07.05.1957
Efri deild: 95. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er síður en svo að ég standi upp til þess að andmæla þessu frv. Ég tel það gott og sjálfsagt, að það nái fram að ganga og fái greiðan framgang hér í deildinni. En ég vildi í sambandi við þetta mál vekja athygli hæstv. ráðh. á ríkisjörðum. Það er talsvert af því í Skaftafellssýslu, að þar eru litlar jarðir, með litlum búum, sem illmögulegt er að reka. Nú hefur það viljað til í tveimur hreppum, að ef ein meðal þessara jarða hefur lagzt í eyði, þá hef ég alltaf lagt til, að þeim yrði skipt upp og jafnað milli nágrannajarðanna, sem allar eru jafnlitlar og liggja saman. Þessu hefur ekki fengizt framgengt enn þá, heldur eru jarðirnar í eyði og kannske einum landseta hinna jarðanna leyft að nytja þar. Ég vildi mjög eindregið mælast til þess, að hæstv. ráðh. athugaði þetta, því að ég tel, að það sé ekkert annað að gera á svona stöðum en einmitt að stækka þessar ríkisjarðir með því að skipta þessum eyðijörðum milli nágrannajarðanna. Þetta vildi ég biðja hæstv. ráðh. að athuga og kynna sér.