15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekkert er þjóðfélaginu eins dýrt og láta fólk ganga atvinnulaust. Það er því ein af frumskyldum þeirra, sem löndum og lýðum ráða, að koma í veg fyrir atvinnuskort. Ef t.d. 1000 manns ganga atvinnulausir í 4 mánuði, kostar það þjóðfélagið ekki minna en a.m.k. 15–16 millj. kr. í töpuðum vinnuverðmætum. Og sennilega teldist það ekki almennt eða óvenjulegt atvinnuleysi, þó að í allt fyndust allt að 3000 manns í öllum bæjum og kauptúnum Vestfjarða, Norðurlands og Austurlands, sem væru atvinnulausir í 4 mánuði ársins. En samt hlytist af því beint framleiðslutap fyrir þjóðfélagið, sem næmi a.m.k. 45–50 millj. kr., og slík saga endurtekur sig því miður hjá okkur á ári hverju.

Auk fjárhagslega tjónsins getur ekki heldur dapurlegri sjón en að sjá efnilegt og vinnufúst fólk á bezta aldri með fullt vinnuþrek eigra um atvinnulaust og sjá enga möguleika til þess að sjá sér og sínum farborða. Þetta fólk þjáist af tærandi ótta við afleiðingar atvinnuskortsins. Atvinnuleysið dregur vissulega dug úr fólki og lamar þrótt þess. Atvinnuleysið er bæði persónulegt og þjóðfélagslegt eyðingarafl. Ekkert er ungu kynslóðinni heldur hættulegra en atvinnuleysi, enda gengur það glæpi næst að synja ungu fólki um að fá að beita kröftum sínum, synja því um að fá að vinna fyrir sér og vinna þjóð sinni gagn. Það er sennilega eitt af því fáa, sem ekki er deilt um hér á landi, að atvinnuleysi sé böl, sem þjóðfélaginu beri skylda til að fyrirbyggja með öllum ráðum.

En er þá nokkurt atvinnuleysi hér á landi um þessar mundir? Vissulega er það svo, því miður. Enginn má láta það villa sér sýn, þó að hér í Reykjavík og nágrenni hennar sé völ nægra verkefna fyrir alla þá, sem vilja vinna. Í þremur landsfjórðungum er það meira og minna algengt, að fólk gangi atvinnulaust mánuðum saman á hverju ári, sums staðar allt að því hálft árið. Þetta ástand er einna alvarlegast í bæjum og sjóþorpum, sem byggt hafa afkomu sína á síldveiðum og síldariðnaði, og enginn getur sakað fólkið á þessum stöðum um það, þó að síldin veiðist ekki og þó að dýrmæt atvinnutæki notist þannig ekki heldur ár eftir ár, en vissulega er bölið og tjónið jafntilfinnanlegt fyrir því. Litlu betra er ástandið þar, sem þorskveiðar hafa brugðizt árum saman á grunnmiðum og stór skip hefur vantað til að sækja afla á fjarlægari fiskimið. Það léttir ekki böl atvinnuleysingjanna, þó að ef til vill megi segja, að þetta sé í flestum tilfellum afleiðing þess, að erlendir veiðiþjófar hafa fengið að skarka svo nálægt ströndum landsins, að grunnmiðin mega heita eyðilögð. Það er léleg raunabót, þó að menn viti, að úr þessu hefði ef til vill mátt bæta með því, að stjórnarvöldin hefðu þorað að bægja veiðiþjófunum frá og rýmka friðunarsvæðin við strendur landsins, eftir að reynslan hafði staðfest, að hjá því yrði ekki komizt, ef vel ætti að gæta hagsmuna Íslendinga. Staðreyndin er samt sú, að þetta hefur ekki verið gert. Forsrh. og ríkisstj. hafa sagt eins og danski karlinn, sem sagði: Jeg tör ikke for Anne. — Þeir þora ekki að leysa lífsnauðsyn íslenzkra þegna fyrir brezkum ofríkismönnum, sem þá hins vegar langar til að selja óunninn fisk sér til einhvers hugsanlegs ábata annað slagið, en þjóðinni þó áreiðanlega bæði til tjóns og vanvirðu. Og þar við situr. Þar með er fólkið í þessum landshlutum látið eiga sig með sitt atvinnuleysi. Í það er í mesta lagi slett einhverri smáfúlgu af atvinnubótafé. En málið er stærra en svo, að það verði leyst á þann hátt.

