18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Nokkrar brigður hafa verið á það bornar af hálfu hv. meiri hl. og jafnvel hæstv. félmrh., að formlega rétt væri að bera brtt. minni hl. hv. n. upp við lögin um húsnæðismálastjórn frá 1955. Skildist mér jafnvel á frsm. hv. meiri hl., að hann óskaði álits eða úrskurðar hæstv. forseta um þetta atriði. Ég vil af þessu tilefni aðeins benda á það, að brtt. hv. minni hl. eru stílaðar við það frv., sem hér liggur fyrir. Hins vegar er gert ráð fyrir því í brtt., að hin nýju lög, sem sett verða samkvæmt því frv., sem hér er verið að afgreiða, verði stíluð sem breytingar við gildandi lög um þetta efni. Og ég verð að segja, að mér finnst það miklu eðlilegra, ekki sízt þegar á það er litið, að allt þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ein uppsuða úr lögunum um húsnæðismálastjórn frá 1955. Hv. minni hl. hefur því í öllu farið formlega rétt að, og ég treysti það á reynslu og réttsýni hæstv. forseta, að ég veit, að ekki kemur annað til mála en að hann telji hv. minni hl. hafa haft réttan hátt á í þessu efni.

Það má nú segja um hæstv. félmrh. og þetta frv., að hverjum þykir sinn fugl fagur, þótt hann sé bæði ljótur og magur. Þetta frv. felur nefnilega ekki í sér þær nýjungar, að hægt sé að segja, að það sé um eitt eða neitt merkilegt. Það er að mínu álíti mjög ómerkilegt frv., eitthvert allra ómerkilegasta frv., sem flutt hefur verið um stórt mál og þýðingarmikið um lengri tíma á hv. Alþingi. Og það sýnir bezt, hvílík hrákasmíð þetta frv. hefur verið af hálfu hæstv. félmrh., að hans eigin stuðningsmenn í hv. félmn. hafa ekki treyst sér til annars en að bera upp við það fyrst 27 brtt., sem útbýtt hefur verið á þskj. hér í hv. þd., og síðan 3 skriflegar brtt., samtals 30 brtt. Svo kemur hæstv. félmrh., sjálfumglaður að vanda, og segir, að það hafi ekki verið kastað höndunum til þessa frv. Ég held einmitt, að ræða hv. frsm. meiri hl. n. hafi sannað greinilega, að það hefur verið kastað mjög höndunum til þessa frv. Hv. frsm. var allan tímann að reyna að bera í bætifláka fyrir þær veilur, sem væru í uppbyggingu frv. Honum tókst það auðvitað ekki, þó að hann hefði þar góðan vilja til. Og það sprettur af því, að verkin sýna merkin. Meiri hluti n. flytur hvorki meira né minna en 30 brtt. til þess að draga úr verstu agnúunum og fljótfærnisvitleysunum í verkum hæstv. félmrh.

Þetta er sannleikurinn í málinu, hversu sjálfglaður og ánægður sem hæstv. ráðh. er svo hér í máli á eftir. Auk þess koma svo allmargar brtt. frá hv. minni hl., sem einnig fela í sér tilraun til þess að draga úr verstu vanköntunum og koma einhverju viti í þennan frumvarpsóburð hæstv. ráðh., sem hann var svo ánægður með hér áðan.

Hæstv. ráðh. fór geyst af stað í þessu máli. Hann byrjaði á því við 1. umr. þess að ásaka hæstv. fyrrverandi ríkisstjórnir fyrir það, að ekkert eða svo til ekkert hefði verið gert í húsnæðismálunum. Tveir hv. þm., annar stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. og hinn 6. þm. Reykv., veittu ráðh. nokkra hirtingu fyrir þessar fullyrðingar hans. Á það var bent, að á s.l. 5 árum hafa undir forustu tveggja síðustu ríkisstj. verið veitt hvorki meira né minna en um 3000 lán til íbúðabygginga í landinu úr lánadeild smáíbúða og á vegum þess nýja veðlánakerfis, sem starfað hafði í rúmlega eitt ár og nú hefur starfað í um það bil tvö ár og sett var á laggirnar fyrir frumkvæði hv. fráfarandi síðustu ríkisstj. Samtals 3000 lán höfðu verið veitt fyrir forustu þessara tveggja ríkisstj. Á vegum þess veðlánakerfis, sem stofnað var fyrir frumkvæði síðustu ríkisstj., voru veitt lán beint frá húsnæðismálastjórn, er námu um 80 millj. kr. Samtals voru veitt löng byggingarlán, meðan þetta nýja veðiánakerfi starfaði, sem námu um 230 millj. kr. Þetta eru allt saman tölur, sem raktar hafa verið ekki einungis af stjórnarandstæðingum nú, heldur bent á af öðrum stuðningsmönnum fyrrverandi hv. ríkisstj., og á ég þar fyrst og fremst við hv. þm. S-Þ., sem flutti um þetta greinargóða ræðu við 1. umr. þessa máls.

Svo kemur hæstv. félmrh. hér og segir, að nýmæli þessa frv. hafi vakið mikla athygli og átt ríkan hljómgrunn hjá ekki aðeins stjórnarsinnum, heldur stjórnarandstæðingum um land allt. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að þetta frv. hefur vakið almenn vonbrigði vegna þess, hversu greinilega afturför er um að ræða með boðskap þess. Í því kemur greinilega fram, að hæstv. núv. félmrh. hefur ekki getað tryggt neitt fé frá bönkum og lánastofnunum til starfsemi veðlánakerfisins á þessu ári. Í grg. er hins vegar sagt, að ríkisstj. muni sjá um, að húsnæðismálastjórn fái til úthlutunar á árinu 1957 eigi minni fjárhæð auk byggingarsjóðsins en 44 millj. kr., og muni hún taka upp samninga við banka og tryggingarfélög til þess að tryggja þetta.

Stjórnin er sem sagt ekki komin lengra áleiðis í þessu efni en að hún lofar því að hefja samninga á miðju ári víð banka og tryggingarfélög til þess að tryggja þetta. Það er engin trygging fyrir því, að bankarnir leggi fram nauðsynlegt fé í þessum efnum.

Hvernig stendur á þessu? Ástæðan er fyrst og fremst sú, að síðan núverandi hæstv. ríkisstj. kom til valda, hefur sparifjármyndun í landinu stöðvazt. Það, að fyrrv. ríkisstj. gat tryggt fé til hins almenna veðiánakerfis, þegar það fór af stað á árinu 1955, spratt fyrst og fremst af því, að sparifjárinnlög í bankana fóru þá vaxandi og sparnaðarviðleitni var allalmenn hjá almenningi. Þess vegna treystu bankarnir sér til þess að leggja allmikið fé af mörkum til þessarar nauðsynlegu uppbyggingar- og umbótastarfsemi í þjóðfélaginu. Þegar hæstv. ríkisstj. núverandi hefur setið örfáa mánuði að völdum með hæstv. félmrh. við stjórn húsnæðismálanna, þá kippir gersamlega úr sparifjármynduninni, og húsnæðismálastjórn fær engan eyri frá bönkunum af þeim sökum.

Það má hver sem vill lá fólki, sem á í vandræðum nú með byggingar sínar og hefur ráðizt í þær í skjóli þessa nýja veðlánakerfis, þó að það byggi ekki miklar vonir á því loforði hæstv. félmrh., að hann muni taka upp samninga við banka og tryggingarfélög til þess að tryggja þetta, þegar svo er komið, að öll sparnaðarviðleitni í þjóðfélaginu og sparifjármyndun hjá lánastofnunum er gersamlega lömuð.

En hæstv. ráðh. kemur og segir, að þetta frv. hafi vakið fögnuð jafnt hjá stjórnarandstæðingum og stjórnarsinnum um land allt. Ég segi, að það þarf mikla óskammfeilni til þess að taka þannig upp í sig af manni, sem stendur í sporum hæstv. félmrh. nú.

Og hver eru svo nýmælin, sem felast í þessu frv.? Það er rétt að kryfja það aðeins örlítið til mergjar.

Nýmælin eru fyrst og fremst tvö, sem væru góðra gjalda verð, ef á þeim mætti byggja miklar vonir: Það er, að til íbúðarhúsalána skuli renna 2/3 hlutar af væntanlegum stóreignaskatti, og það er gert ráð fyrir því, að það muni verða 7–8 millj. kr. á ári. Því miður er ekki hægt að leysa íbúðarlánaþörf nema örfárra manna með 7–8 millj. kr. árlegum tekjum af þessum væntanlega stóreignaskatti. En verst er þó, að engin vissa er fyrir því, að árlegar tekjur af stóreignaskattinum verði svona miklar. Eins og nú er komið ástandi efnahagsmála í þjóðfélagi okkar, þá er það alls ekki ótrúlegt, að tekjurnar af stóreignaskattinum, sem gert er ráð fyrir að verði 80 millj. kr. á 10 árum, verði alls ekki svona miklar, og minnkar þá að sjálfsögðu hinn árlegi hlutur, sem byggingarsjóði er ætlaður af þessum tekjustofni.

Hin nýjungin er skyldusparnaðurinn. Ég skal fúslega játa, að mér finnst hugmyndin um skyldusparnað að ýmsu leyti skynsamleg. En um framkvæmd hennar gegnir svipuðu máli og um stóreignaskattinn, að fullkomin óvissa ríkir um það, hve miklar tekjur þessi fyrirhugaði skyldusparnaður veitir byggingarsjóðnum árlega. Í frv. hæstv. ráðherra er gert ráð fyrir því, að það muni nema um 15 millj. kr. á ári.

