30.11.1955
Sameinað þing: 18. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (2754)

101. mál, endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af fsp. á þskj. 118 frá hv. 8. þm. Reykv. vil ég leyfa mér að taka þetta fram:

Það er í fyrsta lagi spurt um, hve margar nefndir hafi verið skipaðar af opinberri hálfu til þess að undirbúa nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Svarið er: Hinn 22. maí 1942 gerði sameinað Alþingi svofellda ályktun:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna milliþinganefnd til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, og skili nefndin áliti nógu snemma til þess, að málið geti fengið afgreiðslu á næsta Alþingi. Nefndin kýs sér sjálf formann. Nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Í nefndina voru kjörnir Jónas Jónsson, Gísli Sveinsson, Hermann Jónasson, Bjarni Benediktsson og Stefán Jóh. Stefánsson.

Hinn 8. sept. 1942 var gerð svo hljóðandi ályktun á Alþingi:

„Alþingi ályktar, að milliþn. sú, sem kosin var samkv. þál. 22. maí 1942 til þess að gera till. um breyt. á stjórnskipunarlögum ríkisins, skuli halda áfram störfum til undirbúnings málum þeim, sem unnt er að lögfesta með þeim hætti, er segir í stjórnskipunarlagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi, svo og undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu, er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt. Fjölga skal nefndarmönnum, svo að í nefndinni eigi sæti tveir fulltrúar frá hverjum þeirra flokka, sem Alþ. skipa nú, enda verði viðbótarfulltrúarnir tilnefndir þegar í stað af viðkomandi þingflokkum, er ekki eiga þar þegar tvo fulltrúa.“

Samkvæmt þessari þingsályktun voru kjörnir í nefndina til viðbótar Einar Olgeirsson, Áki Jakobsson og Haraldur Guðmundsson.

Hinn 3. marz 1945 var samþykkt þál. um framkvæmd á gagngerðri endurskoðun á stjórnskipunarlögunum, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa tólf manna nefnd, þrjá eftir tilnefningu hvers þingflokks, er verði milliþn. í stjórnarskrármálinu til ráðgjafar og aðstoðar. Jafnframt er stjórnarskrárnefnd heimilað með samþykki ríkisstjórnarinnar að ráða sérfróðan mann til öflunar gagna og undirbúnings málsins. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Í þessa nefnd völdust frú Auður Auðuns, Sigurður Eggerz, Jóhann G. Möller, frú Elísabet Eiríksdóttir, Stefán Ögmundsson, Sigurður Thorlacius, frú Guðrún Björnsdóttir, Halldór Kristjánsson, Hjálmar Vilhjálmsson, frú Svava Jónsdóttir, dr. Þórður Eyjólfsson og Jónas Guðmundsson. Síðar urðu nokkrar breytingar á skipun nefndarinnar.

Hinn 24. maí 1947 gerði Alþingi svofellda ályktun um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa sjö manna nefnd til þess að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingflokkarnir fjórir tilnefni sinn mann hver, en ríkisstjórnin skipi þrjá án tilnefningar, og skal einn úr þeirra hópi skipaður formaður nefndarinnar. Þegar nefnd þessi hefur verið skipuð, falla niður umboð nefnda þeirra, er áður hafa starfað að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Allur kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Í þessa nefnd voru skipaðir hinn 14. nóv. 1947 Bjarni Benediktsson ráðherra, formaður, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, Ólafur Jóhannesson prófessor, skipaðir af ríkisstjórninni án tilnefningar, Gylfi Þ. Gíslason prófessor, tilnefndur af Alþýðuflokknum, Halldór Kristjánsson tilnefndur af Framsóknarflokknum, Einar Olgeirsson tilnefndur af Sameiningarflokki alþýðu, sósíalistaflokknum, og Jóhann Hafstein tilnefndur af Sjálfstæðisflokknum. Haraldur Guðmundsson forstjóri var skipaður varamaður Gylfa Þ. Gíslasonar og ætlazt til að honum gæfist kostur á að fylgjast með störfum nefndarinnar. Síðar kom Karl Kristjánsson alþm. í nefndina í stað Halldórs Kristjánssonar. Ólafur Jóhannesson prófessor sagði af sér störfum í nefndinni 2. jan. 1953, og hefur enginn verið skipaður í hans stað. Samtímis þessari nefndarskipan féllu niður umboð nefnda þeirra, er áður höfðu starfað að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Þá er spurt í öðru lagi: Hver hefur kostnaður orðið við störf þessara nefnda hverrar um sig?

