30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja mikið þessar umræður, en það eru hér nokkrar tillögur frá meiri hl. fjvn., sem ég vil leyfa mér að gera grein fyrir. Sumar þeirra voru boðaðar fyrr við umræðurnar.

Ég ætla að minnast fyrst á nokkrar útgjaldatillögur.

Það er í fyrsta lagi lagt til í 6. brtt. n. á þskj. 322 að veita 100 þús. kr. til skógarvarðabústaða. Það var mikið á það sótt af skógrækt ríkisins og talin mikil nauðsyn á því að koma upp skógarvarðabústöðum, a. m. k. á einum stað sérstaklega, og enda þótt n. teldi ekki fært að mæta því nema að mjög litlu leyti, hyggur hún þó, að hér sé komið nokkuð til móts við þessa ósk.

Þá eru hér smáliðir, sem ég tel ekki ástæðu til að gera grein fyrir. Það eru nokkrir eftirlaunaliðir, sem eftir var að athuga.

9. brtt. er um það, að fjárveiting sú, sem lagt er til að veita á 19. gr. til aukinnar löggæzlu og tollgæzlu, hækki um 350 þús., eða úr 1 millj. í 1 millj. og 350 þús. kr. Er þetta m. a. gert með hliðsjón af því, að hér hafa þegar á þessu þingi komið fram tillögur og eitt frv. liggur hér fyrir, þar sem lögð er áherzla á mikilvægi þess að auka löggæzluna, ekki hvað sizt á ýmsum stöðum úti um land. Er meiri hl. n. þeirrar skoðunar, að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, og er því lagt til, að þessi upphæð verði hækkuð sem þessu nemur.

Þá kem ég að nokkrum liðum í heimildagrein. Þar er í fyrsta lagi lagt til, að heimild ríkisstj. til að greiða balla þjóðleikhússins verði hækkuð um 200 þús. kr., sem byggist á breytingu á launum í samræmi við ákvæði launalaga, og er auðvitað ekki um annað að ræða en að greiða þann kostnað.

Þá er enn fremur hér um að ræða till. þess efnis, að hækkuð verði um helming heimild ríkisstj. til að ábyrgjast lán fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku á Siglufirði, úr 1 millj. í 2 millj. Byggist þetta á því, að á árinu 1955 var notuð heimildin um 1 millj., þ. e. a. s. raunar fyrir fram notuð, og er gert ráð fyrir, að það kunni svo að fara, að sams konar heimild verði að nota á þessu ári, og því hefur ríkisstj. óskað eftir því, að hún fengi heimild til að veita slíka ábyrgð, ef til kæmi.

Þá er enn fremur till. um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast 200 þús. kr. rekstrarlán vegna öryrkjaheimilis h/f Sunnu. Þetta heimili er stofnað fyrir nokkrum árum, og það hefur af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins verið veittur stuðningur til hælis þessa, sem er ætlað að geta veitt vinnuskilyrði ýmsum öryrkjum, sem ella ættu mjög erfitt með að framfæra sig. Það hafa verið miklir erfiðleikar fyrir þetta hæli að fá nauðsynlegt rekstrarfé, og hefur verið lagt til, að ríkisstj. væri heimilað að ábyrgjast 2/3 af væntanlegu láni, sem verksmiðjan tekur til starfsemi sinnar, gegn því, að Reykjavík ábyrgist þriðjunginn.

Þá er smábreyting á till. n. um heimild fyrir ríkisstj. til að greiða kostnað vegna sérstakra vaxta hjá Sláturfélagi Suðurlands í sambandi við kaup á nautgripakjöti s. l. haust. Það hefur komið í ljós, að það eru nokkrir fleiri aðilar, sem kunna að koma hér til greina og hafa keypt slíkt kjöt á þessu hausti, og því þykir sjálfsagt, að þeim verði veitt sams konar fyrirgreiðsla.

Þá er enn fremur lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að endurgreiða aðflutningsgjöld af fiskinetum úr nylon. Það hefur komið í ljós við þær breytingar, sem nú hafa verið gerðar á aðflutningsgjöldum, að það kemur mjög illa út varðandi þessi nylonnet, en sjálfsagt þykir, að þau verði ekki tolluð hærra en önnur net. En þar sem ekki er hægt með fjárl. að breyta ákvæðum tollskrár að þessu leyti, verður að fara þá leiðina að endurgreiða tollinn.

Þá er smávægileg leiðrétting á till., sem ég gerði hér áður grein fyrir varðandi kostnað ríkisútvarpsins við endurbætur á hlustunarskilyrðum á Austfjörðum, sem nemur 100 þús. kr. Það var prentvilla í till. þá.

