18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

177. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 10 frá 15. apríl 1928, um Landsbanka Íslands, mun ekki koma neinum á óvart.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, var því yfir lýst í málefnasamningnum, sem gerður var milli flokkanna, sem að ríkisstj. standa, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir breytingum á bankalöggjöf landsins, þar með breytingu á seðlabankanum, þannig að hann yrði settur undir sérstaka stjórn.

Á dagskrá í dag er jafnhliða þessu frumvarpi frv. til l. um Útvegsbanka Íslands og enn fremur frv. til l. um breyt. á l. nr. 17 frá 10. febr. 1953, um Framkvæmdabanka Íslands.

Ég mun ræða um breytingar á l. um Landsbanka Íslands, en jafnframt mun ég ræða hin lagafrumvörpin, þar sem þau eru hluti af þessu sama máli.

Einn aðaltilgangurinn með þessu lagafrv. er að greina seðlabanka landsins meira en verið hefur frá starfsemi viðskiptabankanna og gera stöðu hans sem jafnasta til hinna einstöku ríkisbanka. Frv. er flutt í samræmi við þessa yfirlýstu stefnu ríkisstj., og með þessu móti er seðlabankinn gerður sjálfstæðari en verið hefur og honum sett sérstök stjórn. Það hefur oft og mörgum sinnum verið rætt um það að greina seðlabankann algerlega frá viðskiptabankanum, eins og viða tíðkast, en um þetta hefur löngum verið mikill ágreiningur meðal íslenzkra stjórnmálamanna. Hér í þessu frv. er farið nokkuð bil beggja, Landsbankinn er gerður að tveimur stofnunum, tveimur bönkum. Eins og fyrr segir, er seðlabankinn settur undir sérstaka stjórn, og þó eru báðir bankarnir meiður á sama stofni. Fimm manna bankaráð á að stjórna bankanum, og eru fjórir kosnir af Alþingi, en formaður bankaráðs skipaður af ráðh. þeim, sem með bankamál fer. Með þessu móti hefur hin svokallaða landsbankanefnd verið lögð niður. Þetta bankaráð ræður síðan 3 bankastjóra fyrir viðskiptabankann með svipuðum hætti og verið hefur, en í stjórn seðlabankans eru aðalbankastjórinn, sem er skipaður af forseta, þ.e. ríkisstj. að fengnum tili. bankaráðs, bankastjóri, sem ráðinn er af bankaráði, og 3 menn, sem skipaðir eru af ríkisstj. eftir till. bankaráðs.

Með því að skilja þannig að stjórn seðlabankans og stjórn sparisjóðsdeildar Landsbankans er ætlunin að tryggja það, að stjórn seðlabankans geti betur beitt áhrifum sínum í peningamálum þjóðarinnar en verið hefur, enda er stjórn bankans fengið víðtækt vald í þessum efnum, m.a. í 11. gr. þessa lagafrv., þar sem vald til eftirlits og íhlutunar um rekstur sparisjóða er innifalið. Eins og kemur fram í lagafrv. þessu, er stjórn seðlabankans allsjálfstæð, enda eru þessir trúnaðarmenn ráðnir þannig, að einn þeirra, eins og fyrr segir, er skipaður af forseta, þ.e. ríkisstj., annar bankastjóri ráðinn af bankaráði og þrír stjórnendur skipaðir af ríkisstj. eftir till. bankaráðs. Það er því raunverulega löggjafarvaldið sjálft, sem velur 4 af þessum trúnaðarmönnum, þar sem 4 af 5 bankaráðsmönnum eru kosnir af Alþingi. Vald stjórnar seðlabankans er þó bundið í þeim stærri málum því skilyrði, að leitað sé samráðs við ríkisstj. um stefnuna í öllum meiri háttar málum, en jafnframt er fyrir því hugsað,til þess að bankinn fái nokkra festu, að taka upp þann hátt, sem hafður er viða í erlendum sjóðbönkum, að forseti eða konungur skipar aðalbankastjórann sem embættismann, enda gætt hér þess jafnvægis, sem fyrr segir, að 4 af stjórninni eru kosnir ábeint af Alþingi og einfaldur meiri hl. ræður síðan úrslitum viðkomandi þeim ákvörðunum, sem teknar eru af stjórn seðlabankans. Þá þykir rétt að taka það fram, að þar sem hér er um allviðtæka skipulagsbreytingu að ræða á Landsbanka Íslands, er svo fyrir mælt í frv. þessu, að Alþingi kjósi nýtt bankaráð, þegar er l. hafa öðlazt gildi, jafnframt skipar ríkisstj. formann og varaformann bankaráðs, enda falla að sjálfsögðu niður umboð núverandi bankaráðsmanna.

Hið nýkjörna bankaráð skal síðan hlutast til um, að framkvæmdastjórn viðskiptabankans verði komið í það horf, sem fyrir er mælt í l. þessum. Enn fremur er bankaráðinu skylt að gera till. til ríkisstj. um skipun aðalbankastjóra seðlabankans og 3 meðstjórnendur hans. Þá skal bankaráð ráða einn bankastjóra, eins og fyrr segir, að seðlabankanum.

