09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (2522)

38. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Við þm. Þjóðvfl. flytjum nú í þriðja sinn till. til þál. um uppsögn herstöðvasamningsins við Bandaríki Norður-Ameríku. Jafnframt felst í till. okkar nú eins og áður ákvæði um það, með hverjum hætti hægt yrði að gera dvöl Bandaríkjahers, meðan hann hverfur ekki algerlega úr landi, sem skaðminnsta fyrir þjóðina. En þrátt fyrir þau ákvæði leggjum við að sjálfsögðu megináherzlu á það, að slíkar ráðstafanir verða ævinlega ófullkomnar, ekkert gagnar til hlítar annað en uppsögn samningsins og brottför hersins.

Við þjóðvarnarmenn höfum alloft á undanförnum þingum haft tækifæri til að bera fram þau almennu rök, sem til þess liggja, að við teljum hersetu framandi þjóðar í landi okkar ekki aðeins varhugaverða, heldur stórhættulega. Við höfum rækilega á það bent, að eftir tilkomu hinna ægilegu atómvopna sé það ekkert annað en fjarstæða að tala um, að nokkur þúsund manna setulið hér sé íslenzku þjóðinni til verndar, ef til stórveldastyrjaldar kynni að draga. Með óhrekjanlegum rökum hefur þrásinnis verið sýnt fram á það, að eins og nú er orðið háttað hernaðaraðstöðu og hertækni, sé herstöð hér á landi a. m. k. gagnslaus og mjög varhugaverð á friðartímum, en stórhættuleg á tímum ófriðar.

Ég ætla ekki að þessu sinni að endurtaka öll þau rök, sem flutt hafa verið fram þessari skoðun til stuðnings. Hins vegar vil ég fara fáeinum orðum um ástandið í alþjóðamálum, eins og það blasir við nú í dag.

Ég fæ ekki betur séð en jafnvel þeir menn, sem töldu herstöðvasamninginn frá 1951 illa nauðsyn vegna yfirvofandi styrjaldarhættu, hljóti nú að taka afstöðu sína í þessu máli til alvarlegrar endurskoðunar, þar sem aðstæður eru óneitanlega breyttar á ýmsa lund frá því, sem var fyrir 4–5 árum. Breytingar þessar hafa orðið smám saman og þó einkum með tvennum hætti: Annars vegar gerbreytt hernaðartækni, eins og ég nefndi áðan, hernaðartækni, sem veldur því, að allar eldri kenningar um möguleika til að verja einstök lönd og landshluta í styrjöld eru gersamlega úreltar. Hins vegar er sú staðreynd, að á síðustu missirum hefur óneitanlega dregið til muna úr viðsjám milli austurs og vesturs, auk þess sem málamiðlunar- og hlutleysisstefnunni hefur vaxið mjög fiskur um hrygg. Eru þess mörg dæmi, að ábyrgir valdamenn stórveldanna, jafnvel hinir æðstu forustumenn þeirra, telja tímabil kalda stríðsins svokallaða nú á enda og hafa þrásinnis lýst því yfir, að fram undan sé tímabil friðsamlegs samstarfs í alþjóðamálum og friðsamlegrar samkeppni á atvinnusviði, þar sem þjóðir, er búa við ólíkt þjóðskipulag og hagkerfi, ættu að geta þrifizt án þess að grípa til örþrifaráða hernaðarins, sem æ fleiri gera sér nú ljóst að hljóti að leiða ólýsanlegt böl yfir allt mannkyn.

Þessi þróun heimsmálanna í friðsamlegri átt kom glögglega fram á fundi æðstu manna fjórveldanna í Genf á s. l. sumri. Kjarnorkuráðstefna sú, sem haldin var í sömu borg nokkrum vikum síðar, markaði þó ef til vill enn þá merkari tímamót og er að margra dómi merkasti heimsviðburður síðustu ára, sá viðburður, sem gefur hvað mestar vonir um, að takast megi að leysa alþjóðavandamál með friðsamlegum hætti. Á ráðstefnu þessari kepptust stórveldin um að gefa upplýsingar um kjarnorkumál, upplýsingar, sem allt fram að þeim tíma höfðu verið taldar hin mikilvægustu hernaðarleyndarmál. Og sérfræðingar stórveldanna allra lögðu á það megináherzlu, að ný heimsstyrjöld mundi aðeins hafa í för með sér geigvænlega tortímingu, þar sem enginn gæti í rauninni vænzt sigurs, en hæglega mætti svo fara, að gervallt mannkyn færist í þeim ragnarökum. Hins vegar mætti auðveldlega, ef þjóðir heims hefðu vit á að velja hinn betri kostinn, hagnýta þau öfl, sem leyst hafa verið úr læðingi með kjarnorkunni, til blessunar fyrir allar þjóðir.

