07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við hina rökföstu ræðu hv. þm. Borgf. (PO), en þó voru það nokkur ummæli í ræðu hæstv. sjútvmrh., sem gefa mér tilefni til stuttrar athugasemdar. Sú ræða, sem hæstv. ráðh. flutti, skaut nokkuð skökku við það, sem fram er tekið í grg. frv., eins og líka hv. þm. Borgf. benti greinilega á. Ég verð að játa það, að mér fannst ræða hæstv. ráðh. bera vott um mikla hugarfarsbreytingu í málinu, svo framarlega sem fyrri ræða hans lýsti innri manninum, sem ég þó ævinlega hef leyft mér að draga í efa, einnig vegna ummæla, sem ég hef heyrt eftir honum um þetta mál fyrr og síðar.

Í ræðunni, sem hæstv. ráðh. flutti hér í fyrradag, var eiginlega megináherzla lögð á það, að hann vildi ekki í einu né neinu spilla samtökum útvegsmanna, þeim sem hann þó hefur í grg. frv. talið að mættu ekki vera svo einráð um þessi mál sem þau hafa verið. Hann sagði auk þess, að sölusamlag íslenzkra framleiðenda, sem mest hefur verið gert að umræðuefni í þessum umr., hefði margt vel unnið. Og hann sagði í þriðja lagi, að hann hefði ekkert illt um þetta fyrirtæki sagt og að það væri, í fjórða lagi, alger misskilningur, sem minni hl. sjútvn. hefði sagt við þessa umr., að nú stæði til að veita mörgum útflutningsleyfi í stað eins áður.

Ég vil nú leyfa mér að minna á það, sem þessi hæstv. ráðh. hefur um þetta sagt áður, ekki aðeins það, sem stendur í grg. og ég mundi hafa lesið hér upp, ef ekki hv. þm. Borgf. nú áðan hefði gert það, heldur einnig það, sem hæstv. ráðh. sagði í þeim ræðum, sem hann um þetta flutti við fyrri umr. málsins. Þá sagði hæstv. ráðh.: „Það er álit flestra, að þetta skipulag geti ekki verið til frambúðar, það verði að takast fastari tökum, og margir eru á þeirri skoðun, að hér hafi ríkt hið mesta misrétti.“ Ráðh. sagði í öðru lagi: „Enn fremur ætti betur en nú að vera hægt með þessari nýju skipan að koma í veg fyrir það, að um misbeitingu á valdi einstakra samtaka geti verið að ræða.“ Hann sagði í þriðja lagi, að „nú ber að veita öllum aðilum útflutningsleyfi, og geta þá að sjálfsögðu jafnt komið til greina samtök fiskframleiðenda, einstakir framleiðendur eða aðrir, sem með sölu á sjávarafurðum hafa að gera, um að fá þessi útflutningsleyfi.“ Og í fjórða lagi sagði ráðh., að þeir, þ.e.a.s. heildarsamtökin, „verði þrátt fyrir allt að víkja til hliðar með leyfi fyrir öðrum, ef aðrir geta staðið síg betur í sambandi við söluna heldur en sambönd framleiðenda kunni að gera í einstökum tilfellum.“ Allt þetta er orðrétt upp úr ræðum hæstv. ráðh. Hér er um algera breytingu að ræða nú, þegar hann segir: Ég hef hvergi viljað gera þessum samtökum mein. Ég hef þvert á móti talið þau vinna vel sitt verk, og ég hef ekkert illt um þau sagt. — Ég veit ég þarf ekki að endurtaka eða benda mönnum skýrar á en ráðh. hefur sjálfur gert með sínum orðum, að hér er það tekið aftur í seinni ræðunni, sem sagt var í fyrri ræðunni eða fyrri ræðunum.