Þá er enn fremur lagt til að greiða allt að 200 þús. kr. upp í stofnkostnað við lýsingu á þeim kafla Hafnarfjarðarvegar, sem er í Garðahreppi. Það liggur hér fyrir á öðru þskj. tillaga frá nokkrum hv. þingmönnum um að greiða allstóra upphæð í þessu skyni, eða 400 þús. kr. til að lýsa þjóðveginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Á s. l. þingi var til meðferðar þáltill. um þetta efni. Hún var afgreidd þannig, að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar með ósk um það, að kannað yrði, hvernig þessu yrði haganlegast fyrir komið. Það kom í ljós, að það voru allmargir aðilar, sem áttu þarna hlut að máli, og fjvn. taldi sig þá ekki hafa aðstöðu til þess að meta það, hver eðlilegast væri að greiddi þennan kostnað og þá að hve miklum hluta. Því miður hefur þetta nú ekki verið endanlega athugað, eins og hefði þurft að gera, og því ekki hægt að taka fullkomlega afstöðu til þess, hvernig eðlileg skipting á þessu væri. Hins vegar telur fjvn. mjög varhugavert vegna fordæmis að fara inn á þá braut að greiða vegalýsingu innan umdæmis kaupstaða, og því er þetta bundið við Garðahrepp. Lýsing þessi er talin munu kosta á níunda hundrað þús. kr. Það er talið, að um 20% af veginum liggi í umdæmi Reykjavíkur, 40% í umdæmi Garðahrepps og 40% í umdæmi Kópavogskaupstaðar, og það er kostnaðurinn við þessi 40%, sem liggja í Garðahreppi, sem er lagt til að ríkissjóður greiði að þessu leyti. Það er ekkert sagt um, að það eigi að kosta það að öllu leyti, það verður ríkisstj. að meta og æskilegt, að það verði rannsakað niður í kjölinn, hvernig heppilegast er að koma þessu við. En þetta mun þó vera sá kafli vegarins, sem er hættumestur, og vitanlegt, að það er ógerlegt fyrir þennan hrepp að greiða þann kostnað, sem hér er um að ræða.

Þá er lagt til að gera smávægilega breytingu á einu atriði heimildagreinar, sem er um heimild til þess að setja merki landgræðslusjóðs á vindlingapakka. Það varð samkomulag um það við Félag tóbaksvöruverzlana, að það skyldi ekki lögð smásöluálagning á þessa viðbótarhækkun, sem rennur til landgræðslusjóðs. En það er talið hafa komið í ljós, að það séu nokkrir aðilar, sem standa utan þess félags og hafa ekki viljað beygja sig fyrir þessu, þannig að sanngjarnt þykir að mæta ósk landgræðslusjóðs um að selja þetta skilyrði, þannig að það nái til allra.

Það var gerð grein fyrir því, þegar framhaldsnefndarálit meiri hl. fjvn. var lagt fram, að þar vantaði um 45.5 millj. kr., til þess að hægt væri að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, og gerð grein fyrir því, að ríkisstj. mundi að sínu leyti leggja fram nauðsynlegar fjáröflunartillögur til þess að mæta þessum útgjöldum. Þetta hefur nú verið gert og þær till. endanlega samþykktar. Í samræmi við þau lög, sem þar um ræðir, leggur meiri hl. n. nú fram þær brtt. við tekjubálk fjárlagafrv., að vörumagnstollur verði hækkaður um 6.5 millj. kr., verðtollur verði hækkaður um 32 millj., innflutningsgjald af benzíni verði hækkað um 4.5 millj. og bifreiðaskattur um 6 millj., en samtals gefur þetta í tekjur 49 millj., og er það þá nokkru meira en útgjöldunum nemur, ef samþykktar verða allar till. meiri hl. fjvn., en ekki aðrar brtt.

