09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

150. mál, samþykkt á ríkisreikningum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði. Það má segja, að mjög mikið af vinnu fjmrh. á hverju ári fer í að reyna að gera ráðstafanir til þess, að fjárlögin standist í framkvæmdinni. Samt sem áður fer svo, að það verða ævinlega verulegar umframgreiðslur, misjafnlega miklar þó, eins og hv. þm. er kunnugt. En þetta verður venjulega þannig, að hversu mjög sem það er brýnt fyrir hinum rn., sem stýra útgjaldadeildunum, því að það eru hin rn. yfir höfuð, sem gera það, — hversu mjög sem það er brýnt fyrir þeim að halda sínum stofnunum innan rammans, sem fjárlögin ákveða, þá vill koma fyrir, að það mistakist. Er þá venjulega borið við, að það hafi ekki verið með nokkru móti hægt að anna því skylduverki, sem hlutaðeigandi starfsgrein átti að hafa með höndum, nema með því að fá meira en gert var ráð fyrir á fjárlögunum. Þetta er sú viðureign, sem stendur sí og æ. Og sannleikurinn er sá, að ef fjmrn. ætti að standa alveg fast á því, sem er auðvitað æskilegast, að ekki væri nokkurs staðar greitt meira en fjárlögin gera ráð fyrir, í neinu tilfelli, þá mundi þurfa að loka mörgum af stofnunum og skrifstofum ríkisins. Það yrði að taka upp þá stefnu að loka þessum stofnunum og láta þá hlutaðeigandi rn. og þá, sem stýra starfsgreinunum, standa frammi fyrir því svo og þjóðina alla og Alþingi. Í ýmsum dæmum býst ég víð, að þetta sé rétt, að það sé of naumt sett í fjárlögin. Það er nokkur tilhneiging til þess hjá hv. Alþ. og fjvn. að setja lægri fjárhæðir í fjárlögin en menn vita inn á sér að muni þurfa, og það á að vera til þess að reyna að halda niðri eyðslunni. En það hefur þá líka verið gert í trausti þess áreiðanlega, að ekki kæmi til þess, að starfsgreinar yrðu felldar niður eða svo að þeim kreppt, að þær gætu ekki annað skyldu sinni. Hér er vandmeðfarið mál og mikið vandamál og gamalt á ferðinni. Mér skilst, að það séu dæmi þess í vissum löndum, að svo hart sé á þessu tekið, að einstakar stofnanir verði að gera svo vel að loka og draga saman þjónustu sína, ef þeim ekki dugir sú fjárveiting, sem til þeirra er sett. En ef það verður farið inn á að taka svo hart í þetta mál í framkvæmdinni, þá þarf vafalaust að vanda enn betur áætlanir og fjárveitingar í einstökum atriðum en gert hefur verið á hv. Alþ. fram að þessu, þó að talsvert mikil vinna hafi verið í það lögð. Og við höfum sem sagt í fjmrn. ekki stungið upp á því enn þá eða ekki gengið svo hart í þetta enn þá, að það hafi verið lokað fyrir og látið koma til stöðvunar, en verið höfð þessi stefna, að standa í sífelldu stríði og reyna með fortölum og rannsóknum í hverju falli að draga úr umframgreiðslunum í samráði við þau rn., sem hlut eiga að máli. Það er alls ekki því að leyna, að fjmrn. hefur stundum staðið frammi fyrir því, að það hefur verið búið í öðrum rn. blátt áfram að gera ráðstafanir, sem voru þannig vaxnar, að búið var að stofna til skulda án samráðs við fjmrn., sem ekki var hugsanlegt annað en yrðu greiddar. Við höfum staðið frammi fyrir þessu hvað eftir annað á undanförnum árum. Það er sem sagt vandamál, hvernig á þessu á að taka, og það veit ég að hv. þingmenn víta, að það er ekki alveg einfalt að koma algerlega í veg fyrir umframgreiðslurnar. Það er sjálfsagt að halda áfram þeirri styrjöld, sem sífellt stendur um þetta mál. En ef hv. Alþ. vildi láta taka upp alveg önnur vinnubrögð í þessu en verið hafa, miklu strangari og láta loka stofnunum og því líkt, þá yrði að hafa um það samráð fyrir fram. Yrði það að vera skipulagt í samráði við hv. Alþingi og þá sérstaklega fjvn., sem stýrir afgreiðslu fjárlaganna.