Svarið er: Kostnaður við störf þessara nefnda hverrar um sig hefur orðið sem hér segir :

a) Milliþn. samkv. þáltill. frá 22. maí og 8. sept. 1942 115 þús. kr. rúmar.

b) Ráðgjafarnefnd samkv. þáltill. frá 3. marz 1945 rúmar 20 þús.

c) Stjórnarskrárnefndin samkv. þáltill. frá 24. maí 1947 rúmar 7 þús.

Alls hefur kostnaður þess vegna orðið rúmar 142 þús. kr.

Þá er spurt: Hafa nefndirnar lokið störfum og skilað áliti?

Svarið er: Milliþn. samkv. þáltill. 22. maí og 8. sept. 1942 skilaði áliti, dags. 7. apríl 1943, og frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er lagt var fyrir Alþingi 1944, 63. löggjafarþing.

Ráðgjafarnefndin samkv. þáltill. frá 3. marz 1945 hafði ekki skilað áliti, er hún og nefndin samkv. þáltill. 22. maí 1942 voru lagðar niður 14. nóv. 1947.

Um störf stjórnarskrárnefndarinnar, er skipuð var 14. nóv. 1947 samkv. þáltill. frá 24. maí 1947, er það að segja, að í henni var lengi leitað samkomulags um málið. Hinn 18. nóv. 1952 var svo enn haldinn fundur í þessari stjórnarskrárnefnd. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, afhenti þá nm. þar ákveðnar tillögur um efni nýrrar stjórnarskrár frá þeim Bjarna Benediktssyni, Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein. Skýrði Bjarni Benediktsson síðan opinberlega frá þessum tillögum, og er sú frásögn birt í Morgunblaðinu 22.–24. jan. 1953. Tillögurnar voru nokkuð ræddar á nefndum fundi, 18. nóv., og lýkur fundargerðinni þannig:

„Að lokum var ákveðið, að nefndarmenn létu formann vita, þegar þeir væru búnir að kynna sér tillögur þremenninganna og taka afstöðu til þeirra, og skyldi þá kallaður saman fundur að nýju.“

Hinn 30. jan. 1953 var haldinn fundur í stjórnarskrárnefndinni. Skýrði formaður þá frá því, að prófessor Ólafur Jóhannesson hefði sagt sig úr nefndinni frá áramótum. Þá skýrði Karl Kristjánsson alþm. frá því, að hann hefði gert tillögur í stjórnarskrármálinu, og afhenti hann nefndarmönnum till. þessar vélritaðar ásamt greinargerð. Samkv. till. skyldi sérstakt stjórnlagaþing kosið til að fjalla um stjórnarskrármálið árið 1956, og skyldi stjórnmálaflokkum óheimilt að hafa afskipti af framboðum til þingsins. Tillaga þessi var nokkuð rædd, en virtist fá þungar undirtektir. Formaður n., Bjarni Benediktsson, spurði, hvort nm. hefðu athugað till. þeirra þremenninganna, og taldi æskilegt, að hægt væri að fá botn í málið, áður en þing væri rofið, og beindi því til nm. að koma með ákveðnar brtt., ef þeir gætu ekki fallizt á tillögurnar óbreyttar svo að þannig yrði ef til vill fundinn samkomulagsgrundvöllur allra. Á þessum fundi og síðar hefur reynzt ógerlegt að finna slíkan grundvöll, og hafa aðrir nm. ekki borið fram neinar ákveðnar efnistillögur. Hefur, meðan svo er, verið talið þýðingarlaust að halda áfram fundum í nefndinni, enda engin ósk komið fram um að kveðja hana til fundar.

Í fjórða lagi er svo loks spurt: Hefur ríkisstj. í hyggju að vinna að setningu nýrrar stjórnarskrár?

Ég tel mig hafa svarað efnislega þeirri spurningu með því, sem skýrt er frá með svarinu við 3. tölul. í sjálfri fyrirspurninni. Hef ég svo ekki frekar um það mál að segja.