í þeim kapítalistísku löndum Evrópu er stefnt að því af öllum þeim ríkisstj., sem einhverja hugsun hafa um efnahagsmál þjóðarinnar, að tryggja, að menn þurfi almennt ekki að borga meira en í hæsta lagi 10% af sínum launum í húsaleigu á ári. Það er gert bæði með harðvítugri húsaleigulöggjöf og með stórfelldum lánum af hálfu ríkisins. T.d. í Danmörku eru lánskjörin látin vera þannig núna, að menn geti komizt af með kjör, sem eru allt að því eins góð og þetta, og ég þekki jafnvel sjálfur dæmi til þess, að fólk, gamalt fólk, sem fær sína ellitryggingu þar, ef ég man rétt upp undir 500 danskar kr. á mánuði, borgi tíunda hluta af því í húsaleigu fyrir tvö herbergi og eldhús, 45–50 kr. á mánuði, hvort tveggja danskar.

M.ö.o.: Það er hægt meira að segja fyrir þjóðfélag, sem þyrfti að byggja jafnört og okkar þjóðfélag, að tryggja það, að venjuleg fjölskylda komist af með að greiða 10% af sinum launum í húsaleigu á mánuði, hvort sem maður vill taka það þannig, að viðkomandi væri smátt og smátt á löngum tíma að eignast þetta húsnæði eða hann greiddi þetta í leigu til stofnana, sem ættu það, hvort sem það væri bær eða samvinnufélög eða önnur slik. En það er það skilyrði í þessu, að það komist ekki að brask eða gróði í sambandi við íbúðarhúsabyggingarnar.

Það er um þessa stefnu, sem átökin hafa verið á síðustu þrjátíu árum hér hjá okkur. Um leið og farið er að byggja varanleg íbúðarhús, íbúðarhús úr steini, sem vitanlegt er að geta staðið 100–200 ár, þá liggur það i augum uppi, að ef fjárfesting í slíkum húsum fær að vera einkafyrirtæki manna, sem eiga húsin til að græða á því að leigja þau út, þá er þarna um að ræða ákaflega efnilega fjárfestingu frá sjónarmiði einstakra auðmanna, og það hefur alveg sérstaklega sýnt sig hér í Reykjavík, að á þeim tímum sem það hefur verið tvísýnt að leggja í togara eða sjávarútveg, við skulum segja strax í kreppunni eftir 1920, hefur það verið góður gróðavegur að leggja í það að eignast hús í Reykjavík, leigja þau og græða á því.

Þess vegna kemur snemma upp sú stefna hér að reyna að hrifa þessa starfsemi, það að byggja íbúðarhús, undan valdi þeirra venjulegu gróðaafla í þjóðfélaginu og láta ekki ríkja á sviði íbúðarhúsabygginganna það venjulega gróðasjónarmið, sem annars einkennir auðvaldsskipulagið. Það er farið að berjast fyrir því, að hið opinbera sjálft geri slíkar ráðstafanir viðvíkjandi byggingu íbúðarhúsa, að það sé tryggt, að menn geti búið í íbúðarhúsunum án þess að vera arðrændir af auðvaldi.

