02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

200. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. sá ástæðu til að draga störf togaranefndarinnar, sem starfaði hér í fyrra, inn í þessar umr. og mínar tillögur eða tillöguleysi í þeirri nefnd. Hæstv. ráðherra sagði eitthvað á þá leið, að frá mér hefði engin till. komið um þetta efni. En hæstv. ráðh. man kannske ekki eftir því, að þegar þessi nefnd var komin að því að ljúka störfum, var spurzt fyrir hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún óskaði eftir tillögum um málið, en ríkisstj. óskaði ekki eftir tillögum. Ríkisstj. óskaði fyrst og fremst eftir því, að samin yrði grg. um hag og rekstur togaraútgerðarinnar, og svo var drepið á nokkur atriði, sem n. gerði þrátt fyrir allt, sem mættu verða til þess að draga úr þeim hallarekstri, sem á togurunum bersýnilega var. Ég er ekki að krefjast þess sérstaklega, að ég eigi eða hafi átt mikinn hlut þar að máli, en ég tel mig þó hafa starfað í n. eins og hver annar nefndarmaður, og þær ábendingar, sem frá n. komu, voru vissulega frá mér og Alþfl. ekki síður en öðrum.

Hæstv. ráðh. taldi rétt að lýsa hér yfir því, að frá okkar flokki, hv. 1. landsk. og mín, hefðu aldrei komið neinar till. til þess að bæta hag togaraútgerðarinnar. Ég vil þó benda honum á, að í þessu nál. togaranefndarinnar var bent á ekki færri en níu eða tíu atriði, sem gætu orðið til þess að draga úr hallarekstri útgerðarinnar, án þess að hæstv. ríkisstj. hafi farið inn á að beita þeim eða notfæra sér þessar ábendingar, a. m. k. sumar, að neinu leyti. Mér finnst fara illa á því hjá hæstv. ráðherra að segja, að ekki hafi verið á neitt bent, en vita þó, að ábendingar í ekki færri en tíu liðum, um tíu mismunandi atriði, komu bæði frá mér og nefndinni, án þess að hann hafi fundið ástæðu til þess a. m. k. að beita sér fyrir því, að þessar till, yrðu gerðar að veruleika.

Það er ekki langur tími hér til umræðu, en það væri freistandi að ræða nokkuð meira, úr því að mér var gefið hér tilefni til þess að segja nokkur orð, um tap og rekstur togaraútgerðarinnar í dag. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan verðið á þeim fiski, sem togararnir nú yfirleitt eru að fiska, lækkaði um 15–16%. Og ég tel mig vita, að það sé ekki nema dagaspursmál um það, hvenær togararnir margir verða að hætta veiðum vegna þess, að þeir geta ekki haldið áfram með því tapi, sem þeir nú hafa.

Það var hér látið liggja að því áðan, að það þyrfti kannske ekki að hafa áhyggjur fram til 1. maí n. k., því að þessi sjóður, sem myndazt hefur fyrir innflutning á bílum, mundi nægja til þess að styrkja togarana þangað til, — en vel að merkja, sagði hæstv. forsrh., hann mundi því aðeins nægja, að greiðslan yrði sú sama og verið hefði að undanförnu. En togaraeigendur hafa þráfaldlega haldið fram að undanförnu, að sá styrkur, sem þeir hafa fengið til síns rekstrar að undanförnu, hafi ekki nægt, og hann hafi langt frá því nægt, þannig að útgerðin er rekin með halla og það geysilegum halla eins og stendur, án þess að fyrir endann á þeim halla sé séð á neinn hátt né heldur að þær till. eða ábendingar hafi verið teknar til greina, — ég sný að því aftur, — sem togaranefndin flutti á sínum tíma. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þær voru ekki í tillöguformi, en það var einfaldlega vegna þess, að ríkisstj. óskaði ekki eftir tillögum.