Þetta frv., sem hér er til. umr., bendir á allt aðrar leiðir, og skal ég nú gera nokkra grein fyrir efni þess og flutningi. Málið er flutt af fjórum þm., sínum úr hverjum stjórnmálaflokki, nefnilega hv. 9. landsk., Karli Guðjónssyni, hv. þm. V-Ísf., Eiríki Þorsteinssyni, hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundssyni, og mér. Frv. er, eins og segir í upphafi grg., að mestu leyti sniðið eftir fjórum lagafrv., sem fram komu á seinasta þingi og öll fjölluðu um togaraútgerð og lausn alvarlegra atvinnuvandamála Öll miðuðu þessi frv. að því að auka framleiðslu sjávarafurða og vinna bug á atvinnuleysi því, sem landlægt er á vissum tíma árs víðs vegar á landinu. Efniviður sá, sem frv. er byggt á í sinni núverandi mynd, er þá í fyrsta lagi frv. til laga um smíði togara innanlands og aukningu togaraflotans. Það var þá flutt af fjórum þm. Sósfl. í Nd. Alþingis. Í öðru lagi er hér um að ræða frv. til laga um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar, flutt af mér og hv. þm. V-Ísf., Eiríki Þorsteinssyni. Það frv. hafði ég þá flutt þrisvar sinnum áður, fyrst í Ed., en síðan alltaf í Nd. Þriðja frv., sem hér um ræðir, er frv. til laga um útgerð togara til þess að koma á og viðhalda jafnvægi í byggð landsins, flutt af þremur þm. Framsfl. Þá er það fjórða frv., frv. til laga um stuðning við bæjar- og sveitarfélög til atvinnuframkvæmda, flutt af þremur þm. Sósfl., einnig flutt í Nd.

Nú varð það að ráði, að ekki skyldi þetta mál flutt af þessum þm. hvert í sínu lagi, heldur skyldu þau felld saman í eina löggjöf og þm. fjögurra flokka sameinast til flutnings á frv. Samtals hafa þessir flokkar öflugan meiri hl. á þingi, eða 31 þm., svo að með þessum samflutningi málsins ætti að vera miklu vænlegra en áður um framgang þess. Um nokkur önnur mál var þessi háttur einnig upp tekinn í byrjun þessa þings, að sameina þm. fleiri flokka um flutning meiri háttar mála. Má þar til nefna frv. um þriggja vikna orlof. Er vonandi, að þessi vinnubrögð leiði til þess, að þessi mál bæði verði nú afgreidd sem lög.

Þetta frv. er í fjórum köflum. I. kaflinn er um það, að ríkisstj. skuli leita eftir samningum við íslenzkar skipasmíðastöðvar um smíði þriggja togara af fullkomnustu gerð. Á því sviði hefur ísinn þegar verið brotinn um smíði stálskipa. Eitt skip hefur þegar verið smíðað. Það er dráttarbáturinn Magni, sem jafnframt er ísbrjótur í bókstaflegri merkingu, og nú er annað stálskip í smíðum, nefnilega björgunarskúta Norðurlands. Báðar þessar tilraunir þykja hafa tekizt með ágætum. Auðvitað á ríkisvaldið að hlúa að þessum nýgræðingi í íslenzkum iðnaði með því að fá honum í hendur sístækkandi verkefni til þess að glíma við. Og að sjálfsögðu á að stefna að því, að stálbátar, sem nú eru mjög að ryðja sér til rúms, og togarar okkar verði yfirleitt smíðaðir hér heima. Með þessu mundu skapast atvinnuskilyrði fyrir margar iðngreinar, svo sem skipaverkfræðinga, skipasmiði, rafvirkja, pípulagningarmenn, vélsmiði, húsgagnasmiði, málara og fleiri iðnstéttir.

