15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (1977)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Af ræðu þeirri, sem Halldór Ásgrímsson flutti hér áðan, varð ekki vart við þá stefnubreytingu og þann aukna skilning á því, að vandamál efnahagslífsins verði ekki leyst í samstarfi við Sjálfstfl., sem framsóknarmenn reyna nú að telja almenningi trú um að hafi einkennt flokksþing þeirra og flokksþingssamþykktir. Fékk ég ekki betur séð en hann rembdist eins og rjúpa við staur við að lofsyngja skattheimtu núverandi ríkisstj. og þjóðnýtingu hennar á sönnuðu og ósönnuðu tapi fiskeinokunarhringa og aukningu milliliðagróða. Og ég gat ekki betur heyrt en Halldór Ásgrímsson væri stefnu og lausn ríkisstj. í efnahagsmálum algerlega sammála og teldi hana mjög farsæla í hvívetna, rétt eins og hann hefði ekki enn frétt þau tíðindi, að Framsfl. hefur nú samþykkt að rjúfa stjórnarsamvinnuna við Sjálfstfl. vegna þess, að sú holskefla hafi nú risið og muni ríða yfir efnahagskerfið og atvinnuvegina, er þeim mun um megn að standast, ef ekki sé nú þegar rofið það stjórnarsamstarf, sem þessa holskeflu hefur reist. Ef til vill stafar þetta af því, að Halldór Ásgrímsson hefur vegna langvarandi íhaldsþjónustu ekki enn þá áttað sig á nýju línunni, þeirri línu að látast vera á móti íhaldinu og því efnahagsöngþveiti, sem núverandi stjórnarstefna hefur á undanförnum árum skapað.

Það fer varla hjá því, að ýmsir hafi brosað að þeirri yfirlýsingu Sigurðar Bjarnasonar, að Sjálfstfl. mundi berjast fyrir því, að við ættum sjálfir og réðum þeim hólma, sem við búum á. Eftir hina endurteknu eiða Framsfl. um, að hér skuli aldrei vera her á friðartímum, og þessa yfirlýsingu Sigurðar Bjarnasonar bíða menn nú þess eins, að Sjálfstfl. leggi fram till. um brottför hersins, sem gangi feti lengra en till. Alþfl. og Framsfi. Færi einkar vel á því af vissum ástæðum, að Bjarni Benediktsson og Brynjólfur Bjarnason bæru fram á því þingl. sem enn situr, sameiginlega till. um tafarlausa uppsögn hernámssamningsins frá 1951. Væri það í fullu samræmi við það eðli Sjálfstfl., sem ótal dæmi sanna, að þegar þau mál, sem Sjálfstfl. hefur hvað mest barizt fyrir, eru orðin svo óvinsæl, að breytingar á þeim eru óumflýjanlegar, þá hafa sjálfstæðismenn hlaupið til og flutt tillögur gegn sínum fyrri baráttumálum og síðan reynt að eigna sér þá breytingu, sem almenningsálitið hefur knúið fram til úrbóta.

Frv. það, sem hér er til umr., um togarakaup til atvinnujöfnunar í landinu og til atvinnuaukningar, er hliðstætt fjölmörgum öðrum málum, sem við þm. Þjóðvfl. og aðrir þm. stjórnarandstöðunnar höfum flutt hér á Alþingi í því skyni að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og lífsbjargarmöguleika án erlendra fjárgjafa og hernáms. Þjóðkunnugt er það þó, að þannig er háttað pólitísku valdi þjóðarinnar, að öll slík mál, sem til umbóta og framfara horfa, eru svæfð f nefndum þingsins og fást ekki einu sinni rædd, hvað þá samþykkt. Allir hljóta að skilja, hve takmarkað hagnýtt gildi það hefur að flytja frumvörp og tillögur um margs konar nauðsynleg framfaramál, þegar það höfuðskilyrði er ekki fyrir hendi, sem nauðsynlegast er, pólitískt vald og meiri hl. á Alþingi til að forða slíkum frv. frá þeim örlögum að lenda í glatkistu íhaldsstjórnar. Það verður því ekki komizt hjá því, að íhaldsandstæðingar geri sér grein fyrir hinum innsta kjarna þessara mála, en hann er, hverjar líkur séu á því, að takast megi í náinni framtíð að mynda þann meiri hl. á Alþingi, sem líklegur sé til að samþykkja mál eins og kaup á nýjum framleiðslutækjum til atvinnuaukningar og atvinnujöfnunar í þjóðfélaginu, og önnur mál, sem lífsnauðsyn eru íslenzkri þjóð. Af þeim sökum mun ég á þeim mínútum, sem ég hef hér til umráða, leitast við að gera mér og öðrum grein fyrir þessu, af þeirri ástæðu, að ef vonleysi um að brjóta á bak aftur þau íhaldsöfl, sem hafa verið einráð að undanförnu, grípur almennt um sig, mun þess ekki langt að bíða, að menn gefist jafnvel upp við að flytja nytsamleg umbótafrv. til þess eins að lenda í glatkistu íhaldsaflanna.

