07.12.1955
Sameinað þing: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál, ég heiti því. Mér þótti vænt um að sjá, að það er þó a.m.k. einn hæstv. ráðh. hér á landinu enn þá, og það væri a.m.k. von til þess, að koma mætti skilaboðum til eins ráðherra eða svo, ef þingmenn hefðu eitthvað við þá að tala. En ég veit ekki, hvenær það væri, sem þingmenn þyrftu að ræða lítils háttar við hæstv. ráðherra, ef það væri ekki þegar þannig stendur á, að erlend blöð eru að skýra frá því hvað eftir annað, að verið sé að semja um það mál, sem einna mikilvægast er allra mála fyrir okkur Íslendinga, semja um sjálfa landhelgina. Ég verð að taka mjög eindregið undir það með hv. 2. þm. Reykv., að það er ekki aðeins óviðfelldið, heldur hygg ég, að það sé nálega einsdæmi í veröldinni, ef það er rétt, sem nú virðist uppvíst, að hæstv. forsrh. hafi farið utan til viðræðna um slíkt mál sem þetta, án þess að nokkurs staðar sé frá því skýrt opinberlega, að hann hafi farið úr landi. Sé hæstv. forsrh. aðeins í einkaerindum, þá er að sjálfsögðu ekkert við slíku að segja, en ef hann er í erindagerðum hæstv. ríkisstj., þá finnst mér það satt að segja furðulegt, ef hann ferðast sem hver annar laumufarþegi.

Þegar ég heyrði fyrst, að Fishing News og önnur brezk blöð væru að impra á því, að nú væri verið að semja um löndunarbannið annars vegar og fiskveiðilandhelgi Íslands hins vegar, þá hélt ég, að þetta væri eins og hvert annað fleipur, sem stundum hefur getið að lesa í brezkum blöðum, og gat satt að segja ekki trúað því, að um neina slíka samninga væri að ræða. Ég hélt, að það væri almenn skoðun Íslendinga og einnig hæstv. ríkisstj., að friðunarmál okkar Íslendinga væru ekki samningsatriði við Breta, og ég trúi því ekki fyrr en ég má til, að menn hafi aðra skoðun á þeim efnum.

Eins og ég áðan sagði, ætla ég ekki að fjölyrða um málið, þar sem þessar umræður fara fram utan dagskrár. Væntanlega verður tækifæri til þess að ræða það á formlegan hátt, áður en langt um líður. En ég vil endurtaka það, að mér virðist það furðuleg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj., ef hæstv. forsrh. er nú erlendis, svo að segja á laun, án þess að þjóðin hafi hugmynd um, til þess að gera samninga við Breta um landhelgismálið.