22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

189. mál, hundahald

Pétur Ottesen:

Á dagskrá hér í dag eru fjögur mál, sem hafa það innihald, að þar er verið að létta af sýslumönnum eða lögreglustjórum innheimtu á nokkrum gjöldum, sem þeir hafa haft innheimtu á nú um langt skeið, og færa þessa innheimtu aftur yfir á hreppstjóra og oddvita í sveitum landsins.

Þetta frv., sem nú er til umr., um hundaskatt er eitt í þessum flokki. Hin frv. eru um fasteignaskatt, um kirkjugarða og um sýsluvegasjóði.

Menn minnast þess, að á síðasta þingi var einnig farið á fjörurnar um að létta innheimtu af sýslumönnum og færa yfir á hreppstjóra og oddvita í sambandi við frv., sem þá lá fyrir um fasteignaskatt, en með því frv. var sveitarfélögunum lagður til fasteignaskatturinn, sem áður hafði verið innheimtur til þarfa ríkissjóðs. Í Ed. var samþ. að hafa þann hátt á um innheimtuna, sem hér er nú lagt til í frv. um fasteignaskatt, að hreppstjórar skyldu taka þessa innheimtu að sér, en í Nd. var þetta fellt og gömlu ákvæðin látin gilda um það, eins og þau nú gera. Nú er ekki einasta lagt til að breyta þessu aftur, heldur hefur nú verið hnýtt aftan í þetta þrem öðrum frv., þar sem á nú að fullkomna þetta verk. Og mér skilst af þeim grg., sem fylgja þessum málum, að höfð sé sem ástæða, sem að sjálfsögðu er þó ekkert nema yfirskotsástæða, að við það nýja bókhald, sem nú er verið að taka upp í sambandi við innheimtu sýslumanna og lögreglustjóra, rúmist ekki þessi innheimta, það séu ekki til í þessum nýju bókhaldstækjum nógu margir dálkar, þannig að það sé hægt að bæta þessu við. Þetta er ákaflega einkennileg skýring, og a. m. k. allur þorri manna stendur undrandi yfir því, að menn skuli með þessum hætti þurfa að flýja undan tækninni, eins og hér er gert með þessu. Hvernig hefði nú farið t. d. að taka, ef fasteignaskatturinn, sem nú rúmast ekki inni í því nýja bókhaldi, hefði haldið áfram að renna til ríkissjóðs? Hvernig hefði verið farið þá að? Hefði hann verið felldur niður af þessum ástæðum, að innheimtumenn ríkissjóðs hefðu ekki getað fundið rúm á sínum pappírum fyrir hann með hinni nýju tilhögun, sem hér er verið að taka upp og sjálfsagt er að gera, ef það léttir störfin og gerir þau ódýrari.

Ég vil vekja athygli á þessu hér. Held ég, að sé óhætt að segja, að nú í seinni tíð sé þannig búið að sýslumönnum og lögreglustjórum í þessu landi og þeim létt svo störfin, að það sé sízt ástæða til, eftir slíkar aðgerðir sem gerðar hafa verið í þeim efnum, að vera nú að taka þessi störf af þeim og færa þau yfir í hendur oddvita og hreppstjóra. Það er nú svo háttað um oddvitastarfið yfirleitt, að þetta eru að mestu leyti störf, sem menn leggja á sig fyrir sáralitla borgun. Það verða alltaf að vera til einhverjir menn í hverju sveitarfélagi, sem taka þessi störf að sér, en sú greiðsla, sem þeir fá fyrir störfin, er ekki nema örlítill hluti af því, sem þeim bæri fyrir sín störf, ef þeir ættu að bera úr býtum eins og aðrir, sem vinna í þjónustu þess opinbera.

Mér finnst það þess vegna koma hálfeinkennilega fyrir, á sama tíma sem verið er að létta undir með sýslumönnum og öðrum og gera þessi störf greiðari hjá þeim á ýmsan hátt, að þá skuli gripið til þess að létta af þeim þessari sjálfsögðu þjónustu, sem þeir láta þarna í té gagnvart sveitarfélögum landsins, því þó að þessi gjöld renni ekki beint inn í ríkissjóðinn, þá er þarna um þjónustu að ræða, sem sjálfsagt er að ríkið láti af mörkum til fyrirgreiðslu við þessa aðila.

Ég vildi þess vegna biðja þá nefnd, sem er nú sennilega fjhn., sem fær þessi mál til meðferðar, að athuga þessa hlið málsins, sem ég hef nú vakið hér athygli á.