21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þetta mál er með nokkuð sérstökum hætti. Í fyrsta lagi var töluvert miklu minni sláttur á hæstv. félmrh. hér við 1. umr. málsins heldur en í Ed., þar sem málið var lagt fram og bumbur voru barðar og ráðherra barði sér á brjóst, var með ásakanir og getsakir í garð fyrrv. ríkisstj. um það, hversu gersamlega hún hefði brugðizt skyldu sinni í húsnæðismálunum, en sem betur fer, mundi nú mikið úr rætast fyrir hin glæsilegu og afdrifaríku úrræði, sem hann, hæstv. félmrh., hefði og væri nú að beita sér fyrir. Af öllu þessu átti að mega ráða, að það væri runnin upp ný tíð fyrir þá, sem í húsnæðiserfiðleikunum hafa staðið, og vissulega er ég einn þeirra, sem af einlægni vildu vona, að einhver minnsti fótur væri fyrir öllu því yfirlæti og stærilæti, sem fram hefur komið hjá hæstv. félmrh. og stuðningsmönnum núverandi hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessi mál, bæði hér á Alþ. og ekki sízt í blöðum þessara flokka. En ég sagði, að málið væri einkennilegt, ekki aðeins vegna þess yfirlætis, sem fylgt hefði því hér inn í þingsalina, heldur einnig vegna þess, að það hefur sennilega sjaldan verið lagt fyrir þingið eins ótrúlega óvandað og illa undirbúið frv. eins og það frv., sem hér er um að ræða, þannig að það mun vera nokkuð einstakt, hversu fjölmargar brtt. hefur þurft við það að flytja, ekki aðeins af stjórnarandstæðingum, heldur ekki síður af hv. stjórnarsinnum, og vita menn þó vel, að það er ekki fyrst og fremst háttur stjórnarsinna hér að breyta stjfrv. efnislega undir meðferð málsins í þinginu, heldur er það einkenni þessa liðs að láta meira og minna allt fram hjá sér fara og rétta upp höndina þegjandi og hljóðalaust við því, sem ríkisstj. hefur búið þeim í hendur. En nú bregður svo við, að það verður bókstaflega að ganga í það sérstaklega og það af stjórnarsinnum sjálfum að leiðrétta og lagfæra þessa furðulegu vansmíð, sem lögð er fram í þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég geri ráð fyrir því, að flokksmenn hæstv. félmrh. hafi talið, að það væri mildari meðferð á málinu, sem þeir vildu viðhafa, að flytja við það sem slíkt jafnmargar brtt. og þeir nú gerðu, fremur en hitt, sem sjálfstæðismenn bentu réttilega á, að hér væri verið að halda áfram á þeim grundvelli, sem lagður hafði verið af fyrrv. hæstv. ríkisstj., og öll eðlileg málsmeðferð og form málsins var þess vegna að flytja brtt., sem yrðu, ef þetta frv. var sundurgreint, í rann og veru sáraefnislitlar, við þá löggjöf, sem fyrir hendi var í húsnæðismálum þjóðarinnar. Það var ekki aðeins sem sagt, að flokksmenn hæstv. félmrh. í efrideildarnefndinni, heilbr.- og félmn., hefðu þurft að viðhafa þessa ýtarlegu hreinsun og endurskoðun á frv., heldur mætti það strax í öndverðu af hálfu annarra stuðningsmanna stjórnarinnar í Ed. sérstökum aths., einmitt vegna þess, að hæstv. félmrh. vildi láta líta svo út sem hann væri hér að boða einhver ný og meiri bjargráð í húsnæðismálum þjóðarinnar en áður höfðu verið fyrir hendi, en hann yrði að gæta að því, að grundvöllurinn, sem lagður hefði verið, hefði verið lagður í tíð fyrrv. ríkisstj. og án þeirra átaka, sem þá hefðu verið gerð, væru ekki framkvæmanlegar þær till., sem felast í því frv., sem hér um ræðir.

Við þessa 1. umr. málsins verður að sjálfsögðu fyrst og fremst að miða við almenn atriði þessa máls, en síðar undir meðferð málsins víkja að einstökum greinum og einstökum brtt., sem fluttar kunna að verða eða ég ásamt öðrum þm. mun eiga hlut að máli um að flytja.

Ég vil fyrst snúa mér almennt að þeirri lánsfjáráætlun, sem fylgir þessu frv. Í fyrsta lagi er hún mjög ófullkomin og villandi í sjálfri grg. frv., og í öðru lagi dreg ég mjög í efa þær tölur, sem hæstv. félmrh. hefur viðhaft hér um það, hvað mikið nýtt fjármagn til íbúðarlána muni leiða af þessari löggjöf. Til dæmis þegar hæstv. ráðh. heldur því fram og byggir á því, að það hafi verið reiknað út af starfsmönnum í Landsbankanum, að 15 millj. árlega muni koma af skyldusparnaðarfé unglinga skv. þessum lögum, þá tel ég, að það sé full ástæða til þess undir meðferð málsins að reyna að gera sér nánari grein fyrir þessu, því að það virðist í fljótu bragði liggja í augum uppi, að hér sé nm fullkomna fjarstæðu að ræða, og þegar málið er nánar krufið til mergjar, þá sé mjög vafasamt vegna þeirra mörgu undanþága og þeirra hámarka um lánsfjárspörunina, að nokkurt verulegt fé safnist með þeim hætti, sem hér er til stofnað. Með þessu móti er ég ekki út af fyrir sig að leggjast gegn skyldusparnaði, en skyldusparnaður er ekki nýtt fyrirbrigði, sem ekki hefur áður verið rætt um, bæði hér í sölum Alþingis og annars staðar, og hefur þó ekki verið lögfest. Og þegar að því kemur að lögfesta það, þá tel ég mjög mikils um vert, að ákvæði skyldusparnaðarins séu almenn, enda þótt vel megi fella sig við þá hugsun að miða það að einhverju leyti við takmarkaðar stéttir eða æskufólk í þjóðfélaginu, en að öðru leyti einnig þannig, að það sé um einhvern raunhæfan skyldusparnað að ræða. En almennt felli ég mig miklu fremur við þá hugsun að búa þannig að þjóðfélagsþegnunum, að sparnaðurinn komi af frjálsum vilja og án nokkurrar lögþvingunar af hálfu ríkisvaldsins. En það er kannske engin tilviljun, að sú ríkisstj., sem sá skuggi hefur fylgt, að sparifjármynduninni, hinni frjálsu sparifjármyndun í þjóðfélaginu, er alltaf stöðugt að hraka, telji, að það sé nauðsynlegt að lögþvinga þann sparnað, sem ætlazt er til að reyna að ná fram og byggja á að nokkru leyti upp tekjur byggingarsjóðs ríkisins.

