24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

177. mál, Landsbanki Íslands

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Þessi ræða hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) líkar mér ákaflega vel. Hann varð ofsareiður, gætti engra þingskapa, hóf uppnefni og sannaði þar með það, sem sanna þurfti, að þar var maður, sem vissi upp á sig skömmina.

Hann býður svo upp á rannsókn. Þetta er alveg prýðilegt, hann gat auðvitað ekki annað til þess að láta enn skína í það, að allt væri gott, og það verður vafalaust athugað, hvort Kveldúlfur, miðað við togarafjölda, skuldar ekki meira í Landsbankanum en bæjarútgerðirnar í landinu, miðað við sama skipafjölda.