Varðandi einstök atriði, sem hv. þm. A-Húnv. nefndi til dæmis, sé ég ekki ástæðu til að segja mikið. Þeim atriðum er svarað í athugasemdunum við landsreikninginn. Þar er t.d. kafli um innheimtu beinna skatta og annar kafli um útistandandi skuldir tóbakseinkasölunnar. Þær stafa af því, að kaupmenn og kaupfélög fá reikningsviðskipti eftir vissri reglu, og það mun vera reynt að halda sér blýfast við þá reglu, en af þessari reglu leiðir þessar skuldir. Mér skilst, að það hafi varla komið fyrir, að það hafi nokkurn tíma tapazt á þessari viðskiptaaðferð, og hún sé talin óhjákvæmileg af einkasölunnar hendi vegna rekstrarfjárerfiðleika yfirleitt í verzluninni, og mundi vafalaust verða talið mjög aðkreppt, ef yrði horfið frá þessu ráði og hætt við að gefa þann tiltölulega stutta gjaldfrest, sem veittur er. Þó gæti það náttúrlega komið til athugunar, því að sannast að segja veitir ríkissjóði ekki af því að fá peningana inn, eins og menn vita. En þannig eru nú ástæður í þessu dæmi.

Þá er það út af þeim tveimur stofnunum, sem hv. þm. A-Húnv. nefndi og þar sem aths. eru þannig afgreiddar, að vísað er til aðgerða Alþingis. Það er í tveimur dæmum. Annað er varðandi ríkisútvarpið. Hv. þm. kvartaði mjög yfir því, að það væru umframgreiðslur ár eftir ár hjá ríkisútvarpinu, og það er alveg laukrétt. En um þetta vil ég segja það frá sjónarmiði fjmrn., ef svo mætti segja, að ríkisútvarpið lifir á sínum eigin tekjum, og það kemur þess vegna alls ekki til, að fjmrn. t.d. geti lokað fyrir ríkisútvarpið eða stöðvað það eða haft verulegt eftirlit með útgjöldum þess hvert ár. Það tekur féð hjá sjálfu sér, ríkisútvarpið.

Varðandi skipaútgerðina er ekki því sama til að dreifa, því að þeir verða að sækja ávísanir til fjmrn. Það mætti kannske segja, að fjmrn. væri skylt að halda sér við fjárveitinguna til hennar, þó að afleiðingarnar yrðu þær, að það yrði að fella niður strandferðirnar, kannske þriðja hluta ársins eða svo. En það hefur ekki verið lagt út í þetta, eins og ég sagði, heldur viðhöfð sú aðferð að reyna með viðtölum, fortölum og athugunum að hafa áhrif á, að útgjöldin yrðu eins lítil og hægt er, ekki stöðvuð strandferðaskipin, heldur greidd umframgreiðslan.

Mér er ekki alveg ljóst, hvort hv. þm. A-Húnv. er að benda á þetta vegna þess, að hann telji t.d. fjmrn. ámælisvert fyrir að hafa greitt þessar greiðslur, — mér er það ekki ljóst, - eða hvort hann bendir á þetta af öðrum ástæðum. En svona hefur þetta verið. Það eru útskýringar miklar á þessum umframgreiðslum í svörum við athugasemdinni varðandi skipaútgerðina og bent á liði, sem hlutu að falla á, eins og atvik lágu, og sumt, sem ómögulegt var að sjá fyrir fram, en sumt, sem hefði nú í sjálfu sér átt að vera hægt að sjá fyrir fram. En þá kemur spurningin: Hvers vegna var fjárveitingin ekki bærri en hún var? Var það vegna þess, að forstöðumaður hefði ekki óskað eftir hærri fjárveitingu? Var það fyrir það, að hlutaðeigandi n. hefði skorið hana niður? Eða var það fyrir það, að Alþ. hefði skorið hana niður? Þessu get ég ekki svarað alveg fyrir víst. En þó hygg ég, að áætlun forstöðumannsins hafi verið hærri en fjárveitingin, sem veitt var. Og tæpast er hægt að ásaka forstöðumennina fyrir það, þótt þeir fari fram úr, ef þeir benda fyrir fram á það með skýrum ástæðum, hvað muni þurfa, en það svo skorið niður. Sem sagt, mér er ekki vel ljóst, hvað hv. þm. A-Húnv. meinti með þessu, hvort þetta átti að skilja sem nokkra aðfinnslu í sjálfu sér eða hvort þetta var bara til þess að benda á vandamálið. En það er stórkostlegt vandamál, ef verið er að reyna að halda hallalausum ríkisbúskap og búa út fjárlög í því skyni og menn geta svo búizt við margra millj. kr. umframgreiðslum á einstökum liðum fjárlaganna. Það má nærri geta, hvernig færi um möguleikana til þess að halda uppi greiðsluhallalausum ríkisbúskap, ef eitthvað ofur lítið bæri út af með tekjurnar, ef þær færu ekki fram úr líka, jafnvel meira en gjöldin. Þá væri allt komið um þverbak gersamlega. Hér er því sannarlega ekki um neitt smáræðisvandamál að ræða, þar sem umframgreiðslurnar eru.