Þegar efnahagsástandið í þjóðfélaginu er heilbrigt og fjármálalífið sömuleiðis, þá kemur sparnaðurinn af sjálfu sér, ekki aðeins hjá æskufólki landsins, heldur hjá öllum almenningi. Jafnframt þróun húsnæðismálanna sem og annarra stórvægilegra framkvæmda í þjóðfélaginu á undanförnum árum, í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og á undanförnum áratug, þegar sjálfstæðismenn hafa stöðugt haft mikil ítök og ráðið kannske mestu nm stjórnarstefnuna, á þessum árum hefur stöðugt verið vaxandi frjáls sparnaður, sem byggt hefur upp efnahagskerfið og þær miklu framkvæmdir, sem um hefur verið að ræða, og á þeim fyrst og fremst grundvallaðist það nýja og aukna fjármagn, sem til byggingarmálanna fékkst skv. lögunum nr. 55 frá 1955. Og það er kannske fátt, sem er gleggri vottur um hina heilbrigðu þróun í efnahagslífi okkar á undanförnum árum heldur en sú heilladrjúga aukning í sparifjármyndun landsmanna, sem átti sér stað, enda þótt við höfum stöðugt mátt hlusta á það, að fjármálalíf Íslendinga og efnahagslíf væri orðið helsjúkt fyrir tilverknað sjálfstæðismanna fyrst og fremst, og maður heyrir það engu að síður frá framsóknarmönnum nú, þó að þeir allt frá 1950 og þótt lengur væri talið hafi verið í samstjórn með sjálfstæðismönnum og átt fjármálaráðherrana óslitið frá 1950 og þar til stjórnarskiptin urðu á s.l. ári. En það eru eftirtektarverðar staðreyndir, að þegar litið er á sparifjármyndunina í landinu, þá er spariféð alls í bönkum landsins, sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaganna samtals um 625 millj. kr. árið 1950, en í árslok 1955 er sparifjármyndunin í þessum sömu stofnunum orðin 1272 millj. kr. og hefur þannig liðlega tvöfaldazt á þessu árabili frá 1950 og til ársloka 1955. Þegar slík þróun á sér stað í fjármála- og efnahagslífi þjóðfélags, þá þarf ekki að grípa til skyldusparnaðar. En þegar undan lætur og hallar undan fæti og sparifjárminnkun á sér stað, þá kann vel að vera, að einhver telji vera kominn tíma til og nauðsynlegt sé að lögþvinga fram sparnaðinn, en þá á bara eftir að reyna á það, hvern árangur það kann að bera.

Ég vék að þróun sparifjármyndunarinnar á árabilinu 1950–55. En ef litið er á þróun þessara mála á s.l. ári, 1956, þá kemur í ljós, að það hefur sjaldan verið meiri sparifjáraukning fyrri hluta árs en einmitt á því ári. Og ef borin eru saman árin 1955 og 1956, þá er sparifjáraukningin í bönkum landsins 67.7 millj. kr. til júlíloka árið 1955, en 98.3 millj. kr. frá áramótum til júlíloka 1956, eða til þess tíma, sem stjórnarskipti urðu í þessu landi. En frá þeim tíma og til áramóta jókst spariféð árið 1955 um 8 millj. kr., en minnkar um 24 millj. kr. síðari hluta ársins 1956. Og því miður er mjög hæg þróun þessara mála á fyrstu mánuðum yfirstandandi árs, á þeim tíma þó, sem á öllum undanförnum árum hefur verið hvað mest sparifjáraukning.

Þetta eru staðreyndir, sem menn verða að hafa í huga og geta ekki leitt hjá sér, þegar lagt er fram frv. til tekjuöflunar til íbúðabygginga, sem m.a. felur í sér ákvæði um skyldusparnað, vegna þess að sú staðreynd er fyrir hendi og fram hjá henni verður ekki gengið, að það er sama, hvaða löggjafarákvæði verða sett í þessum efnum, ef ekki heldur áfram hagstæð þróun í sparifjármyndun landsmanna, þá eru þessi lagaákvæði og önnur hliðstæð algerlega gagnslaus og haldlaus.