Ég get vel skilið, hvað það er, sem þessari tónbreytingu veldur. Síðan hæstv. ráðh. flutti sína fyrri ræðu, hafa skeð þeir atburðir, sem rétt er að séu skráðir í þingtíðindunum. Stjórn þessara samtaka, S.Í.F., hafði borizt fsp. frá sjútvn. um, hverjum augum hún liti á fyrirhugaða framkvæmdabreytingu, því að lagabreytingin hefur, eins og er margtekið fram, ekki neina verulega þýðingu í þessu sambandi. Stjórnin sagði um það sitt álit, en taldi, að mínu viti alveg réttilega, að langtum eðlilegra og sterkara væri að láta framleiðendur sjálfa einnig kveða upp sinn dóm. Nú stóð þannig á, að það var erfitt um samgöngur, líka vegna þess vinnuófriðar, — ég sagði ekki vinnufriðar, — sem þá ríkti í landinu, þannig að flugsamgöngur voru stöðvaðar, og auk þess var að öðru leyti mjög stirt um samgöngur. Fresturinn til að boða fundinn var mjög stuttur. Samt sem áður er þessi fundur mjög fjölsóttur. Þegar á fundinn kemur, er spurt um það, hverjir óska eftír óbreyttri skipan, þ.e.a.s. ekki því, eins og hæstv. ráðh. boðar, að sá, sem í einstökum tilfellum geti boðið betur en annar, skuli mega kljúfa samtökin, heldur hverjir telji að sínum hag sé bezt borgið með óbreyttri skipan. Um þetta er spurt. Og af 998 atkvæðum, sem fram komu á fundinum, eru það einir 4, sem óska eftir breyttri skipan. Og þetta er ekki til að vera augnaþjónar þeirra manna, sem þessum samtökum stjórna, til þess kosnir af framleiðendum sjálfum, því að þetta er við leynilega atkvæðagreiðslu. Og um þessi 4 atkvæði af þúsundinu eða 998 er svo það að segja, að þegar á hólminn kemur, segja þeir einnig: Við viljum samtökin óbreytt, — því að eins og hér hefur verið sagt frá áður, mæla lög þessara sölusamtaka þannig fyrir, að þeir, sem ekki óska eftir að vera áfram þátttakendur í þeim, eiga að segja til um það fyrir i. marz árlega, og geri þeir það ekki, þá eru þeir bundnir. Einnig þessir fjórir af 998 brugðust vináttunni við hæstv. ráðh., þegar á þann hólm kom, að þeir í alvöru áttu að segja: Vil ég standa ábyrgur fyrir sölu minnar vöru utan við þessi samtök, eða vil ég það ekki? — Einnig þeir létu undir höfuð leggjast að óska þess frelsis, sem þeir áttu kost á, en fólu áfram hagsmuni sína undir verndarvæng þessa margrógborna fyrirtækis.

Um þetta vil ég ekki segja annað en það, að það er ástæða, eins og hv. þm. Borgf. sagði, að gleðjast yfir hugarfarsbreytingu hæstv. ráðh. og að hann hefur látið sér nokkuð segjast við þá ábendingu og áminningu, sem hann fékk hjá framleiðendunum. Batnandi manni er bezt að lifa.

Ég vil að öðru leyti aðeins leiðrétta örfá atriði og þó ekki fara í neinn sparðatíning, því að þetta mál er að verða nokkuð þrautrætt, og eins og hv. þm. Borgf. sagði, skýrustu ræðuna um þetta mál hafa menn flutt með sinni afstöðu til þessara sölusamtaka, þar sem allir undantekningarlaust fela þeim áfram sína forsjá. Og ég bæti því einnig við, sem ég sagði hér í fyrradag við umr., að ef þessi nýja skipan á að komast á, tel ég heldur betur, að hún komi fyrr en síðar. Ég hef þess vegna enga tilhneigingu til málþófs eða að ræða annað en það, sem ég tel að mestu skipti um þann misskilning, sem hér er á ferðinni.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mjög áberandi, að við sjálfstæðismenn værum með falsrök í þessum efnum, og það, sem fyrir okkur vekti, væri alveg sérstaklega að hlífa þessum sölusamtökum við, að þau kæmust undir eitthvert meira opinbert eftirlit en þau hefðu verið fram að þessu. Ég skal nú fyrir mitt leyti gefa þá hreinskilnislegu játningu, að ég tel enga þörf á öðru eða meira eftirliti en framleiðendurnir sjálfir hafa með því að kjósa þá og þá eina menn í stjórnina, sem þeir trúa til þess að fara heiðarlega og vel með sín mál. En í öðru lagi bendi ég á, að ráðh. getur sett án lagabreytinga sín skilyrði. Útvegsmenn svo um það, hvort þeir hlíta þeim. Við skulum koma að því seinna.

