12.03.1956
Efri deild: 83. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

163. mál, þjóðskrá og almannaskráning

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur fengið til athugunar frv. til laga um þjóðskrá og almannaskráningu. N. hefur farið yfir frv. á fundum sínum og átt tal um það við hagstofustjóra. Hefur hann farið í gegnum frv. með n. í einstökum atriðum og gefið n. nánari skýringar á ýmsu því, sem hún sá ástæðu til að spyrja um. Að lokinni þessari athugun leggur n. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.

Þetta frv. er samið af hagstofustjóra á vegum stjórnarnefndar allsherjarspjaldskrárinnar, en í þeirri n. eiga sæti fulltrúar frá fjmrn., Hagstofu Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, bæjarstjórn Reykjavíkur og berklavörnum ríkisins. Stjórnarnefndin hefur tekið frv. fyrir á fundum sínum, og að lokinni athugun óskar hún eindregið eftir því, að frv. nái fram að ganga. Á meðan þetta frv. hefur verið í smíðum, hefur hagstofustjóri borið ýmis atriði þess undir nokkra aðila, sem þetta mál varðar sérstaklega. Þannig hefur hagstofustjóri leitað til biskups um þau atriði, er varðar prestastétt landsins. Hann hefur leitað til landlæknis um þau atriði, sem læknana varðar. Undir dómsmrn. hafa verið borin þau atriði frv., sem refsingar varða og framkvæmd þeirra, og auk þess hefur málið verið lagt fyrir ráðuneytisstjóra fjmrn., skattstofuna í Reykjavík, lögreglustjórann í Reykjavík, borgarlækninn í Reykjavík og formenn frá Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, Félagi héraðsdómara og Prestafélagi Íslands auk fleiri aðila. Á meðan málið hefur verið í undirbúningi og athugun, hafa þessir aðilar sumir hverjir borið fram ýmsar óskir í sambandi við málið, og við frv. hefur ekki verið lokið fyrr en óskum þessara aðila hefur verið fullnægt. Tjáir hagstofustjóri allshn., að allir þessir aðilar séu samþykkir frv., að svo miklu leyti sem að hverjum þeirra snýr, og geti fellt sig við það. Virðist mér frv. hafa fengið mjög góðan undirbúning af hálfu hagstofustjóra og að hann hafi lagt sig fram um að hafa samráð við þá aðila, sem einhver ástæða væri til að ætla að þetta mál varðaði sérstaklega. Honum hefur líka tekizt að hliðra þannig til í sambandi við samningu frv., að allir, sem málið snýr að, virðast vera ánægðir, án þess þó að það hafi orðið til þess að draga á nokkurn hátt úr þeim tilgangi, sem frv. er ætlað að ná.

Eins og kunnugt er, var fyrir nokkrum árum stofnað til vélaspjaldskrár yfir alla landsmenn. Stóðu nokkrir opinberir aðilar að stofnun þessarar spjaldskrár. Síðan hún var stofnuð, hefur hún haft það hlutverk með höndum að skrá alla landsmenn og fylgjast með því, hvar þeir ættu heima á hverjum tíma. Ríður mjög á, að þessi spjaldskrá sé sem allra nákvæmust, þannig að enginn, sem skráður á að vera, — það eiga allir landsmenn að vera, — falli niður af skránni og að enginn sé þar tvítalinn. Á því hefur hins vegar viljað bera á undanförnum árum, áður en vélaspjaldskráin kom til, að talsvert stór hópur manna væri hvergi skráður og losnaði þannig við að greiða sín opinberu gjöld. Á því bar líka nokkuð áður, að menn væru skráðir á fleiri en einum stað, og leiddi af því talsverða erfiðleika, sérstaklega í sambandi við álagningu gjalda og innheimtu. Það er hlutverk vélaspjaldskrárinnar og skráningarinnar að sjá um, að slík mistök eigi sér ekki stað.

