07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2211)

142. mál, varnargarður í Vestmannaeyjum

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Í þáltill. þessari á þskj. 292, sem hv. þm. Vestm. (JJós) hefur flutt, er þess farið á leit, að fram fari verkfræðileg athugun á því, hvernig megi koma við traustum vörnum á Eiðinu í Vestmannaeyjum og tryggja þannig gegn tjóni af völdum hafróts.

Eiðið er, sem kunnugt er, eins konar útvirki hafnarinnar í Vestmannaeyjum. Það hefur verið vörn hennar við útsynningshafróti, en nú er talið, að Eiðið sé að eyðast, það sé að síga í sæ, og það komi því þráfaldlega fyrir, að brimið skelli inn yfir Eiðið og spilli á þann veg höfninni innan fyrir. Augljóst er, að ef ekki er hægt að koma hér við einhverjum aðgerðum, geti það haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir höfnina.

Fjvn. hefur fallizt á þessa till. og leggur einróma til, að hún verði samþykkt með lítils háttar breytingu, að tillgr. verði orðuð eins og hermir á þskj. 442.