24.05.1957
Neðri deild: 106. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þær brtt., sem hér hafa verið lagðar fram af hv. 8. þm. Reykv., komu fram eða var hreyft öllum í heilbr.- og félmn., en þær fengu þar ekki byr hjá meiri hl. n. Ég hygg þess vegna, að mér sé óhætt fyrir hönd meiri hl. n. að leggja til, að þessar brtt. verði felldar, enda þótt nm. hafi ekki gefizt kostur á að koma saman á fund, eftir að þessar brtt. hafa verið hér formlega fram lagðar. Að vísu hefðu kannske einstakir nm. getað hugsað sér að ganga til móts við einstakar af þessum breytingum, sem þarna er hreyft, en hins vegar er þess að gæta, að eins og kom fram hér í umræðum í gær, þá unnu nefndir beggja d. saman að athugun þessa máls, og ég hygg, að allar þessar brtt., sem nú hafa verið bornar fram, hafi komið til athugunar og umr. í hinni sameiginlegu n., en þær fengust ekki þar upp teknar. Þess vegna er það, að jafnvel þó að Nd. kynni að vilja fallast á einhverjar þeirra breytinga, þá mundi allt eins líklegt vera eftir forsögu málsins, að Ed. vildi ekki á þær fallast, og gæti þá svo farið, ef farið yrði að samþykkja brtt. við þetta, eins og nú er komið langt þinginu, að málinu væri með því teflt í tvísýnu. Þess vegna vildi meiri hl. heilbr.- og félmn. Nd. ekki fallast á neinar af þessum breytingum, þegar þeim var hreyft í nefndinni, og þess vegna legg ég gegn því, að þær séu samþykktar.

Ég skal aðeins víkja að þessum brtt. Þó að ég hafi þær að vísu ekki hér, þá held ég, að ég hafi efni þeirra.

Fyrsta brtt. laut að 1. gr. og hné í þá átt að breyta því ákvæði, sem nú er í frv., að fulltrúi sá, sem skipaður er í húsnæðismálastjórn skv. tilnefningu Landsbankans, skuli hafa atkvæðisrétt eins og hinir húsnæðismálastjórnarmenn. Eftir frv. er gert ráð fyrir, að hann hafi ekki atkvæðisrétt. Ég skal fúslega játa, að mér persónulega finnst þetta ákvæði í frv. ekki eðlilegt. En þá er þess að gæta, að þessi háttur hefur verið á hafður að undanförnu, svo að í frv. er ekki nein breyting á því ástandi, sem verið hefur, og það liggur heldur ekki fyrir nein ósk frá Landsbankanum um, að þessu sé breytt. Af þeirri ástæðu gat meiri hl. heilbr.- og félmn. ekki fallizt á þessa breytingu.

Viðvíkjandi brtt. þeirri, sem er við 2. gr. og fjallar um það, að komið skuli á fót byggingarmiðstöð í samvinnu við framleiðendur og innflytjendur byggingarefna, þar sem væri sýning á byggingarefnum, húshlutum o.s.frv., þá er þess að geta, að meiri hl. heilbr.- og félmn. er út af fyrir sig alveg sammála þessu að efni til, sem þarna kemur fram í þessari brtt., en hann lítur hins vegar svo á, að efni hennar felist algerlega í nokkrum þeirra liða, sem eru hér í 2. gr. og ég skal ekki fara að rekja, en þeir eru það viðtækir að okkar áliti, að þeir rúma þetta algerlega.

Um þá málsgr.; sem kemur næst á eftir 12. lið í 2. gr. og lagt er til að breytt sé, þá er þess að geta, að um það var rætt allmikið á sínum tíma við sameiginlega athugun í nefndum beggja deilda, og þá var að vísu gerð nokkur breyting á þessu frá því, sem það upphaflega var í frv. En lengra vildu menn ekki ganga en þarna segir. Það er að vísu rétt, að með þessu getur verið nokkur skylda lögð á bæjarfélög. En þess er þá að gæta, að til þess að slík skylda verði lögð á þau, þarf að vera fyrir hendi bæði samþykki húsnæðismálastjórnar og félmrh. og þess vegna ekki nein ástæða að okkar viti til þess að ætla, að þessu verði misbeitt.

Viðvíkjandi tækniráðinu sjáum við ekki ástæðu til þess að hafa þetta öðruvísi en er í frv., þ.e.a.s., að þar sé um heimild að ræða, vegna þess að það kom í ljós við athugun málsins, að það gæti verið nokkurt vafamál, hverjir ættu að sitja eða fá setu í þessu ráði eða nefnd, og það væri þess vegna ekki rétt að fara að binda það beinlínis í lögum.

Ég skal svo fara fljótt yfir þetta. Ég skal aðeins geta þess að því er varðar þá brtt., sem snertir upphaf 6. gr., A-liðs hennar, og gengur í þá átt, að það sé einnig heimilt að veita lán til gagngerra endurbóta á eldri húsum, að það var að vísu áhugi hjá sumum nefndarmönnum fyrir breytingu í þessa átt, en meiri hlutinn treystist þó að athuguðu máli ekki til að leggja slíkt til. Þó að þeim væri ljós nauðsyn á þessu í sjálfu sér, þá töldu þeir, að það yrði þá að setja um það ákvæði annars staðar og að betur athuguðu máli. Þess vegna gat ekki meiri hl. n. fallizt á þá brtt., sem hér liggur fyrir, að heimilt væri að greiða út lán í bankavaxtabréfum, vegna þess að reynslan hefur þótt benda til þess, að menn gætu freistazt til þess að taka við slíkum bréfum og þeir neyddust síðan til þess að selja þau með afföllum.

Viðvíkjandi hámarksupphæð lánanna er það að segja, að það er rétt, að nýlega hefur verið gerð sú breyting á lánveitingum úr lífeyrissjóði, að hámark lána þar hefur verið hækkað úr 100 þús. í 120 þús., en við teljum samt sem áður ekki fært að taka inn þetta ákvæði í þessi l. Það er öllum kunnugt, að þörfin á lánum er svo geysimikil, og við teljum réttara, að hægt sé að veita sem flestum úrlausn, heldur en að fara að hækka þarna hámarkið, sem gæti kannske haft þær afleiðingar, að færri fengju úrlausn en ella.

Það er að vísu rétt, að það kom í nefndinni fram nokkur ótti við það, að mönnum væri um of gert að sækja til Reykjavíkur í þessu efni, þar sem t.d. var gert ráð fyrir því, að menn mættu ekki byrja á byggingum, fyrr en skriflegt lánsloforð væri fengið hjá húsnæðismálastjórn. En í trausti þess, að þessu ákvæði verði beitt með sanngirni, féllumst við á það í meiri hl., og ég held, að það gæti verið ákaflega varhugavert að samþ. þá brtt., sem hér er lögð fram, að sveitarstjórnum utan Reykjavíkur skuli heimilt að veita slíkt leyfi. Ég held, ef slík breyting væri samþ., að þá væri fallið burt það aðhald, sem þessu ákvæði var ætlað að veita, sem sé það, að menn réðust ekki í byggingar án þess að hafa nokkuð gert sér grein fyrir því, hvernig þeir kæmust frá þeim og hvernig þeir ætluðu að afla fjár til byggingarinnar.

Það liggur svo í hlutarins eðli, að við erum algerlega andvígir þeirri breytingu, sem gengur í þá átt að fella niður ákvæðið um skyldusparnað, vegna þess að skyldusparnaðurinn er eitt meginefnið í þessu frv. og það mundi raska algerlega grundvelli þess, ef þau ákvæði féllu niður.

Svo skal ég aðeins að lokum víkja hér að því atriði, sem minnzt var á í sambandi við 11. gr. og þann skilning, sem þar hefði komið fram viðvíkjandi e-liðnum þar. Þann lið verður að skilja á þá lund, að einstaklingar á aldrinum 16–25 ára, sem hafa börn eða skylduómaga á framfæri sínu, séu því aðeins skyldir til sparnaðar, að þeir hafi yfir 30 þús. kr. skattskyldar tekjur. En jafnvel þó að þeir hafi svo háar tekjur, þá eru þeir ekki skyldir til sparnaðar, ef þeir hafa fyrir heimili að sjá, en allir einhleypir menn á þessum aldri, sem ekki komast undir undantekningarnar í a, b eða c, eru skyldir til sparnaðar, hversu litlar tekjur sem þeir hafa. Ég efa ekki, að það hefur verið rétt, sem hv. 8. þm. Reykv. (RH) vitnaði í um stjórnarblöð um þetta efni, en það, sem þar hefur verið skráð, hefur þá byggzt á misskilningi að þessu leyti. Af þessum skilningi leiðir, að ég get ekki mælt með og n. ekki eða meiri hl. bennar mælt með þeirri breytingu, sem hér um ræðir.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta.