29.03.1957
Efri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

10. mál, dýravernd

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið og ekki vera mikið að fylgja mínum till. eftir, enda þótt ég álíti þær sjálfsagðar. Ég vil benda á það, og það er rétt hjá frsm., hv. 2. þm. Árn., að dýraverndarmálin hafa alltaf heyrt undir menntmrh. og eru búin að gera það, síðan lög urðu til um dýravernd hér á landi. En hvenær hefur menntmrh. skipt sér af því? Mig langar til að biðja hæstv. þm. að nefna eitt dæmi í þau milli 20 og 30 ár, sem lög hafa verið í gildi um dýravernd hér á landi, þar sem menntmrh. hefur látið það til sín taka. Ég tala nú ekki um, ef hann gæti nefnt ein tvö, þrjú.

Ég skal viðurkenna það fúslega, að það eru tvær dálítið ólíkar línur, sem þarna liggja. Menntamálanefndarmennirnir, sem þetta frv. hefur heyrt undir, hafa dregið línuna þannig, að það yrði sem allra bezt farið með dýrin, og óttast, að ef landbrh. hefði yfir málunum að segja, verði línan dregin með tilliti til þess, að arðurinn af dýrunum verði sem mestur. Þessar línur liggja þess vegna ekki „parallelt“, segja þeir, og þess vegna sé nauðsynlegt að hafa þetta undir menntmrn. Frsm. sagði nú þetta ekki, en þetta sagði t.d. skrifstofumaður úr stjórnarráðinu, sem var að tala við mig í gær og biðja mig að taka þessar till: aftur, það ætti að heyra undir menntmrh., því að krafan um góða meðferð skepnanna væri og yrði allt önnur hjá landbrn., það langt á milli þessara tveggja lína, þeirrar, sem landbrh. vildi setja fyrir hagsmuni bændanna annars vegar gagnvart dýrunum, og þeirrar, sem menntmrh. vildi setja hins vegar fyrir þeirra velliðan fyrst og fremst. En nú er þetta svo, að þessar tvær línur eru ekki eins langt hvor frá annarri og haldið var í gamla daga. Í gamla daga voru til menn, og þeir eru einhverjir til enn, sem halda, að það sé hægt að hafa mest upp úr dýrunum, búfénu, sem hér er um að ræða, með því að fá að kvelja það. Sú skoðun er horfin ákaflega mikið. Það eru eftir af henni dálitlir steinrunnir steingervingar hér og hvar meðal þjóðarinnar, en hún er ákaflega mikið horfin, og þar með eru þessar tvær línur komnar hvor nálægt annarri.

Nú vil ég nefna nokkur dæmi, sem sýna, hvað menntmrh. gerir í málunum. Fyrir nokkrum árum var nokkuð almennt heyleysi í vissum hreppi á Norðurlandi. Það varð til þess, að stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem á að hafa yfirumsjón með forðagæzlunni, lét fara fram aukaskoðun, beitti sér fyrir því og fékk það fram í hreppsnefndinni, að færi fram aukaskoðun, þegar vantaði svona viku til sumars, og enn þá var allt haglaust. Þá lokaði einn maður öllum húsunum sínum með lás og sagðist ekki láta skoða hjá sér, það kæmi engum við, hvernig sínar skepnur væru og hvernig með þær væri farið, — lokaði húsunum með lás. Hreppsnefndin fór nú til sýslumannsins og heimtaði, að það væri gengið í að hleypa þeim inn og lofa þeim að sjá, hvernig þarna væri ástatt, svo að þeir gætu gert sínar ráðstafanir, því að menn vissu, að hann átti ekkert hey orðið eða svo til handa búfénu. Sýslumaðurinn sagði: Ja, þið verðið að malla þetta sjálfir. Það er ómögulegt fyrir mig að fara að skipta mér af þessu. — Hringdi hann til menntmrh.? Nei, það gerði hann ekki. Hann hringdi í mig, sem kom náttúrlega málið við að nokkru leyti sem manni, sem hafði það á hendi í og með að sjá um framkvæmdina á forðagæzlunni fyrir hönd landbrh. Eftir að ég hafði talað við hreppsnefndina, komst ég að raun um, að það var orðið svo stíft á milli hennar og mannsins, að það þýddi ekkert að reyna að láta hreppsnefndina hafa með það að gera. Mér datt meira en svo í hug menntmrh. og dýravernd. Ég gerði það nú ekki. Ég hringdi til föðurbróður hans, sem bjó í allt öðrum hrepp langt frá og ég vissi að hafði næg hey, og bað hann að fara að heimsækja hann svona að gamni sínu, — það væri langt síðan hann hefði komið þangað o.s.frv., og endirinn varð sá, að hann fór og heimsótti hann, og þegar þeir voru búnir að spjalla saman um kvöldið, sendi hann honum tvo heysleða morguninn eftir, og allt bjargaðist. Það var ekki menntmrh., sem kom neitt að þessu, — ekki nokkur hlutur og engar ábendingar frá honum um það.