Þess munu fá dæmi í íslenzkri stjórnmálasögu, að önnur eins andúðaralda hafi risið gegn ríkisstj. landsins og stefnu hennar á jafnskömmum tíma og átt hefur sér stað síðan Alþingi samþ. síðustu bjargráðatill. núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum, sem nú eru þjóðfrægar orðnar. Þess munu ekki heldur mörg dæmi, að meginþorri þjóðarinnar hafi í jafnskjótri svipan öðlazt jafnglöggan skilning á því og sannfæringu um það, að sú íhaldsstefna, sem öllu hefur ráðið um gerðir núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum, hlyti innan eins árs að valda algeru öngþveiti í efnahagskerfi okkar, ef ekki væri beitt öllum skynsamlegum ráðum til að hindra frekari gerðir núverandi stjórnarfl. í þeim efnum. Þetta er nú beinlínis játað af stjórnarfi. sjálfum, enda hafa engir fundið jafnvel, hve þung þessi andúðaralda er, eins og einmitt valdamenn stjórnarflokkanna. Er og ljóst af ýmsum viðbrögðum þeirra síðustu daga, að þeir hafa aldrei óttazt það jafnáþreifanlega, að nú loksins hafi þeir stigið stærra skref gegn heill og hagsmunum íslenzkrar þjóðar en almenningur léti bjóða sér. Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, hefur skýrt hér rækilega frá viðbrögðum Framsfl. í þeim efnum, og skal ég ekki endurtaka það.

Til viðbótar má nefna, að nokkrum dögum eftir að hinar nýju 250 millj. kr. skattaálögur höfðu verið samþ., skall slík mótmælaholskefla yfir forustumenn Sjálfstfl. frá fyrrv. kjósendum þess flokks, að sjálfstæðisforsprakkarnir settu sérstakan rannsóknarrétt til að reyna að bæla niður uppreisn í sjálfum innsta kjarna flokksins. Ljóst dæmi um, hvernig sú tilraun hefur gengið, er till., sem Ingólfur Jónsson viðskmrh. var látinn bera fram á ríkisstjórnarfundi nýlega. Er sú till. eitthvert furðulegasta plagg, sem sézt hefur, og hefur þó margt einkennilegt komið úr þeirri átt. Þar er játað, að hinar nýju 250 millj. kr. skattaálögur á almenning ásamt því feiknaálagi á allt vöruverð, sem milliliðirnir munu sópa til sín í skjóli þessara hækkana, muni valda gífurlega aukinni verðbólgu, eins og allir sjá og skilja. Þá er játað, að sú stefna sé rétt, sem við þjóðvarnarmenn höfum einir barizt fyrir að undanförnu, að draga úr verðbólgunni á kostnað gróðamanna, fiskeinokunarhringa og milliliða, en síðan lagt til, að verðbólguáhrifin, sem stafa af öllum þessum fjárfúlgum, verði stöðvuð með 33 millj. kr. niðurgreiðslum á vísitöluvörum. Auðvitað sjá allir, hve skynsamlegt er að halda því fram, að það sé unnt að taka fyrst nokkur hundruð milljónir í nýjum sköttum og milliliðaokri af almenningi, en bæta síðan allt þetta tjón með 33 millj. kr. greiðslum úr ríkissjóði, sem auk þess eru einnig teknar úr vasa almennings. Slíkar blekkingar lýsa svo furðulegu vanmati á dómgreind almennings, að þær sýna raunar ekkert nema fullkomin örþrifaráð flokks, sem veit, að þúsundir heiðarlegra og glöggskyggnra manna hafa nú þegar snúið við honum baki, manna, sem eru staðráðnir i að gera völd Sjálfstfl. og áhrif sem minnst í næstu kosningum.

Mér vitanlega hefur íslenzkur bóndi og fyrrv. kjósandi Sjálfstfl. lýst þessari bjargráðatill., sem kennd er við Ingólf Jónsson viðskmrh., betur og af gleggri skilningi en nokkur maður annar. Þegar þessi bóndi var spurður um það, hvaða álit hann hefði á þessari leið flokksins til að stöðva dýrtíðina, svaraði hann:

„Þetta minnir mig á gamla sögu af manni, sem fór í ferðalag, vel búinn með nesti og nýja skó. Þegar hann hafði gengið lengi, lengi, mætti hann svo horuðum og soltnum hundi, að hann hafði aldrei séð neitt þvílíkt áður, og þar sem maðurinn var brjóstgóður eins og hann Ingólfur minn frá Hellu, langaði hann auðvitað til að líkna eitthvað blessaðri skepnunni. En nú voru góð ráð dýr. Loks hugkvæmdist honum það snjallræði að skera skottið af hundinum og stinga því upp í hann til að stilla sárasta sultinn. Og,“ bætti bóndinn við, „ég get ekki að því gert, að þessi saga minnir mig á tillöguna hans Ingólfs míns frá Hellu um að stöðva dýrtíðina.“

Þessi íslenzki bóndi bar höfuðið hátt eins og maður, sem hefur unnið mikinn sigur. Hann hafði líka unnið þann mikla sigur að finna sjálfan sig, að greina óstuddur og af sjálfsdáðum kjarna sannleikans gegnum það blekkingamoldviðri, sem þyrlað hafði verið upp til að villa honum og öðrum sýn. Og það er fullkomin ástæða til að samfagna þessum íslenzka bónda og öllum þeim þúsundum af fyrrv. kjósendum Sjálfstfl., sem nú hafa fundið sjálfa sig, tætt sundur blekkingavefinn og áróðurslygarnar og ákveðið að vinna þjóð sinni aldrei það ógagn framar, að kjósa Sjálfstfl. Sama er að segja um marga kjósendur hinna gömlu flokkanna, eins og ég mun víkja að síðar. Ég játa það umbúðalaust, að það þarf meira en meðalþrek til að vinna slíkt afrek, eins og áróðri, fjármagni og valdi er nú beitt í íslenzku þjóðfélagi.

Því er ekki að leyna, að ýmsir mætir menn hafa verið uggandi um, að íslenzkri þjóð væri þetta þrek gefið. Liggja fyrst og fremst þau rök til þess, að áður en Þjóðvfl. var stofnaður, hafði myndazt algerlega dautt jafnvægi í íslenzkum stjórnmálum. Allir höfðu hinir fjórir gömlu stjórnmálaflokkar unnið sér til óhelgi í augum heiðarlegra manna. Allir höfðu þeir ánetjazt erlendu valdi og fjármagni og erlendri íhlutun um íslenzk málefni. Hinir þrír svonefndu vinstri flokkar höfðu allir unnið það hermdarverk að aðstoða flokk braskara og sérhagsmunamanna, Sjálfstfl., við að setja brennimark sitt á íslenzkt efnahagslíf og ráða mjög miklu um sjálfa tekjuskiptingu þjóðarinnar. Allir höfðu þessir gömlu flokkar tekið þátt í að sýkja efnahagslífið, hver á sinn hátt, með ráðstöfunum, sem leiddu til sívaxandi verðbólgu, eyðileggingar gjaldmiðilsins og sparnaðarvilja þjóðarinnar og höfðu í för með sér gengisfellingu á gengisfellingu ofan og stefndu og stefna enn að efnahagslegu hruni. Í hverjum kosningum af öðrum kusu einlægir vinstri sinnaðir kjósendur gömlu flokkana út frá því sjónarmiði einu, hvern þeir álitu minnst hættulegan tilveru og lífi þjóðarinnar hverju sinni. Á þessum árum voru úrslit kosninga kunn fyrir fram, því að allir vissu, að engar teljandi breytingar gátu af framangreindum sökum orðið á hlutföllum flokkanna.

Að því hlaut þó að reka, að íslenzk manndómslund gæti ekki unað þessu hlutskipti til frambúðar, heldur freistaði þess að rifa þjóðina úr þessu dauða jafnvægi og fylkja henni á ný í stjórnmálabaráttunni í samræmi við breytt viðhorf og þjóðfélagshætti. Sú mótsagnakennda staðreynd, að sjálfur aflgjafi lífrænnar stjórnmálabaráttu, hið lýðræðislega vinstri sinnaða fólk, var hneppt í þrældómsfjötra hægri aflanna í Framsfl. og Alþfl., en ofsatrúarmanna alþjóðakommúnismans í Sósfl., og neyddist jafnvel í stórum stíl til að kjósa flokk eins og Sjálfstfl., gat ekki endað nema á einn veg, með tilraun hinna sundruðu og sjálfum sér ósamkvæmu, en einlægu vinstri manna til að herða harðsótta, en sigurvissa baráttu gegn spilltum valdhöfum, peningavaldi og atvinnuofsóknum og þeim eyðileggingaröflum, sem rækilega höfðu búið um sig í valdastöðum þjóðfélagsins. Sú staðreynd, að það voru samtök manna, sem stofnuðu Þjóðvfl., sem hófu þessa tilraun, er í sjálfu sér ekki söguleg. En hitt er sögulegt, að aldrei hafa jafnvanbúin samtök unnið jafnmikinn sigur á jafnskömmum tíma í íslenzkri stjórnmálasögu, og sýndi það bezt, hver nauðsyn var að fylkja til samstilltrar baráttu þeim mikla hluta þjóðarinnar, sem enn er laus við drottinhollustu við erlenda valdhafa og reiðubúinn til að berjast heiðarlega og fórna kröftum sínum á altari framtíðárinnar án þess að hugsa eingöngu um eigin stundarhagsmuni.

Þessi barátta Þjóðvfl. hefur framar öllum vonum leitt til mjög skjótra og gleðilegra stórtíðinda í íslenzkum stjórnmálum. Öllum, sem nokkuð fylgjast með stjórnmálaþróuninni, er ljóst, hve hröðum skrefum ótti allra gömlu flokkanna um að missa þau völd og áhrif, sem þeir höfðu geipilegast misnotað, hefur vaxið vegna þessarar nýsköpunar á flokkakerfinu. En það er nú, eins og öllum er kunnugt, þegar að riðlast af þessum sökum.

Auk þess, sem þegar er sagt um Sjálfstfl., er rétt að minnast þeirra gleðilegu tíðinda, sem nú eru þjóðkunn orðin, að hægri klíkan, sem nú er einráð í Alþfl. og hvert mannsbarn sá og viðurkenndi að hafði enga von um að fá nokkurn mann kosinn á þing í næstu kosningum, hafði fyrir nokkru boðið Framsfl. upp á kosningabandalag og allsherjaratkvæðabrask við sig. Hægri armur Framsfl. hefur á nýloknu flokksþingi samþ. fyrir sitt leyti að bjóða hækjuliði Alþfl. kosningabandalag við sig og viðskipti um frambjóðendur og atkvæði. Þannig hafa hægri armarnir í báðum þessum flokkum boðið hvorir öðrum að búðarborði sínu í næstu kosningum, og þó að svo einkennilega standi á, að hvorugu tilboðinu hafi enn verið tekið, verða þó allir einlægir vinstri menn að gæta þess, að þessir aðilar sameinist um annað hvort eða bæði tilboðin eða þá þriðju leiðina, að sameinast í einum flokki, sem væri að ýmsu leyti einna geðfelldust og með mun minna verzlunarbragði en Hræðslubandalagið. Sú leið væri og í fyllra samræmi við það skemmtilega nafn, sem Eysteinn Jónsson hefur valið Hræðslubandalaginu, en hann hefur, eins og kunnugt er, gefið því nafnið „þriðja aflið“, þó að flestum finnist nú aflleysið öllu raunsærri nafngift.

Einlægir vinstri menn fagna því, ef hægri öflum Framsfl. og Alþfl. tekst nú sú fyrirætlun að sameinast í næstu kosningum, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að það sýnir betur en nokkuð annað, að sú þróun, sem hófst með stofnun Þjóðvfl., að fylkja öllum þeim þúsundum vinstri manna í landinu, sem eiga algera skoðanalega samleið, í samstæða heild og losa þá úr viðjum gömlu flokkanna, er nú komin lengra áleiðis en hinir bjartsýnustu menn þorðu að gera sér von um. Hve ljóst það er, að það er óttinn einn, sem knýr nú hin sjálfum sér sundurþykku hægri öfl þessara flokka til sameiningar, má bezt sjá af því, að stjórnmálaályktun framsóknarþingsins hefst á háðsglósum og beinum árásum á hina svokölluðu nýsköpunarstjórn, sem Alþfl. var þó áhrifamikill aðili að, en um þá stjórn er þetta sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýsköpun í raforkumálum og stóriðnaði sat á hakanum svo og kaup á stórvirkum jarðræktarvélum, og varð ekkert af 1200 millj. kr. gjaldeyrissjóði afgangs til þeirra hluta. Landbúnaðurinn var olnbogabarn þeirrar ríkisstjórnar. og félagssamtök bænda voru lögð í einelti.“