Það má segja, að það sé í raun og veru ekki aðalatriðið að deila um það nú á þessu stigi málsins, hvort áætlun hæstv. ríkisstj. eða hæstv. félmrh. um tekjuöflun af þessu frv. eða löggjöf, ef að lögum verður, muni standast, heldur skiptir að sjálfsögðu öllu máli, hvernig um þau mál fer í framkvæmdinni. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir í dag og nú, hverju haldið hefur verið fram um þessi efni og hverju spáð hefur verið, til þess að geta á ótvíræðan hátt haft það til samanburðar á síðara stigi málsins, þegar núverandi hæstv. ríkisstj. verður krafín efnda á loforðum sínum. Það er jafnveigamikið og það er nú þýðingarmikið að minnast hinna stóru gífuryrða hv. stjórnarsinna hér við útvarpsumræðurnar í vetur, þegar þeir héldu fram hver á fætur öðrum, að vörurnar hækkuðu alls ekkert í verði í landinu, dýrtíðin mundi ekkert vaxa. Sem betur fer eiga þm. eftir að fá tækifæri til þess að tala til landsmanna í útvarpið, áður en þingi lýkur nú, og væntanlega verður þá hægt að minna landsmenn á, hvað sagt var í þessum efnum af stjórnarliðinu í umræðunum í vetur, fyrir nokkrum mánuðum, en síðan þarf ekki að skýra fyrir fólkinu í þessu landi, hvort vörurnar hafi hækkað í landinu, hvort dýrtíð hafi vaxið í landinu. Það veit og finnur hver einstakur maður í sínu daglega lífi á hverjum einasta degi.

Því hefur verið baldið fram með ótrúlegu yfirlæti og gífuryrðum af hálfu stórnarsinna, að sjálfstæðismenn og fyrrv. ríkisstj. hafi blekkt fólkið í þessu landi, blekkt það til þess að hefja húsbyggingar, sem síðan hafi verið svikizt um að lána því fé til, eins og gefin hafi verið fyrirheit um. Þetta fær engan veginn staðizt. Það er staðreynd, að þegar sett voru húsnæðislögin nr. 55 frá 1955, var áætlað af hálfu þáverandi stjórnarflokka, að á næstu tveimur árum mundu verða handbærar í þessu landi ca. 200 millj. kr. bæði árin í löngum húsnæðislánum, án þess að tilgreint væri, að þau lán væru öll beinlínis lánuð af húsnæðismálastjórn. Þvert á móti kom fram í áætluninni, að tilskilinn hluti var áætlaður sem bein útlán frá húsnæðismálastjórn, annar hluti frá sparisjóðum, lífeyrissjóðum og öðrum peningastofnunum í þessu landi. Þessi ráðgerða áætlun hefur fyllilega staðizt og meira til, því að þegar gert var ráð fyrir um 200 millj. kr. löngum lánum til íbúðabygginga á árunum 1955 og 1956, þá hefur reynslan orðið sú, að þau hafa orðið töluvert meiri og líklega nálægt 230–240 millj. kr.

Það er þess vegna mikil óskammfeilni, sem hæstv. stjórnarstuðningsmenn hafa gert sig seka um æ ofan í æ undir meðferð málsins í Ed. og einnig í blöðum sínum dag eftir dag, að telja, að sjálfstæðismenn hafi brugðizt skyldu sinni, vegna þess að lánveitingar húsnæðismálastjórnar sjálfrar hafi ekki numið þeim 200 millj. kr., sem áætlað var að lánaðar mundu verða í þessu skyni, þegar lögin nr. 55 frá 1955 voru lögð fyrir Alþ. En það var aldrei áætlað. Þvert á móti, eins og ég sagði áðan, annar tiltekinn hluti frá húsnæðismálastjórn sjálfri, en almennt var gerð áætlun um löng lán til íbúðabygginga um 200 millj. kr. á tveimur árum. En það var alveg fullkomlega ósýnt, að hve miklu eða litlu leyti verulegur hluti þessara lánveitinga sveigðist fyrr eða síðar beinlínis inn í þetta almenna lánakerfi, þannig að húsnæðismálastjórn hefði beina íhlutun um lánin. Bæði var þetta fullkomlega óvist almennt um sparisjóðina í landinu og er enn og eins um lífeyrissjóðina í landinu og tryggingafélögin og marga aðra aðila. Og það skipti vissulega engu höfuðmáli, hvort lánveitingarnar færu fram beinlínis af húsnæðismálastjórn sjálfri, heldur væri aðalatriðið hitt, að lánveitingarnar sveigðust í form hinna almennu lána veðlánakerfisins, a.m.k. ekki með lakari kjörum en þar væri boðið upp á. Og þegar grundvöllur var lagður að húsnæðismálalöggjöfinni 1955, þá var einmitt miðað við það, að hinar almennu peningastofnanir í landinu önnuðust sjálfar lánveitingarnar og þá ekki síður sparisjóðirnir en verið hafði fram til þess tíma, en vitað var, að meginhluti fjármagns þeirra var einmitt lánaður til íbúðabygginga. Og þó voru ákvæði um það, að ef sparisjóðirnir kysu að kaupa bankavaxtabréf af húsnæðismálastjórn, þá gætu þeir látið sjálfir fylgja lista um það, hvaða aðilum eða hvaða einstaklingum í byggðarlagi þeirra skyldi veita húsnæðismálalán, sem svaraði þeim upphæðum bankavaxtabréfa, er þeir keyptu.

Ég fullyrði því hér, að meira og minna af því, sem sagt hefur verið, og allar ásakanir í garð fyrrv. ríkisstj. og sjálfstæðismanna um, að þeir hafi brugðizt skyldu sinni og blekkt almenning í húsnæðismálunum, fær ekki staðizt. Það eru ósannindi og blekkingar, sem verða allar hraktar, þegar hinar raunverulegu staðreyndir eru leiddar fram í dagsins ljós.

Ég vil leyfa mér hér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til greinargerðar Landsbankans um það, hvernig komið hafi verið þessum málum í lok ársins 1955, en í skýrslu, sem Landsbankinn hefur gefið út um það, segir á þessa leið:

„Lánveitingar úr veðdeildinni hófust 1. nóv. 1955, og á þeim 17 mánuðum, sem siðan eru liðnir, hafa A- og B-lán úr veðdeildinni numið 81 millj. kr. til rúmlega 1450 einstaklinga auk 24 millj. kr. til byggingarsjóðs sveitanna. Hafa samningar og heildaráætlanir um lánveitingar fullkomlega staðizt.