Síðan hafa ýmsir merkir atburðir gerzt í anda þess friðarvilja, sem ríkti á Genfarráðstefnunni. Sovétríkin tilkynntu fyrir nokkrum vikum, að þau hefðu ákveðið að minnka fastaher sinn um 640 þús. manns, og síðan hafa fleiri Austur-Evrópuþjóðir fetað í fótspor þeirra og ákveðið að draga úr herstyrk sínum. Vestan hins svonefnda járntjalds hefur brezka heimsveldið riðið á vaðið og tilkynnt, að fækkað verði í brezka hernum um 200 þús. manns á nálægum tíma. Allar líkur benda til þess, að fleiri þjóðir Vestur-Evrópu muni fara að dæmi Breta og minnka heri sína, enda stynja þær margar undir drápsklyfjum hernaðarútgjalda, sem eru að sliga efnahagslíf þeirra.

Þá vil ég aðeins á það minnast, sem alkunnugt er, að nú í haust tókust um það samningar milli Rússa og Finna, að Rússar hyrfu algerlega úr herstöð þeirri á Porkalaskaga, sem þeir knúðu Finna til að leigja sér til 50 ára við lok síðustu heimsstyrjaldar. Þarna höfðu Rússar þó komið sér upp mjög öflugri herstöð, kostað til þess stórfé og áttu eftir nær 40 ár af samningstímanum. Tóku þeir þegar að flytja lið sitt á brott þaðan, eftir að samningurinn var gerður, og hafa samið um að afhenda Finnum Porkalaskagann algerlega um næstu áramót.

Menn kunna nú að segja, að þó að þessir atburðir allir og ýmsir fleiri hafi vakið sterkar vonir um bætta sambúð og dregið úr viðsjám í alþjóðamálum, séu enn óleyst mörg deilumál, svo sem ljóst sé m. a. af fjórveldafundinum nýja, sem nú stendur yfir í Genf. Fréttir þaðan bera það með sér, að erfiðlega gangi að ná samkomulagi um sameiningu alls Þýzkalands. Enn er raunar of snemmt að fullyrða nokkuð um árangur eða árangursleysi Genfarfundarins, þar eð fundinum er ekki lokið, en hitt ætti ekki að þurfa að koma neinum á óvart, sem fylgzt hafa með samningatilraunum um djúptæk deilumál stórvelda, bæði fyrr og síðar, þótt ekki falli allt í ljúfa löð þegar í stað, aðilar reyni af fremsta megni að treysta pólitíska aðstöðu sína og ekki reynist á svipstundu kleift að eyða þeirri tortryggni, sem lengi hefur búið um sig, og ýmis öfl hafa blásið að þeim kolum. En aðalatriðið er það, að ekki verður annað séð en nýr tónn einkenni nú allar samningaviðræður og sá vilji ráðamanna stórveldanna sé auðsærri nú en áður, að deilumálin verði að leysast við samningaborð með friðsamlegum hætti. Þau öfl eru tvímælalaust styrkari nú en nokkru sinni síðan kalda stríðið hófst, sem vinna að því að bera klæði á vopnin, hreinsa andrúmsloftið í alþjóðamálum og efla friðsamleg samskipti allra þjóða.

Ég hygg því, að naumast verði um það deilt, að ástandið í heimsmálum hefur breytzt verulega til batnaðar síðan flutningsmenn þessarar till. fluttu hana hér á síðasta Alþingi. Við töldum að vísu mjög sterk rök hníga að því þá, að herstöðvasamningnum við Bandaríkin yrði sagt upp, en hið breytta ástand hefur án efa sannfært enn fleiri Íslendinga um það nú en þá voru samherjar okkar, hversu fjarstætt það er orðið að hafa hér her í landi og halda áfram hervirkjagerð af fullu kappi með þeim afleiðingum, að efnahagslíf þjóðarinnar og atvinnuvegir bíða við það geigvænlegt afhroð.

Allir þeir Íslendingar, og ég treysti því, að það sé mikill meiri hluti þjóðarinnar, sem ekki telja koma til mála að treysta á hervirkjagerð sem atvinnuveg Íslendinga um langa framtíð, hljóta að sjá, að því lengur sem stefnir svo sem nú horfir, því geigvænlegri verða afleiðingarnar og því erfiðara að snúa við og byggja upp heilbrigt atvinnulíf í landinu að nýju.