Þá er einnig lagt til í I. kafla frv., að ríkisstj. skuli kaupa erlendis 12 fullkomna togara, og skuli við það miðað, að smíði þessara 15 skipa verði lokið á árunum 1957, 1958 og 1959. Í þessu skyni er ríkisstj. heimilað að taka . allt að 100 millj. kr. lán. 10 af þessum 15 skipum er ríkisstjórninni heimilað samkvæmt frv. að selja samvinnufélögum, bæjar- eða sveitarfélögum, hlutafélögum eða einstaklingum eða hverjum öðrum lögformlegum aðila, sem slíkan atvinnurekstur vill annast.

II. kafli frv. er um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar. Þar segir, að ríkið sjálft skuli eiga og gera út ekki færri en 5 þeirra togara, sem um ræðir í I. kaflanum, og skuli þessir togarar fyrst og fremst afla hráefnis fyrir hraðfrystihús og önnur fiskiðjuver, sem illa eru hagnýtt vegna hráefnisskorts. Í þessum frv.- kafla segir enn fremur, að það skuli vera höfuðmarkmið þessarar togaraútgerðar ríkisins að jafna atvinnu í kaupstöðum og kauptúnum landsins með þeim hætti, að togararnir leggi þar einkum afla á land, sem atvinnuleysi geri vart við sig og mest sé þörf aukinnar vinnu hverju sinni. Einnig er heimilað að taka tillit til þess við ákvörðun staða, sem ríkistogari á að leggja afla sinn upp á, að illa hagnýtt fiskiðjuver fái aukið hráefni til vinnslu. Þarna er sem sé hugsað um þetta tvennt, að bæta fyrst og fremst úr atvinnuþörf fólksins, að hagnýta vinnuafl þess við framleiðslustörf í þágu þjóðfélagsins, og hins vegar að bæta hag atvinnurekenda, taka tillit til réttar fjármagnsins í atvinnurekstrinum með ríkisaðstoð um öflun hráefnis til vinnslunnar.

Ég minnist þess, þegar ég flutti frv. um ríkisrekstur togara til atvinnujöfnunar í fyrsta sinn, það var fyrir nokkrum árum, að fyndinn andstæðingur kallaði þetta hugmynd um flökkutogara. Það fannst mér vera ágætt nafn. En ég benti þá á, að slíkir flakkarar kæmu a.m.k. ekki betlandi um björg, heldur færandi hendi, berandi björg í bú þeirra, sem sætu annars auðum höndum og ættu þess ekki kost að vinna sér og sínum og þjóðfélaginu gagn. Þetta væru því þarfir og góðir flakkarar, sem menn ættu að taka vel á móti. Nú gera menn ekki heldur lengur að gamni sínu um ríkisrekna togara til atvinnujöfnunar. Það er orðin sannfæring fólksins víða um land, þar sem atvinnuleysið er árlegur óheillagestur, að honum verði ekki bægt frá dyrum með neinu öðru fremur en einmitt ríkisreknum togurum, sem leggi afla sinn á land ýmist á Austfjarða-, Vestfjarða- eða Norðurlandshöfnum o.s.frv., aðeins með tilliti til þess, hvar atvinnuþörfin sé mest og brýnust á hverjum tíma.

Þegar ég starfaði í atvinnumálanefnd ríkisins, kynntist ég þessu viðhorfi fólksins víða um land mjög vel, og það merkilega er, að fyrir þessu máli hefur engan áróður þurft að hafa í frammi. Það hefur mælt með sér sjálft. Hið vinnandi fólk hefur krafizt þess þráfaldlega, að þetta mál kæmi til framkvæmda. Nú fyrir nokkrum dögum gerði verkalýðsfélag Hólmavíkur t.d. svo hljóðandi samþykkt um atvinnuúrræði í því kauptúni og annars staðar, þar sem líkt stæði á:

„Almennur fundur í verkalýðsfélagi Hólmavíkur, haldinn 8. febrúar 1956, leyfir sér að skora á Alþingi og ríkisstj. að láta nú þegar koma til framkvæmda raunhæfar aðgerðir til jafnvægis i byggð landsins, t.d. með öflun hráefna til frystihúsa og annarra fiskiðjuvera, sem í ýmsum kauptúnum og kaupstöðum er varla hægt að starfrækja sökum hráefnaskorts. Í því sambandi vill fundurinn benda á frv. til laga nr. 136, flutt af Hannibal Valdimarssyni, Karli Guðjónssyni, Eiríki Þorsteinssyni og Gils Guðmundssyni, en frv. þetta virðist að verulegu leyti leysa þessi mikilsverðu mál, ef að lögum yrði.“

