09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (2725)

80. mál, Marshallsamningurinn

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég held, að ég verði að upplýsa hæstv. viðskmrh. um það, að lög, sem eru samþykkt á Bandaríkjaþingi, gilda ekki á Íslandi. Þau lög, sem gilda á Íslandi, eru lög, sem Alþingi Íslendinga samþykkir. Þau lög, sem eru samþykkt á þingi Bandaríkjanna, gilda enn sem komið er ekki á Íslandi, jafnvel þó að íslenzk ríkisstjórn segi, að hún fyrir sitt leyti sé þeim samþykk. Ég las upp hér lög frá Alþingi Íslendinga, og í 3. gr. þeirra stendur um þessi 5%, sem talað er um. Þeim lögum hefur ekki verið breytt. Og það er í hæsta máta undarlegt framferði af ríkisstjórn nú 1955 að koma fram og segja: 1952 voru samþykkt lög á Bandaríkjaþingi um, að það ætti að breyta 5% í 10%. — Því kom viðkomandi ríkisstjórn ekki fram hér á Íslandi — hún hafði vafalaust meiri hluta til þess hér — og lét breyta þeim íslenzku lögum, sem mæltu fyrir um þessi 5%?

Við erum hér ekkert að ræða um afstöðu til Marshallaðstoðarinnar almennt, afskipta Bandaríkjaþings og Bandaríkjastjórnar af fjármálum Íslendinga á undanförnum sjö árum, og við skulum ekkert vera að fara út í það. Það er ég reiðubúinn til að ræða við hæstv. viðskmrh. hvenær sem er, og mín afstaða í því er alveg skýr. Ég er ekki að kvarta yfir, hvort það séu 5%, 10% eða 100%, sem Bandaríkin fá af þessu, en það er aðeins hitt, sem er spursmálið, hvað eru lög. Það er sem sé hvað eftir annað, sem það gerist nú hér, að það er gengið fram hjá Alþingi Íslendinga með, hvað eigi að vera lög í landinu. Einhverjir embættismenn úti í bæ ákveða, hvaða skatta skuli leggja á þjóðina, þvert ofan í stjórnarskrána. Og hæstv. ráðh. kemur svo hér fram og segir: Bandaríkjaþing hefur breytt lögum, og íslenzka ríkisstjórnin samþykkti að ganga að þessu.

Hæstv. ráðh. segir, að þetta hafi verið ákveðið og við þáðum þetta, sem og sjálfsagt var. Spurningin er ekki um það, hvort mönnum finnst þetta kannske sjálfsagt eða ekki. Spurningin er um, hvort það sé löglegt eða ekki. Við getum deilt endalaust um ýmsa hluti, hvort þeir séu réttir eða rangir í þjóðfélaginu. En það, sem við verðum að halda okkur við, ef við ætlum að standa á einhverjum grundvelli, við a. m. k., sem sitjum í þessari stofnun, er, hvort þeir eru löglegir. Ég fæ ekki séð, að þessi ráðstöfun sé lögleg. Ég er ekkert að ræða um, hvort það sé sanngjarnt. Alveg með sama rétti getur hæstv. ráðherra sagt, ef Bandaríkin gefa Íslandi 100 millj. dollara, að það sé sanngjarnt, að þau fái aftur 50 millj. dollara af því, ef menn hafa yfirleitt þann hátt, þegar þeir gefa gjafir, að áskilja sér, að það sé gefið svo og svo mikið til baka. Það er ekki það, sem við erum að ræða um. Það er bara, hvort hér sé löglega að farið. Ég verð að segja, að ég kann ákaflega illa við það sem alþingismaður að fá að finna það af tilviljun í riti hér á Íslandi, þremur árum eftir að ákveðinn hlutur hefur gerzt, að Bandaríkjaþing hefur breytt ákveðnum lögum, og íslenzk ríkisstj. álítur, af því að Bandaríkjastjórn hafi sett ný lög, að þá sé það þar með gildandi á Íslandi og það þurfi ekki að sækja það undir Alþingi Íslendinga. Þetta kann ég ekki við.

Hitt er svo allt annað, hvers konar skoðun við höfum á Marshallaðstoð eða öllu mögulegu í sambandi við það. Það kemur ekki þessu máli við.

Það, sem ég spurði hér um í fyrra, var allt annað en þetta. Ég var að spyrja, hvaða upphæð það væri, sem Bandaríkin alls hefðu fengið í það, sem Framkvæmdabankinn kallar sinn mótvirðissjóð, hvað það væri mikið, sem sendiráð Bandaríkjanna alls þannig hefði fengið til ráðstöfunar. Mér skilst, að með þessari breytingu hljóti það að fara upp í einar 30 millj. kr. eða jafnvel þar yfir, sem þeir hafa fengið allan tímann. Hæstv. ráðh. hafði ekki fyrir að svara þeirri fsp. í fyrra, af því að honum fannst það ekki rétt orðað hjá mér. Hins vegar er orðalagið, sem ég notaði á fsp. þá, nákvæmlega það sama og Framkvæmdabankinn notar núna á sinni skýrslu, svo að það hefði vel verið hægt með fullri kurteisi í fyrra að svara því, hvað mikil upphæðin var. En ef til vill hefur ríkisstj. þótt betra að skjóta sér undan því að svara því, vegna þess að það hefði alveg eins komið í ljós, ef hún hefði svarað í fyrra, að það var meira en 5%, og þá hefði komið í ljós, að þarna var um 10% að ræða af allmiklum hluta af þessu. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir, að hann hefur gefið þessar upplýsingar, og ég vil um leið upplýsa hann um, að lög Bandaríkjaþings gilda enn sem komið er ekki á Íslandi, jafnvel þó að íslenzk ríkisstjórn sé samþykk því, sem Bandaríkjastjórn eða Bandaríkjaþing kunni að gera.

Um upplýsingarnar viðvíkjandi Marshallaðstoðinni hef ég grein Þórhalls, og það eru margar góðar upplýsingar í henni, en það eru ekki þessar upplýsingar, sem þarna vantaði.