Það hefur komið fram með ýmsum hætti, að sú skoðun nýtur æ meira fylgis, að ekki sé seinna vænna að brjóta í blað og taka upp nýja og heillavænlegri stefnu í utanríkismálum. Margir þeir, sem árið 1951 létu sveigjast til fylgis við herstöðvar á þeirri forsendu, að heimsstyrjöld væri ef til vill yfirvofandi, telja nú, að breyttar aðstæður geri uppsögn herstöðvasamningsins óhjákvæmilega og sjálfsagða ráðstöfun. Alþfl., sem var einn þeirra þriggja flokka, er stóðu að herstöðvasamningnum árið 1951, hefur nú á þessu þingi svo og á þinginu í fyrra borið fram till. til þál. um endurskoðun herstöðvasamningsins, að því viðbættu, að fáist ekki fram verulegar breytingar á samningnum, breytingar, sem þeir Alþýðuflokksmenn telja sig geta sætt sig við, þá verði honum sagt upp. Þessi till. er öllu ákveðnari að orðalagi nú en hún var í fyrra, auk þess sem flm. voru þá aðeins nokkrir af þm. flokksins, en nú standa allir Alþýðuflokksþingmenn að tillögu, sem gengur, eins og ég sagði, lengra en hin fyrri.

Þetta sýnir glögglega, hvert straumurinn liggur og að menn hrífast með, jafnvel sumir þeir, sem maður bjóst við fyrir svo sem einu til tveimur árum að yrðu heldur með seinni skipunum. Og enda þótt hv. Alþýðuflokksmenn hafi ekki enn þá stigið skrefið til fulls, svo sem við þjóðvarnarmenn leggjum til að gert verði með því að segja herstöðvasamningnum upp skilyrðislaust, þá fagna ég því af fullri einlægni, að þeir þokast þó skref fyrir skref í áttina. Annað spánnýtt dæmi þess, hvernig almenningur í landinu hugsar nú um þessi mál, er ályktun stjórnmálasamtaka, sem héldu þing sitt í þessum mánuði. Ungir sjálfstæðismenn gerðu þar samþykkt um utanríkis- og herstöðvamál. Er þar svo að orði komizt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ungir sjálfstæðismenn álíta, að segja beri upp landvarnarsamningnum við Bandaríkjamenn strax og fært þykir.“

Að vísu er þarna hafður fyrirvari, sem dregur mjög afl úr þessari ályktun. „Strax og fært þykir“ er að sjálfsögðu heldur teygjanlegt orðalag og auðvelt fyrir einn og annan að segja hvenær sem er, að enn þyki ekki fært að stíga þetta skref. En allt um það er þessi ályktun dæmi þess, að ungir sjálfstæðismenn hafa orðið þess áþreifanlega varir, hvert almenningsálitið er nú í landinu, og því hafa forustumenn þeirra talið henta, að gerð yrði sú loðna samþykkt, sem ég vék hér að, ef hún mætti verða til þess að friða einhverja, sem óánægðir eru með hernámsstefnuna og afleiðingar hennar fyrir íslenzkt atvinnulíf og þjóðlífið í heild.

En þrátt fyrir allar þær breytingar, sem orðið hafa, bæði á alþjóðavettvangi og viðhorfi manna hér innanlands til herstöðvamálsins, verður þess ekki vart, að hæstv. núverandi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hér á Alþingi ætli að hreyfa hönd eða fót til að losa þjóðina við hersetuna. Í þeim herbúðum er ekki einu sinni á því brytt af ráðamönnum, að ástæða sé til endurskoðunar og breytinga á herstöðvasamningnum, en nú er sannarlega tími til kominn að krefja hv. stjórnarflokka um skýr svör við því, hvort þeir hafi ekki myndað sér skoðun um það, hve lengi Bandaríkjaher eigi að dveljast hér á landi og hve lengi eigi að leyfa honum að halda áfram stórvirkri hervirkjagerð í landinu með þeim afleiðingum, sem það hefur í för með sér.

Háttvirt Alþingi Íslendinga getur ekki lengur skotið sér undan því að endurskoða afstöðu sína til herstöðvasamningsins frá 1951 með fullu tilliti til þeirrar dýrkeyptu reynslu, sem síðan hefur fengizt af samningnum, og þeirra atburða, sem gerzt hafa á alþjóðavettvangi.

Við þjóðvarnarmenn erum eindregið þeirrar skoðunar og höfum fulla ástæðu til að ætla, að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé á sama máli, að það sé skylda Alþingis við Íslendinga sjálfa, skylda Alþingis við baráttu alls mannkyns fyrir friði og öryggi, að segja herstöðvasamningnum frá 1951 upp, svo sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu.

Þetta mál er svo þrautrætt orðið, að ég sé ekki brýna ástæðu til að fresta um það umræðu; ég tel, að allir hv. alþingismenn geti tekið afstöðu til þess hvenær sem er, og geri því ekki tillögu um nefndarskipun.