Þessi ályktun talar skýru máli, og það er óyggjandi staðreynd, að meðan ekki fæst fram rýmkun á landhelginni, verður ekki ráðin bót á atvinnuleysi kauptúnanna í Strandasýslu og við austanverðan Húnaflóa með öðru móti fremur en einmitt aðfluttu hráefni til vinnslu á þessum stöðum. Þess vegna krefjast menn þess, að þetta frv. verði samþykkt og látið koma til framkvæmda.

Alveg sama er að segja um Vestfirðina alla. Með aumingjaskapnum f landhelgismálunum er búið að lama alla vélbátaútgerð í þessum landshluta og svo að segja ganga af henni dauðri.

Þar er því ekki um neitt annað að ræða fyrst um sinn en aukna togaraútgerð, enda eru þar úti fyrir einhver allra beztu togaramið í heimi. Áframhaldandi aðgerðarleysi og sinnuleysi ríkisvaldsins leggur þennan landsfjórðung blátt áfram í auðn á nokkrum áratugum, ef ekkert verður að gert, og væntanlega er þó ekki ætlunin að bíða eftir því, að svo fari.

Nú skal ég taka það fram, til þess að þeir, sem aldrei mega heyra ríkisrekstur nefndan, þurfi ekki af þeim sökum að snúast gegn málinu, að mér er rekstrarformið sjálft algert aukaatriði. Verði einstaklingsrekstri eða félagsrekstri í einhverri mynd við komið til þess að leysa þetta vandamál jafnvel, þá er mér það vitanlega jafnkært. Afnám atvinnuleysisins er aðalatriðið og kjarni málsins. En sé fordómalaust litið á málið, þá er augljóst, að sá hreyfanleiki, sem nauðsynlegur er á atvinnutækjunum til þess að ná þessu marki, verður aðeins tryggður með ríkisreknum togurum, og þess vegna og vegna þess eins er lagt til, að rekstrarformið ríkisrekstur verði viðhaft í þessu tilfelli. Sú aðalmótbára, að með ríkisrekstri nokkurra togara taki ríkið á sig verulega fjárhagslega áhættu, er fyllilega svaraverð, því að það er auðvitað hverju orði sannara. En því er þó fyrst til að svara, að enginn þarf að gera því skóna, að atvinnuleysisvandamálið verði nokkurn tíma leyst án mikils tilkostnaðar af hendi hins opinbera. Í annan stað ber ríkið bæði verulegan tilkostnað og áhættu af einstaklingsútgerð togara, eins og nú standa sakir. Ríkið annaðist í upphafi togarakaupin, lagði sjálft fram fé eða útvegaði það, gekk í ábyrgðir vegna nýju togaranna, og eins og á hefur verið bent af öðrum, eru þeir skattar, sem á voru lagðir á síðasta ári til að létta halla af togaraútgerð, jafnt teknir af íbúum þeirra staða, sem eiga togara og hafa fengið af þeim atvinnubót, eins og af hinum, sem ekki hafa fengið neina slíka aðstoð. Hins vegar ræður ríkið engu um það, hvernig rekstri þessara togara er hagað né hvar þeir leggi afla sinn á land. Í þriðja lagi geta svo töp fimm ríkisrekinna togara aldrei orðið nema lítill brothluti þeirra upphæða, sem atvinnuleysið tortímir og glatar, eins og ég sýndi fram á í upphafi máls míns. Að síðustu er svo þess að gæta, að sá tilkostnaður, sem fram er lagður til þess að útrýma atvinnuleysi, skilar sér auðvitað að nokkru aftur, bæði í bættum efnahag einstaklinga, í bættri rekstrarafkomu margra þýðingarmikilla atvinnufyrirtækja og í aukningu framleiðslu og gjaldeyristekna þjóðarinnar allrar.

