30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

146. mál, framleiðslusjóður

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 313 er að nokkru leyti gerð grein fyrir afstöðu minni til þessa stóra máls, sem hér liggur fyrir. En mér þykir þó ástæða til að segja til viðbótar nokkur orð um skoðun mína á því.

Mér og öðrum var það vissulega ljóst fyrir löngu, að það yrði ekki hjá því komizt að gera stórfelldar ráðstafanir til bjargar útgerðinni og landbúnaðinum, eins og sökum er nú komið, og mér er kunnugt um það, að hæstv. forsrh. og hans aðstoðarmenn hafa lagt í það mikla vinnu undanfarnar vikur að koma á því samkomulagi, sem fram kemur í þessu frv. varðandi aðstoð til útgerðarinnar og útgerðarfélaganna. Ég fyrir mitt leyti er því eindregið þeirrar skoðunar, að það verði ekki hjá því komizt að veita þær upphæðir, sem hér er um að ræða. En mér þykir sá galli á þeim og get ekki leynt honum, að þetta eru bráðabirgðaráðstafanir, sem maður veit ekki nema þurfi að endurtaka baráttuna um strax um næstu áramót.

Í þeim till., sem ég hef lagt hér fram í byrjun þings, var til þess ætlazt, að við kæmum á þetta fastri skipan, þannig að það væri hvað útgerðina snerti miðað við það framleiðsluverð, sem sannaðist að vera næsta ár áður hjá bæjarútgerðunum að meðaltali. Þetta virðist hv. þm. ekki hafa viljað hlusta á, en ýmislegt bendir til þess, að þetta væri mjög réttlát leið, og hún gæti dugað ekki einu sinni, heldur og áframhaldandi. Hv. 1. landsk. (GÞG) var að tala um það áðan, að hann treysti ekki ríkisstj. til þess að gera hlutlausa rannsókn á því á hverjum tíma, hvað útgerðin þyrfti að fá mikla aðstoð. Þessi hv. þm., sem er, eins og kunnugt er, ríkisrekstrarmaður og sósíalisti, ætti að geta treyst því, að þessi fyrirtæki, sem hafa hvað bezta aðstöðu af útgerðaraðilum í landinu, ættu að geta sýnt þann árangur, sem ætti að vera hægt fyrir slíkan mann að treysta að einkareksturinn gæti miðazt við. Og þessi sami hv. þm. var að tala um það, að við yrðum alltaf að vera í vafa um það, miðað við þetta frv., hvort ekki væri hægt að reka útgerðina betur en kemur fram í þeim skýrslum, sem hér hafa verið lagðar fram.

Nú þýðir ekki í sjálfu sér á þessu stigi málsins að tala mikið um þá leið, sem ég hef hér lagt til. En ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að mín skoðun í því efni hefur ekki að neinu leyti breytzt, enda þótt ég fylgi þeim till., sem hér liggja fyrir í I. og II. kafla þessa frv., sem eru bráðabirgðatillögur, og treysti ég mér ekki til að gera á þeim breytingar, miðað við þann grundvöll, sem þær eru byggðar á. En það er annað í þessu frv., sem mér þykir miklu meira neyðarúrræði að samþykkja, enda þótt naumast sé um annað að tala, eftir að búið er að binda það fastmælum milli tveggja stærstu flokka þingsins, að þessa leið skuli fara, en ekki aðra. Þetta neyðarúrræði er það, á hvern hátt tekjurnar eru teknar í þennan stóra sjóð. Meginhlutinn af þeim, kannske svo að segja allt, að undanteknum bílaskattinum, þýðir verðhækkun á vörum, þýðir hækkun á vísitölu, hækkun á kaupgjaldi, hækkun á launum og áframhaldandi dýrtíðarskrúfu. Hins vegar hef ég, eins og menn vita, lagt til, að þær upphæðir, sem þarf að afla á þennan hátt, séu lagðar öðrum þræði á eyðsluna, hins vegar beint á launin yfir alla línuna, þjóðina alla, og þá kæmi það hlutfallslega á fólkið eftir því, hvað hver hefði há laun, og næðist að nokkru leyti það, sem hv. 1. landsk. var að tala um. Hefur hann þó verið mjög á móti þeirri leið, að það yrði farið að nokkru leyti eftir því, hvað menn geta borgað.

Þó að þetta væri að mínu áliti rétt leið og leið, sem ekki mundi hafa í för með sér þá vaxandi skrúfu, sem auðsjáanlega heldur áfram og batnar ekki við þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, þá er svo komið, að þegar um það er að ræða, hvort útgerðin á að vera rekin eða ekki, þá verðum við, sem erum í félagsskap um að bera ábyrgð á afgreiðslu mála hér á Alþ., að dragnast með til þess að fylgja slíkum till., enda þótt við teljum aðrar heppilegri og betri. Á þessum grundvelli og á þessum grundvelli einum mun ég neyðast til þess að fylgja þessu frv., eins og ég hef í fjhn. mælt með.