28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Bjarni Benediktsson sagði hér í kvöld, að það yrði að sleppa mörgu, t.d. væri ekki hægt að gera samanburð á úrræðum flokkanna. Einhverjum hefði nú máske fundizt, að sjálfstæðismenn hefðu átt að segja ögn færri slúðursögur, en reyna heldur að gera samanburð á úrræðum flokkanna, ef þeir þá hefðu einhver úrræði. En það er nú lóðið. Þessar umr. hafa orðið að hinni stærstu þrotabúsyfirlýsingu fyrir þá, einmitt vegna þess, að þeir hafa ekki komið fram með sín úrræði.

Hv. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, sagði, að það væri álitshnekkir að taka kommúnista í ríkisstjórn. Allir vita, að sjálfstæðismenn vildu endilega mynda stjórn með Alþb. eftir síðustu kosningar.

Hv. sami þm. viðurkenndi, að útsvörin í Reykjavík hefðu hækkað um 30 millj. kr. að meðaltali á ári síðustu 3 árin. Það var allt í lagi. En 8 millj. kr. skattur á milljónamæringana, hann á að setja þjóðlífið úr skorðum eftir málflutningi sjálfstæðismanna hér undanfarna daga.

Eitt það furðulegasta, sem komið hefur fram í þessum umr., er þjóðsagan um lánstilboð í Sogið, sem ekki hafi verið notað. Á að trúa því, að Ólafur Thors eða einhver annar ráðherra í ríkisstj. hafi haft tilboð um lán, sem hann hafi haldið leyndu fyrir ríkisstj.? Á að trúa því, að form. Sogsstjórnarinnar, Gunnar Thoroddsen, hafi verið látinn senda menn sína úr einu landi í annað árangurslaust, ef fyrir lá nothæft lánstilboð til Sogsvirkjunarinnar? Á að trúa því, að borgarstjórinn í Reykjavík og hans félagar hafi verið látnir búa við þá martröð, að alltaf nálgaðist síðustu forvöð í Sogsmálinu, en féð vantaði, ef lánstilboð lá fyrir? Nei, ég held það sé ofvaxið að telja mönnum trú um annað eins og þetta.

Hv. 1. þm. Rang., Ingólfur Jónsson, sagði, að það væri rangt, að sjálfstæðismenn hefðu reynt að spilla fyrir erlendum lántökum. Við hvað hefur þá sá málflutningur sjálfstæðismanna verið miðaður, að með lánum til Íslands væri verið að borga aðgöngumiðana fyrir kommúnistana að stjórnarráðinu á Íslandi, eða sá málflutningur, að Ísland hafi alls ekki getað fengið nokkurt lán, ekki einu sinni 4 millj. dollara, nema með því að verzla með varnarmálin? Og í hvaða skyni var þessi þokkalegi boðskapur sendur látlaust í önnur lönd eftir öllum þeim leiðum, sem Sjálfstfl. hafði yfir að ráða.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það þyrfti mikla dirfsku til þess að halda því fram, að Sjálfstfl. ætti þátt í því að vekja nú hækkunarkröfur í landinn. Ég segi: það þarf mikla fyrirlitningu fyrir sannleikanum til þess að segja þetta, og það er hraustlega gert að segja þetta upp í opið geðið á allri þjóðinni, sem er áhorfandi og áheyrandi svo að segja daglega að ósvífinni niðurrifsbaráttu sjálfstæðismanna, sem einmitt gengur í þessa átt. Ég skora á menn úti um landið að fylgjast með starfi þeirra sendiboða, sem Sjálfstfl. hefur nú sent út af örkinni til þess að reyna að koma af stað hækkunarkröfum.

Menn segja hér, að það hafi verið ósamræmi í framkomu ríkisstj. í varnarmálunum. Þetta er með öllu rangt. Það hefur verið fullt samræmi í afstöðu ríkisstj. í varnarmálunum. Það hefur aðeins verið tekið tillit til þess, hvernig ástæður hafa breytzt í heimsmálunum, eins og vitanlega hver skyni borinn maður hlaut að gera. Á hinn bóginn hefur það komið skýrt fram hjá Sjálfstfl. í þeim umr„ sem fram hafa farið undanfarið um varnarmálin, að þeir ætla sér ekki að standa á þeirri stefnu, sem mörkuð var, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið.

Stjórnarandstæðingar hafa talað hér um sparnað, og því hefur verið svarað, en ég vil aðeins bæta því við, að aðeins einu sinni hefur það komið fyrir í sögu landsins, svo að mér sé kunnugt, eða a.m.k. í sögu síðustu áratuga, að meira hafi verið tekið út úr sparisjóðum árlangt og bönkum en inn í þá var lagt, og það var árið 1946, enda hafði form. Sjálfstfl., hv. þm. G-K., þá leikið verðbólgulistir sínar ósleitilega, eins og ég lýsti hér áður í kvöld, og lagt rækilega grundvöllinn að því „trausti“ (í gæsalöppum), sem í þessu speglaðist.