Fróðir menn um þessi efni hafa sagt mér, að á þessa tölu verði að líta sem algera áætlunartölu og að mjög litlar líkur séu til þess, að þessi upphæð verði svona há. Hún getur orðið það. Hugsanlegt er, að hún verði 15 millj. kr. Hitt er miklu líklegra, að hún verði 10 millj. kr. Og hún getur orðið 5–7 millj. kr. Hvað er þá orðið eftir af því öryggi, sem hæstv. ráðh. og jafnvei hv. frsm. voru að tala um að fælist í þessum till.? Ég fæ ekki séð það.

Því miður er það þannig, að eftir að tvær hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafa komið lánamálum í sambandi við íbúðabyggingar á sæmilega traustan grundvöll, þó að ekki hafi verið unnt að leysa vandkvæði allra, þá er nú svo komið, að fullkomið óvissuástand ríkir nm möguleikana í þessum efnum, og það sprettur af því fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, að stefna hæstv. ríkisstj. hefur leitt til þess, að sparifjármyndun í landinu er lömuð og þar með geta banka og lánastofnana til þess að risa undir veðlánakerfinu, en geta þeirra var forsendan fyrir framkvæmd þessa nýmælis í lánamálum þjóðarinnar, nýmæli, sem vissulega var nauðsynlegt og hefur þegar gert mjög mikið gagn og veitt mörgu efnalitlu fólki mikilsverðan stuðning og stuðlað að því, að menn hafa getað eignazt þak yfir höfuðið. Það, sem við blasir í dag, er þess vegna ekki, að þetta frv. hafi blásið mönnum nýjum vonum í brjóst, heldur hitt, að alger uppgjöf hæstv. félmrh. til þess að halda áfram því, sem byggt hefur verið upp, hefur skapað svartsýni og vandræði meðal þúsunda manna í landinn.

Þetta er sannleikurinn í málinu, hvað sem líður gorti og yfirlæti, sem þessi hæstv. ráðh. getur aldrei neitað sér um í sambandi við hvaða mál sem er, hversu ömurleg sem aðstaða hans er. Þetta eru staðreyndir, sem verður að lýsa, áður en þetta frv. fer út úr þessari hv. þd.

Það er svo eitt dæmi um það, hvernig kommúnistar hafa gersamlega étið ofan í sig öll sín diguryrði um möguleikana á því að bæta aðstöðu manna í byggingarmálunum, að í þessu frv. er reiknað með sömu vöxtum og gert var ráð fyrir samkvæmt gildandi lögum um húsnæðismálastjórn. Á undanförnum árum hafa kommúnistar flutt hvert frv. á fætur öðru um vaxtalækkun og haldið uppi stórfelldum árásum á lánastofnanir þjóðarinnar fyrir það, að vextir væru allt of háir. Nú kemur þessi fyrsti félmrh. kommúnista og leggur fram frv. um nákvæmlega óbreytta vexti. Ég varð ekki var við, að þetta stæði lengi í hæstv. ráðh. áðan, þegar það rann sem liðugast upp úr honum sjálfshólið og grobbið yfir þessum frumvarpsóburði sínum.

Varðandi brtt. hv. minni hl. verð ég að segja það, að þær miða allar til bóta, og með því að samþykkja þær 30 brtt., sem hv. stjórnarsinnar bera fram við þetta „glæsilega“ frv., sem hæstv. félmrh. segir að hafi gert menn um land allt bjartsýna, og með því að samþykkja brtt. sjálfstæðismanna, þá hygg ég, að það mætti koma nokkru meira lagi á vesalinginn. Ég vænti þess vegna, að a.m.k. eitthvað af brtt. sjálfstæðismanna verði samþykkt, og ég tek undir það með hv. 11. landsk., sem hann sagði hér áðan, að brtt. sjálfstæðismanna við tillögu frv. um skyldusparnað held ég að séu vænlegri til þess að afla fjármagns í því skyni, sem hér er um að ræða. Ég dreg ekki í efa, að skyldusparnaðurinn er vel meintur af hálfu hæstv. ríkisstj. og einnig af hálfu hæstv. félmrh., en eins og ég hef bent á, þá er ákaflega óvíst um þær tekjur, sem byggingarsjóðnum eru ætlaðar af þessu nýmæli. Miklu líklegra er, að með þeim frjálsu sparifjárinniánum, sem brtt. minni hl. gerir ráð fyrir, muni safnast allmikið fé, sem gert geti starfsemi byggingarsjóðsins öflugri en ef byggt væri á þeim skyldusparnaði, sem í frv. er gert ráð fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ég vil að lokum láta þá ósk í ljós, að betur takist til um framkvæmd þessara þýðingarmiklu mála en nú lítur út fyrir í höndum hæstv. núv. félmrh. Hér er um ein þýðingarmestu mál þjóðarinnar að ræða, og ég álít það mikla ógæfu, að það viturlega starf, sem byggt var á traustum grundvelli undir forustu hæstv. tveggja fyrrverandi ríkisstj., skuli nú að verulegu leyti vera að renna út í sandinn vegna úrræðaleysis og lánleysis núverandi stjórnar.