Þegar verkamannabústaðalögin voru sett fyrir 25 árum, er gengið út frá í þeim, að ríkið tryggi, að það sé hægt að fá lánað 85–90% af kostnaðarverði hússins og lánstíminn sé frá 42 upp í 75 ár. Það er enn fremur tryggt, að ríkið veiti og tryggi þessi lán með um 2% vöxtum, og jafnframt tryggt, að þetta sé fyrst og fremst handa verkamönnum og öðrum þeim, sem hafi lágar tekjur. Þar með er farið inn á þá leið, að ríkið hlutist beinlínis til um, að bygging íbúða yfir verkamennina í þjóðfélaginu sé ekki háð gróðalögum kapítalismans. Þessi tilraun bar þá strax allmikinn árangur, og síðan hefur baráttunni verið haldið áfram, farið inn á fleiri svið, inn á það að stofnsetja samvinnubústaðina og svo 1946 inn á það svið að gera bæjarfélögunum kleift að byggja fyrst og fremst yfir þá þegna þjóðfélagsins, sem við verst húsnæði bjuggu og talið var að ekki mundu einu sinni hafa efni á að leggja fram þau 10–15%, sem þurfti til þess að vera þátttakandi í verkamannabústöðunum, enda var þá líka hitt, að almennt gekk hægt með byggingu þeirra bústaða vegna þess, hve fjárframlög voru lítil, að menn hefðu orðið að bíða mjög lengi, ef menn hefðu ætlað að bíða eftir því. Með þeim lagabálki, sem samþykktur var 1946, þar sem löggjöfin um verkamannabústaðina, samvinnubyggingarnar og um útrýmingu heilsuspillandi íbúða var tekin undir eitt, var útbúin sú stærsta löggjöf og felld saman í eitt, sem gerð hafði verið á Íslandi og miðaði að því að tryggja, að hægt væri að byggja yfir íbúa landsins, án þess að þeir yrðu gróðafíkninni í þjóðfélaginu að bráð. Stefnan, sem fólst í allri þessari löggjöf frá byrjun verkamannabústaðanna og þar til lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða voru samþykkt, stefndi að því að útrýma braskinu úr húsnæðismálunum. Síðan var bætt við löggjöfinni um smáíbúðirnar til þess, eftir því sem þá var yfir lýst, að reyna að styðja þannig þá, sem vildu sjálfir leggja í að byggja íbúðir, að þeir gætu fengið aðstoð frá þjóðfélaginu til þess með sérstökum hætti.

Það, sem svo kom til, sérstaklega eftir að öll afskipti Marshall-kerfisins af okkar efnahagsmálum byrja, var, að þess var krafizt af hálfu þeirra, sem réðu stefnunni í efnahagsmálum Íslands, að húsnæðið og bygging íbúðarhúsa yrðu í ríkari og ríkari mæli undirorpin þeim sömu lögmálum sem efnahagsmál þjóðarinnar voru að öðru leyti, að byggingar íbúðarhúsa yrðu á sama hátt gróðafyrirtæki og brask og yrðu að lúta sömu vöxtum og slíku eins og almenn verzlunarviðskipti í þjóðfélaginu. Í staðinn fyrir að reyna að draga byggingar íbúðarhúsanna, a.m.k. yfir almenning, út úr öllu braskinu og losa þær við áhrif gróðaaflanna, var nú stefnt að því að draga byggingar íbúðarhúsanna og þar með húsnæðismálin inn undir braskið á ný og gera braskið þannig alls ráðandi í húsnæðismálunum. Í samræmi við það var einnig af hálfu stjórnarflokkanna tekin sú ákvörðun 1950 að afnema húsaleigulögin og gefa þar með frjálst líka í gömlu íbúðunum að hækka leiguna þar.

Ég álít, að sú stefna, sem tekin var upp 1947 og var framkvæmd af harðvítugum krafti 1950 við afnám húsaleigulaganna og var færð út nú á síðasta þingi, þegar ríkisstjórnin setti sitt frv. um húsnæðismálastjórn, — ég álít, að öll þessi stefna sé skaðleg og hættuleg. Þegar vextirnir eru komnir upp í 7% af lánum til íbúðarhúsabygginga, þegar meira að segja vextir til byggingar verkamanna- og bændabústaða eru komnir upp í 5% og þar í kring, 41/2 og 5%, og þegar einkabraskinu er hleypt jafnvel með aðstoð ríkisins inn í íbúðarhúsabyggingarnar, þá hlýtur að fara illa í þjóðfélaginu, enda hefur sézt, að afleiðingin af þessari stefnu ríkisstj. hefur verið sú, að íbúðirnar, eins og ég hef nokkrum sinnum tekið fram hér áður, íbúðir, sem fyrir 10 árum kostuðu í Reykjavík 150 kr. í leigu á mánuði, kosta nú 1500–2000 kr., eða hafa 10–12–faldazt, á sama tíma sem kaupgjald hefur tvöfaldazt aðeins.