Yrðu till. meiri hl. n. samþykktar, mundi það leiða til þess, að útgjaldahlið fjárlagafrv. fyrir árið 1956 yrði 658–659 millj. kr., og er það um 143 millj. kr. meira en núgildandi fjárlög eru, þannig að menn sjá, að hér er um geysimikla hækkun að ræða, sem gert hefur verið ráð fyrir. En þessi mikla hækkun gerir það skiljanlegt, að ekki hafi verið kleift að mæta þessum útgjöldum, enda þótt góð afkoma hafi verið hjá ríkissjóði á þessu ári, þá mundi það ekki hrökkva nándar nærri til, enda þótt slíkar tekjur yrðu á næsta ári.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um tillögur minni hl. fjvn. Þeir hafa lagt til mikla hækkun á tekjubálki frv. og hafa talið í nál. um þær tollabreytingar, sem hér hafa verið til meðferðar, að þær væru þarflausar, þar sem hægt væri að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus, enda þótt engir nýir tekjustofnar kæmu til. Það er þó mjög í áttina, að þeir skuli hafa fallið frá þeim geysilegu hækkunum, sem þeir fluttu hér við 2. umr., og virðist það ótvírætt benda í þá átt, að þeir hafi við nánari athugun séð, að þar hafi ekki verið alls kostar raunhæft að farið, því að það er vitanlega engin skýring á þessum breyttu tillögum, að það sé vegna þingskapa, því að það var auðvitað engin nauðsyn að fara niður fyrir lægstu tillögur, til þess að það bryti ekki í bága við þingsköp. Tel ég það því mjög virðingarvert, að við nánari íhugun hafa þessir hv. þingmenn komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir hafi farið nokkuð geyst í sakirnar. — Varðandi einstakar brtt. þeirra hef ég ekkert sérstakt að segja. Fjvn. hefði gjarnan óskað að geta hækkað meira framlög til sjúkrahúsa og flugvallagerðar og jafnframt gjarnan taka upp fjárveitingu til félagsheimilasjóðs, en það hefur ekki verið talið fært að gera það. Það virðist vera nóg komið samt af útgjöldum, enda þótt fleiri böggum verði ekki á bætt.

Varðandi aðrar tillögur, sem hér liggja fyrir á nokkrum þskj., er það að segja, að fjvn. getur yfirleitt ekki mælt með því, að þær séu samþykktar. Hún hafði tekið til athugunar milli umræðna þær tillögur, sem teknar voru aftur við 2. umr., tekið upp nokkrar þeirra að nokkru leyti a. m. k., en þeim till. öðrum, sem hér hafa verið endurfluttar, hlýtur n. að sjálfsögðu að mæla á móti. N. telur ekki auðið að mæla með því, að samþykktar verði breytingar, sem bornar eru hér fram af nokkrum hv. þm. til aukinna fjárveitinga í sambandi við hafnir eða vegi. Því fé hefur þegar verið skipt eftir þeim hlutföllum, sem talið var eðlilegt að fylgt yrði, og mundi það raska öllu slíku, ef ætti að fara að taka einstök mál þar út úr. Sama er að segja um fjárveitingar til skóla og sjúkrahúsa eða brúa — það mun ein till. vera um það efni — það mundi geta valdið mikilli röskun, ef ætti að fara að taka upp slíka liði nú á síðasta stigi málsins, eftir að öll þau mál hafa verið athuguð niður í kjölinn.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að þreyta hv. þingmenn með að fara út í einstakar tillögur nánar. Það er ekki sérstakt tilefni til þess. Ég skal aðeins geta þess hér með eina till., sem er XI. till. á þskj. 296, að meiri hl. n. og raunar n. öll telur sig geta mælt með því, að sú till. nái fram að ganga. Það er um að greiða drengnum Garðari Brynjólfssyni, Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, hæfilegar bætur vegna slyss, er hann varð fyrir 15. júlí 1946 af völdum sprengingar. Það var í fyrra helmild um að greiða bætur öðrum dreng í sama formi og hér um ræðir. Fyrir n. hefur ekkert erindi legið um þetta fyrr en nú alveg nýlega á síðustu stundu, og vantaði allar upplýsingar um, hversu þessu máli væri háttað, þar til n. hefur borizt það nú, eftir að þessi till. er fram komin. Hefði n. að sjálfsögðu flutt þetta að sínu leyti, ef hún hefði haft nægilegar upplýsingar um, hvernig þessu var háttað, en telur með hliðsjón af því, sem gert hefur verið í sama tilfelli, að rétt sé að samþ. þessa tillögu.

Ég held, að ég þreyti þá ekki hv. þingmenn á lengra máli, endurtek aðeins það, sem ég lagði til í framsöguræðu minni hér við upphaf þessarar umr., að hv. þingmenn geti fallizt á að samþykkja brtt. meiri hl. fjvn., en að öðru leyti verði aðrar brtt., sem fram hafa komið, felldar með hliðsjón af því, að það eru ekki tök á að bæta hér meiri útgjöldum við, enda þótt allir mundu vafalaust hafa óskað eftir því að geta mætt ýmsum þeim óskum, sem þar hafa fram komið. En það er nú einn sinni svo, að jafnvel þó að fjárlögin séu mikið hækkuð, þá eru þó óskirnar enn miklu hærri en sem þessum upphæðum nemur, þannig að ótalmörgu hefur orðið að hafna.