25.01.1956
Sameinað þing: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2196)

106. mál, símakerfi Ísafjarðar

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur verið gert mikið átak í símamálum okkar Íslendinga. Mest kveður þó að þessu í sveitum landsins. Þar verður það svo æ víðar, með hverju árinu sem líður, að sími er á hverjum bæ, enda er það mikið nauðsynjamál. Að símanum eru þar stórkostleg þægindi og hagræði, sem kemur sér mjög vel í fámenninu, sem víða er nú í sveitum. Þá er öryggið, sem símasambandið veitir, ef veikindi, slys eða önnur óhöpp ber að höndum, einnig mjög mikilsvert.

Þessi mikla og kostnaðarsama aukning símans í sveitunum hefur valdið því, að erfiðara hefur verið að sinna samtímis þeirri aukningu og þeim endurbótum, sem nauðsynlegar eru á langlínum og í sumum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Eins og fram kemur í grg. fyrir þessari till., eru ýmsir annmarkar á símasambandi milli Ísafjarðar og nágrannanna í Hnífsdal, Bolungavík og Súðavík. Eins er sambandið við aðra landshluta farið að verða of hlaðið. Þarna býr nær helmingur þess fólks, sem ekki hefur látið hrekjast af Vestfjörðum, þótt á móti blési á undanförnum árum. Þetta fólk á við svipaða aðstöðu að búa og fólkið í sveitunum að mörgu leyti, og það á svipaða sanngirniskröfu á því, að það sé litið á nauðsyn þess til úrbóta í símamálunum. Samgöngur eru að vísu á landi á milli þessara byggða, en miklum örðugleikum bundnar að vetrinum. Við aðra landshluta og við aðalakvegakerfi landsins er enn ekkert samband. Á sjó eru samgöngur við þennan hluta Vestfjarða, a. m. k. fyrir farþega, verri en þær voru fyrir stríð. Flugsamgöngur eru nær daglega að sumrinu, þegar gefur, en að vetrinum gefur stundum ekki vikum saman. Miklir örðugleikar eru á flugsamgöngunum vegna þess, að enn vantar landflugvöll á Ísafirði.

Á meðan vélbátaútvegurinn var þarna aðalatvinnuvegurinn og undirstaða allrar annarrar atvinnu, voru þarna margar smáar vinnustöðvar, sem unnu úr afla bátanna. Þegar vélbátaútgerðin brást gersamlega, var þó ekki gefizt upp, heldur þokuðu þeir, sem áttu þessar stöðvar, sér saman, svo að hægt væri að notfæra sér afla togara. Þetta varð til þess, að nú má heita, að þetta svæði, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungavík og Súðavík, sé ein atvinnuheild. Við þessa byltingu í atvinnumálunum hefur þörfin á betra símasambandi milli þessara staða aukizt stórlega. Togararnir geta þurft að leita lands hvenær sem er á sólarhringnum, en til þessa hefur enginn einn aðili á neinum þessara staða verið einfær um að taka á móti heilum togarafarmi. Er því auðskilin hin mikla nauðsyn, sem er á greiðara og betra símasambandi á milli þessara staða. Hér er bent á þá leið, sem í fljótu bragði virðist líklegust til, að öruggt símasamband geti verið á milli þeirra allan sólarhringinn með viðráðanlegum kostnaði.

Á Ísafirði eru innanbæjarlínurnar þegar komnar í jarðstrengi, svo að línurnar eru þar tilbúnar, þegar horfið verður að því ráði að setja þar sjálfvirka stöð. Ef horfið yrði að því ráði, þegar sjálfvirk stöð kemur á Ísafirði, að hafa nágrannana með í því fyrirtæki, þá væri hugsanlegt núna að byrja á því að leggja nauðsynlega jarðstrengi á milli þessara staða og innanbæjar þar, og mætti þá til bráðabirgða notast við þau auknu sambönd, sem þessir jarðstrengir gæfu, til þess að bæta sambandið utan venjulegs símatíma, þannig að samband væri opið milli nokkurra númera á þessum stöðum og Ísafjarðar. En til frambúðar fæst náttúrlega ekki á þessu fullnægjandi lausn, fyrr en sjálfvirka stöðin kemur, og með því móti, að hún verði þá höfð svo stór, að hún nægi öllum þessum stöðum.

Um langlínusambandið er það að segja, að það var orðið afleitt fyrir nokkrum árum, eins og getið er um í grg„ en þá úr því bætt með auknum fjölsímum. Nú er það enn að verða of hlaðið, og eftir því sem ég hygg, þá verður erfitt að bæta úr því í svipinn með því að auka fjölsímana nokkuð að mun. Að vísu hafa verið bætt nokkuð afgreiðsluskilyrðin á Ísafirði, þannig að þessi sambönd, sem til eru, notast betur, en það er þó sýnilegt, að það verður ekki nema aðeins í bráð. Það er bót í máli fyrir framtíðina, að þær tilraunir, sem landssíminn hefur gert um nýjungar á sviði þráðlausrar símtækni, hafa gefizt mun betur en menn gátu búizt við af þeim fregnum, sem af þeim höfðu farið annars staðar, og miklu betur en ætlað var í upphafi. Lítur út fyrir, að komast megi af með mun færri sendi- og magnarastöðvar, ef nýjustu tækni er þar beitt, og verður að þessu mikill sparnaður, þegar farið verður að beita þessu meira hér á landi. Það er nauðsynlegt, að sá sparnaður verði notaður til þess að hraða sem mest aðkallandi framkvæmdum í símamálum okkar, og þessi till. er flutt til þess að minna á nauðsyn okkar Vestfirðinga í því efni.

Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.