Hvað þýðir það, að verkamaður verði að borga 1500 kr. og jafnvel þar yfir, upp í 2000 kr. á mánuði fyrir þriggja herbergja íbúð? Viðkomandi verkamaður, ef hann vinnur átta tíma á dag, eins og þjóðfélagið ætlast til af honum, og hefur alltaf vinnu, hefur 3300 kr. á mánuði í laun. Það þýðir m.ö.o., að hann verður að borga helminginn af öllum sínum vinnulaunum í húsnæði. Hann verður að borga þetta annaðhvort til húseiganda, sem fær þetta þá til sín, eða þá jafnvel verður hann stundum að borga þetta sjálfur sem húseigandi. Þó að hann sé að brjótast f því með miklum dugnaði að reyna að koma upp húsi yfir sig og borga það niður, þá eru kjörin, sem hann verður oft að búa við, þannig, að hann verður kannske að borga upp á 10–15 árum lán til íbúðarinnar og reikna sér þannig húsaleigu, sem væri eins há og þetta. Og ég skal geta þess um leið, að jafnvel þótt hann væri leigjandi og yrði að borga svona til húseiganda, þá verður máske sá húseigandi oft og tíðum að reikna sjálfum sér svona mikið af slíkri íbúð, vegna þess að hann verði að borga svo ört niður eða verði að borga svo háa vexti eða að öðru leyti hafi svo slæm kjör, að þetta sé þannig knúið fram af þeim öflum, sem ráða verðlaginu í þjóðfélaginu. En við sjáum hins vegar, hvað þetta þýðir, hvernig svo sem það er, hvort sem borgað er til húseiganda, óbeint til banka eða öðruvísi; ef maður verður að láta heiminginn af sínum launum í að borga húsaleigu, en gæti, ef engin gróðamyndun ætti sér stað í sambandi við íbúðarhúsabyggingar, komizt af með að borga 10%, þá er eitt af tvennu að gerast: það er verið að ræna hann um stóran hluta af hans launum til ágóða fyrir húseigendur, okrara, banka eða aðra slíka, eða það er verið að láta hann borga upp fyrir komandi kynslóðir á allt of skömmum tíma húsnæði, sem hann hefur sjálfur verið að byggja, og verið þannig að íþyngja þessari kynslóð og hálfdrepa hana með svona kjörum.

Þess vegna er það eðlilega eitt stærsta hagsmunamál alls almennings, að húsaleigumálunum sé komið í það horf, að verkamenn, hvort sem þeir vilja eignast íbúðirnar sjálfir eða leigja hjá öðrum, geti komizt af með það, sem væri eðlilegt fyrir þjóðina, að borga um 10% af sínum launum í húsaleigu, og það mundi vera hægt fyrir þjóðfélagið, ef í fyrsta lagi lánapólitík þjóðfélagsins sjálfs og þar með bankanna væri miðuð við að lána til langs tíma, frá 42–75 ára, — í Danmörku er lánað til frá 50–100 ára út á húsin, - sem sé ef í fyrsta lagi lánapólitík þjóðfélagsins væri í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar og vöxtunum stillt það í hóf, — upphaflega markið þar var 2%, — að menn geti risið undir því. Ég efast satt að segja ekki um, að núverandi kynslóð, sem er að byggja Ísland upp, mundi þykja það leikur að byggja yfir alla þá, sem nú búa í slæmum íbúðum, og yfir alla þá, sem á ári hverju þurfa að bætast í hópinn, ef hún fengi að gera það upp á þær spýtur að hafa lán upp á 2% og lánstíma til 45–75 ára. Henni mundi þykja það leikur. Svo dugleg er okkar þjóð. Það er sem sé eingöngu vegna þess, að þjóðfélaginu er stjórnað vitlaust og stjórnað með hagsmuni auðvalds fyrir augum og brasksjónarmið látin ríkja við byggingar íbúðarhúsa, að það skuli ekki vera hægt að gera það auðveldasta verkið fyrir okkar kynslóð að byggja yfir þjóðina.