III. kafli frv. er um það, að ríkisstj. skuli heimilað að verja allt að 5 millj. kr. til hlutabréfakaupa í félögum, sem stofnuð kunni að verða með þátttöku tveggja eða fleiri sveitarfélaga í þeim tilgangi að reka togaraútgerð. Þarna er ætlunin að opna möguleika til samvinnu milli sveitarfélaga og ríkisins til þess að útrýma atvinnuleysi á ákveðnum stöðum. Þessi samvinna er þannig hugsuð í aðalatriðum, að stofna skuli hlutafélög um togaraútgerð. Síðan skal safna hlutafé í heimahéraði, og þegar tekizt hefur að safna hlutafé, sem nemur a.m.k. 10% af áætluðum stofnkostnaði útgerðarinnar, hefur einnig skapazt réttur til 10% hlutafjárframlags frá ríkinu. Sé þessi leið farin, skal ríkisstj. enn fremur vera heimilt að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs allt að 80% af stofnkostnaði slíkra útgerðarhlutafélaga. Samkv. frv. er þannig hægt að velja um leiðir eftir því, hvers menn óska um það, hvaða kafli frv. eigi að koma til framkvæmda.

Þá skal aðeins vikið að efni IV. kafla frv., sem er um stuðning ríkisins við bæjar- og sveitarfélög til ýmiss konar atvinnuframkvæmda. Þar er ríkisstj. heimilað að taka 50 millj. kr. lán, sem síðan verði endurlánað bæjar- og sveitarfélögum til atvinnuframkvæmda og framleiðsluaukningar. Þessu fé mega sveitarfélögin verja til byggingar eða endurbóta á hraðfrystihúsum, fiskimjölsverksmiðjum, lýsisvinnslustöðvum, þurrkhúsum og til annarra fiskvinnslustöðva. Einnig má verja þessu fé til að bæta aðstöðu við afgreiðslu fiskiskipa eða til þess með einhverjum hætti að auðvelda hagnýtingu sjávarafla. Hér er því um það að ræða að skapa aðstöðu til að notfæra togaraafla til atvinnubóta, og er það auðvitað geysiþýðingarmikið atriði í sambandi við öflun sjálfs skipastólsins.

Þetta er þá í stuttu máli aðalefni þess frumvarpsbálks, sem hér er til umræðu. Það getur engum dulizt, að þetta er einmitt hið mikla mál hinna dreifðu byggða. Ekkert annað mál liggur fyrir þessu þingi, sem fólkið á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum leggur t.d. meiri áherzlu á að fá samþykkt en einmitt þetta, nema þá vera skyldi tillögurnar um rýmkun friðunarsvæðanna.

Þá er þess og að geta, að þetta frv. er að verulegu leyti byggt á atvinnumálasamþykktum, sem gerðar voru einróma á seinasta Alþýðusambandsþingi, og er víst, að samþykkt þessa máls mundi af verkalýðsfélaganna hendi verða tekið með mikilli velþóknun. En á sama hátt verða alþýðufólki um allt land það mikil og sár vonbrigði, ef stórmál eins og þetta verður svæft eða drepið einnig á þessu þingi. Færi svo, mundi alþýðufólk þúsundum saman missa trúna á, að nokkur alvara sé í öllu skrafinu um jafnvægi í byggð landsins, og óefað mundi það herða á fólksflóttanum til Suðvesturlandsins. Þetta er veigamikill þáttur í því að skapa aukið jafnvægi í byggð landsins og ætti því auðvitað að samþykkjast af öllum þeim, sem taka sér það mjög í munn.

Nú kynni einhver að segja sem svo: Er nokkurt vit í því að vera að fjölga togurum, þegar hvert einasta skip þarf a.m.k. 6 þús. kr. styrk á dag? Við þessu er fyrst því að svara, að án togara getum við alls ekki verið, og í annan stað minnir þessi taprekstur togaranna, sem meira en hálf þjóðin lifir þó á, hvað sem hver segir, einungis á það, að aðstöðu þeirra verður að bæta. Þeir verða að eiga eigin hraðfrystihús, saltfiskverkunarstöðvar og herzlustöðvar, og þeir verða að fá útgerðarnauðsynjar sínar á réttu verði. Það er á þann hátt, sem leysa þarf vanda togaraútgerðarinnar, svo að ekki sé þúsundataprekstur á þeim á hverjum degi, og sleppa síðan öllum styrkjum til þeirra niður.

