19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

5. mál, selja Laugarnes í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það koma alltaf fyrir mann í lífinu þau atvik, að maður getur varla orða bundizt, stundum fyrir ánægju og stundum fyrir sorg, og hér er það gleði, sem gerir að verkum, að ég stend upp. Ég hef áður staðið í stríði oft á fundum og í blöðum við þá hv. menn, sem nú standa að þessu frv., og deilt við þá um það, hvort allar jarðeignir og lóðir ættu að vera eign þess opinbera — ríkis eða bæja — eða ekki, en ekki um að tala, þær áttu ekki að vera eign hins opinbera. Bærinn bjó til lóðir með uppfyllingu hér á hafnarbakkanum, og bærinn seldi þær til einstaklinga. Það opinbera vildi og mátti ekki eiga þær að dómi hv. sjálfstæðismanna. Þess vegna var fylgt þeirri grundvallarreglu í Reykjavik að selja og selja. — Þegar ég svo allt í einu sé sömu mennina hafa vitkazt það að hafa horfið af blessuðu barnasjónarmiðinu og eru farnir að sjá sjónarmið heildarinnar, þá gleðst ég, og ég get ekki annað en látið þá gleði mína koma fram í þingtíðindunum, því að mér hefur alltaf verið sama, hvort lóðirnar væru eign bæjar eða ríkis, og treysti því, að þó að bærinn eignist þær, verði þær ekki seldar til einstaklinga.