17.12.1955
Sameinað þing: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2137)

124. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera því andvígur, að fylgt sé fyrri reglum um að veita nokkurt frí um jólin, og get því fallizt á þá till., sem hér liggur fyrir. En ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. ríkisstj., sem hefur skýrt Alþ. frá því, að nú vinni tvær nefndir að rannsókn á hag sjávarútvegsins og hverjar leiðir séu líklegastar til þess að koma útgerðinni af stað upp úr áramótunum. að ég vildi í fyrsta lagi mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hefði til ákveðnar till. í málinu, þegar þing kemur saman hinn 5. janúar, ekki síðar, noti jólafríið til þessa. Í öðru lagi vil ég segja, að mér fyndist það tilhlýðilegt, að hæstv. ríkisstj. léti stjórnarandstöðunni í té niðurstöðurnar af þeim rannsóknum, sem nú fara fram og væntanlega liggja fyrir, áður en þing kemur saman, þannig að einnig menn úr stjórnarandstöðunni geti kynnt sér þær yfirlitsskýrslur um ástandið og kannske þær ábendingar. sem þar eru fram bornar. Í þriðja lagi vildi ég svo taka undir þau ummæli hv. 2. þm. Reykv., að ég teldi mjög miður fara á því, ef ríkisstj. gripi til þess ráðs að gefa út brbl. á þessu tímabili. Ég skal að vísu játa, að hugsanlegt er, að slíkt ástand geti skapazt, að ástæða þætti til þess, en ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. noti þá heldur þá heimild, sem hún hefur til að kalla þingið saman, en að leysa málið með brbl.

Þetta þótti mér rétt að benda hæstv. forsrh. á, um leið og ég skýrði frá afstöðu minni til till., sem liggur hér fyrir.