Það eru þess vegna ekki nein falsrök hjá okkur sjálfstæðismönnum í þessum efnum. Það eru röng rök - ég vil ekki kalla þau falsrök — hjá hæstv. ráðh., þegar hann lætur sér skjótast yfir vitandi vits eða af umhugsunarleysi, að hann getur haft sama eftirlit að óbreyttum lögum, ef hann telur eftirlits þörf og ef útvegsmenu vilja á annað borð hlíta hans forsjá í þessum efnum.

Okkar rök í þessu máli eru þau, að við viljum, að útvegsmenn hafi frelsi til að ráða sínum málum sjálfir og einir. Útvegsmenn segja: Við óskum eftir því, að á meðan allur þorri okkar sjálfra vill, að samtökin séu ein og salan á einni hendi, þá sé það þannig. — Ráðh. segir aftur á móti í sínum ræðum og í sinni grg.: Þannig skal það ekki vera, því að ef einhver einn einhvern tíma getur boðið betra en heildarsamtökin, þá skal hann fá réttinn. — Þessi hæstv. ráðh. hefur nokkur afskipti haft af atvinnurekstri, og hann hlýtur að skilja það, að ef samtök útvegsmanna, sem eiga að selja hundruð þúsunda skippunda af fiski, eiga að keppa við þann, sem þarf eingöngu að selja, við skulum segja 5 þús. skippund eða 2 þús. skippund, þá er ekkert líklegra en sá, sem er utan við samtökin, einhvern tíma, á heppilegri stundu geti náð hagstæðara verði en hinir geta náð fyrir heildina eða fyrir allt heildarmagnið. En það hlýtur hann líka að vita, að þetta er ekki sönnun og fjarri því, það færir ekki einu sinni neinar líkur að því, að sú skipan sé betri, að fisksalan sé á mörgum höndum heldur en á einni hendi. Hann hlýtur að skilja það. Hann hlýtur einnig að skilja, að tiltölulega lítið magn getur skapað tortryggni hjá kaupendum á erlendum markaði, tiltölulega lítið magn, sem er fyrir utan heildarsamtökin, og þannig getur hið litla stórspillt hinu mikla og stóra. Um þetta eru óteljandi dæmi í okkar eigin verzlunarsögu og ekki sízt einmitt í saltfiskverzluninni.

Í öðru lagi segir hæstv. ráðh. æ ofan í æ það, sem ég áður minntist á, að það sé verið að reyna að koma undan eftirliti þessu fyrirtæki. Ég bendi á, eins og ég sagði, að hann á eftir að færa rök fyrir því, að það vaki fyrir einhverjum að gera það, og ég bendi á, að hann getur sett sín skilyrði án lagabreytingar. En ég bendi í þriðja lagi á, að það er svo útgerðarmannanna sjálfra að segja til um það, hvort þeir vilja fara eftir þeim fyrirmælum eða ekki. Þessi ráðh. hefur engan kjark til að segja við útgerðarmenn, sem nú eru allir í einum samtökum, að ef þeir ekki vilji lúta hans fyrirmælum, þá fái þeir ekki að selja fisk, enda er honum hentast að skilja, hvar hans vald er og hvað langt það nær. Ef útgerðarmenn segja við hæstv. ráðh.: Við þurfum engar leiðbeiningar og enga hjálp, og við erum andvígir því, — þá stendur ráðh. valdvana gegn einhuga samtökum útgerðarmanna. Ég álít hins vegar, að það sé engin goðgá, þó að sá ráðh., sem á að bera ábyrgð á þessu, vilji gjarnan hafa um það meira eftirlit, og ég álít enga ástæðu heldur fyrir útvegsmenn að setja sig á móti því, að hann fylgist með málum þar, þó að ég sem framleiðandi segi: Ég trúi eins vel þeim mönnum, sem ég hef sjálfur kosið, eins og einhverjum, sem ráðh. skipar þar fyrir sína hönd.