Því munu fáir trúa, að það séu einmitt þessi afrek Alþfl. í nýsköpunarstjórninni, sem gera kosningabandalag við hann nú jafngirnilegt í augum Framsfl. og raun ber vitni. Hitt er staðreynd, að það er sameiginlegur ótti þessara afla, sem knýr þau nú til að gera fleira en gott þykir, óttinn við að geta ekki lengur notað sundrungu vinstra sinnaðs fólks til að efla hægri menn þessara flokka til valda og áhrifa, enda er þetta kosningabandalag m. a. undirbúið með því að reka mann eins og Alfreð Gíslason lækni úr Alþfl. og bola einum af elztu merkisberum vinstri manna í Framsfl., Vigfúsi Guðmundssyni, úr miðstjórn flokksins eftir 20 ára setu og starf þar.

En þó að hin uppmálaða eymd hægri aflanna sé augljós hverjum hugsandi manni, mega þær þúsundir vinstri manna, sem brjóta nú af sér hlekki gömlu flokkanna, hvorki láta nauman tíma til kosningaundirbúnings né fyrri sundrungu verða til þess að stíga nú að vanhugsuðu ráði skref, sem torvelduðu þann mikla kosningasigur, sem þeim er nú búinn, eða gerðu hann minni en efni standa til. Öll tilfinningasemi í þeim efnum verður að víkja fyrir kaldri rökhyggju, og frómar óskir mega ekki blinda menn, svo að þeir sjái ekki þau víti hinnar löngu harmsögu íslenzkrar stjórnmálabaráttu, sem eru lýsandi á veginum, þeim til viðvörunar. Þessir menn verða að minnast þeirrar einföldu og augljósu staðreyndar, að það var hinn nýi möguleiki, sem myndaðist við stofnun Þjóðvfl., sem nú hefur lyft íslenzkum stjórnmálum úr því dauða jafnvægi, sem skapazt hafði milli allra gömlu flokkanna. Allir þeir, sem nú hafa séð gegnum svikavef hermangs, þjónustulipurðar við erlenda valdamenn, taumlausra möguleika milliliða til auðsöfnunar og þeirrar öfgafullu skattheimtu, sem notuð hefur verið til að borga eftirlitslaust sannað og ósannað tap einstakra atvinnurekenda og jafnvel framleiðslutæki einstaklinga, verða að minnast þess augljósa sannleika, að það er fyrst og fremst hinn mikli hljómgrunnur, sem till. okkar þjóðvarnarmanna um lausn vandamálanna hafa fengið hjá almenningi, og upplýsingar, sem þjóðvarnarmenn einir gátu gefið um starfsemi fiskeinokunarhringa og hermangara og milliliða, sem neyða nú m. a. Framsfl. til að játa hermdarverk sín og afglöp og knýja hann enn einu sinni til að rjúfa samstarfið við Sjálfstfl. og endurtaka gamla eiða um breytta stefnu í utanríkis- og innanríkismálum. Þess vegna verða allir þeir, sem heils hugar vilja taka þátt í því sögulega hlutverki að knýja fram gerbreytta stjórnarstefnu, að átta sig á þeim augljósu sannindum, að ef takast á að fá Framsfl. til að standa í verki við eitthvað af þeim loforðum, sem hann hampar nú framan í kjósendur, þá getur það ekki gerzt með öðru móti en því, að þeir, sem nú hafa losað sig úr viðjum gömlu flokkanna, skipi sér við hlið þjóðvarnarmanna í næstu kosningum og tryggi því nýja afli íslenzkra stjórnmála úrslitaáhrif á myndun vinstri stjórnar að kosningum loknum og tækifæri til að nota ótta Hræðslubandalagsins við áframhaldandi hrun til að knýja það til annarra vinnubragða en því eru nú hugstæðust. — Góða nótt.