Ég gæti tínt til ákaflega margar sögur svipaðar þessari. Ég gæti sagt sögu úr allt annarri sveit og allt öðrum parti af landinu. Þetta var norðan af Norðurlandi. En vestur á Vestfjörðum var sýnilegt að hausti til, að mann vantaði töluvert mikið fóður til að hafa handa sínum skepnum, og forðagæzlumennirnir, sem áttu að sjá um það heima fyrir, sáu, hvað hann átti og að það var ekki nóg, og töluðu um það við hann. Ja, hann sagðist nú kaupa bara fóður; ef og þegar það vantaði og ef það yrði hart í vetur, þá keypti hann fóður. Þeir sögðust hafa bent honum á, að hann væri nú þar á landinu, sem draga þyrfti að sér á sjó, og byggi við svo lygnan og lítinn fjörð, að hann legði stundum langt út, svo að það væri ómögulegt að draga að sér neitt að vetrinum, því að hann er ekki í vegasambandi. Ja, það leggst nú ekki svoleiðis að veturinn, sagði hann, og gerði ekki neitt. Nú hvert fóru þeir svo? Þeir fóru suður í Búnaðarfélag og töluðu um þetta við mig. Ég sagði þeim: Farið þið bara í sýslumann. Látið hann fyrirskipa manninum. Hann getur gert það, hvort heldur sem vera skal eftir lögunum um dýravernd, sem þá giltu, ellegar eftir lögunum um forðagæzluna. Ja, það er nú alveg ómögulegt að gera það. Ég get ekki sent sýslumanninn á mann, sem er giftur systur minni, sagði annar forðagæzlumaðurinn. Og svo varð ég að fara aftur aðrar krókaleiðir til að ná markinu. Og það náðist.

Þess vegna hef ég enga trú á því, að menntmrh. geri nokkurn hlut í svona málum, þegar til þarf að taka, sem að gagni má verða viðvíkjandi dýravernd. Ég held það ekki. Og ég held, að línurnar liggi orðið svo „paralleit“, þessi, sem menntamálanefndarmennirnir leggja, sem eru með það sjónarmið, að öllum skepnum hér á jarðríki eigi að líða sem allra bezt, og við skulum segja að sé sjónarmið menntamálanefndarmannanna, — ég held, að það sé orðið svo mjótt millibil á milli þess sjónarmiðs og hins, að það sé farið þannig með skepnurnar, að þær gefi sem mestan arð til eigendanna, að það sé rétt að láta það vera allt hjá einum og sama manninum, landbrh. Ég held það, því að mannskepnan er nú einu sinni þannig, að enn þá er það svo, að þó að það eigi að snerta hana eitthvað mál, sem við koma almennum hlutum og meira og minna eru þó tilfinningamál á andlega sviðinu, eins og meðferð á einhverri skepnu, þá snerti það 90% af þjóðinni miklu minna en ef það snertir budduna beint. Þá fara menn að kveinka sér. Þá fara menn að taka tillit til hlutanna. Þess vegna á að fylgja neðri línunni, ef það er eitthvert verulegt bil á milli þeirra enn þá, sem ekki er nú orðið viðast hvar á landinn. Það er það, sem ég tel að sé rétt að gera.

Auk þess arna var ég þarna með eina brtt., ósköp litla. — Mér fannst það vera hortittur í 10. gr. að vísa í 9. gr. Það er ekkert í 9. gr., sem hægt er að vísa á, nema vera kynni: „ákvæði þessi eiga einnig við um skurð á hala á kúm eða á eyrum og rófum á hundum“. Það getur ekki átt við það. Það má enginn gera það nema dýralæknir. Þó er öðrum en dýralæknum heimilt að stýfa rófu af hvolpum, vikugömlum og yngri. En það er samráma álit dýralækna og annarra, að yfirleitt á þeim aldri sé það þeim ekki meira en ef maður rispar sig með títuprjóni í hönd eða eitthvað svoleiðis og sé þess vegna engin ástæða til að vera að vitna i, að dýralæknir þurfi að framkvæma slíka aðgerð. Það skiptir ekki neinu máli. Sem sagt ég legg ekkert kapp á þetta mál að neinn leyti. En mér finnst þetta vera hortittur, og mér finnst málinu í heild betur borgið með því að draga tvær „parallelar“ línur saman, — þær eru komnar hér um bil saman, — og láta þann þeirra, sem hefur á hendinni þau mál, sem eru þess eðlis, að þau koma við pyngju mannanna, hafa yfir þeim að ráða, en ekki hinn, sem á bara að tala til tilfinninganna.