07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera langorður um þetta mál, enda hef ég sem frsm. meiri hl. sjútvn. ekki tilefni til þess að gera verulegar aths. við þær umr., sem hér hafa farið fram í hv. d. af hálfu andmælenda frv. Þær umr. hafa að tiltölulega litlu leyti snúizt um það frv., sem fyrir liggur, og efni þess, heldur hafa þær fallið nokkuð á víð og dreif um kosti þess, að vissar tegundir sjávarvara séu í einkasölu, og um grg. þá, sem fylgdi stjórnarfrv., — en eins og ég sagði, um frv. sjálft hafa þær að litlu leyti snúizt og gefa því ekki verulegt tilefni til frekari umr. af minni hálfu eða meiri hl. nefndarinnar.

Þó vil ég í tilefni af ræðu þeirri, sem hv. frsm. minni hl., hv. þm. Borgf. (PO), flutti hér áðan, segja það, að ég hef litið svo á, og mér virðist það hafa komið fram á undanförnum árum, — þá hafa oft verið samsteypustjórnir hér í landi og af þeim ástæðum kannske fremur tilefni til þess, að það atriði kæmi til meðferðar, — að það væri lítill merkingarmunur á því talinn í lögum, hvort þar er rætt um ráðh. eða ríkisstj. Ég hirði ekki að nefna dæmi þessa. Ef ætlazt er til, að einhver ákvörðun sé tekin af ráðberrunum öllum, en ekki einum ráðh., þá er venjulega notað annað orðalag um þetta. Það ætla ég, að hv. þm. kannist við.

Þá vildi ég nota tækifærið til þess að koma í veg fyrir þann misskilning, sem kynni að geta stafað af ummælum í nál. hv. minni hl. á þskj. 309, 1. bls., en þar er frá því sagt, að þeir minnihlutamenn, sem undir álitið rita, hafi lagt það til, að frv. yrði sent til umsagnar nokkrum aðilum o.s.frv. Þetta kynni e.t.v., þó að minni hl. hafi sjálfsagt ekki ætlazt til þess, að skiljast svo, að við í meiri hl., hv. 2. landsk. (KGuðj), hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og ég, höfum verið því andstæðir, a.m.k. í byrjun, að frv. væri sent til umsagnar. Það var alls ekki svo, að við værum því andstæðir. Hins vegar má vel vera, að það hafi verið stungið upp á því af hv. minnihlutamönnum, öðrum eða báðum, ég man það ekki greinilega, að málið væri sent einhverjum til umsagnar. Eins og hv. þm. kannast við, eru nefndarfundir oft í samtalsformi, en í fundargerð sjútvn. er ekkert bókað um neina sérstaka till. um að leita þessara umsagna né hverjir hafi verið tillögumenn. Ég hygg, að nm. hafi yfirleitt verið því hlynntir, að málið vri sent til umsagnar, enda er það venja, ef ekki þarf að hraða málinu því meira. Og ef ég man rétt, þá vorum við í félagi um það í n. að ákveða það, þegar þar að kom, hvaða aðila skyldi velja til þess að hafa málið til umsagnar.

Ég vildi aðeins geta um þetta til þess að koma í veg fyrir misskilning, þó að vera megi, að ummæli hv. minni hl. gefi ekki beinlínis tilefni eða hafi ekki af þeirra hálfu verið til þess ætluð að koma af stað slíkum skilningi.

Hitt er svo það, að það er annað mál, hvort nefndir telja rétt og eðlilegt að senda frumvörp til umsagnar eða hvort þær telja ástæðu til þess að fara eftir till. þeirra, sem umsagnir gefa um mál, enda er það nú svo, að í þessu tilfelli, sem hér er um að ræða, er það ekki hægt, þar sem umsagnir voru ekki samhljóða.

En ég minnist þess t.d. í umr. hér, sem fram fóru í þessari viku, að þá var þar mál til afgreiðslu og hafði verið í n., og ég heyrði það í umr., að n. hafði leitað umsagnar eins aðila, sem var embættismaður ríkisins, og n. hafði síðan, eftir að umsögnin kom, ákveðið afstöðu sína, ekki eins og lagt var til í umsögninni, heldur beint gegn því, sem þar var lagt til af þeim, sem spurður hafði verið. Slíkt kemur vitanlega oft fyrir, og er ekkert óeðlilegt við það, að nefndir þingsins sæki ekki afstöðu sína til þeirra, sem gefa umsagnir um málin. Það, sem til þeirra er verið að sækja, eru upplýsingar og rök með og móti málunum, en vitanlega verða nefndir og einstakir nm., eins og þm. yfirleitt, að taka sína afstöðu. Það eru þeir, sem ábyrgðina bera á henni og á lögum, sem sett eru, en ekki aðilar, sem beðnir eru um upplýsingar og umsagnir.

