24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

177. mál, Landsbanki Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það. hefur nú verið regla við meðferð á þessum bankafrv. hæstv. ríkisstj. að tala nokkuð um þau öll í einu. Það var byrjað á því af hæstv. forsrh. við 1. umr. og haldið áfram, og mun ég nokkuð minnast á öll þessi frv. nú, úr því að ég kveð mér hljóðs við þessa umr.

Það er nokkuð venjulegt hjá slíkum mönnum eins og núverandi hæstv. stjórnarflokkum að hafa nokkuð langan undirbúningsfrest, þegar þeir eru að vinna einhver slæm verk, og það hefur orðið reynslan á varðandi þessi bankafrv., að það virðist eins og það hafi þurft marga mánuði til þess að unga þeim út með mþn. og öðrum samninganefndum starfandi. Þó er nú ekki undirbúningurinn betri en það, að sjálfir höfundarnir fluttu við 2. umr. þessa máls 14 brtt. til leiðréttingar, og mun formaður fjhn., sem er einn af aðalhöfundunum, hafa átt hlut að því að leiðrétta sín eigin verk, og mætti segja mér, að einhverju fleira þyrfti að bæta við, ef í gegnum málin væri farið eins og þyrfti.

Nú er það tvennt, sem hefur einkum verið mælt með varðandi skipulag bankanna og breytt er með þessum frv. Annað er það að skipta Landsbankanum í tvennt og hitt er það að breyta Útvegsbankanum úr hlutafélagi í ríkisbanka. Varðandi fyrra atriðið, um skiptingu á Landsbankanum, fæ ég með engu móti séð, þegar sá banki sem aðrir er nú í mikilli þröng með að geta annað sínu hlutverki eins og vera þarf, að það sé nokkrum til gagns öðrum en þeim, sem fá þarna embætti, að skipta bankanum í tvennt. Það hefur líka komið fram í umr., að þeir menn, sem leggja mesta áherzlu á það að stofna hér alveg sérstakan seðlabanka, telja alveg ófullnægjandi þá skiptingu, sem hér er farið fram á, því að þá yrði það að vera algerlega sjálfstæð stofnun og óháð viðskiptabönkunum. Nú er ekki um það að ræða, heldur er bankanum aðeins skipt í tvennt, sem er lítið annað en að fjölga yfirstjórnendum þessarar stofnunar, því að eins og er hefur verið sérstök seðladeild í Landsbankanum og svo viðskiptadeild þar fyrir utan.

Varðandi Útvegsbankann kann það að vera rétt, að það sé í sjálfu sér eðlilegra að breyta honum úr hlutafélagi, eins og sakir standa, í það að vera alveg ríkisbanki. — En aldrei hef ég heyrt þess getið fram á þennan dag, að það hafi staðið Útvegsbankanum nokkurn hlut fyrir þrifum, þó að það væru nokkur hlutabréf einstaklinga eða félaga, sem þar væru, og það sé þess vegna ekki nein nauðsyn, sem rekur þarna á eftir. En úr því að þetta er gert, þá mun sennilega ekki standa á því að breyta áburðarverksmiðjunni úr hlutafélagi í algert ríkisfyrirtæki, eins og hæstv. forseti þessarar deildar og fleiri hafa undanfarið hamrað á, og nú ætti ekki að standa á því, þegar talið er svona mjög nauðsynlegt að breyta Útvegsbankanum úr hlutafélagi í ríkisbanka.

