01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

1. mál, fjárlög 1956

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ósköp þótti mér leiðinlegt, þegar Lúðvík Jósefsson, 11. landsk., var að kreista sig til þess að ávíta íhaldið fyrir að skrökva — og að ýmsu leyti gerði hann það réttilega — að hann skyldi um leið falla í sömu gröfina sjálfur og skrökva því, að Eggert Þorsteinsson hefði viljað kjósa íhaldsmann í stjórn Alþýðusambandsins. Sannleikurinn er sá, að Eggert Þorsteinsson gerði það, sem hann gat, til þess að koma í veg fyrir, að íhaldsmenn eða kommúnistar kæmust inn í sambandsstjórn, og lagði það nokkuð að jöfnu. Það var ekki í kjöri neinn íhaldsmaður í kosningum til sambandsstjórnar, en því miður lánaðist kommúnistum að fá tvo eða þrjá menn í sambandsstjórn. — Út af vinstra skrafi þessa hv. þm. og Einars Olgeirssonar einnig vil ég bara segja það, að það er nú ljóst orðið, hvað þeir meina með sínu vinstra skrafi. Vinstri sinnaður er sá, sem vill vinna með kommúnistum, vinstri stjórn er sú stjórn, sem kommúnistar eru í. Vilji Framsfl. taka kommúnista með í stjórn, þá er hann þar með vinstri flokkur. Vilji Alþfl. vera í stjórn með kommúnistum, þá er hann vinstri flokkur. Vilji Framsfl. ekki hafa þá í stjórn, þá er hann afturhaldssamur hægri flokkur, og sama gildir um Alþfl. Ólafur Thors var vinstri maður og íhaldið var vinstri flokkur á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, þegar kommúnistar voru einnig í stjórninni. Nú veit það hver maður, að engir eru fjær því að vera vinstri menn í réttum skilningi þess orðs en einmitt kommúnistar, því að þeir eru rígbundnir á klafa kommúnistískra kennisetninga í kenningum sínum og framkvæmd.

Borgarstjórinn í Reykjavík, hv. 7. landsk., Gunnar Thoroddsen, var fjölorður um það, eins og ráðherrarnir ýmsir, að stjórnarandstæðingar hefðu flutt mikið níð og illmæli um ríkisstj. Ég vil gersamlega mótmæla þessu að því er mig og mína flokksmenn snertir. Ég hef ekkert níð flutt um hæstv. ríkisstj. Einu stóryrðin, sem voru í minni fyrri ræðu, voru þau orð, sem ég las upp úr Morgunblaðinu um hringavitleysu og eitthvað ámóta. Það, sem ég reyndi í minni ræðu, var að sanna það, sem borgarstjórinn fullyrti að væri rétt, að á síðustu sex árum undir stjórn og áhrifum íhaldsins og samstarfsmanna þess hefði fjárhagskerfi þjóðarinnar gersamlega raskazt, eins og borgarstjórinn réttilega orðaði það. Það var það, sem ég var að reyna að sýna fram á í minni fyrri ræðu. Sé það illmæli um ríkisstj., níð, þá hefur hún sjálf með verkum sínum rist sér þetta níð.

Borgarstjórinn vildi einnig færa nokkur rök að því, að útkoma bæjarútgerðarinnar hér í Reykjavík hefði sannað það, að taprekstur hlyti að verða á togurunum, jafnvel þó að milliliðagróði kæmi ekki til. Hann er þessum málum að sjálfsögðu kunnugur og nefndi ýmis dæmi, sem sýndu, að ekki hefði verið haft fé af bæjarútgerðinni. En mig furðaði nokkuð á því, að eitt dæmi nefndi hann ekki. Hann minntist ekki einu orði á það, hvað hraðfrystihúsin hér og annars staðar á landinu hefðu grætt mikið á því að kaupa aflann af bæjartogurunum og hve mikið hefði mátt minnka rekstrarhalla togaranna, ef bæjarútgerðin sjálf hefði haft hraðfrystingu fisksins með höndum og vinnslu hans alla. Mér þótti þetta mjög eftirtektarvert.

Hv. borgarstjóri ræddi, eins og hans er venja, mjög sanngjarnlega um málin og vildi fullyrða, að Sjálfstfl. væri mjög hugað um, að verkamenn fengju réttan skerf arðsins, sem vinna þeirra skapaði, og færði því til sönnunar það dæmi, að sjálfstæðismenn flyttu nú á þessu þingi till. um arðskiptafyrirkomulag, þ. e. a. s. hlutdeild starfsmanna í arði fyrirtækjanna. Þetta er rétt. Þessi till. er borin fram nú. Sams konar till. var einnig borin fram, ef ég man rétt, árið 193I, og samþykkt; nefndin hélt einn fund undir forsæti sjálfstæðismanns, meira varð ekki úr því. Hvernig var ástandið 1937 og hvernig nú? Öll framleiðslustarfsemi í landinu er nú rekin með tapi. Stærstu togarafyrirtækin voru einnig rekin með tapi 1937. Er það ekki dálítið einkennandi fyrir Sjálfstfl., sem nú er búinn að sitja að völdum í 6 ár og sér núna fyrst ástæðu til að bera þessa till. fram, að till. um arðskiptafyrirkomulag og hlutdeild verkamanna í arðinum er borin fram, þegar fjárhagskerfið er að hrynja í rúst, þegar tap er á öllum meiri háttar atvinnurekstri í landinu? Það er gott að taka upp arðskiptafyrirkomulagið, þegar tap er á rekstrinum. En 1941, 1942, 1943, 1944 og 1945, þegar mokað var upp milljónagróða á togurunum, nefndu þeir þá arðskiptafyrirkomulag? Nei, þegar tap er á atvinnurekstrinum á að skipta arðinum, þ. e. skipta tapinu niður á fólkið í landinu.