Þá hefur verið rætt hér nokkuð um bankamálin. Sannleikurinn er sá, að það hefur helzt orðið ráðið af málflutningi stjórnarandstæðinga á hv. Alþingi, að þeir séu í sjálfu sér samþykkir hvoru tveggja því, sem gera á í bankamálunum, sem sé því að skapa seðlabankanum meiri sérstöðu og sjálfstæðari aðstöðu og að gera Útvegsbankann að ríkisbanka. En samt sem áður hafa þeir hamazt gegn þessum frv. Ástæðan er blátt áfram sú og engin önnur en sú,að af þessum skipulagsbreytingum leiðir, að sú meirihlutaaðstaða, sem Sjálfstfl. hefur skapað sér í tveimur aðalviðskiptabönkum landsins, hverfur úr sögunni. Þetta kalla þeir pólitíska ofsókn og að hér sé gefið óheppilegt fordæmi. Samkvæmt þessari kenningu ætti aldrei að mega gera skipulagsbreytingar á bönkunum, sem hefðu í för með sér nokkra röskun á mannaskipun í yfirstjórn þessara stofnana. Munu flestir sjá fánýti þessarar röksemdafærslu, enda er hún eingöngu af því sprottin, að sjálfstæðismenn vilja ekki missa þá aðstöðu, sem þeir hafa fengið í þessum stofnunum. En hvernig er sú aðstaða fengin? Þar hafa víst ekki legið til grundvallar pólitískar ástæður eða hið pólitíska vald verið notað eða hitt þó heldur. Allir vita, að sjálfstæðismenn hafa skefjalaust notfært sér þá pólitísku aðstöðu, sem þeir hafa haft á undanförnum árum, til þess að sölsa undir sig yfirráð í þessum tveimur aðalbönkum landsins.

Ég held, að það sé alveg vonlaust verk að telja mönnum trú um, að þessar skipulagsbreytingar á bönkunum séu óeðlilegar og að í þeim felist nokkur ofsókn, þó að þær verði til þess, að enginn einn flokkur hafi hreinan meiri hluta í báðum aðalviðskiptabönkum landsins.

Stjórnarandstöðu er skylt að hafa með höndum leiðbeinandi gagnrýni. Stjórnarandstæðingum á Alþingi er skylt að segja, hvað þeim finnst réttara að gera en það, sem stjórnin gerir, ef þeir aðhyllast það ekki. En hvernig hefur núv. stjórnarandstöðu tekizt að uppfylla skyldur sínar í þessu efni? Þeir hafa gersamlega brugðizt kjósendum sínum, landi sínu og þjóð. Þeir hafa engar till. gert um höfuðmálefni landsins. Það er engin heil brú í þeirra afstöðu samanborið við það, sem þeir hafa áður haldið fram. Stefna sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðunni er neikvæð niðurrifsstefna utan lands og innan.

En menn skulu ekki halda, að það sé einhver tilviljun, að forusta Sjálfstfl. hefur svo gersamlega brugðizt. Menn ættu að minnast þess, á hvern hátt farið hefur í hvert skipti, sem Sjálfstfl. hefur haft aðstöðu til þess að taka forustuna í stjórn landsins, eins og rækilega hefur verið rakið í þessum umr.

Innsti kjarni Sjálfstfl. hefur aldrei verið trúr í því að koma hér á jafnvægi í efnahagsmálum eða viljað í raun og veru nokkuð á sig leggja til þess. innst inni hefur þeim öflum, sem þar ráða mestu, verið alveg ósárt um, þótt verðbólguhjólið héldi áfram að snúast. Þeir hafa fundið, hvílíka gróðamöguleika það gaf fyrir þá, sem hefðu aðstöðu til þess að notfæra sér það. Þessi öfl hafa líka fyrir löngu sannfært sig um það, að þeirra gróða þarf ekki að stafa hætta af kauphækkunum, ef þeir hafa bara völdin.

Það eru þessi öfl, sem nú standa fyrir þeirri baráttu, sem háð er í landinu til þess að koma af stað nýrri verðbólguöldu og verðrýrnun peninga. Það á að vinna tvennt í senn, að útvatna skuldir braskaranna, sem undanfarið hafa lifað á því að hafa aðgang að bönkunum, og svo komast til valda.

Ríkisstj. og flokkar þeir, sem hana styðja, hafa átt við ýmsa erfiðleika að etja. Samt sem áður hafa verið stigin stór skref til bóta og fram á við. Miklar tilraunir hafa verið gerðar til þess að stöðva verðbólguna í samvinnu við stéttasamtökin í landinu. Hefur þar verið reynt að byggja upp vígstöðvar gegn niðurrifsöflum, sem þar að sækja, og stendur sú orrusta yfir.

Kjör sjávarútvegsins hafa verið bætt, bæði þeirra, sem reka útveginn, og fiskimanna. Verið er að efna til kaupa á nýjum, glæsilegum fiskiskipum og nokkur þegar keypt. Aðstaða landbúnaðarins til útflutnings á landbúnaðarafurðum hefur verið stórlega bætt, stórmerk ný löggjöf sett til þess að auka stuðning við nýbýlamyndun og ræktun á þeim býlum, sem skemmra eru á veg komin í ræktunarmálum, og veðdeild Búnaðarbankans séð fyrir nokkru lánsfé árlega á næstu árum. Tvöfaldað hefur verið ríkisframlag til raforkumála dreifbýlisins. Fiskveiðasjóður hefur verið efldur. Atvinnuaukningarfé hefur verið aukið, og kemur það einkum til góða atvinnulífi kauptúna og kaupstaða úti um land.