Nei, það er augljóst mál, að það er allt annað, sem hér vakir fyrir, heldur en þessar tvær skipulagsbreytingar, sem engin nauðsyn er á. Það er það að fá nokkuð margar nýjar stöður handa stjórnarliðinu í bankastofnunum, ýmist með því að reka burt þá starfsmenn, sem þar eru, eða stofna ný embætti, og í þessu falli eru stofnuð a.m.k. fimm ný embætti við hinn fyrirhugaða seðlabanka, og þar fást fimm nokkuð feitar stöður handa hv. stjórnarliðum. Auk þess er það fyrirsjáanlegt með frv. og augljóst mál, að það er strax ákveðið að losna við fimm bankaráðsmenn, sem tilheyra Sjálfstfl., úr þessum stofnunum og setja í þeirra stað stjórnarflokkamenu. Hitt er svo óupplýst við þessar umræður og óupplýst af þeim, sem fyrir þessu hafa mælt, hve marga af núv. bankastjárum á að reka og setja aðra í staðinn, en það er sem sagt lágmarkið, sem hér er um að ræða með nýjar stöður, sem staðið hafa milli tannanna á stjórnarflokkamönnunum, að það yrðu þá a.m.k. 10 menn, sem þarna fá embætti. Hvað fleira verður, það er ekki á þessari stundu hægt að segja um, en reynslan mun innan skamms sýna, þegar það kemur í ljós í framkvæmdinni, hvernig með þessi mál verður farið. Hvað er það svo, sem er talið aðalgrundvöllurinn fyrir þessari breytingu? Hann er ekkert annað en ósannaðar ásakanir á þá menn, sem nú og undanfarið hafa verið framkvæmdastjórar í bönkunum.

Það eru fullkomlega ósannar ásakanir á þessa menn, sem tilheyra Sjálfstfl., að þeir hafi viðhaft einhvern yfirgang í sinni starfsemi á pólitískan hátt og notað sitt vald hlutdrægt. Það er a.m.k. gersamlega ósatt og ósæmilegt frá hálfu framsóknarmanna að halda þessu fram, vegna þess að þeir hafa haft sterka og gáfaða menn í bankastjórastöðum við báða þessa banka, og það er ekki annað vitað en að allt, sem þar hefur gerzt í aðalatriðum, hafi verið gert með samþykki allra þeirra framkvæmdastjóra, sem þarna eiga hlut að máli.

Það náttúrlega þarf ekki svo viðtæka og þýðingarmikla starfsemi til eins og starfsemi bankanna, að þar sé ýmislegt, sem orkar tvímælis, bæði um lánveitingar og ekki síður hitt, þegar verið er í miklu stríði með lánsfé, eins og verið hefur núna síðustu árin, og það verður að neita fjölda manna og fyrirtækja um fyrirgreiðslu, vegna þess að peningarnir eru ekki til. Það er þess vegna gefinn hlutur, að það er margt og mikið, sem getur orkað tvímælis í þessum efnum. En það orkar ekki tvímælis á þann hátt, að það hafi verið nokkur hlutdrægni milli þessara tveggja flokka, sem þarna hafa haft valda menn.

Það mætti segja, að það væri frekar nokkur von til, að fulltrúar hinna flokkanna, Alþfl. og Sósfl., teldu sig eitthvað afskipta á þessu sviði, af því að þeir hafa ekki haft þarna neina framkvæmdastjóra, og að þeir þættust hafa ástæðu til að gera athugasemdir við stjórn bankanna að því leyti. Maður getur frekar skilið ásakanir frá slíkum mönnum. En þá er öll þeirra gagnrýni, allt þeirra tal um þessa hluti byggt á óheiðarlegri og ósæmilegri framkomu, vegna þess að þeir beita ásökunum eingöngu á annan flokkinn, sem þarna hefur verið í völdum, en sleppa hinum. Ef þeir vildu koma heiðarlega fram í sinni gagnrýni, þá ættu þeir auðvitað að beita sinni ásökun jöfnum höndum á sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, sem þarna hafa verið við stjórn. En það hafa þeir ekki gert, heldur hafa þeir beitt sinni ásökun eingöngu til sjálfstæðismanna, sem er gersamlega rangt.