En höfum við þá ekki nógu marga togara fyrir? Er nokkur þörf á því að vera að fjölga þeim? Veit nokkur maður um, spyr ég, bæ eða byggðarlag, sem að skaðlausu fyrir atvinnulíf sitt gæti misst af togara og þeirri atvinnu, sem hann skapar í byggðarlaginu? Ég held, að enginn bendi á slíkan stað. En vantar þá nokkurs staðar togara? Jú, Vestfjarðasvæðið, sem bezt allra landshluta liggur við togaraútgerð, vantar a.m.k. þrjá togara, ef vel ætti að vera. Strandasvæðið og Húnaflóahafnir vantar togara. Sauðárkróki, Ólafsfirði og Húsavík er eitt skip alls ófullnægjandi. Mætti ekki minna vera en að hver þessara bæja styddist við útgerð eins togara. Neskaupstaður, sem er á stærð við hvern þessara bæja, hefur tvo togara auk mikils vélbátaflota og telur það vera sízt of mikið fyrir sig. Norðausturlandið vantar tilfinnanlega togara, og Austfjarðakauptúnin, sem nú hafa einn togara í samlögum, þyrftu nauðsynlega að fá 1–2 togara í viðbót. Þarna hefur strax verið bent á ákveðna staði, sem strax þyrftu að fá níu togara. Þá eru einir sex eftir til endurnýjunar og viðbótar annars staðar eftir 7 eða 8 ára hlé, síðan seinustu togararnir voru keyptir til landsins.

En eru þetta þá ekki draumórar einir, að hægt sé að verja 160 millj. kr. til kaupa á nýjum togurum og til atvinnubóta í landi? „Hvað er milljónin nú á dögum, góði minn,“ sagði fjármálamaðurinn í blaðaviðtali í vetur, og hvað eru þá 160 millj.? Það er um hálfs árs gjaldeyristekjur af Keflavíkurflugvelli, og til hvers skyldi þeim vera betur varið en einmitt í þessu skyni? Og þá er þess að gæta, að þetta framkvæmdaátak á að gerast á þremur árum. Það er því aðeins um 50–60 millj. að ræða á ári til þess að stíga þetta merkilega spor til atvinnujöfnunar í landinu og draga úr hinum óheillavænlegu þjóðflutningum til Suðvesturlandsins. Við höfum áður lyft miklu stærra taki og búum að því enn. Fyrir 10 árum voru keyptir 33 nýir togarar í einu og skömmu síðar bætt 10 togurum við. Það var stórátak, og þetta, sem hér er rætt um, er smámunir einir í samanburði við það.

Nei, nú duga engar úrtölur. Við megum ekki draga svo lengi að endurnýja togaraflotann, að það verði að gerast allt í einu eða á fáum árum. Hitt er miklu viturlegra, að gera sér ljóst, að við þurfum að eiga um 50 togara, getum ekki búizt við hærri meðalaldri en 25 árum, og verðum því að kaupa a.m.k. tvo togara á hverju ári aðeins til þess að halda í horfinu. Hér hefur því mikið verið vanrækt. Eiginlega skuldum við alla þessa 15 togara eðlilegu viðhaldi flotans á síðustu 7–8 árum. Stærra er nú þetta átak ekki, þegar alls er gætt. Jafnframt þessu kallar víða að stækkun hraðfrystihúsa, bygging annarra fiskvinnslustöðva, bætt afgreiðsluskilyrði og hafnaraðstaða í útgerðarbæjum og kauptúnum. Þetta á að gera, og þetta getum við gert. Þetta þurfum við líka að gera, því að okkur skortir tilfinnanlega erlendan gjaldeyri og notum illa vinnuafl þjóðarinnar. Þess vegna treystir Alþýðuflokkurinn því, að þetta frv. fái nú óskiptan stuðning allra þeirra þingflokka, sem þátt hafa tekið í flutningi málsins, og þar með ætti því að vera örugglega borgið.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt, og vil þar næst mæla með því, að frv., þegar umr. lýkur, verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.