12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjvn. (MJ) gat um, er fjvn. klofin um afgreiðslu fjárlagafrv., og liggja fyrir þinginu tvö nál., frá meiri hluta og minni hluta. Að meirihlutaálitinu standa allir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. og að minnahlutaálitinu standa sameiginlega hv. 11. landsk. (LJós) og ég.

Það er og rétt hjá frsm. hv. meiri hl. n., að við höfum skilað sameiginlega að mestu till. til breytinga við frv., þ. e. við gjaldabálk þess, á þskj. 179. Það eru að vísu nokkrar undantekningar frá þessu. Nokkrar till. eru á þessu þskj., sem við í minni hl. höfum greitt atkv. á móti í nefndinni. En það er rétt, að með meginþorra þessara till. stöndum við ásamt meiri hlutanum. Hins vegar skilar meiri hl. n. sértill. við tekjubálk frv., þar sem við töldum, að við gætum alls ekki veríð sammála meiri hl. um þær till., sem hv. meiri hl. fékkst til þess að gera. Þessar till. eru bornar fram af meiri hl. n. á þskj. 180.

Ég efa ekki, að það er rétt, sem frsm. sagði, að hv. meiri hl. viðurkennir, að það eru mörg góð mál, sem fjárveitingar eru ætlaðar til samkvæmt brtt. minni hl., svo sem skýrt er frá í nál. okkar hv. 11. landsk. þm. Ég veit, að hv. meiri hl. hefur haft mikla löngun til þess og óskaði eftir því, að hann hefði frjálsræði til þess að fylgja þessum góðu málum, þó að hann hafi ekki séð sér það fært af einhverjum ástæðum. Ég heyrði, að það kenndi sársauka í rödd frsm., þegar hann var að harma það, að hv. meiri hl. hefði ekki getað orðið okkur samferða um að leggja til ríflegar fjárveitingar til þessara góðu mála.

Hv. frsm. sló því föstu, að það væri að þessu sinni ekki hægt að áætla tekjur fjárlagafrv. hærra en gert væri. Við í minni hl. erum meiri hl. algerlega ósammála um þetta, og skal ég síðar víkja nánar að því og gera grein fyrir því.

Þá skýrði frsm. meiri hl. frá því, að þær miklu hækkanir, sem þegar sæjust á frv. sjálfu frá gildandi fjárlögum, væru að miklu leyti að kenna afleiðingum verkfallanna s. l. vor. Hæstv. fjmrh. víkur að þessu í grg. sinni með frv. og heldur þessu sama fram, þó ekki eins algert og hv. frsm. meiri hl., því að auk afleiðinganna af verðhækkuninni, sem stafi af verkföllunum s. l. vor, nefnir hæstv. fjmrh. sem meðverkandi ástæður til hækkana hækkun, sem stafi af lögum, sem sett voru á síðasta Alþingi og nemi um 12 millj. kr. í frv. Eru það lagasetning til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, sem nemi 3 millj. kr. hækkun, og til húsnæðismálastjórnar 200 þús. kr., til fiskveiðasjóðs Íslands 2 millj. kr., til jarðræktar og framræslu 3.3 millj. kr., til iðnfræðslu 1 millj. kr., til bókasafna 800 þús. kr., til heilsuverndarstöðva 500 þús. kr., vegna læknaskipunarlaga 400 þús. kr., vegna launa héraðsráðunauta 200 þús. kr. og til kaupa á jarðræktarvélum 400 þús. kr. Enn fremur viðurkennir hann, að hækkanir á frv. stafi af framlagi samkvæmt 116. gr. almannatryggingalaga, sem nemi 4 millj. kr., til dýrtíðarráðstafana 7.9 millj. kr. og kaupa og rekstrar jarðbors 2.2 millj. kr.

Það er því greinilega viðurkennt af hæstv. fjmrh., að það renni margar fleiri stoðir undir hækkanirnar í fjárlagafrv. en afleiðingarnar af verkföllunum s. l. vor, og er rétt, að það komi fram og orð ráðh. um þetta séu undirstrikuð.

Þar að auki er vitanlegt, að nokkru veldur hækkun í fjárlagafrv. sá vesaldómur hæstv. ríkisstj.að hafa ekki á nokkurn hátt hreyft hönd eða fót til þess að sporna við þeim dýrtíðarhækkunum, sem orðið hafa á s. l. missiri og enga stoð eiga í veruleikanum, að því er snertir nokkurt samband við verkföllin s. l. vor. Ef hún hefði þar staðið betur í ístaði, hefði hún áreiðanlega getað látið þess sjást merki í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, en vitanlega kemur sú