22.02.1956
Sameinað þing: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (2820)

208. mál, verðtrygging sparifjár

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. fyrirspyrjandi er ekki ánægður með það, sem hefur verið gert af hálfu ríkisstj. til þess að tryggja verðgildi sparifjárins. Það er ef til vill leiðinlegt, að hann hefur ætlazt til meiri aðgerða en orðið hafa. Ég býst við því, að hann hafi gert sér grein fyrir því, þessi hv. þm., að það er hægara um þetta að ræða en gera raunhæfar aðgerðir. Við getum verið sammála um, að það sé þörf á því að auka trú almennings á sparifé, auka sparifjársöfnunina og tryggja spariféð, þannig að sparifjáreigandinn verði ekki illa úti. En getum við ekki líka verið sammála um, að þetta er ekki svo auðvelt mál?

Hv. þm. talar um, að langur tími hafi liðið og ekkert hafi gerzt, hér hafi verið samþ. þáltill. og ríkisstjórninni falið að gera eitthvað í þessu máli.

Það, sem ríkisstj. gerði, strax eftir að þál. var samþykkt, var að skrifa bankamálanefndinni. Bankamálanefndin á m. a. að endurskoða bankalöggjöfina. Hún á að gera till. um það, hvernig bankastarfsemin í landinu verði bezt rekin og hvernig bankarnir í landinu geti orðið sterkar stofnanir, sem fullnægja sínu verki. Það geta bankarnir því aðeins, að þeir hafi sparifé, fái fjármagn til ávöxtunar og umráða, og því meira munu bankarnir fá sem almenningur er fúsari til að leggja spariféð inn. Þess vegna er það hlutverk bankamálanefndarinnar fyrst og fremst að tryggja það, að bankarnir, sem hún á um leið að semja löggjöf um, fái sparifé. Annars höfum við ekkert við banka að gera. Það var þess vegna grannt hugsað hjá hv. fyrirspyrjanda hér áðan, þegar hann talaði um, að það væri ekki verkefni bankamálanefndarinnar að gera till. um þetta. Vissulega var það, og bankamálanefndin hefur viðurkennt það tvívegis með því að skrifa ríkisstjórninni, að hún vildi vinna að þessu, hefði ekki haft enn nægilegan tíma til þess, en mundi gera það fljótlega. Það hefur dregizt úr hömlu, að hún skilaði áliti, ekki af viljaleysi, ekki af hæfileikaleysi þeirra manna, sem í n. eru, heldur vegna þess, að það er ekki svo auðvelt að benda á þau ráð og úrræði, sem koma fyllilega að gagni. Og það væri sannarlega þess vert fyrir hv. fyrirspyrjanda, ef hann geymir inni einhver sérstök ráð, sem mættu tryggja spariféð, að láta það koma í dagsins ljós. Það er honum áreiðanlega frjálst eins og hverjum öðrum þingmanni.

Ég minnti hér áðan á álit og tillögur sparifjárnefndar, sem ég skipaði. Þessar till. eru allýtarlegar og ýmsar góðar ábendingar í þessum till., sem nú eru ársgamlar. Ég benti á, að eitt af því, sem þessi nefnd hafi til meðferðar og benti á, væri komið í framkvæmd, það væri sala vísitölutryggðra verðbréfa. Það er stórt spor í þá átt að tryggja sparifé landsmanna, einmitt þetta atriði eitt út af fyrir sig, þótt það sé ekki fullnægjandi. Þessi n. var sett að tilstuðlan ríkisstj., og það álit, sem fyrir liggur frá henni, að tilstuðlan hennar. Það er þess vegna ekki hægt að segja, að ríkisstj. hafi ekkert gert í þessu efni, þótt segja megi um leið, að það sé kannske ekki fullnægjandi og það sé ekki enn búið að gera það, sem ætlazt er til, og það, sem við teljum að eigi að gera. Það er í athugun hjá samvinnunefnd bankanna. Enginn skyldi efa, að bankarnir og þeir, sem þeim stjórna, hafi ekki áhuga á því að gera ráðstafanir til þess að auka trú almennings á sparifjáreign.

Ég geri ráð fyrir því, að samvinnunefndin komi áður en langt líður með tillögur í þessu efni. Hún er að vinna að því og fleiri aðilar. Eins og ég sagði hér áðan, er ástæðulaust annað en að ætla, að svör komi við þessu, áður en langt líður, því að að þessu er unnið, en vegna þess að þetta er erfitt mál, hefur þetta dregizt og er ekki komið lengra áleiðis.

Ég hygg, að ef menn líta á þessi mál með raunhæfum skilningi, þá séu menn sammála um, að það þurfi ýmislegt að gera í þessu efni, það sé nauðsynlegt í sambandi við okkar efnahagsmál að auka trú almennings á sparifé, að stöðva verðbólguna, sem við höfum verið að glíma við undanfarið, og gera þær ráðstafanir, sem hugsanlegar eru til þess, segja: Hingað og ekki lengra með dýrtíðina. Við höfum orðið að horfa á það síðustu mánuðina, að dýrtíðin hefur hækkað nokkuð, og eru það afleiðingar af öðru, sem á undan var komið. En ef menn væru nú samtaka um að stöðva dýrtíðina, þá gæti tiltrú almennings á peningunum farið aftur vaxandi og sparifé í bönkunum aukizt að nýju og skapazt sterkari grundvöllur undir þær framkvæmdir, sem unnið er að og þurfa að koma fljótt.