Ég fyrir mitt leyti hef reynt að stuðla að því, að áætlanir væru settar í fjárlögin þannig, að gera mætti kröfu til, að þær gætu staðizt. Ég hef ævinlega hvatt forstöðumennina til þess að tína fram öll útgjöld, en leyna þeim ekki, því að verst af öllu væri að fá á eftir óvæntar greiðslur. Árangur má segja kannske að hafi orðið í vissum greinum, en í öðrum greinum er hann ekki beysinn, eins og t.d. í þessu falli, sem hér hefur verið bent á, því að miklar umframgreiðslur hafa verið bjá t.d. ríkisútvarpi og skipaútgerð og fleiri stofnunum. Það eru fleiri stofnanir en þær, sem hafa allt of miklar umframgreiðslur. En sem sagt, ef á að taka hér upp alveg nýja stefnu og pína fram umframgreiðslulítinn eða umframgreiðslulausan ríkisbúskap, þá þarf að vanda enn betur en gert er áætlanir um fjárveitingar í fjárlögunum og taka síðan ákvarðanir um að fella niður starfrækslu í vissum greinum, ef það mistekst, að fjárhæðin standist. Og þá verður hv. Alþ. að horfast í augu við það fyrir fram, hvaða afleiðingar af því kynnu að geta orðið, og standa þá með ríkisstjórninni í því, að þessi háttur yrði á hafður.

Að lokum vil ég svo segja, að þegar hv. yfirskoðunarmenn vísa málum til aðgerða Alþ., þá teldi ég rétt, að þeir gerðu það með því að gera uppástungur um, hvað Alþ. skuli aðhafast. Það er eðlilegur og gamall máti að vísa ýmsu af athugasemdunum til aðgerða Alþingis og ekki óeðlilegur máti. En ég tel, að það væri miklu fullkomnari afgreiðsla af hendi hv. yfirskoðunarmanna, ef þeir segðu beinlínis, hvað þeir legðu til að Alþ. gerði. Tökum dæmi af skipaútgerðinni. Stinga þeir upp á því, að fjárveitingar verði hækkaðar til skipaútgerðarinnar til þess að tryggja það, að umframgreiðslur komi ekki fram? Eða stinga þeir upp á því, að rekstur skipaútgerðarinnar verði dreginn saman og strandferðaþjónustan minnkuð? Eða stinga þeir upp á því, að einhverjar sérstakar sparnaðarráðstafanir í rekstrinum verði gerðar aðrar, sem þeir koma auga á við að kynna sér málin? Með því að þeir gerðu þetta, mundu athugasemdir þeirra og ábendingar hafa allt annað og miklu meira gildi en þær hafa með því að vísa málunum aðeins til aðgerða Alþingis.

Út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði hér áðan um strandferðir og vegi og annað þess konar og samgöngur yfirleitt, þá mætti líta svo á, að hann vildi láta mæta þessari aths. með því að draga úr framlögum til strandferðanna, því að hann talaði um, að þau væru orðin svo feikilega mikil. En út af því vil ég segja, að ein höfuðástæðan til þess, hversu framlögin til strandferðanna eða hallinn á strandferðunum er orðinn mikill, er sú, að á undanförnum árum hefur kostnaðurinn við útgerð skipanna farið hraðvaxandi ár frá ári og sum árin bókstaflega tekið stökkbreytingum í sambandi við kaupgjaldshækkanir og annað þvílíkt. En farmgjöldin, gjöldin fyrir flutninginn, hafa staðið óbreytt árum saman, þannig að hallinn hefur hlotið að fara vaxandi ár frá ári. Þetta hefur Alþ. vitað og engar aths. gert eða neinar ráðagerðir haft um það, að þessi gjöld yrðu hækkuð, og þess vegna haft þá stefnu, að það yrðu raunverulega ár frá ári stóraukin framlögin til strandferðanna. Það hefur verið stefna Alþingis. Og út af því, að það sé nú einhver stefnubreyting í þá átt að draga úr strandferðum, vil ég benda á, að það er vitaskuld þvert á móti, því að einmitt nú á þessu þingi hefur verið ákveðið að kaupa nýtt strandferðaskip, sem sérstaklega annist ferðir til Vestmannaeyja og þá um leið nokkuð á aðra staði.