Árið 1955 voru löng lán til íbúðabygginga rúmlega 100 millj. kr., en allt bendir til þess, að þau hafi verið um 120–130 millj. kr. á árinn 1956, en skýrslusöfnun um þau er enn ekki lokið.

Mikið hefur líka áunnizt. Nú liggja að vísu enn óafgreiddar 1800 umsóknir, en það er um 800 minna en í upphafi. Allmikill fjöldi þessara íbúða er skammt á veg kominn, en margir, sem umsóknirnar eiga, munu vafalaust geta bjargazt án lána úr veðlánakerfinu.

Á undanförnum 2 árum hefur fleiri íbúðum verið lokið en nokkru sinni fyrr. Árið 1955 var tala nýrra íbúða 1225, og 1956 reyndist hún allmiklu hærri, eða 1439. Það hefur m.ö.o. tekizt að byggja mun fleiri íbúðir en þurft hefði samkv. áætlun húsnæðismálanefndarinnar 1954, sem þó gerði ráð fyrir allmiklum byggingum til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. Er lítill vafi á því, að hinn mikli fjöldi nýrra íbúða hefur þegar dregið úr húsnæðisskortinum hér í Reykjavík, og sjást þess merki í auknu framboði leiguhúsnæðis.“

Þetta er tilvitnun í skýrslu Landsbankans um árangurinn af lögunum um húsnæðismálastjórn og veðiánakerfi frá 1955.

Öllum mátti vera ljóst, að fyrsta gangan á þessu sviði mundi verða erfið, og vissulega vorum við margir í hópi stuðningsmanna þáverandi ríkisstj., sem bæði óskuðum þess og hefðum viljað, að það hefði mátt taka rösklegri tökum til þeirra mála en gert var. En aðalatriðið var þó, að það var hafinn nýr þáttur í þessum málum hjá okkur Íslendingum, eftir að veðlán til íbúðabygginga, almenn veðlánastarfsemi til íbúðabygginga hafði að verulegu verið vanrækt um margra ára bil, og byrjunin var með þeim hætti, að hún lofaði fullkomlega góðu og gaf fyrirheit um, að ef haldið væri áfram svipað og í upphafi hafði verið gert, þá mundi á mjög skömmum tíma vera búið að byggja upp hér á landi voldugt og sterkt veðlánakerfi til stórkostlegra hagsbóta fyrir almenning í þessu landi. Og það er einmitt á þessum grundveili, upphafi veðlánakerfisins, sem hæstv. núverandi ríkisstj. byggir till. sínar í þessu máli, sem í sjálfu sér eiga engan veginn neitt skylt við nýja húsnæðismálalöggjöf, heldur eru framhald og að sumu leyti í nokkuð öðru formi en áður var til stofnað. Og þó vil ég segja það, að þar sem gert er ráð fyrir að stofna byggingarsjóð ríkisins og lúðrar þeyttir um nýjan byggingarsjóð ríkisins, þá vita það allir og ekki sízt ríkisstj. sjálf, að hér er ekki um annað en nafnbreytingu að ræða á varasjóði hins almenna veðiánakerfis, sem hér eftir á að nefnast byggingarsjóður ríkisins og verður náttúrlega hvorki minni né stærri til lánveitinga eftir en áður, hvort sem hann heitir varasjóður hins almenna veðlánakerfis eða svokallaður byggingarsjóður ríkisins.

En sannleikurinn er sá, að við erum í senn, sjálfstæðismenn, ásakaðir fyrir að hafa brugðizt skyldum við húsbyggjendur og svo erum við í sömu orðunum sakaðir um að vera að leiða þjóðina í glötun í efnahagsmálum hennar vegna hinnar gífurlegu fjárfestingar í íbúðarmálum, sem við höfum stofnað til.

Ég býst við því, að það haldi eitthvað áfram fram eftir sumri söngurinn um það, að við sjálfstæðismenn höfum stofnað efnahagslífi þjóðarinnar í mikinn voða með hinni miklu fjárfestingu, sem við höfum átt hlut aðmáli nm og ekki sízt í íbúðamálunum, og að það hafi verið með öllu óverjandi af okkur að stofna til þessarar miklu fjárfestingar. Hitt veit ég alveg, eins og tvísvar tveir eru fjórir, að þegar kemur fram í ágúst–september, þá þagna alveg þessar ásakanir; svo byrja í október og nóvember að skjóta upp kollinum kröfur um það frá stjórnarsinnum að auka fjárfestinguna í íbúðamálunum, í byggingarmálunum, og svo þegar kemur fram í desember, þá á að stórauka íbúðabyggingar, einkum í Reykjavík, og þegar kemur fram í janúar, þá vita menn, af hverju þetta á að ske, af því að þá eiga að fara fram bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Í febrúar 1958 byrjar svo aftur gamli söngurinn um það, að við höfum kollsteypt efnahagskerfi þjóðarinnar með hinni stórkostlegu fjárfestingu í íbúðamálunum fyrr og síðar.

Hæstv. félmrh. vék að því í sinni ræðu, að það væru ákvæði í þessu frv., sem hér er lagt fyrir, um, að það mætti síðar lækka vexti og breyta lánskjörum. Já, miklir menn erum við, Hrólfur minn í Þegar lögin nr. 55 1955 voru lögð fyrir, þá var nú ekki talið fært að fara lengra en það, að lánin skyldu veitt til 25 ára og með 7% vöxtum. Þá stóðu upp stjórnarandstæðingar, þeirra á meðal núverandi hæstv. félmrh., töldu þetta ósvífni og ósvinnu gagnvart almenningi í þessu landi, væru aðeins lánakjör, sem hinir ríku gætu búið við, að fá ekki nema 25 ára lán og með 7% vöxtum. Ég hirði ekki að rekja öll þau stóryrði, sem þá voru höfð í frammi um það, hversu skilningslausir þáverandi stjórnarflokkar væru á þarfir almennings í þessu landi og þessi löggjöf gæti engum komið að liði, því að enginn alþýðumaður í þessu landi gæti byggt eða tekið lán til byggingar húsa með kjörum eins og hér væri um að ræða. En hvað skeður? Nú leggja þessir sömu menn fram — hæstv. félmrh. í broddi fylkingar — nýjar till. í húsnæðismálunum. Þá skyldi maður ætla, að lánin væru löng, til 50 ára eða 100 ára, vextirnir lágir. En hvað skeður? Lánstíminn er sá sami og vaxtakjörin eru þau sömu, en þessir menn hugga sig við það nú, að það sé nú heimild til þess í lögunum að breyta þessu seinna, lækka vextina og lengja lánstímann o.s.frv.