Af hinni breyttu skipan á framkvæmdastjórn Landsbanka Íslands leiðir það auðvitað, að umboð núverandi bankastjóra hans falla niður í því formi, sem nú er. Verkefni hins nýja bankaráðs skal þá jafnframt vera það að koma framkvæmdastjórn viðskiptabankans í rétt horf samkvæmt l. þessum.

Ég ætla að leyfa mér, eins og ég sagði áðan, að minnast örlítið á frv. um Útvegsbanka Íslands, þó að það liggi ekki beint fyrir í sambandi við þetta mál, sem ég ræði nú. Eins og menn muna, var Útvegsbanki Íslands reistur á rústum hins gamla Íslandsbanka og hefur frá upphafi verið einkabanki. Bankinn hefur verið hlutafélag, eins og kunnugt er, en langmestur hluti hlutafjárins eða 87.69% er eign ríkisins. Af því leiðir, þar sem þessu fjármagni fylgir fullur atkvæðisréttur samkvæmt l. þar um, að ráðh. sá, sem fer með bankamálin, ræður því raunverulega einn, hverjir eru með vissu millibili kosnir í bankaráð bankans, og þá um leið, hverjir verða bankastjórar. Í eigu bankans eru 8.11% og í einkaeign eru aðeins 4.20% af hlutafé bankans. Með hliðsjón af þessu er það eitt talið eðlilegt, að ríkið eigi allt hlutaféð og bankinn sé gerður að ríkisbanka, er lúti sérstakri stjórn með hliðstæðum hætti og hinir viðskiptabankarnir, og hefur því ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir þessu. Af þessum ástæðum eru í frv. fyrirmæli um eignarnám á þeim hlutabréfum, sem eru í einkaeign.

Ríkisstj. telur nauðsynlegt, að þetta eignarnám fari fram þegar við gildistöku l. þessara og hlutafélagið Útvegsbanki Íslands leggist niður, en binn nýi ríkisbanki verði stofnaður. Á hið nýkjörna bankaráð þá þegar að taka við stjórn bankans. En um leið og Útvegsbanka Íslands hf. er þannig breytt í ríkisbanka, er nauðsynlegt að selja um hann heildarlöggjöf, því að löggjöfin, sem gilt hefur um Útvegsbanka Íslands h/f, er mjög ófullkomin löggjöf, enda var hún sett í mjög miklum flýti til þess að greiða fram úr vandræðum, sem leiddi af fjárþroti og lokun Íslandsbanka á sínum tíma.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., er það að miklu leyti sníðið eftir gildandi lögum um Landsbanka Íslands.

Breyting sú, sem frv. til l. um breyting á l. nr. 17 frá 10. febr. 1953, um Framkvæmdabanka Íslands, felur í sér, er svo augljós, að hún þarf ekki langrar skýringar við. Er þar lagt til, að aukin verði fjárhæð sú, sem fjármálaráðherra er heimilt að ábyrgjast á erlendu láni, er bankinn tekur, og í öðru lagi, að gerð verði breyting á skipun bankaráðs í samræmi við allar skipulagsbreytingar, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir að gerðar væru á hinum bönkunum.

Þetta eru í höfuðatriðum þær skipulagsbreytingar, sem gerðar verða á þessum bönkum, ef frv. þetta verður að l., og hef ég gert grein fyrir þeim í aðalatriðum. En þess er auðvitað ekki að dyljast, að þær breytingar, sem fyrirhugað er að gera á bankalöggjöfinni, eru gerðar með hliðsjón af því, að einn stjórnmálaflokkur, sem jafnframt er stjórnarandstaðan í landinu, hefur komið sér þannig fyrir, að hann ræður einn og óskorað yfir tveimur aðalbönkum þjóðarinnar, aðalviðskiptabönkunum, og er annar þeirra þjóðbankinn. Það liggur í augum uppi, að því getur ríkisstj. ekki unað, og liggja að því svo augljós rök, að ekki þarf að rekja þau hér. Það hefur líka lengst af þar til nú allra síðustu árin verið þannig háttað völdum og yfirráðum í stjórn hinna tveggja aðalviðskiptabanka, að enginn einn flokkur hefur þar ráðið óskorað. Með þeirri löggjöf, sem nú á að setja, verður valdaaðstöðunni skipt með ekki ólíkum hætti og var um langt skeið, áður en sú þróun átti sér stað, sem olli þeirri röskun á yfirráðum yfir bönkunum, sem ég minntist á áðan.

Ég vil svo að lokum gera það að till. minni, að málið og þessi mál öll verði tekin til umr. í þeirri nefnd, sem þeim verður vísað til og sennilega verður fjhn., og vildi jafnframt óska eftir því, að þessi vinnubrögð yrðu viðhöfð, vegna þess að það er orðið mjög áliðið þingtímans og það flýtir fyrir vinnubrögðum hér í þinginu, að sá háttur sé á hafður, sem hefur verið á hafður um fleiri mál.

Ég ætla svo ekki að láta fylgja þessu fleiri orð að sinni, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til fjhn.