Í sambandi við þessa skráningu, sem vélaspjaldskráin hefur annazt, hefur hún að undanförnu látið sveitarstjórnum í té á hverju ári skrá yfir íbúa hvers héraðs út af fyrir sig. Vélaspjaldskráin hefur einnig látið sveitarstjórnum í té stofn að kjörskrá, sem sveitarstjórnir hafa notað til þess að semja kjörskrárnar eftir. Þá hefur vélaspjaldskráin einnig látið Tryggingastofnuninni í té skrá yfir alla gjaldendur til almannatrygginga, sem sveitarstjórnir og skattanefndir hafa farið eftir við álagningu gjalda til Tryggingastofnunarinnar. Loks hefur vélaspjaldskráin á sama hátt látið skattstjórum og skattanefndum í té skrá yfir alla þá, sem eiga að greiða skatta til ríkisins í viðkomandi umdæmum, og hafa skattskrár verið samdar og skattar álagðir eftir þessum skrám vélaspjaldskrárinnar. Og loks er það form komið á nú, að vélaspjaldskráin hefur annazt fyrir ríkið útreikning og álagningu gjalda til ríkisins, Tryggingastofnunarinnar og kirkna í vissum hluta landsins. Og samhliða því, sem vélaspjaldskráin hefur annazt álagningu þessara gjalda, hefur hún einnig um leið prentað fyrir hið opinbera þinggjaldabækur með öllum þessum gjöldum álögðum, samanlögðum og uppgerðum, og auk þess hefur vélaspjaldskráin prentað fyrir það opinbera þinggjaldsseðla alla yfir þessa gjaldendur.

Það var byrjað á þessu fyrst hér í Reykjavík, og hefur síðan smám saman verið fært út til fleiri landshluta. Fyrir ári var þetta fyrirkomulag tekið upp í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu og Keflavík, og verið er að undirbúa nú að taka þetta upp fyrir Akranes, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og jafnvel víðar. Er að þessu mikið og gersamlega ómetanlegt hagræði fyrir alla þá, sem við þessi störf fást, og sparar ríkinu stórfé, auk þess sem það léttir undir allri innheimtu og kemur henni á stað miklu fyrr en ella. En til þess að þessar skrár allar komi að því gagni, sem til er ætlazt, er alveg óhjákvæmilegt, að manntalið í landinu sé á hverjum tíma svo rétt og nákvæmt sem frekast eru tök á.

Vélaspjaldskráin hefur haft nokkrar reglur og nokkur lagaákvæði á að byggja í sambandi við þessi störf. Þó hafa þær reglur allar verið næsta ófullkomnar og ófullnægjandi, og hefur því stjórnarnefnd vélaspjaldskrárinnar orðið að búa sér reglurnar til í framkvæmd. Slíkt er að sjálfsögðu gott og blessað, en til þess að hægt sé að framkvæma þær reglur, sem þannig eru settar, verður ekki hjá því komizt að hafa í lögum nokkur og nokkuð ýtarleg fyrirmæli um það, að mönnum sé skylt að fylgja þessum reglum og að eitthvert aðhald sé, til þess að menn vanræki ekki að vinna þau verk, sem óhjákvæmilegt er að vinna til þess að halda spjaldskránni í því horfi, sem vera ber. Öll ákvæði um aðhald og refsingar fyrir að vanrækja þá hluti, sem spjaldskránni eru nauðsynlegir, hefur vantað til þessa, en það er hlutverk þessa frv., sem hér liggur fyrir, að lögfesta þessar reglur og lögfesta jafnframt ákvæði, sem tryggja það, að þeir, sem eiga að sjá um framkvæmd reglnanna, geti ekki að bótalausu leyft sér að hafa þessar framkvæmdareglur að engu og vanrækt það, sem þeir eiga að gera.

Sú er grundvallarhugmynd frv., að sérstakri n. sé falið að annast rekstur þjóðskrárinnar og sjá um, að hún sé í lagi á hverjum tíma. Er gert ráð fyrir, að í þessari stjórnarnefnd séu sex menn, tilnefndir af fimm aðilum, einn frá berklavörnum ríkisins, annar frá bæjarsjóði Reykjavíkur, þriðji frá fjmrn., fjórði frá hagstofunni og fimmti frá Tryggingastofnuninni, en þann sjötta skipar ráðherra án þess að fá nokkra sérstaka tilnefningu.

Framkvæmd sjálfrar almannaskráningarinnar og hin daglega varzla vélaspjaldskrárinnar er hins vegar í höndum Hagstofu Íslands. Það er hún, sem sér um hina daglegu framkvæmd þessa máls og gengur eftir því, að þeir aðilar, sem þarna hafa verk að vinna, geri þá hluti, sem þeim ber að gera, réttilega og á réttum tíma.

