09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

128. mál, tollskrá o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þegar rætt er um breytingar á tollskránni, er það vitanlega alltaf nokkuð viðkvæmt mál og alltaf álitamál, á hverju eigi að lækka toll og á hverju eigi að hækka toll eða hvaða breytingar séu réttmætastar. En þegar breyting á tollskránni er nú hér til umræðu að þessu sinni, get ég ekki látið hjá líða að gera till. um, að felldir verði niður tollar á landbúnaðarvélum, og hef þess vegna ásamt hv. þm. A-Húnv. flutt brtt. á þskj. 491 við brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. fluttu.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að tollar á landbúnaðarvélum hefðu ekki hækkað um s.l. áramót, þegar tollhækkunin var á lögð. Ég get þó upplýst, að landbúnaðarvélar eru allmiklu hærri nú en þær voru í fyrra, bæði dráttarvélar, heyvinnuvélar og aðrar vélar, og veldur þar mestu um, að það eru hækkuð aðflutningsgjöld, sem hér er um að ræða. Hæstv. fjmrh. dró að vísu nokkuð í land í seinni setningu, sem bann sagði um þetta, þegar hann talaði um, að aðflutningsgjöld af landbúnaðarvélum væru tiltölulega lægri en á ýmsu öðru. Og það er út af fyrir sig alveg rétt. En ástæðan til þess, að sérstaklega nú er ástæða til að fella þessi gjöld niður, er sú, að bændur hafa orðið að taka stærri þátt í vaxandi dýrtíð en aðrir landsmenn, og það er vegna hins mikla rekstrar, sem þeir eru með, það er vegna þess mikla vélakosts, sem þeir verða að afla og nota, varahluta og annars slíks, sem sá maður, sem engan rekstur hefur með að gera, er alveg laus við. Þess vegna er það, að bændur bera tiltölulega meiri þunga af þeim gjöldum, sem lögð voru á um síðustu áramót, heldur en yfirleitt aðrir landsmenn. Þess vegna er það réttmætara nú en nokkurn tíma áður að ganga þarna á móts við bændur og létta gjöldunum af landbúnaðarvélunum, sem þeir geta ekki verið án og verða að kaupa. Að vísu hefur það gengið nokkuð treglega að þessu sinni að fá innflutningsleyfi fyrir landbúnaðarvélum. Það var t.d. sett hámark með innflutning á dráttarvélum og ekki leyft meira en 80% af því, sem leyft var í fyrra, en það er of lítið, og hafa þess vegna margir að þessu sinni, sem dráttarvélar vildu fá, ekki fengið þær. Sama máli gegnir með múgavélar. Það var ákveðin sú upphæð, sem bændur skyldu fá, og verða nú þess vegna margir bændur að vera án þess að fá múgavélar að þessu sinni. Og enn hafa ekki verið veitt leyfi fyrir ýmsum öðrum landbúnaðarvélum og nauðsynlegum landbúnaðartækjum. Það er t.d. alveg nýskeð, ef veitt hefur verið leyfi fyrir súgþurrkunartækjum, sem bændur sækjast mjög eftir, og er mjög nauðsynlegt fyrir bændur hér á óþurrkasvæðinu að afla sér þessara tækja til að tryggja sig gegn rosanum.

Ég trúi því nú reyndar ekki fyrr en í síðustu lög, að þessi leyfi verði ekki veitt, en það er alveg nýskeð, ef það hefur verið gert.

Ég veit, að það er talað um gjaldeyrisskort í sambandi við þetta, en undanfarin ár hefur verið reynt að fullnægja eftirspurninni á þessum nauðsynlegu hlutum og láta innflutning á nauðsynlegum landbúnaðarvélum vera jafnréttháan og innflutning bátavéla. En bátavélar hafa verið veittar eftir þörfum að undanförnu og ég ætla enn þá. Tillagan á þskj. 491 nær einnig til véla í fiskiskip og sjálfvirkra fiskflökunarvéla. Og það er alkunnugt, að styrkur til útgerðarinnar hefur verið aukinn mjög á þessu ári, og líkur eru til, að enn þurfi að hækka styrki til útgerðarinnar, ef hún ekki stöðvast.

Ég segi nú: Er ekki eðlilegra að gera þessi tæki, sem útgerðin byggist á, ódýrari með því að aflétta tollunum og aðflutningsgjöldunum og lækka þá að einhverju leyti þá miklu styrki, sem útgerðinni eru veittir á annan hátt? Mér virðist því, þótt viðurkenna verði ýmsa fjárhagserfiðleika og viðurkenna verði, að ríkissjóður þurfi á öllu sínu að halda, að þá sé eigi að siður réttmætt að samþykkja till. á þskj. 491, vegna þess að ef aðflutningsgjöldin eru tekin, eins og nú hefur verið gert, af þessum nauðsynlegu tækjum til framleiðslunnar, þá verður ekki hjá því komizt að endurgreiða þetta aftur til framleiðslunnar í öðru formi. Og það er miklu verra en að láta það vera að taka þetta af atvinnuvegum, sem engan veginn hafa efni á að greiða það. Ég vænti þess vegna, að þessi till. verði að athuguðu máli samþykkt, og ég held, að það væru hyggileg vinnubrögð að fresta þessari umræðu, gefa hv. fjhn. tækifæri til þess að athuga þessar till. í nýju og bjartara ljósi og vita, hvort hún eftir nána athugun og yfirvegun getur ekki fallizt á að mæla með samþykkt till.