Í þriðja lagi hefur hæstv. ráðh. lagt æ ofan í æ megináherzlu á það, að einmitt hjá Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda sé þörf breytinga. Leyfist mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann, sem er meðlimur í þessum samtökum, hafi nokkru sinni gert nokkra tilraun til þess að koma á þeim breytingum, sem hann nú telur æskilegar innan þeirra samtaka? Hefur hann svo mikið sem orðað það á einum einasta félagsfundi? Er ein einasta ræða, sem hann hefur flutt þar, sem bendir til þess? Er eitt einasta orð í einni einustu ræðu hans fluttri í S.Í.F., þar sem hann segir það, sem hann nú er að segja hér á þinginu? Sé það ekki, og það er ekki, fer þá ekki fleirum en mér að verða á að treysta varlega því, sem hann hér er að segja á þinginu? Mundi ekki fleirum en mér verða á að segja: Framleiðandinn Lúðvík Jósefsson trúir þeim, sem standa fyrir þessu fyrirtæki. Hann trúir því, að ríkjandi skipulag sé bezt. En stjórnmálamaðurinn Lúðvík Jósefsson er kominn í þá aðstöðu, að hann þarf að segja í þessum efnum annað en hann meinar.

Hæstv. ráðh. stagaðist enn á ný í sinni ræðu á því, að það væri talsverð óánægja með það skipulag, sem ríkti hjá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. En hvernig í lifandis ósköpunum getur staðið á því, að ef þessi óánægja er svona eins og hann segir og ef hún er þannig einmitt hjá þeim, sem mestra hagsmuna eiga að gæta, að þá skuli hver einn og einasti fiskframleiðandi fela þessum samtökum að selja sinn fisk? Ég skal minna á það, sem hann sagði sjálfur. Ég tel, að þeir, sem eru óánægðir eða ekki alls kostar ánægðir, séu þó ekki svo óánægðir, að þeir vilji fara úr samtökunum. Og ég fyrir mitt leyti, sagði hann, mundi ekki ganga úr samtökunum, þó að ég nú stjórnaði þeim fyrirtækjum, sem ég í bili ekki stjórna, en hef stjórnað og mun kannske stjórna í framtíðinni. En hvað er þá orðið um þessa megnu óánægju? Og hvernig stendur þá á því, að við leynilega atkvæðagreiðslu skuli enginn svo að kalla gefa þessum samtökum áminningu. Slíkt gæti þó verið bending um það, að eitthvað þætti þeim að, þó að þeir svo, þegar á hólminn kemur, vildu ekki eða þyrðu ekki að hætta sínum hagsmunum í annarra hendur. En ekki heldur þetta skeði, eins og ég áðan gat um.