Ég álít, að það beri að hverfa alveg frá þeirri stefnu, sem tekin hefur verið upp undanfarið, stefnu þeirra háu vaxta, stefnu þeirra stuttu lána, stefnunni að fá einkabraskið sem víðtækast inn í íbúðarhúsabyggingarnar, og hverfa aftur að þeirri stefnu að tryggja hinar ýmsu myndir þjóðnýts starfs að íbúðarhúsabyggingum. Þess vegna felst í þessu frv. hjá mér, að verkamannabústaðalögin séu aftur sett í fullt gildi eins og þau voru, að öllu leyti, líka hvað snertir hina upphaflegu tekjuöflun til þeirra, tekjuöflun með því, að helmingurinn af tekjum tóbakseinkasölu ríkisins gangi til þeirra, eins og ákveðið var á okkar verstu krepputímum. Og ég efast ekki um, að með þeim ákvörðunum, sem hér er lagt til og eitt sinn voru í gildi, er hægt að setja byggingar verkamannabústaða á fullan kraft, og þannig séu líka lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða sett aftur í fullt gildi og lögin um lánadeild smáíbúða, sem ég veit að fjölmargir nú sakna, þegar húsnæðismálaóstjórnin er tekin við.

Þetta frv. mitt fer þess vegna í stuttu máli fram á, að allt það, sem sett hefur verið í lög á Íslandi um húsnæðismál á undanförnum 30 árum og bezt hefur verið, sé endurnýjað, og það er ekkert annað ákvæði í öllu þessu frv. en það, sem verið hefur í gildi í íslenzkum lögum á einu eða öðru skeiði í þessi 30 ár, það bezta, sem verið hefur. Ég álít, að það eigi að hverfa aftur að þeirri stefnu, að hús séu byggð yfir menn á Íslandi með það fyrir augum, að menn geti búið f húsi, en ekki með hitt fyrir augum, að einhverjir og einhverjir framandi aðilar geti grætt á húsabyggingum, geti grætt á innflutningi byggingarefnis, geti grætt á því að lána fé til íbúðarhúsabygginga, geti grætt á því að byggja íbúðarhús eða geti grætt á því að leigja út hús, — að gróðanum og gróðasjónarmiðinu sé útrýmt í sambandi við húsbyggingarnar. Og ég vil taka það fram, að þó að þeim, sem skammt sjá, kunni að finnast, að þetta sé eingöngu hagsmunasjónarmið verkamannastéttarinnar í þjóðfélaginu og alþýðunnar, þá er hér um meira að ræða. Þetta er stór spurning fyrir allan íslenzkan atvinnurekstur. Ef húsnæði á Íslandi er gert að braski, þá þýðir það, að einn verkamaður verður að borga miklu meira fyrir húsnæði sitt en ella. Það, að hann verður að borga miklu meira fyrir sitt húsnæði, þýðir, ef verkamannasamtökin eru sterk og þeim er stjórnað vel, að hann knýr fram hærra kaup til þess að geta risið undir þessari húsaleigu. Það, að hann knýr fram hærra kaup vegna húsaleigunnar, þýðir hins vegar gagnvart útflutningsatvinnuvegunum, að svo miklu leyti sem kaupgjaldið kemur fram sem hækkun á kostnaðinum þar, að útflutningsatvinnuvegurinn á erfiðara. M.ö.o.: Gróðinn, sem einstakir aðilar taka i sambandi við húsabyggingarnar, lendir að lokum á útflutningsframleiðslunni eða gerir þjóðinni erfiðara fyrir um hana. Þeir menn, sem eitthvað eru að hugsa um, að okkar útflutningsframleiðsla eigi að geta verið samkeppnisfær, og annað slíkt, eins og það er kallað, ættu að skoða það sem sitt verkefni að sjá til þess, að verkamenn geti fengið sitt húsnæði á sanngjörnu verði, á 10% af sínum launum. Það mundi þýða, að fyrir útflutningsframleiðsluna mundi slíkt vafalaust koma í ljós í því, að almennt yrði ekki knúið eins skarpt á um launahækkun, vegna þess að ef húsaleiga væri almennt lækkuð úr því, sem hún er núna, niður í t.d. það að geta verið 10% af launum manna, þá mundu verkamenn skoða það sem launahækkun, sem þeir hefðu fengið.