Ég held, að með þessu og mörgu öðru séu þeir búnir, þessir menn, að renna nokkuð kyrfilega niður gífuryrðunum í garð sjálfstæðismanna varðandi þennan þátt þeirra í húsnæðismálunum, eins og á ýmsum öðrum sviðum.

Án þess að ég geti nú við þessa umr. farið út í einstakar greinar eða efni þessa frv., þá hjó ég í það, að hæstv. félmrh. sagði, að það mundi verða stefnt að því, að lánin yrðu hlutfallslega meiri, þar sem þéttbýli væri minna utan Reykjavíkur og nágrennis. M.ö.o.: það á að fullnægja að meiri hluta þeim stöðum, þar sem þörfin er minni. Ef ég hef heyrt þetta rétt, þá skýtur hér nokkuð skökku við, en ef ég hef misskilið hæstv. ráðh. í þessu efni, þá væri mjög æskilegt, að það væri leiðrétt.

Ég vék að því áðan, að það væri ekki núna hátt risið á þeim mönnum, sem töluðu um lélegu lánskjörin og háu vextina 1955. En það er ekki aðeins á þessu sviði, sem er ekki hátt risið á flm. og stuðningsmönnum þessa máls, sem hér um ræðir, því að hvað á nú að marka stefnuna í húsnæðismálunum á næstunni, eftir því sem hæstv. félmrh. og stuðningsmenn hans boða? Því er haldið fram, að sjálfstæðismenn eigi sök á því, að fólkið hafi byggt óhóflega stórar lúxusíbúðir, og það verði að setja um það strangar reglur, að menu megi ekki byggja nema helzt eins og tveggja herbergja íbúðir og hæst upp í þriggja herbergja íbúðir og annað sé í raun og veru ósvinna.

Það er furðulegt að boða Íslendingum annan eins boðskap eins og þetta. Bæði Reykvíkingar og aðrir hér á landi muna þá tíð, þegar menn bjuggu í mjög lélegu húsnæði, þar sem ekki aðeins íbúðirnar sjálfar voru lélegar, heldur íbúðarherbergin voru fá. En sem betur fer hefur þróun málanna á undanförnum árum á þessu sviði verið hliðstæð og á mörgum öðrum sviðum, eins og t.d. á sviði raforkumálanna; þegar ljós og hiti hefur verið að færast æ lengra um landið, þegar ræktunin hefur verið að færast yfir æ stærri hluta og landssvæði í öllum landsfjórðungum, þegar samgöngur hafa batnað til sjós og lands og í lofti á þessu landi, þá hefur fólkið einnig mátt fagna því láni, að íbúðarhúsnæði þess hefur smátt og smátt verið að breytast, breytast til batnaðar, þannig að íbúðirnar hafa orðið stærri og fullnægt betur þörfum fólksins.

Þetta er ekki þróun, sem við þurfum að bera kinnroða fyrir, heldur er það til skammar að boða nú í dag þörfina á því að skera niður íbúðastærðina almennt í þessu þjóðfélagi, og þá erum við að hverfa til þeirrar stefnu, sem nágrannaþjóðir okkar að vísu á undanförnum árum höfðu hallazt nokkuð mikið að, en eru algerlega að hverfa frá og er orðið mjög viðurhlutamikið viðfangsefni hjá þeim, hversu mikið er einmitt af smáíbúðum í hinum ýmsu stórborgum Norðurlanda, enda er það svo, að þegar l. um verkamannabústaði voru sett á sínum tíma, þá var gert ráð fyrir því, að í þeim mættu vera fjögurra herbergja íbúðir. Nú heita það á máli hæstv. félmrh. lúxusíbúðir. Þegar Reykjavíkurbær er að undirbúa áætlun um að útrýma heilsuspillandi íbúðum og útrýma öllum herskálum hér á næstu árum, þá eru í þeirri áætlun svokallaðar raðhúsabyggingar, sem eru fyrsti áfangi þessarar áætlunar. Þær eru allar fjögurra herbergja íbúðir. Nú heitir þetta á máli hæstv. ríkisstj. lúxusíbúðir og óhófsíbúðir.

Ég vil minna á það, að árið 1928 voru í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur um 5228 íbúðir og þar af voru 2924 íbúðir eins eða tveggja herbergja með eldhúsi, eða nærri 56% af íbúðum, 55,9%, voru eins og tveggja herbergja íbúðir og þá voru um 4.8 manns á hverja íbúð. Í árslok 1947, eða nærri 20 árum síðar, eru íbúðirnar í bænum 10908 og þar af eru 1555 eins og tveggja herbergja íbúðir, eða 14.3%. Þessum litlu íbúðum, eins og tveggja herbergja íbúðum, hefur þess vegna fækkað um 1369 íbúðir fyrir utan þær eins og tveggja herbergja íbúðir nýjar, sem byggðar voru á þessu árabili. Þetta tel ég heilbrigða og ánægjulega þróun í höfuðstað landsins, og það væri stórkostlega varhugavert, ef svo kreppti að Reykvíkingum, að þeir þyrftu aftur að hverfa að því að byggja langsamlega mikinn meiri hl. af íbúðum sínum eins og tveggja herbergja íbúðir.