Útvegað hefur verið lánsfé til Sogsvirkjunar og þar með bjargað stórkostlegu áfalli á elleftu stundu. Sett ný löggjöf um íbúðalán, sem á að byggja upp til frambúðar mikinn lánasjóð, og er þar byggt á grunni, sem lagður var að forustu framsóknarmanna, þegar þeir fóru með félagsmálin. Sett ný löggjöf um bankamálin, sem tryggir seðlabankanum óháðari aðstöðu en verið hefur til þess að hafa heilbrigð áhrif á peningamálin og jafnframt kemur í veg fyrir, að einn flokkur geli ráðið yfir tveimur aðalviðskiptabönkum landsins. Lögfestur stóreignaskattur, sem á að renna til þess að styðja í búðalánasjóð og veðdeild Búnaðarbankans. Stórmerk löggjöf sett til stuðnings menntun og vísindum. innleiddur skyldusparnaður ungs fólks til heimilamyndunar. Hika ég ekki við að fullyrða, að þar er á ferðinni eitt hið merkasta nýmæli, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Þetta og fleira hefur verið aðhafzt, þó að ríkisstj. hafi ekki enn þá starfað í heilt ár. Það er ástæðulaust að leyna því, að við mikla erfiðleika er að etja. Aflabresturinn á vetrarvertíðinni verður ekki aðeins þeim útgerðarmönnum og fiskimönnum, sem hlut eiga að máli, þungur í skauti, heldur þjóðinni allri.

Þetta áfall er þegar farið að segja til sín í gjaldeyristekjum þjóðarinnar og veldur miklum erfiðleikum, eins og nærri má geta. Þýðir ekki annað en horfast í augu við, að þetta áfall getur orðið til þess, að erfitt verði að koma ýmsu í framkvæmd, sem menn annars hefðu gjarnan viljað gera.

Þá er allri þjóðinni ljóst, að miklir erfiðleikar eru á útvegun fjármagns til þess að halda áfram með fullum hraða sumum af þeim framkvæmdum, sem búið var að efna til, án þess að séð væri fyrir fullnægjandi fjármagni til þeirra. Verður ef til vill að draga úr sumum af þeim framkvæmdum og fresta þeim nokkuð. En það þýðir á engan hátt, að frá þeim verði horfið. Vandamálin verða leyst, ef stjórnin fær starfsfrið, en það tekur vitaskuld sinn tíma að ráða fram úr þeim. Þau verða ekki leyst öll í senn á einum degi.

Öll þjóðin þekkir þá baráttu, sem sjálfstæðismenn halda uppi til þess að reyna að ná völdum aftur. Henni hefur verið rækilega lýst hér í þessum umræðum, og mun fátt ofsagt í þeim fræðum. Það er víst óhætt að fullyrða, að mikill meiri hluti þjóðarinnar álítur sízt af öllu ástæðu til, að sjálfstæðismenn fái þau laun frammistöðu sinnar, að þeir verði leiddir til valda á næstunni. Það er víst enginn snefill af vafa um það, að fjölmargir af þeim, sem af einhverjum ástæðum undanfarið hafa léð sjálfstæðismönnum brautargengi, munu ekki gera það framar, eftir að sjálfstæðismenn hafa nú sýnt svo rækilega í stjórnarandstöðunni, hvert þeir eru að fara.

En menn verða þá að gera sér það ljóst, að til þess að áætlun sjálfstæðismanna misheppnist, verða núv. stjórnarflokkar að vinna saman áfram og ekki víla fyrir sér að gera þær ráðstafanir, sem þarf að gera, til þess að hægt sé að halda þjóðarbúskapnum í góðu horfi. Takist sjálfstæðismönnum að brjóta skarð í víglínurnar og skemma árangur þeirra ráðstafana, sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um og framkvæmt, verður að mæta því með nýjum ráðstöfunum, en ekki með því að leggja upp laupana. Þeim mun ferlegri fjarstæður sem íhaldið finnur upp á í valdabaráttu sinni, þeim mun fastar verða vinnandi framleiðendur og önnur alþýða landsins að þjappa sér í samstarfinu til þess að tryggja kraftmikinn umbótabúskap. Og þótt sumt verði úr skorðum fært, þá er að gera nauðsynlegar ráðstafanir á móti.

Vanda getur að höndum borið og svo farið, að hrint verði út í, að fleira verði að gera en gott þykir. En allt verður að skoðast í því ljósi, að bezt er, að samtök hins vinnandi fólks til sjávar og sveita geri það, sem gera þarf, veri það létt eða erfitt, og hiki ekki við að sjá málefnum landsins borgið og taka á sig þá ábyrgð, sem til þess þarf, enda með því móti bezt tryggt, að svo vel verði fyrir öllu séð sem verða má. Góða nótt.