Atvinnurekendastéttir í þeim löndum Evrópu, sem sérstaklega byggja sína afkomu á útflutningi, skoða það alveg sérstaklega sem sitt verkefni að sjá um, að brýnustu þarfir almennings hækki ekki. Við skulum taka enska auðvaldið í þessu sambandi. Enska auðvaldið hefur t.d. alltaf skoðað það sem eitt af sínum höfuðáhugamálum, að brauð væri ódýrt í Englandi. Og ein hörðustu átökin, sem orðið hafa í enskri pólitík, átökin um korntollinn fyrir 100 árum, stöfuðu beinlínis af því, að atvinnurekendastéttin heimtaði, að tollur á brauðkorni væri afnuminn, til þess að það væri hægt að lækka brauðið til verkamannanna. Atvinnurekendastéttir, eins og t.d. í Danmörku, hafa talið alveg nauðsynlegt fyrir þeirra útflutning, að það yrði séð um, að það væri haldið niðri húsaleigunni, að frumstæðar þarfir manna eins og húsnæði væru ekki nema í sem minnstum mæli gerðar að leiksoppi fyrir gróðann. Þess vegna lifum við það, að allmikill hluti af íbúðarhúsabyggingum í Danmörku er raunverulega þjóðnýttur. Það er gert m.a. vegna þess, að ekki aðeins verkamenn og þeirra flokkur, heldur líka atvinnurekendur sjá það í allríkum mæli, að þetta er þeirra hagur.

Hver er hins vegar afleiðingin af því, sem gerzt hefur hér á Íslandi í pólitík og það sérstaklega afturhaldsins upp á síðkastið í þessum málum? Afleiðingin er sú, að fjármagnið, sem til er á Íslandi, fjármagn einkaaðilanna, flýr úr atvinnurekstri eins og sjávarútveginum og í íbúðarhúsabyggingar til þess að ná miklum og skjótfengnum gróða þar. Það er þess vegna gefið, að það að leyfa yfirleitt, að gróði geti komizt að í sambandi við íbúðarhúsabyggingar, er til tjóns fyrir allan íslenzkan atvinnurekstur, er til tjóns fyrir alla útflutningsframleiðslu Íslendinga, fyrir iðnað Íslendinga. Og svo framarlega sem yfirleitt okkar atvinnurekendastétt hér á Íslandi kynni t.d. að hugsa um undirstöðuna undir sínum eigin atvinnurekstri, þá mundi hún sjá þetta. En hún sér það ekki frekar en hún sá, þegar þurfti að fá tækin handa sjávarútveginum hér um árið. Hún er svo merkilega blind í þessum efnum.

Hinsvegar eru opnaðar allar gáttir og hefur verið gert í ríkara og ríkara mæli nú upp á síðkastið fyrir gróðahyggjunni, fyrir auðsöfnuninni, og þar með hefur hún nú upp á síðkastið alveg sérstaklega beinzt að húsnæðismálunum. Þarna álít ég sem sé þurfa að verða algera stefnubreytingu. Það verður að taka það upp, að byggt sé með það fyrir augum, að menn geti búið í húsnæði og komizt af með að borga fyrir það, hvort sem þeir teljast eigendur þess eða ekki, í kringum tíunda hluta af sínum launum, en þurfi ekki að standa í þeim þrældómi og undir þeirri kúgun, sem þorri almennings stendur nú, eða lenda í þeim ægilegu vandræðum, sem þeir búa við, sem sjálfir hafa ekki almennilegt húsnæði til að hafast við í.

Ég álít, að hér verði að breyta algerlega um stefnu, það verði að taka upp þjóðnýta stefnu í húsnæðismálunum og hverfa burt frá brask og gróðastefnunni, sem verið hefur að breiða um sig í ríkara og ríkara mæli upp á siðkastið. Og við sjáum nú eina afleiðinguna af henni í sambandi við húsnæðismálastjórnina eða húsnæðismálaóstjórnina hjá hæstv. ríkisstj., — ég ætla nú ekki sem stendur að fara inn á það mál, framkvæmdina á húsnæðismálalöggjöf síðasta Alþingis, það verður vafalaust tækifæri til þess seinna, — en hitt er ljóst og var ljóst þá, að stefnubreytingar er þörf í þessum málum og hennar róttækrar, og ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að meiri hluti þings geti nú fallizt á þetta frv. mitt. Það er frv. um mál, sem þingheimur hefur á einu eða öðru stigi á síðustu 30 árum samþykkt og leitt í lög og alltaf verið ánægður yfir, þegar hann hefur gert það.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. óska eftir, að málinu verði vísað til 2. umr. og til félmn.