Það verður að teljast mjög vel farið, að framkvæmd þessa máls skuli vera í höndum hagstofunnar. Síðan vélaspjaldskráin kom til sögunnar, hefur hagstofan annazt þessa hluti, og það er tvímælalaust álit allra þeirra, sem við þetta hafa átt að búa og við þessa skráningu hafa þurft að skipta, að hagstofan hafi unnið þarna mikið og gott starf. Hagstofustjóri hefur sýnt alveg sérstakan áhuga fyrir því að hafa þessi mál í eins góðu horfi og frekast eru tök á, og hann hefur sýnt alveg sérstaka lagni í því að starfa með þeim, sem þarna hafa þurft að koma við sögu. Efast ég ekki um, að fyrir þessum málum muni í hans höndum verða mjög vel séð í framtíðinni, ef eins vel verður á haldið hér eftir og hingað til.

Fyrir því er ráð gert í þessu frv., að spjaldskráin fái jöfnum höndum tilkynningar um allar þær breytingar, sem gera þarf í sambandi við það manntal, sem nú er til. Sveitarstjórnir eiga að láta hagstofunni í té allar þær breytingar, sem verða á flutningum manna í landinu, og fylgjast með því, að þessar breytingatilkynningar séu ekki vanræktar. Sóknarprestarnir eiga að annast tilkynningar til vélaspjaldskrárinnar á fæðingum, mannslátum, skírnum, nafngiftum, hjónavígslum o. fl. Héraðsdómararnir eiga að tilkynna það, sem að þeim snýr í þessu sambandi, dómsmrn. sitt o. s. frv., og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að telja þessa aðila upp, — en frv. slær því föstu, að ef þessir aðilar vanrækja sína tilkynningarskyldu, þá hefur hagstofan eða vélaspjaldskráin til þess fullt vald að setja þessum aðilum ákveðinn hæfilegan frest til slíkra hluta, og síðan getur hagstofan beitt sektum, ef fyrirmælunum er ekki hlýtt.

Það kann e. t. v. að þykja nokkuð harðneskjulegt að hafa þessi sektarákvæði í frv. eins og þau eru og frestinn, sem þar er um að ræða, svo takmarkaðan sem frv. ber vitni um. En á það ber hins vegar að líta, að miklu máli skiptir, að þess sé vel gætt að tilkynna hagstofunni á réttum tíma um allar breytingar, og þegar menn einu sinni eru búnir að venja sig á þetta og búið er að koma á föstu formi, þá ætti ekki að vera hætta á því, að á þessum sektarákvæðum mundi mikið þurfa að halda, þó að nauðsynlegt kynni einhverju sinni að vera að grípa til þeirra.

Ég vil sérstaklega taka það fram í sambandi við sektarákvæðin, að hagstofustjóri hefur borið það mál undir dómsmrn. og beðið um álit þess á því ákvæði, og hefur rn. lýst sig samþykkt ákvæðum frv. um sektirnar. Frv. gerir svo ráð fyrir því, að fyrir 1. des. eða 1. des. ár hvert skuli hagstofan senda sveitarstjórnum, sóknarprestum utan kaupstaða og skattanefndum og skattstjórum eintak af manntali hvers sveitarfélags. Eiga þessir aðilar að gera hagstofunni aðvart innan ákveðins frests um það, hvort þeir hafi eitthvað við þetta að athuga og hvaða leiðréttingar þeir vilja fá fram. Að fengnum þeim aths. gengur síðan hagstofan endanlega frá þjóðskránni, og því á að vera lokið í febrúarmánuði ár hvert. Eftir það lætur svo hagstofan í té til réttra aðila þær nauðsynlegar skrár, sem frv. ræðir nánar um.

Eins og menn sjá á öllum þessum ákvæðum, er gert ráð fyrir því, að hér séu höfð mjög snör handtök. Hagstofunni eru ekki síður skammtaðir stuttir frestir en öðrum, en hagstofustjóri telur, að ef allir gera hér skyldu sína, sé hægt að standa við þá fresti, sem hér eru settir, og á það leggur hann mikla og ríka áherzlu.

Það kann vel að vera, að ýmsum sýnist, að einhverju mætti breyta eða hnika til í þessu frv. Allshn. hefur hins vegar ekki séð ástæðu til þess að fara út í þá hluti, enda liggur fyrir í málinu, að af hálfu þeirra, sem frv. hafa samið og að því hafa unnið, hefur verið leitað eftir því að hafa sem nánast samráð við alla þá, sem þetta mál varðar, og jafnframt hefur verið lagt sig fram um að hnika málum til til samræmis við ósk þessara aðila, þannig að hér virðast allir vera ánægðir og samþykkir frv. Allshn. leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir og án breytinga.