Þá sagði hæstv. ráðh. í fimmta lagi, og bið ég menn að veita því athygli: Hvernig stendur á því, segir hann, að Ólafur Thors skyldi ekki leggja jafnt áherzlu á það, að skreiðareigendur fengju einkasöluaðstöðu eins og saltfiskeigendur? Hvernig stendur á því? Hæstv. ráðh. veit vel hið einfalda svar við þessu. Hið einfalda svar við þessu er það, að saltfiskeigendur hafa sjálfir og allir, eins og er margtekið fram, óskað eftir að standa saman og beðið um að fá sinn rétt. Skreiðareigendur hafa ekki gert það. Og það er ekki mitt frekar en ég álít að það sé hans að neyða framleiðendurna til þess að standa saman. Ég hef marglýst því yfir, að þó að ég hafi sjálfur mesta trú á þeirri skipan, sem nú ríkir, þá mundi mér ekki eitt einasta augnablik detta í hug að halda þeirri skipan við gegn vilja útvegsmanna, að sama skapi eins og ég hef ekki notað mitt vald, meðan ég hafði það, til þess að neyða skreiðareigendur til þess að standa saman. Ég lét skreiðareigendur vita, að ég teldi, að þeirra hagsmunum væri bezt borgið með því móti. Á það féllust margir, en ekki allir. Og þeir urðu þá að ráða og fengu að ráða. Það er enn og æ það sama, sem hefur ráðið hjá mér og ræður hjá okkur sjálfstæðismönnum. Við viljum, að útvegsmenn hafi sjálfir frelsi til að velja þær leiðir, sem þeir telja að þeim henti bezt. Það er það, sem ber á milli, að við höfum hagað framkvæmdum okkar þannig, að útvegsmenn ráða sjálfir. Hæstv. ráðh. segir: Ég vil ekki haga framkvæmdum þannig. Ég vil a.m.k. ekki vernda 95% af framleiðendunum, ef 5% vilja vera utan við þá, — þó að hann viti vel, að þeir 5%, sem eru utan við 95%, gætu stórlega skaðað hagsmuni heildarinnar. Það er þetta, sem á milli ber.

Ég vil svo að lokum segja þetta: Tilgangur þessa frv. er að veita ráðh. það, sem hann kallar siðferðilega aðstöðu til þess að taka völdin af útvegsmönnum. Ég hef aðvarað gegn þessu og ég endurtek þá aðvörun. Ef til vill, og það vil ég leggja áherzlu á að menn taki eftir, ef til vill er þó hættunni afstýrt á þessu ári. En það er ekki vegna þess, að ríkisstj. hafi tekið völdin af útgerðarmönnum. Það er vegna hins, að útgerðarmenn hafa tekið völdin af ríkisstj. með því allir sem einn að skipa sér undir verndarvæng sinna sölusamtaka og fela þeim forsjá sína. Ef, ég endurtek það, ef voðanum er afstýrt að þessu sinni og á þessu árí, þá er það ekki vegna þess, að stjórnin tæki völdin af útvegsmönnum, þótt hún vildi það, heldur af hinu, að útvegsmennirnir tóku völdin af ríkisstj. með því allir sem einn að skipa sér undir verndarvæng sinna eigin samtaka.

Það er ekki hægt fyrir neina stjórn að taka af þeim völdin, meðan þeir allir standa saman. Ég skal svo aðeins að lokum minna hv. frsm. meiri hl. á það, að ég bar upp fyrir hann fyrirspurn sem kunnugan mann í röðum samvinnumanna. Fyrirspurnin var á þá leið: Hvernig getur á því staðið, að Samband íslenzkra samvinnufélaga skuli bréflega tjá sjútvn., að þeir telji, að útflutningurinn á saltfiski eigi að vera í höndum tveggja útflytjenda hið minnsta, en nokkrum dögum seinna, þegar augljóst er, að þetta frv. nær fram að ganga, og öllum vitanlegt, að Sambandið getur orðið útflytjandi um sinn fisk og raunar annarra líka, sem skipa sér undir þeirra merki, þá gerir Sambandið ráðstafanir til þess, að þó að útflytjendurnir yrðu tveir eða fleiri, þá sé það a.m.k. öruggt, að þeir verði ekki annar eða einn af útflytjendunum, — hvernig stendur á þessu?

Ég veit, að margan hv. þm. langar að vita rökin fyrir þessu, og ég endurtek, að hér er ekki um neina sveinstaula að ræða, þetta eru vel æfðir og vel hæfir viðskipta- og verzlunarmenn. Og það er nokkuð undarlegt, að þessir menn skuli, um leið og þeir skriflega lýsa því yfir, að það eigi að vera tveir eða fleiri útflytjendur, gera ráðstafanir til, að þeir geti a.m.k. ekki orðið annar eða einn af útflytjendunum. Þetta getur ekki stafað af öðru en því, að þessir hæfu menn skilja, að það fylgir talsverð áhætta því, ef hér verða margir útflytjendur, tveir eða fleiri, og þeir vilja ekki taka á sig ábyrgðina af þeirri áhættu.