Það er rétt, sem hv. 7. landsk. sagði; það, sem í raun og veru er deilt um, er, hvernig eigi að skipta tekjum þjóðarinnar, þjóðartekjunum. Eins og nú er háttað, er enginn vafi á því, að sá hlutur, sem fellur til vinnandi fólks, er minni en hann á að vera, en meiri hinn hlutinn, sem fjármagnið og þeir, sem því ráða, taka til sín gegnum verðbólguna, milliðaliðastarfsemina og fjárplógsstarfsemi og brask ýmiss konar, gegnum verðhækkun fasteigna og annað slíkt. Höfuðgallinn á lögum þeim, sem voru sett í gær um Ólafssjóð svonefndan, er sá, að tekjuöflunin er ranglát að því leyti, að skattarnir leggjast þyngst á þá, sem eiga erfiðast með að greiða þá, og í öðru lagi, að hún er óviturleg, vegna þess að tekjuöflunin er slík, að hún dregur úr og gerir að engu þá aðstoð, sem lögin eiga að veita. Þessir nýju skatta skapa aukna verðbólgu, sem lendir harðast á framleiðslustarfseminni í landinu. Það er því rétt, sem Eggert Þorsteinsson sagði hér áðan, að slökkvistarf hæstv. ríkisstj. á verðbólgubálinu virðist helzt í því fólgið að dæla, ekki olíu, heldur benzíni í bálið.

Ingólfur Jónsson, hæstv. viðskmrh., lýsti árunum 1953 og 1954 svo fallega, að það lá við, að ég klökknaði við. Þetta voru sannarlega hagsældar- og farsældarár. Jafnvægi var hér um bil alveg að komast á. Þetta kemur að vísu ekki heim við þær lýsingar, sem gefnar voru 1954. En þetta voru nú hans lýsingar. En hvernig stóð á því, að árin 1953 og 1954 voru það, sem hann kallar hagsældar- og farsældarár? Það stóð þannig á því, að í byrjun þess árs tókst að lækka vísitöluna um þrjú stig, úr 161 niður í 158 stig. Hvernig var þessi lækkun fengin fram? Hún var fengin fram með þriggja vikna hörðu verkfalli, þar sem ríkisstj. og atvinnurekendur börðust á móti þessum ráðstöfunum í lengstu lög, enda urðu að láta undan samtakamætti verkalýðsins, ákveða fast verð án hækkunar á vissum vörutegundum, lækkun á öðrum og lækkun á milliliðagróða og nokkra lækkun á sköttum. Þetta var undirstaðan undir því, að árin 1953 og 1954 reyndust þó eins og þau reyndust. Nú var ekki við slíkt komandi. Ég skal geta þess, að kommúnistar voru mjög óánægðir með niðurstöðuna 1952 og skömmuðu Alþfl.-menn gífurlega fyrir að hafa svikizt undan merkjum og skorizt úr leik.

Ólafur Thors, hæstv. forsrh., taldi, að það þyrfti mikinn kjark til þess að leggja á þessa nýju skatta, og hann taldi sér til gildis, að hann þyrði að horfast í augu við veruleikann og taka á sig þessa ábyrgð.

Ég er nú ekki viss um, að þetta hafi verið svo ákaflega mikill kjarkur. Það hefði þurft meiri kjark, meiri manndóm, meiri festu til þess að leita fjárins þar, sem auðveldara er að taka það, og þar, sem réttara var að taka það, að leita þess í rottuholum fjáraflamannanna, eins og hann orðaði það 1950 og lézt hvergi vera smeykur við að sækja það þangað. En hann brast kjark, hann brast þor og hann brast vilja til þess að leita eftir fénu á þessum stöðum, kaus þá auðveldari leiðina að hækka skattana á mat og fatnaði.

Ég vísa til yfirlýsinga þeirra, sem fram hafa komið hér við vantraustsumræðurnar frá Framsfl. um, að hann muni halda þing og taka til athugunar afstöðu sína til þjóðmála og samvinnunnar við Sjálfstfl. Mér virðist það benda til þess, að þess megi vænta, að svo geti farið, að til kosninga komi þegar á næsta sumri. Ég vil því biðja alla góða Alþýðuflokksmenn og konur, alla kjósendur landsins að vera við því búna, að til slíks kunni að koma.

Að minni hyggju er ein leið til þess að komast inn á rétta braut. Hún er sú, að samvinna takist milli allra þeirra, sem eiga afkomu sína undir vinnunni fyrst og fremst, en ekki undir fjármagninu og arðinum af því. Alþfl. vill reyna að skapa samfylkingu, þar sem standi saman allir þeir, sem berjast vilja gegn ofríki og valdafíkn íhaldsins og auðvaldsins, á móti einræðishneigð og ofbeldishneigð kommúnistanna; hann vill safna því fólki saman, sem vill að þingræðislegum og lýðræðislegum leiðum vinna að því að koma á fullkomnu lýðræði í atvinnumálum landsins og stjórnmálum. Hann vill berjast gegn þeim, sem vilja beita valdi hnefans eða valdi auðsins. Hann vill hvorki einræði kommúnistísks minni hluta né heldur ríkislögreglu auðvalds og íhalds, og hann skorar á alla menn, sem hafa þá samstöðu, hvar í flokki sem þeir nú standa, að þeim er meira virði vinnan og afrakstur hennar heldur en gróði einstakra manna eða ofbeldishneigðir kommúnista, að fylkja sér saman og standa saman, ef til slíkra kosninga kemur og hvenær sem til þeirra kemur. — Góða nótt.