Það kom fram við 2. umr. þessa máls, að einn hv. fulltrúi Alþfl., hv. 5. landsk. þm., fór að sýna viðleitni í því að nefna dæmi til sönnunar því, að hér væri um einhverja hlutdrægni að ræða. Þetta sýndi það, að þessi hv. þm., sem er ungur maður, er ekki orðinn eins skelharður og sumir hinir eldri, sem eru gegnsósaðir af spillingunni, og þess vegna hefur hann viljað sýna nokkra viðleitni í því að koma með dæmi til sönnunar þeim ásökunum, sem hér hafa verið bornar fram. En þessi hv. þm., þó að hann sýndi þarna viðleitni, var ákaflega óheppinn í sínu dæmi varðandi bankastjóra Útvegsbankans, hv. 5. þm. Reykv. Hann lýsti því yfir, að Hafnarf jarðarbæ, sem þarna var um að ræða, hefði ekki verið neitað um nein lán í þeirri stofnun, en ég get nú bætt því við, að ég hef fengið upplýsingar um það, að það er ekki lengra liðið en frá því í fyrra, að Hafnarfjarðarbær fékk hjá Landsbankanum lán, sem er hvorki meira né minna en 31/2 millj. kr. Ef hlutdrægnin á að koma svona fram og þetta sé eitthvert versta dæmi, sem þekkzt hefur í útlánum bankanna, þá hefur þessi hv. þm., sem sýndi þarna nokkra viðleitni til að koma með dæmi, verið ákaflega óheppinn og væri æskilegt, að hann nefndi eitthvað fleira.

Nú er það svo, að fyrst byrjað er á þessum hlutum, að rusla til í öllum stöðum í bönkum landsins á pólitískan hátt þvert ofan í lög og á miðju kjörtímabili ýmissa þeirra manna, sem þarna eru í stöðum, að ég nú ekki tali um þá, sem eru þarna fastráðnir menn, sem eru í embættum bankastjóra, þegar farið er inn á þessa leið, þá er gengið inn á hættulega braut, og sú hættulega braut er það, að með þessu er beinlínis stofnað til þess og ýtt undir það, að starfsemi bankanna skuli framvegis vera byggð á hlutdrægni samkvæmt pólitískum línum. Og það er nokkurn veginn víst, að hvenær sem hér eftir verður skipt um ríkisstj. í þessu landi, þá hlýtur sagan að endurtaka sig, þannig að það verður aftur hreinsað til og spilið gengur á svipaðan hátt og sagt er að stundum sé í Ameríku, að það sé alltaf skipt um starfsmenn, þegar skipt er um ríkisstj.

Nú er það svo, að eitt höfuðatriðið, sem hér hefur verið minnzt á í þessu sambandi, bæði í blöðum og hér á þingi og í ræðum manna víðs vegar um land, er það, að það verði að taka meirihlutavaldið í aðalbönkum landsins af Sjálfstfl., af því að hann hefur núna síðustu tvö árin haft tvo af bankastjórum þessara hanka, sem komnir eru þar inn á alveg löglegan hátt og með samþykki annarra, sem þar hafa átt hlut að máll. En þeir flaska nokkuð mikið, þessir hv. herrar, þegar þeir taka Framkvæmdabankann með, því að það er kunnugt öllum, sem til þekkja, að eins og nú hagar þar til, þá hafa stjórnarflokkarnir, eða ef við orðum það kannske enn réttara, þá hefur Hræðslubandalagið meirihlutavald í þeim banka og hefur haft. Þar er gagnólík aðferð við ákvörðun útlána því, sem er t.d. í Landsbankanum. Í lögum Landsbankans er bankaráðsmönnum bannað að skipta sér af útlánum bankans, og þess vegna hefur það aldrei heyrt undir þá að skipta sér neitt af því, nema um einhver aðalstefnuatriði væri að ræða. Hjá Framkvæmdabankanum er þarna öfugt að farið, því að þar ræður bankastjórinn, sem er einn, engu um lánveitingar, en bankaráðið öllu, og bankaráðið er þar þannig, að stjórnarflokkarnir hafa þar hreinan meiri hluta, þar sem í því eru tveir hæstv. núv. ráðherrar, fjmrh. og menntmrh., og með þeim ráðuneytisstjórinn í fjmrn. En þetta nægir þeim ekki, þessum góðu herrum, heldur þurfa þeir að leggja fyrir Alþingi og knýja hér í gegn frv. til þess að ná enn meiri hluta í þessu bankaráði, breyta þessum lögum og koma því til leiðar, að Sjálfstfl., sem nú á tvo fulltrúa í þessu bankaráði, hafi framvegis ekki nema einn, og inn í þessi lög er það sett, að hið nýkjörna bankaráð eigi að kjósa ekki til fjögurra ára, eins og venjulegt er í hinum bönkunum, heldur á kosningatími þess að gilda á sjöunda ár, þangað til í árslok 1963. Nú minnist ég þess, að hæstv. forseti þessarar deildar og fleiri hans flokksmenn hafa gagnrýnt mjög eina stóra lánveitingu frá þessum banka og miklu meira um hana verið rætt í blöðum en nokkra aðra lánveitingu frá hinum bönkunum og kannske ekki með öllu að ástæðulausu.