Það er lítill fótur fyrir ásökunum og getsökum stjórnarliða núna um lúxusíbúðir og óhófsíbúðir, og ef litið er á meðalstærð íbúða í Reykjavík, þá verða þessar tölur fyrir hendi: 1935 var meðalstærðin 298 m3, 1940 230 m3, 1945 301, 1950 325, 1955 359 m3 og 1956 353 m3, m.ö.o. á s.l. ári nokkru lægri meðalstærð en árið áður, eða 353 m3, og ég hygg, að þegar þessi mál eru skoðuð ofan í kjölinn, þá sjái menn augljóslega, að það veldur engum vandkvæðum stærð íbúðanna hér í höfuðstað landsins, enda þótt í þessum efnum séu eins og öllum öðrum ýmsar misfellur og einstakir aðilar fari þar kannske út fyrir eðlileg takmörk.

Við erum því miður í þeirri aðstöðu að geta borið okkur saman við þá nágrannaþjóð okkar, sem kannske stendur fremst á sviði íbúðamálanna af Norðurlandaþjóðunum, Svía, varðandi þéttbýll hér í höfuðborginni, enda þótt húsnæðisskorturinn hafi verið mikið vandamál á undanförnum árum. En ef teknar eru samanburðartölur, þá kemur það í ljós, að á hvert herbergi voru hér 1928 1.09 einstaklingar, 1940 1.18, 1950 1.05 og 1956 0.99, eða tæplega einn maður á hvert herbergi. Til samanburðar í höfuðstað Svíaríkis er þetta 1946 1.05 og á s.l. ári 0.91, eða næstum því sama tala og er hér hjá okkur Reykvíkingum.

Ég vil vekja athygli á því, að langsamlega mestur hlutinn af íbúðunum í höfuðborg Svíþjóðar hefur verið fram að þessu einmitt eins og tveggja herbergja íbúðir, sem nú eru að valda svo miklum vandkvæðum, að menn stefna hröðum skrefum frá þeirri þróun, enda má segja, að þessi þróun hljóti í miklu minni mæli en hjá flestum öðrum á undanförnum árum að hafa markazt af fjárhagsörðugleikum, þar sem vitað er, að Svíar hafa á undanförnum árum reyndar og um lengri tíma verið mjög vel fjáð þjóð og haft miklu meira fé einmitt til fjárfestingarframkvæmda eins og íbúðabygginga heldur en nokkrar aðrar nálægar þjóðir eða nokkurt af hinum Norðurlöndunum. En það er sem sagt, að það eru um 70% af öllum íbúðunum í Stokkhólmsborg, sem eru eins og tveggja herbergja íbúðir. Og frá þessu er nú búið að taka þá stefnu að hverfa stórlega frá þessum minni íbúðum og stækka íbúðirnar, og ef við lítum á hæfilegan mælikvarða í byggingarframkvæmdum höfuðborgar Svíþjóðar núna, þá gera þeir ráð fyrir eins og tveggja herbergja íbúðum, að þær megi ekki í byggingarframkvæmdunum fara yfir 30% af íbúðarnýbyggingunum, í staðinn fyrir að heildin er 70% nú, og þriggja herbergja íbúðirnar megi vera allt að 55% og stærri íbúðirnar 15%.

Við Reykvíkingar höfum, eins og ég sagði áðan, átt við mikla erfiðleika að stríða í húsnæðismálunum á undanförnum 11/2 áratug, eða síðasta áratug, og það fyrst og fremst vegna hins mikla aðstreymis til Reykjavíkur og hinnar öru fólksfjölgunar. Þannig er það, að frá árinu 1940 og til ársloka 1956 eru byggðar hér í Reykjavík um 6967 íbúðir, eða 46.4% allra íbúða í bænum. En skiptingin á íbúðastærðir er nokkuð athyglisverð hjá okkur, eins og ég hef verið að víkja að, og vil ég þó gera nokkru nánari grein fyrir því, að eftir því sem upplýsingar liggja fyrir frá byggingarfulltrúa, þá var hér 1928 ástandið í þessum málum þannig, að eitt herbergi og eldhús voru íbúðir, sem voru 24.8% af íbúðunum, 2 herbergi og eldhús voru 31.1% og 3 herbergi eða fleiri og eldhús 44.1%. 1940 eru sömu tölur 1 herbergi og eldhús 8.8%, 2 herbergi og eldhús 30.2% og 3 herbergi eða fleiri og eldhús 61%. 1950 er 1 herbergi og eldhús komið úr 24.8% 1928 niður í 6.2% af íbúðunum og 2 herbergi og eldhús 28.3% og 3 herbergi og eldhús eða fleiri 65.4%. Og á s.l. ári eru hlutföllin 5.2% 1 herbergi og eldhús, 25.3% 2 herbergi og eldhús og 69.5% 3 herbergi o.fl. og eldhús, eða nærri 70%. Minnstu íbúðunum hefur þess vegna fækkað frá 1928 úr 24.8% af íbúðafjöldanum niður í 5.2%, en stærri íbúðunum hefur fjölgað úr 44.1% upp í 69.5%.

