03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Ingólfur Jónason:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að hafa mörg orð um þetta, en hv. þm. Dal. var að tala um, að ég hefði ekki notað aðstöðu mína í ríkisstj. til þess að koma málefnum bændanna fram. E.t.v. vill hv. þm. Dal. halda því fram, að ég hafi verið á móti því, að skipuð væri mþn. til þess að semja það frv., sem hér er til umræðu, eða þá að ég hafi a.m.k. engan hlut átt þar að máli. Ég ætla ekki að svara slíku, jafnvel þó að því væri fram haldið, og láta dóm reynslunnar skera úr um það frekar, hvernig hugur minn eða hugur okkar sjálfstæðismanna hefur verið og er til landbúnaðarins. Ætla ég þá, að vitnisburður reynslunnar verði sá, að við sjálfstæðismenn þolum samanburð í þessu efni við hv. framsóknarmenn.

Hv. þm. Dal. verður að minnast þess, að því frv., sem samið var af mþn. fyrir tilhlutan fyrrv. ríkisstj., var breytt, áður en það var borið fram hér í Alþ. Og eins og hv. þm. A-Húnv. lýsti hér áðan, vill enginn kannast við að hafa átt þátt í breytingunni, vegna þess að þessar breytingar voru til þess að draga úr áhrifum frv. til gagns og uppbyggingar fyrir landbúnaðinn. Og þessar breytingar hafa sennilega verið gerðar aðeins vegna vináttu við bændur. Það getur vel verið, að hv. þm. Dal. vilji koma hér upp á eftir og segja, að þetta hafi verið ástæðan. Ég ætla ekki að ræða neitt um það frekar. En ég ætla að segja hv. þm. Dal. og öðrum hv. þm. í landbn., stjórnarsinnum í landbn., það til lofs, að hv. minni hl. hefur ekki unnið alveg til einskis að því að fá stjórnarliðana í n. til þess að lagfæra frv. nokkuð frá því, sem það var, þegar það var fyrst flutt, og þess vegna má segja, að ef þessir hv. menn hafa menn sér við hlið, sem hafa góðan skilning á málefnum bændanna, eins og hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf., þá er alls ekki vonlaust að komast nokkuð áleiðis í þessum málum. Brtt. þær, sem n. nú flytur vegna baráttu minni hl. í nefndinni, eru til bóta, enda þótt þær nái ekki því að gera frv. eins úr garði og mþn. ætlaðist til. Hv. þm. Dal. hefur með þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan, neytt mig til að segja þetta.

Nú vil ég ekki halda því fram, að hv. þm. Dal. vilji ekki bændunum vel. Ég vil alls ekki gera það. En mér leiðist, að hann sem bóndi hefur ekki nægilegan skilning á þessum málum. Og hann sagði hér áðan eina setningu, sem má ekki gleymast og bændur og bændaefni verða að festa sér í minni. Hann sagði, ég skrifaði það eftir honum: Ungir menn, sem vilja hefja búskap, hafa ótal möguleika til þess að verða stórbændur við þá aðstöðu, sem þeim nú er búin. — Ef ég fer ekki rétt með, þá skrökvar ekki segulbandið, sem ræðan hefur verið tekin upp á.

Nú er bv. þm. Dal. alinn upp í sveit, og hann starfar meðal sveitamanna og þeirrar æsku, sem ég vantreysti ekki. Það er misskilningur hjá hv. þm., að ég vantreysti æsku þessa lands. En ég vil ekki blekkja mig, og ég: vil ekki blekkja þessa æsku, sem vill vinna og vill vera áfram í sveitunum. Ég held, að það sé hollast og það sé nauðsynlegt fyrir okkur að viðurkenna staðreyndirnar, viðurkenna það, að sú æska, sem vill vera í sveitunum, sem vill hefja þar búskap, á við mikla erfiðleika að stríða og að hún hefur ekki ótal möguleika til að verða að stórbændum, eins og nú er komið. Það þarf mikið fjármagn til þess að hefja búskap. Hv. þm. Dal., sem er bóndi, veit, hvað mikið fjármagn liggur í hverju búi, hverjum bústofni, tækjum, vélum, húsum, jörð, girðingum og öllu, sem nútímabúskapur þarfnast.

Það er ekki unnt að hefja búskap nú í sveit nema hafa í hendinni eða ráð á nokkrum hundruð þúsundum króna, og það er það, sem gerir æsku þessa lands erfitt fyrir með að verða kyrr í sveitunum. Æskan hefur ekki farið úr sveitum þessa lands af því, að hún hafi ekki viljað vera í átthögunum og helga þeim sína starfskrafta, heldur eingöngu vegna þess, að hana hefur skort fé til þess að stofna bú í sveit, til þess að byggja hús, til þess að kaupa jörð, til þess að kaupa vélar og öll tæki, sem búskapurinn þarfnast. Það hefur verið hægara fyrir æskufólkið að gifta sig og taka á leigu íbúð hér í Rvík. Til þess hefur þurft minna stofnfé. Það er þess vegna, sem margt af okkar efnilega æskufólki hefur farið gegn vilja sínum úr sveitinni að sjávarströndinni. Þetta er hin raunalega staðreynd, og þessu fáum við aldrei breytt, nema við viðurkennum þessa staðreynd, nema við hættum að blekkja okkur sjálf, hættum að tala eins og hv. þm. Dal. gerði hér áðan og hættum að neita staðreyndunum. Og enda þótt það frv., sem við höfum verið að ræða um hér, stefni í rétta — átt, þá er ég bræddur um og reyndar veit, að sú löggjöf nægir ekki til þess að hindra það, að margur æskumaðurinn, sem vill vera áfram í sveitinni, sér sig tilneyddan til þess að fara, af því að hann skortir fjármagn til þess að hefja búskap í sveit.

Það er óþarft að fara fleiri orðum um þetta. Þetta er ljóst mál, og það er verkefni okkar, sem sitjum á Alþingi og viljum vinna fyrir sveitirnar, og það er þá ekki síður verkefni hv. þm. Dal., form. landbn. Nd., það er verkefni næstu tíma að finna lausn á því, hvernig við eigum að sporna við hinum stöðuga flutningi æskufólks úr sveitum landsins og gera þessu efnilega æskufólki, sem vill vera kyrrt í sveitunum, mögulegt að vera þar. En það er útilokað, ef hv. alþingismenn tala hér sjálfumglaðir og ánægðir með það, sem er, og neita staðreyndunum, viðurkenna ekki þá erfiðleika, sem fyrir hendi eru, og viðurkenna ekki, að það þarf miklu meiri breytingar í þessu efni, ef duga skal.