Hverjir eru það þá, sem eftir hugsanagangi þessara manna hafa ráðið þessari stóru lánveitingu? Það eru núv. ráðherrar tveir og þriðji maður þá með þeim, sem skapa meiri hlutann í þessum banka. Hins vegar skal ég játa, að ég hef ekkert heyrt um það, að það hafi verið neitt ósamkomulag í bankaráði Framkvæmdabankans um þessa lánveitingu, og kann vel að vera, að sjálfstæðismennirnir þar, sem eru í minni hluta, séu ábyrgir fyrir því eins og hinir. Ég er líka sannfærður um, að framsóknarmennirnir bæði í Landsbankanum og Útvegsbankanum hafa verið samþykkir öllum helztu og kannske öllum lánveitingum, sem þar hafa verið á döfinni, a.m.k. sem nokkru verulegu máli skipta.

Nú sjá það allir, hvað hér er á ferðinni, eins og ég vék að áðan. Það er ekkert annað á ferðinni heldur en einfaldlega það að nota valdaaðstöðuna til þess að skipta um 10–15 embætti, hver veit um það, frá því, sem er, á algerlega óvenjulegan hátt, því að þetta hefur ekki þekkzt hér á Alþingi, eftir því sem mig minnir, nema einu sinni áður, og það dæmi mæltist svo illa fyrir á þeirri tíð, að það héldu margir, að það yrði ekki endurtekið. En þetta gerðist árið 1935, þegar lögum Búnaðarbankans var breytt eingöngu með það fyrir augum að sparka þaðan undirbankastjóra, Pétri sáluga Magnússyni. Um leið var að vísu þaðan sparkað öðrum, sem var framsóknarmaður, Bjarna Ásgeirssyni, en hann var látinn fá annað starf, sem var ekkert siður vel borgað en þetta. Og það vissu allir menn og sögðu mér alveg greinilega af því, Alþfl.- mennirnir, sem þá voru þar í samstarfl og í minni hluta, að þetta var barið í gegn af Framsfl. á þeirri tíð eingöngu til þess að losna við hinn ágæta mann úr Búnaðarbankanum, Pétur sáluga Magnússon.

Þetta dæmi er það eina, sem ég man eftir að gerzt hafi á svipaða leið og þessi, sem nú er verið að framkvæma, og það er sannarlega ekki til fyrirmyndar.

Nú býst ég við því og tel það eiginlega víst eftir alla samningana og eftir allt þrefið og allan ganginn, sem á því hefur verið að semja um það, hver ætti að fá þennan bita eða hinn í sinn munn, þá muni ekki hafa mikla þýðingu að tala á móti þessum frv., og við sjálfstæðismenn verðum því í aðalatriðum að láta það nægja að sýna okkar vilja með því að mótmæla þeim rangindum, sem hér eru í frammi höfð, og allri þeirri lygi, sem hefur verið í kringum það að koma þessu í kring, og svo að sjálfsögðu að greiða atkvæði gegn þessum frv., sem öll eru á sömu línunni.