Þessi þróun er ekki til að harma, heldur er hún mikið fagnaðarefni og mjög veigamikið atriði, að okkur lánist að halda áfram á svipuðum vegi eins og við höfum þarna verið. En það er nokkuð, sem við verðum að hafa í huga hér hjá okkur, þegar rætt er um erfiðleika bæjarfélaganna til þess að leysa úr húsnæðisvandræðunum, og segi ég það vegna þess, að það kemur ósjaldan fram, að sjálfstæðismenn séu ásakaðir fyrir það, af því að þeir hafa verið og eru í meirihlutaaðstöðu í Reykjavík, að þeir hafi ekki verið nógu ötulir í aðgerðum bæjarfélagsins til þess að láta byggja íbúðarhúsnæði í bænum. Hér er ólíku saman að jafna bjá bæjarfélögunum hjá okkur og hjá ýmsum okkar nágrannaþjóðum, og ef við gerum samanburð við Stokkhólmsborg, sem ég minntist á áðan, þá er það svo, að á öllum undanförnum árum hefur bæjarfélagið þar eða borgarstjórnin á hverjum tíma haft aðgang að lánum, sem ríkisvaldið hefur lagt grundvöllinn að og af ríkisvaldinu hafa verið tryggð, sem nema 100% af byggingarkostnaðinum og eru með 3% vöxtum og til mjög langs tíma, eða til 40 ára. Hafi byggingarsamvinnufélög óskað að byggja almenningsíbúðir í þessari borg, þá hafa þeim af hálfu ríkisvaldsins verið tryggð 95% lán með 3% vöxtum til 40 ára. Og hafi einstaklingar óskað að byggja yfir sig sjálfir, eða félög þeirra, þá hafa þeim á sama hátt verið tryggð 85% lán af kostnaðarverðinu með 3% vöxtum til 40 ára. Ég hygg, að af þessu megi menn dæma, að aðstaðan væri nokkuð önnur í þessu og öðrum bæjarfélögum, ef bæjarfélögin og sveitarfélögin hefðu í raun og veru alveg getað sleppt áhyggjunum af lánsfjármálunum og peningahlið málanna í sambandi við íbúðabyggingar og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. En hér hefur það verið svo, eins og kunnugt er, um margra ára skeið, að engin heildarlöggjöf hefur verið í þessu efni, gerð tilraun til þess, eins og hv. þm. rekur minni til, árið 1946 með l. um íbúðabyggingar þá, þar sem bæjarfélögin áttu lagalegan rétt til allt að 85% lána með lágum vöxtum til langs tíma, en sú löggjöf stóðst ekki nema mjög skamman tíma og þurfti siðan að fresta framkvæmd hennar, vegna þess að við lífum ekki í svo fjársterku þjóðfélagi, Íslendingar, að við höfum getað leyft okkur þetta, enda sjáum við, að mælikvarðinn er allur annar hér nú í þessu frv. og eins í fyrri löggjöfinni, þegar verið var að tala um almenn lán 70–100 þús. kr., sem í flestum tilfellum er ekki nema lítill hluti af byggingarkostnaðinum, og þau eiga að vera til 25 ára og með 7% vöxtum.

Hins vegar er það svo, að vegna atorku og dugnaðar þessarar þjóðar og rösklegs einkaframtaks hefur þrátt fyrir hina miklu lánsfjárörðugleika tekizt á undanförnum árum að lyfta Grettistökum í íbúðabyggingum í höfuðstað landsins og annars staðar á landinu. Byggingarframkvæmdirnar hafa í raun og veru verið það miklar, að þær hafa fullkomlega samsvarað fólksfjölguninni og aðstreymi fólksins hér, en hins vegar er enn ógert það hlutverk að útrýma lélegum og heilsuspillandi íbúðum, og þarf mikið átak, áður en því er lokið, en vonir standa til, að a.m.k. á næstu fáum árum þá verði því verkefni að mestu leyti lokið hér í Reykjavík, ef ekki núverandi hæstv. ríkisstj. með aðgerðum sínum í efnahagsmálum og á öðrum sviðum verður búin að kippa grundvellinum undan áframhaldandi þróun á þessu sviði.

Það er einnig augljós aðstöðumunurinn, sem við búum hér við að því leyti, að hér er langsamlega mestur hlutinn af íbúðabyggingunum í höndum einstaklinganna sjálfra, sem byggja þetta og leggja þá nótt við dag, byggja íbúðirnar í aukavinnu og næturvinnu og með aðstoð vina sinna og skyldmenna. Tel ég, að hin yngri kynslóð nú hafi lagt á sig meira erfiði í þessum efnum en nokkur önnur kynslóð hér á landi fyrr eða síðar og eigi mikið lof skilið, og hef ég áður látið í ljós, bæði hér og annars staðar, að ég tel undraverðan þann dugnað, sem einstaklingar hafa sýnt hér og annars staðar á undanförnum árum í íbúðabyggingum sínum, miðað við þá erfiðu aðstöðu, sem þeir hafa átt við að búa. Ef við lítum á hlutfallið milli þess, hvað bæjarfélagið byggir mikið hér í höfuðstað Reykjavíkur og einstaklingar annars vegar, og berum það saman við nágranna okkar, þá er á það að lita, að frá árunum 1931–47 byggði bæjarfélagið hér 5.2% af íbúðunum, en einstaklingar og félög 88.3%. Afgangurinn var svo verkamannabústaðir og aðrar byggingar. Á árunum 1948-56 byggði bæjarfélagið 5.7% af byggingunum, en einstaklingar og félög 91.4%. Ef þetta er borið saman við byggingarframkvæmdir í Stokkhólmsborg, þá kemur í ljós, að þar hefur bæjarfélagið byggt á árunum 1952–56 57% eða meira en helminginn af öllum íbúðum, sem þar hafa verið byggðar, 57% á móti 5.7% hér í Reykjavík, og einstaklingarnir þar sjálfir 30% á móti 91.4% hér. Þeim mun sárara er það, þegar einstaklingar og samtök þeirra hafa lagt á sig jafnmikinn dugnað og sýnt jafnmikla elju eins og á sviði þessara mála, að það opinbera hefur ekki reynzt þess megnugra en raun ber vitni að rétta þeim hjálparhönd einmitt á sviði lánsfjármálanna, og ber því að fagna öllum till., sem fram koma til úrbóta á þessu sviði, þó að hins vegar sé fullkomin ástæða til að gjalda varhuga við öllu því, sem teljast verður skrum og gylliboð í þessu sambandi, og umfram allt verð ég að taka fram, að að svo miklu leyti sem till. þær, sem hér eru fram bornar, verða að gagni, þá er það fyrst og fremst af því, að þær geta orðið reistar á þeim grundvelli, sem þegar hefur verið lagður af forsjálni í tíð fyrrverandi ríkisstj. og ekki sízt undir forustu sjálfstæðismanna.

Hæstv. félmrh. vék að því, að það mundi vera handbært fé til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum af hálfu þess opinbera eða ríkissjóðs með þeim framlögum, sem ætluð eru á fjárlögum 1957, — ég tók eftir, að það væri nálægt 8 millj. kr., og það á að mæta að jöfnu framlagi frá bæjarfélögunum, þegar byggt er, og ef bæjarfélögin legðu af sinni hálfu 8 millj. til þessara mála, þá mundi á þessu ári vera kleift að verja 16 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Þetta er í sjálfu sér gott, en mun þó skammt hrökkva, því að vitað er, að byggingaráætlun Reykjavíkurbæjar til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, sem nú er verið að vinna að, er í það stórum sniðum, að Reykjavíkurbær þarf að verja miklu meira en 8 millj. kr. á þessu ári til þeirra framkvæmda. Á fjárhagsáætlun ern 10 millj. kr. til þeirra framkvæmda. Því verður áreiðanlega öllu varið, og ef vel árar, þá mætti e.t.v. hugsa sér, að síðar á árinu væri hægt að bæta við það fjármagn úr bæjarsjóði Reykjavíkur, og jafnframt er svo um að ræða lánsheimild hjá bæjarfélaginu til íbúðabygginga til þess að auka við þetta svo sem nauðsynlegt væri að hagnýta til þess að halda þeim hraða, sem æskilegastur væri í þessum efnum. Þegar þetta er haft í huga, þá sést, að skammt hrekkur það fé, sem það opinbera hefur aflögu, því að þá er minna en ekki neitt eftir handa öðrum bæjarfélögum og ekki einungis til að fullnægja þörfum Reykjavíkur einnar.

Við höfum lagt til, sjálfstæðismenn, á þessu þingi, að hagnýtt væri lagaheimild, sem var fyrir í l. nr. 55 frá 1955 til erlendrar lántöku til íbúðabygginga. Ég hef áður haldið því fram, að ástandið í íbúðamálunum hafi einmitt verið þannig, að það öðru fremur hafi réttlætt erlenda lántöku til þessara mála, ef hún væri fáanleg, og innan fyrrv. ríkisstj. voru þau mál einmitt til umr., og upplýst hefur verið að erlent lánsfé stóð íslendingum þá til boða, sem að einhverju leyti hefði verið hægt að verja til þessara mála. Við höfum lagt áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. reyndi að hagnýta heimild l. frá 1955 til erlendrar lántöku og það vegna þess, að nú er ástandið þannig, eins og margoft hefur verið bent á, að svo margar íbúðir eru í smíðum, og í því er mikill þjóðhagslegur hagnaður að gera sérstakt aukaátak til þess að fá þeim lokið. Hef ég áður á þessu þingi sýnt fram á, að miðað við fólksfjölgunina hér í bænum á undanförnum árum, ætti að mega ganga út frá því, að húsnæðisskortinum væri algerlega eytt á næstu 2–3 árum, ef öllum þessum íbúðum, sem nú eru í smíðum, væri á sama tíma lokið og nokkur eðlileg viðbót kæmi til. En í sjálfu sér væri það ekki stórt átak að miða við í íbúðamálunum. Við megum ekki gleyma því, að þótt erfiðleikarnir séu miklir í dag, þá erum við þó ótrúlega langt á leið komnir með þær mörgu hálfbyggðu íbúðir, sem nú eru í smíðum. Þær eru að vísu mikið vandamál og gætu valdið stórkostlegum áhyggjum, ef menn þyrftu að óttast, að til stöðvunar kæmi í þessum framkvæmdum. Þess vegna ber að sjálfsögðu að beina bæði þeirri aðstoð, sem bæjarfélög og ríkisvaldið getur veitt í þessum málum, lánsfjármálum íbúðabygginganna, á næstu árum fyrst og fremst að því að fá lokið þessum mörgu íbúðum, sem ekki aðeins eru í smíðum hér í Reykjavík, heldur á gervöllu landinu.

Ég skal ekki svo núna við þessa 1. umr. hafa mörg fleiri orð um þetta mál. Ég hef viljað rekja það almennt, en að sjálfsögðu þurfa hin einstöku atriði þess að athugast miklu nánar undir meðferð málsins. Það er að vísu svo, að við sjálfstæðismenn verðum mjög varir við það, að það ber ekki mikinn árangur í stjórnarherbúðunum, þó að við viljum færa til betri vegar málefni, sem þeir hafa flutt inn í þingið ag þarfnast vissulega umbóta við, en engu að síður munum við ekki liggja á liði okkar í þessu efni.

Ég vil svo aðeins ljúka máli mínu með því að spyrja hæstv. félmrh., hvort það muni vera rétt, sem haft hefur verið eftir, að fyrir einhver mistök hafi hér ekki alls fyrir löngu verið byrjað að útbýta frv. um húsaleigu, sem flytja hefði átt af hæstv. ríkisstj., en því hefði verið kippt til baka og síðan hafi það verið læst inni í einhverjum skáp. Það er nokkuð mikill orðrómur um þetta, og ég held, að það gæti verið ágætt að hreinsa svolítið til í þessu máli og fá dálítið að vita um örlög þessa húsaleigufrv. og hvers borgarar þessa bæjar og íbúar landsins almennt eiga að vænta í þessum efnum. Finnst mér þá tilvalið tækifæri að inna hæstv. félmrh. eftir því nú, hvort ekki væri hægt að opna skápinn áður en þingi lýkur.