Ég hef látið þessi orð falla, vegna þess að það er eins og sums staðar hafi komið fram einhvers konar undrun yfir því, að meiri hl. n. skuli hafa tekið afstöðu til þessa máls, sem er önnur en afstaða meiri hl. þeirra aðila, sem umsagnir létu í té. Það er eins og einhverjir búist við því, að vinnuaðferð í n. á Alþingi sé sú, ef margir eru beðnir umsagnar, að umsegjendurnir séu látnir greiða atkvæði um það, hvaða afgreiðslu málin eigi að fá. Slíkt kemur vitanlega ekki til greina, hvorki í þessu máli né öðrum.

Ég vil benda á það líka í sambandi við þá, sem mælt hafa með og móti þessu frv., að meðal þeirra, sem ekki hafa mælt gegn frv., eru ákaflega fjölmenn samtök í landinu.

Það hefur í þessum umr. nokkuð sérstaklega verið rætt um einn þann aðila, sem hefur með höndum útflutning á sjávarafurðum, þ.e.a.s. Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, sem undanfarið hefur haft einkaútflutning á vissri vöru, og því hefur verið haldið fram af hv. þm. G-K. (ÓTh), að á fundi, sem Sölusambandið hélt nýlega í tilefni af framkomu þessa frv., hafi komið í ljós mjög eindreginn vilji fiskframleiðenda í þá átt, að þessi stofnun héldi áfram einkaútflutningi sínum.

Ég vil aðeins gera eina aths. við það, sem um þetta hefur verið sagt, án þess að ég ætli að fara að ræða um fisksölusambandið almennt eða starfsemi þess. Í bréfi Sölusambandsins til sjútvn., dags. 16. febr., er sagt frá fundi, aukafundi Sölusambandsins og atkvgr., sem fram fór um ályktun, sem þar var borin fram. Hv. þm. gat þess, sem rétt er, að samkvæmt þessu bréfi hafa ekki verið greidd nema 4 atkv. gegn þessari till., en hann gat þess ekki, sem líka er rétt að komi fram, að þar stendur, að 195 atkvæðaseðlar hafi verið auðir. Auðvitað er rétt, að það komi fram líka, þegar rætt er um þennan fund og þessa atkvgr.

Sami þm., hv. þm. G-K., gerði fsp. til mín í ræðu sinni í fyrradag sem frsm. meiri hl. n., og hann endurtók þessa fsp. með svipuðum orðum aftur í umr. áðan.

Ég get nú ekki séð, að ég hafi tilefni til þess sem frsm. meiri hl. sjútvn. í þessu máli að svara þessari fsp. Ég held, að hann verði að fá svarið hjá hlutaðeigendum í því máli, sem hann var að tala um.

Það gladdi mig mjög sem samvinnumann að heyra þau lofsamlegu ummæli, sem þessi hv. þm. lét falla um fyrirsvarsmenn Sambands ísl. samvinnufélaga í afurðasölumálunum, þar sem hann lét þess getið, að þarna væri um menn að ræða, sem væru mjög hæfir og reyndir í viðskiptum og gættu vel hags sinna umbjóðenda. Ég held, að hann hafi endurtekið svipuð ummæli um þá aftur í dag, og gleður það mig sannarlega, að svo mikils virtur maður skuli líta svo á starfsemi þessara fyrirsvarsmanna samvinnufélaganna.

En niðurstaðan er nú sú, að þessir mjög svo hæfu og reyndu menn í viðskiptum hafa í bréfi sínu til sjútvn. látið uppi, að þeir telji heppilegast, að minnst tveir útflytjendur séu löggiltir til að hafa á hendi útflutning á öllum sjávarafurðum. Mér skilst, að við hljótum að verða sammála um það, hv. þm. G-K. og ég, að þetta séu mikilsverð ummæli frá þeim mönnum, sem hann hefur lýst áður svo lofsamlega sem hann hefur gert í sambandi við þekkingu þeirra á viðskiptum. Hitt er svo annað mál, að mér er ekki kunnugt um það, hvaða ástæður Samband ísl. samvinnufélaga eða aðrir, sem verið hafa í Sölusambandinu, hafa hverju sinni til þess að halda þeim viðskiptum áfram fyrir það ár, sem er að líða, hjá þessari stofnun, sem einkaútflutninginn hefur og hefur haft.

Ég held, að það sé nú ekki annað, sem ég þykist hafa ástæðu til að segja í sambandi við þetta mál í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram.