13.03.1956
Neðri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (2012)

182. mál, listamannalaun

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Við flm. frv. erum áreiðanlega sammála um það, sem má segja að sé meginatriði þessa máls, að koma fastari skipun en verið hefur á veitingu listamannalaunanna. Það er auðvitað kjarni málsins. Það er kjarni frv., og það er kjarni frumvarpanna, sem ég hef áður flutt um þetta efni, og fleiri till. hafa verið uppi um þetta, sem ganga í sömu átt. Það, sem okkur ber á milli, má eiginlega segja, að séu aukaatriði málsins, séu formsatriði fyrst og fremst. En það, sem var höfuðorsök til gagnrýni minnar, höfuðorsökin til þess tóns, sem hann taldi vera í mínum orðum um þetta mál, er það, að ég tel ekki alveg réttilega að flutningi þessa máls búið, ekki eins skynsamlega að honum farið og ég hefði óskað málsins sjálfs og málstaðarins vegna, og ég skal aðeins í örfáum setningum endurtaka, hvað ég tel að hefði getað farið betur úr hendi.

Það, sem hér gerist, er það, að formaður annars af tveim rithöfundafélögum hefur forgöngu um það, að málið sé flutt rétt fyrir aðalfund í sínu félagi. Ég skal ekki draga það í efa, sem hv. þm. segir, að fyrrverandi stjórn í félaginu hafi staðið einróma að baki þessu máli. En nú hefur það gerzt, tveim dögum eftir að frv. kemur fram, að komin er ný stjórn í þessu sama félagi, og formaður þeirrar stjórnar hefur tjáð mér, að hann sé algerlega andvígur einu mjög stóru atriði í þessu frv., valskyldu menntmrh. um tillögur menntamálaráðs og heimspekideildar háskólans.

Hitt tel ég líka vera mistök við undirbúning málsins, fyrst á annað borð er farið eftir tillögum annars rithöfundafélagsins, að ekki skuli einnig hafa verið haft samráð við hitt félagið, sem er jafnstórt félag, ef ekki aðeins stærra, þó að það sé að vísu yngra. Eins og ég sagði áðan, hef ég rætt við forgöngumenn í því félagi og þeir tjáð mér, að ekkert samráð hafi verið við það félag haft um flutning málsins. Jafnframt sögðu þeir menn úr því félagi, sem ég talaði við og spurði sérstaklega um afstöðu þeirra til þessa nýmælis frv., afskipta stjórnmálamannsins í menntamálaráðherrasæti af málinu, að þeir teldu það ákvæði vera óheppilegt, og sögðu raunar, að þeir hefðu aldrei heyrt annan mann mæla með þeirri skipan en höfund þessa frv., fyrrverandi formann í Rithöfundafélagi Íslands.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi leggja áherzlu á í gagnrýnisátt, en ekki það, sem er kjarni málsins og við hv. flm. erum algerlega sammála um, þá brýnu nauðsyn að koma fastari skipun á þessi mál.

Varðandi það, sem hv. þm. sagði um afskipti ráðherra af málinu, er það rétt, að ef báðir aðilarnir verða sammála, — hvor um sig á að tilnefna tvo menn um hvern lausan styrk, — þá er auðvitað ráðherrann bundinn. En það má gera ráð fyrir því, að þessir aðilar verði ekki sammála, og þá er boðið upp á deilu, sem stjórnmálamaður á að skera úr, og ég held, að það þurfi ekki að hafa mikla þekkingu á því, sem gerzt hefur varðandi veitingu listamannalauna undanfarin ár, til þess að sjá, að þetta er óheppileg lausn og mikill bjarnargreiði við þann ráðherra, sem hverju sinni situr í menntamálaráðherrasæti, og ekki til góðs fyrir listamennina að bjóða þannig heim tortryggni um úrskurð hans, þar sem sá, sem óánægður er, mundi alltaf geta vitnað til, að þetta gerði hann af stjórnmálaástæðum, og hinum, sem fengi styrkinn eða launin samkv. ákvörðun ráðherra, mundi verða núið því um nasir, að hann hefði fengið hann vegna ákvörðunar stjórnmálamanns. Það tel ég ekki heppilegt.