24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

177. mál, Landsbanki Íslands

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú svo, eins og komið hefur fram við meðferð málsins, að aðalgrundvöllurinn undir þessum frv. og ástæðan fyrir því, að þau eru fram komin, er rógurinn um misbeitingu sjálfstæðismanna á svokölluðu meirihlutavaldi í bönkunum. Og svo ris upp einn hv. þm., sem að vísu er farinn úr deildinni, — hann er nú að koma inn, sem betur fer, — sem er einn aðalforsvarsmaður fyrir þessari staðhæfingu og blað flokks hans eitt af þeim blöðum, sem mest hefur þyrlað upp moldviðri og mestum ósannindum í þessu máli, — nú rís þessi hv. þm. upp og kemur með það langþráða dæmi, sem sjálfstæðismenn hafa verið að biðja um, að andstæðingarnir kæmu með einhver rök fyrir máli sínu. Hv. þm. í stjórnarliðinu hafa ekki þorað að koma með eitt einasta dæmi fyrr en nú. Og hvernig er svo þetta dæmi? Ég fullyrði, að dæmið sé ekki rétt. Talan, sem þm. nefnir, er ekki rétt, og ég vildi ráðleggja honum að leita sér nánari upplýsinga um það, hvað umrætt bæjarfélag skuldar mikið í bönkunum.