21.02.1956
Efri deild: 73. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

128. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þó að það væri upprunalega hugsun mín sem formanns n. að taka þetta mál ekki fyrir fyrr en hv. þm. Seyðf. væri kominn í bæinn, en hann hefur mest fjallað um þessi mál undanfarið, gerði ég það nú samt, eftir að ráðh. hafði kallað eftir því og óskað, að farið yrði að afgreiða það. Og n. hefur þá afgreitt það og orðið sammála um afgreiðsluna.

Það var í fyrra prentað sem þskj. 472 nál. allsherjarnefndar Nd., þar sem teknar voru fram þær reglur, sem nefndirnar í Alþingi, allsherjarnefndirnar, sem um þetta mál hafa fjallað, höfðu komið sér saman um. Þeim reglum var nú reynt að fylgja sem allra nákvæmast, og skal ég koma að því, þegar ég fer að tala nánar um frv. En það hefur ríkisstj. líka gert við undirbúning frv. og ekki tekið upp þar neina menn, sem koma í bága við þessar reglur, sem hafa verið að skapast á undanförnum árum og koma fram fullsteyptar í nál., sem ég nefndi áðan frá síðasta þingi, nr. 472.

Það voru höfð þau vinnubrögð í n., að það var farið í gegnum skjöl hvers einstaks manns og aðgætt nákvæmlega, hvort nokkuð væri þar í veginum og hvernig ástatt væri, bæði hvað dvöl hér á landi snertir, hvað hegningarvottorð snertir o.s.frv., og eftir að n. hafði gert það, fannst ekkert athugavert við þá menn, 23, sem á frv. voru, eins og það kom frá hæstv. ríkisstjórn. Allir þeir menn eru þess vegna kyrrir á frv. nú, eins og það liggur fyrir á þskj. 231. Þó hefur verið gerð sú breyting á, að mönnunum hefur verið raðað eftir stafrófsröð og tveir mennirnir teknir með þeim nöfnum, sem þeir hafa verið skírðir, eftir þeim skírnarvottorðum, sem fyrir liggja, en ekki eftir þeim nöfnum, sem þeir standa í frv. ríkisstjórnarinnar, þar sem ekki liggur fyrir, að þeir hafi skipt um nafn í sínu heimalandi eða gifzt eða neitt gert, sem hafi breytt um þeirra skírnarnafn. Síðan var farið á sama hátt yfir gögn hvers einstaks manns, sem hafði sótt um ríkisborgararétt og ekki hafði verið tekinn upp hjá hæstv. ríkisstjórn. Þá kom í ljós, að ein kona var búin að vera gift íslenzkum manni í þrjú ár 18. janúar núna í ár, og þess vegna uppfyllir hún nú þegar þriggja ára giftingaraldurinn, sem samkomulag var um í fyrra að setja sem lágmark fyrir giftar konur. Þessari konu var bætt inn í frv. og stendur núna sem nr. 21 í 1. gr. frv., eins og hún nú liggur fyrir á þskj. 390. Þá voru þrjár konur, sem á þessu ári verða búnar að vera giftar í þrjú ár, en eru ekki núna búnar að vera giftar svo lengi. Þeim var öllum hafnað í fyrra, en nú var það samkomulag hjá n., og um það talaði ég líka við tvo menn úr n. í Nd., þá 1. þm. Árn. og þm. Siglf., sem eru í allshn. þar, og þeim þótti rétt að taka þessar konur upp í frv. og láta þær fá ríkisborgararétt frá þeim degi, að þær væru búnar að vera giftar í þrjú ár. Þessar konur eru nr. 7 og 8 á þskj. 390 og svo 20. Þessar þrjár konur — þetta eru allt konur uppi í sveit — öðlast þó ekki ríkisborgararétt fyrr en þann dag, sem þær eru búnar að vera þrjú ár í hjónabandi með íslenzkum mönnum, ef þær lifa það, og sá dagur er tekinn inn í frv. Þá er loks dýralæknir, sem er dýralæknir í Rangárvallahéraði og býr á Hellu, með sína konu. Hann sótti um að fá að verða íslenzkur ríkisborgari í fyrra og lagði þá fram meðmæli og undirskriftir frá eitthvað milli 160 og 170 manns úr sýslunni. Þá var hann ekki búinn að vera hér á landi það lengi, að það þætti ástæða til þess að láta hann fá íslenzkan ríkisborgararétt. Nú er hann búinn að vera á sjötta ár, og eins og lögin um ríkisborgararétt voru, áður en þeim var breytt seinast, var gert ráð fyrir því, að maður, sem væri fimm ár í þjónustu ríkisins hér á landi, hefði rétt á því að fá ríkisborgararétt. Þetta var tekið upp í lögin eins og þau voru, þegar þeim var breytt, og þetta er ekki lagaákvæði núna. Hins vegar ber á það að líta við þennan mann, að hann var orðinn hátt settur embættismaður í þýzka hernum, og hann kom og hjálpaði okkur, þegar við vorum í stökustu vandræðum með dýralækna. Það erum við reyndar enn, því að af dýralæknisembættunum, sem til eru í landinu, eru átta óveitt, af því að það vantar í þau menn. Það getur þess vegna vofað yfir hvenær sem er, að þessi maður verði kallaður af landi burt, nema hann fái hér ríkisborgararétt, og þá bætist eitt óveitt dýralæknisembætti við. Okkur fannst þess vegna eins og sakir stæðu, að það væri rétt að veita honum íslenzkan ríkisborgararétt, og höfum tekið hann upp í frv. Þau hjónin eru víst nr. 4 og 5 í 1. gr. frumvarpsins, eins og hún liggur fyrir á þingskjali 390.

Þetta eru breytingarnar, sem við höfum gert á frv. Við höfum raðað mönnunum, sem á stjfrv. voru, eftir stafrófsröð og leiðrétt nöfn tveggja, sem reyndust ekki rétt. Við höfum bætt inn í einni konu, sem er búin að vera þrjú ár í hjónabandi með íslenzkum manni 18. jan. Við höfum bætt inn í þremur konum, sem búnar eru að vera í hjónabandi með íslenzkum munum í þrjú ár, áður en næsta Alþ. kemur saman, og sett sem aths. við, hvaða dag á árinn þær öðlist ríkisborgararétt. Og við höfum tekið upp dýralækninn á Hellu og konu hans. Aðrar breytingar höfum við ekki á frv. gert.