20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ríkisútgáfa námsbóka hefur staðið frá því að í gildi komu lög um það efni, sem sett voru á árinu 1936. Á síðari árum hafa verið vaxandi kvartanir um það, að útgáfan leysti ekki verkefni sitt svo af hendi sem skyldi, og hafa samtök kennara, bæði hin almennu og eins héraðsfundir, borið fram áskoranir til Alþ. og ríkisstj. um að ráða bót hér á. Það, sem mest á bjátar, er það, að útgáfan hefur ekki haft yfir nægu fé að ráða til þess, að hún gæti verið með sæmilegum hætti. Mun láta nærri, að hin síðari ár hafi sá tekjustofn, sem útgáfunni er ætlaður til starfsemi sinnar, ekki hrokkið til nema sem svarar helmingi kostnaðar, eins og hann raunverulega hefur orðið, og er þó þá þess að gæta, að mjög hefur dregið úr starfseminni einmitt vegna þess, að fé hefur ekki verið fyrir hendi, en eins og kunnugt er, er aðaltekjustofninn svokallað námsbókagjald, sem lagt er á þá heimilisfeður, sem eiga skólaskyld börn. En að svo miklu leyti sem þetta gjald hefur ekki hrokkið til, hefur skuld safnazt hjá ríkissjóði, sem raunar má segja að vonlaust sé að óbreyttu að nokkru sinni fáist endurgreidd.

Ég hef haft samráð við stjórn þessarar stofnunar og einkanlega núverandi formann, séra Jónas Gíslason í Vík, og hefur hann í samráði við mig og aðra aðila átt mestan hlut að samningu þess frv., sem hér liggur fyrir, frv., sem ég vona að bæti úr þeim ágöllum, sem helzt hafa komið fram á þessari starfrækslu. Er þó þess að geta, að við leggjum hér til, að útgáfan haldi áfram í meginatriðum með svipuðum hætti og verið hefur, en vissulega gat einnig komið til greina að leggja þessa starfsemi niður og fela eða heimila einstaklingum að gefa út kennslubækur, eins og áður tíðkaðist, og er mér sagt, að sá háttur sé t.d. í sumum Norðurlandanna, að þar séu kennslubækurnar gefnar út af einstaklingum eða fyrirtækjum eins og hverjar aðrar bækur, en engu að síður séu þær látnar nemendum í té annaðhvort ókeypis eða við mjög vægu verði, og er þá samið af hálfu fræðslumálastjórnar við útgefendur um kaup af þeim á bókunum, og nást auðvitað eitthvað hagkvæmari kjör, þegar svo mikið er keypt í einu. Við töldum ekki tímabært að taka það upp að hætta við sjálfa útgáfuna, a.m.k. ekki fyrr en sýnt væri, hvort hægt væri að koma fram nauðsynlegum endurbótum.

Það kom sérstaklega til álita við samningu þessa frv., hvort útgáfan ætti að taka einungis til barnafræðslunnar eða til alls skyldunáms, þ.e.a.s. einnig til þeirra tveggja ára, sem skyldunám tekur utan barnafræðslu. En bæði er það, að ekki er sá háttur kominn á um nám alls staðar á landinu, og eins hitt, sem meira réð, að greinilegt var, að kostnaður við útfærslu útgáfunnar í svo ríkum mæli mundi hafa í för með sér mjög aukinn kostnað. Töldum við þess vegna, að ekki væri rétt, hvað sem menn vilja gera síðar, að taka á sig þær auknu byrðar og auknu starfsemi, meðan því fer fjarri, að útgáfan hafi getað annazt, svo að sæmilegt sé, þá starfrækslu, sem henni þegar hefur verið fengin. Fyrst væri að koma þeirri starfsemi í viðunandi horf, og þegar það hefði tekizt, væri ástæða til íhugunar um útfærslu, en þangað til væri það verkefni ærið nóg að kippa í betra horf því, sem ábótavant hefur verið fram að þessu.

Meginbreytingar á útgáfunni samkv. þessum lögum eru þær, að ætlazt er til, að yfirleitt sé stefnt að því, að a.m.k. tvær bækur séu til í hverri grein. Nú hefur einungis verið hægt að sjá fyrir einni bók. Þetta er ekki heppilegt. Þá er ekkert val fyrir kennara eða skólastjóra í þessum efnum. Það verður hætt við stöðnun, ef engin samkeppni kemst að í þessum efnum. Þess vegna teljum við, að það sé mikilsvert að stuðla að því, að a.m.k. um tvær bækur í hverri grein sé að velja.

Ég játa, að þetta mun eiga nokkuð langt í land, sérstaklega þegar á það er litið, að enn eru ekki til viðunandi kennslubækur einu sinni ein í sumum höfuðgreinum. Það er t.d. enginn efi á því, að Íslandssaga sú, sem kennd er, er út af fyrir sig góð bók, en hún nær allt of skammt, þannig að talið er, að að mestu leyti sé óskrifað um allt tímabilið frá 1374. Slík fræðsla er vitanlega með öllu ófullnægjandi, og úr þessu þarf mjög skjótlega að fara að bæta. En það hefur verið sá trafali í umbótum í þessum efnum, að ekki hefur verið hægt að greiða viðunandi ritlaun fyrir bækur, og þess vegna hafa menn verið sýnu tregari en ella til þess að taka það starf að sér. Og það er einmitt ein breytingin, sem við ætlumst til að gerð sé, að svipuð ritlaun verði veitt fyrir störf í þágu þessarar útgáfu og tíðkanleg eru almennt í landinn. Og það er í raun og veru vonlaust að fá skaplegar bækur til frambúðar, nema þessu skilyrði sé hægt að fullnægja.

Þá verður einnig að játa, að bækurnar hafa hingað til verið ákaflega fábreyttar að ytri búnaði og sannast sagt svo, að úr hófi hefur keyrt. Að vísu er það rétt, að ekki hentar óhóf í þessum efnum, en vitanlega er það nauðsynlegt fyrir börn, ekki sízt þau yngstu, og verður þeim mun nauðsynlegra eftir því, sem fleira dregur áhugann frá námi, að bækur séu sæmilega úr garði gerðar, séu skreyttar myndum, helzt litmyndum, fyrir þau yngstu, eins og tíðkanlegt er um barnabækur. Slíkt gerir námið miklu fýsilegra fyrir börnin en ella.

Hér kemur einnig það til, að það er að mínu viti beint óhollt varðandi uppeldi barna að láta þau umgangast bækur eins og einskisverðan hlut, sem ekki eigi að halda upp á og fara vel með. Flestir fullorðnir menn vita, að fátt veitir þeim meiri ánægju og unað, svo að ekki sé talað um fræðslu, heldur en góð bók. Því miður lifum við á þeim tímum, þegar margt óhollt keppir við góðar bækur, og þess vegna er full ástæða til þess með útbúnaði bókanna að gera þær þannig úr garði, að þær verði strax frá upphafi eftirsóknarverðar. Við könnumst líka við það, að áður fyrr geymdi gamalt fólk jafnvel stafrófskver sín, sem það hafði lært að lesa á, og hafði þá bók í heiðri alla ævi. Með þeim lélega frágangi, sem tíðkazt hefur að undanförnu, hafa fáir haft löngun til þess að halda í þessar bækur, heldur hafa þær gengið manna á milli og veríð af fæstum mikils metnar. Ég tel það því verulegt atriði í þessu sambandi, að bækurnar verði betur úr garði gerðar en verið hefur fram að þessu, þó að því verði nokkur kostnaður samfara.

Þá er ætlazt til þess, að sérstakur framkvæmdastjóri verði ráðinn fyrir þessari útgáfu, en hingað til hefur það starf hvílt á framkvæmdastjóra ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg. Ég vil taka það skýrt fram, að hann hefur unnið mjög gott starf, enda er hann af öllum viðurkenndur mjög hæfur og óeigingjarn maður. Það er því sízt ætlunin að halla á hann með því að ráðgera nú, að sérstakur maður verði ráðinn til þessa starfa. En hvort tveggja er, að hann er maður nokkuð við aldur — mun vera nærri 65 ára — og er því ekki að búast við því, að hann, Steingrímur Guðmundsson, gegni þessu starfi úr þessu mjög lengi. En aðallega kemur þó hitt til, að með aukinni starfrækslu verður það óvinnandi verk fyrir hvern mann að hafa þetta í hjáverkum. Ef frv. nær að meginefni fram að ganga, er ætlazt til þess, að starfið verði svo mikið, að það nægi einum manni að veita því forstöðu. Og ég vil taka það fram, að Steingrímur Guðmundsson er mjög samþykkur þeirri breytingu og telur, að það sé ekki fært fyrir sig að bæta á sig störfum í þessu sambandi frá því, sem verið hefur.

Þá er ein lítil breyting, sem ekki skiptir miklu máli og ætti frekar að vera til sparnaðar, en ég geri ráð fyrir að ráði þar þó litlum úrslitum, og hún er sú, að héðan í frá á hvert barn einungis að fá eitt eintak af hverri bók ókeypis. Hingað til munu menn nokkurn veginn hafa getað gengið í þessar bækur og fengið eintakafjölda — a.m.k. víðast hvar — eftir því, sem þá hefur lyst. Við teljum, að það sé ekki þýðingarlaust uppeldisatriði, að ef barn vill fá fleiri en eina bók, verði að greiða fyrir það sérstaklega, slíkt muni stuðla að því, að betur sé farið með bækurnar, þær séu í heiðri hafðar, heldur en ef þarna er þannig á haldið, að hægt sé að ganga í stabbann, ef svo má segja, og taka þaðan burt takmarkalaust.

Þá er ætlazt til þess, að yfirstjórn útgáfunnar sé nokkuð breytt, þannig að námsbókanefnd á að vera skipuð fimm mönnum, og eiga þar að sitja tveir menn tilnefndir af Sambandi íslenzkra barnakennara, einn samkv. till. prestastefnu Íslands, fræðslumálastjóri og einn maður skipaður af menntmrh. án tilnefningar. Það er fjölgað um tvo í nefndinni, bætt við manni frá prestastefnunni og fræðslumálastjóra. Fræðslumálastjóri hefur starfað með nefndinni hingað til, og eðlilegt sýnist vera, að hann eigi beint sæti í henni og hafi þar atkvæðisrétt. Og mér sýnist einnig eðlilegt, að fulltrúi prestanna fengi þarna sæti, svo ríkan þátt sem þeir hafa átt í fræðslumálum hér á landi, og að mínu viti eðlilegt, að þeir eigi þar einnig ríkan þátt í um alla framtíð.

Hins vegar hefur því verið breytt, að nú á Samband íslenzkra barnakennara að tilnefna tvo, nefndi aðeins einn áður, en samband framhaldsskólakennara nefndi annan. Meðan ætlazt er til, að starfið sé einungis fyrir barnaskólana, er eðlilegast, að samband barnakennara tilnefni tvo menn. Ef því yrði breytt og þetta látið taka til framhaldsskóla einnig, er eðlilegt, að framhaldsskólakennararnir tilnefni og mann af sinni hálfu. Fyrr sýnist naumast vera ástæða til þess.

Loksins er sú meginbreyting gerð varðandi kostnað af þessu, — kostnaðurinn hlýtur að aukast mjög verulega, ég vil taka það ótvírætt fram, þótt ekki sé hægt að gera um það nákvæmar áætlanir, — en þá er ráðgert í 7. gr., að kostnaður af framkvæmd laga þessara greiðist að 1/3 hluta úr ríkissjóði og að 2/3 hlutum með sérstöku námsbókagjaldi, sem lagt skal á hvern þann, sem hefur á framfæri sínu eitt eða fleiri börn við skyldunám samkv. 1. gr. Það er ætlazt til þess, að námsbókagjaldið haldist og verði lagt á sömu aðila og verið hefur, en sú breyting verður, að það á að breytast, hækka eða lækka, eftir því sem raunverulegur kostnaður verði, og er þá ráðgert, að Alþ. ákveði hverju sinni í fjárl. framlag ríkisins og námsbókagjald, hvort tveggja með hliðsjón af kostnaði við útgáfuna á næsta ári á undan og fyrirhuguðum framkvæmdum á fjárhagsárinu. Það hefur sem sagt komið í ljós, að fast gjald dugir ekki. Það hefur ekki fengizt breyting á gjaldinu eins og þörf hefur verið, og afleiðing þess hefur orðið sú, að útgáfan hefur smávisnað upp, þangað til nú er í algert óefni komið. Það sýnist þess vegna ekki annað úrræði betra en að um þetta verði tekin ákvörðun af Alþ. á hverju ári, miðað við fengna reynslu næst á undan og þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru, og er þá handhægast, að sú ákvörðun sé tekin í sambandi við setningu fjárlaga. En vegna þess að mér er ljóst, að kostnaður hlýtur að vaxa verulega samkvæmt þessum lögum, ef samþykkt verða, eins og ég vona, þótti mér rétt að létta nokkru af kostnaðinum af aðstandendum, þannig að ríkið borgaði 1/3 af kostnaði. Um þetta má auðvitað deila, hvernig eigi að koma þessu fyrir í einstökum atriðum, en ég vona þó, að menn viðurkenni, að í rann sé þetta frv. til verulegra bóta. Ég skal taka fram, að það er mun styttra en lögin eru í því formi, sem þau nú eru. Ég hygg þó, að það sé ekkert af efnisatriðum, er máli skipta, fellt niður, heldur einungis tekinn burt óþarfa orðafjöldi, sem að litlu gagni kom, þannig að í frv. séu öll þau meginatriði, sem á þurfi að halda.

Að svo mæltu vonast ég til þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr., og legg til, að það verði fengið hv. menntmn. til meðferðar.