29.03.1957
Efri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

10. mál, dýravernd

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Það var við 2. umr. þessa máls, að hv. 1. þm. N-M. kvaddi sér hljóðs og lét það álit sitt í ljós, að sér fyndist ekki rétt, að þessi lagabálkur um dýravernd væri látinn heyra undir menntmrn., eins og frv. gerir ráð fyrir, og fór hann þess á leit, að nefndin athugaði milli umræðna, hvernig hún liti á þetta mál. Nú hefur hv. þm. lagt fram brtt. við frv., sem fer í þessa átt, að alls staðar þar, sem talað er um menntmrn., komi landbrn. í staðinn — og menntmrh., þar komi landbrh. í staðinn.

Menntmn. hefur ekki haldið fund um þetta mál, en ég get upplýst, að fjórir nm. eru andvígir því, að þessar brtt. á þskj. 372 verði samþykktar. Það er um þetta að segja, að friðunarlög, sem ekki er langt síðan samþykkt voru hér á hv. Alþingi, heyra undir menntmrn. Það eru lög um fuglaveiði og fuglafriðun og lög um náttúruvernd. Þessir lagabálkar báðir heyra undir menntmrn., og það er litið svo á, að lög um dýravernd séu skyld þessum málum að því leyti, að það fari ekki illa á því, að þau heyri einnig undir menntmrn. Auðvitað grípur þessi lagabálkur nokkuð inn á svið þeirra mála, sem heyra undir landbrn. og landbrh., þar sem er t.d. um meðferð búfjár að ræða og annað slíkt, svo að óhjákvæmilegt er, að það verði nokkur samvinna þar á milli. En sem sagt, fjórir nm. leggja á móti því, að þessar brtt. verði samþykktar, og leggja til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Um afstöðu eins nm. er mér ekki kunnugt, það er hv. 4. landsk. þm. Hann var fjarverandi, þegar málið var til meðferðar í nefndinni, var þá erlendis, en varamaður hans tók þátt í afgreiðslu málsins og var sammála nm. um að leggja það til við hv. d., að málið yrði samþykkt eins og það liggur fyrir.