07.05.1957
Neðri deild: 93. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

159. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég veit, að hv. þm. taka eftir því, að meðferð þessa máls er nokkuð með sérstökum hætti og því miður ekki sem þinglegust. Ég vil geta þess, að eftir að Alþ. kom saman úr páskafríinu, var lögð á það mikil áherzla, að við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. gætum lokið okkar athugun á málinn sem allra fyrst, og við lögðum, eftir því sem við gátum, tíma fram til þess að geta sem allra fyrst lokið efnisathugun á þessu máli. En það kom fljótt í ljós, að mörg atriði þess eru þannig, að þau eru verð þess að fá nána og nákvæma athugun, og einnig þess eðlis, að þau gefa fyllstu ástæðu til þess að ætla, að flm. frv. eða hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar mundu geta fallizt á leiðréttingar, sem lagðar væru fram, ef ætla mætti, að þær yrðu ekki að verulegu leyti til þess að raska grundvallaratriðum málsins, en til beinna málsbóta og kannske leiðréttingar frá því, sem fyrir sjálfum hv. flm. hefur vakað.

Nú var það svo, að þegar fundir voru svo boðaðir í fjhn. og við höfðum lokið okkar athugun og vorum reiðubúnir til og lögðum fram ýtarlegar brtt. og aðrar ábendingar til athugunar, þá þurfti fundur niður að falla þann daginn; og síðan næsta dag, þegar fundur var haldinn og okkar athuganir og brtt. lágu fyrir, var meiri bl. ekki reiðubúinn til þess að tjá sig um einstök atriði þeirra, en hins vegar lögð áherzla á að koma málinu sem fyrst til 2. umr. Í sjálfu sér er þessi meðferð hvorki þingleg né að mínum dómi var hún vænleg til þess að flýta nokkuð fyrir gangi þessa máls. En þar sem svo mikil áherzla var lögð á þetta af hálfu meiri hl., höfum við fulltrúar Sjálfstfl. í n. tekið þá afstöðu, sem frsm. minni hl. hefur lýst, að leggja ekki að svo stöddu fram einstakar brtt., þar sem fyllilega hefur komið í ljós í n., að rökstudd ástæða er til að ætla, að innan n. sé jarðvegur fyrir einhverjar brtt., sem e.t.v. gæti náðst samkomulag um. Við munum því geyma okkur til 3. umr. að leggja fram hinar einstöku brtt., eingöngu vegna þess að við teljum það eftir atvikum og eins og málið er í pottinn búið vænlegra til þess að geta komið að einhverjum leiðréttingum í þessu máli. Ég mun þess vegna ekki fara út í neinar einstakar brtt. fram yfir það, sem hv. frsm. minni hl. hefur gert, sem við hyggjumst að flytja, en vildi, að þetta kæmi fram um meðferð málsins. Við höfum sem sagt lagt fram í n. og þar liggja fyrir af okkar hálfu allýtarlegar aths. og brtt. í níu liðum og enda fleiri atriði, sem við höfum rætt og athugunar þyrftu við. Með þessari málsmeðferð, sem hér er höfð, fellur að verulegu leyti niður ein umr. málsins í deildinni, eða 2. umr., og eins og ég sagði áðan, er það náttúrlega ekki sem heppilegast og ekki sem þinglegast. En ég vildi nú mega vænta, að það yrði þó ekki til þess að skaða neitt efnislega meðferð málsins og að tillit verði tekið til þess af hv. meiri hl. bæði innan nefndarinnar og í þingsölunum í áframhaldandi meðferð málsins.