07.02.1957
Sameinað þing: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

Varamenn taka þingsæti

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel, að eins og þetta mál var afgreitt í kjörbréfanefnd, hefði verið eðlilegra að afgreiða fyrst og sérstaklega kjörbréf Geirs Gunnarssonar. Öll nefndin var sammála um það, það mál var tekið í n. fyrir á undan hinu málinu og hv. þm. Siglf. var kosinn frsm. allrar n. fyrir því máli, en aðeins eins nefndarhluta fyrir máli Eggerts Þorsteinssonar, sem var afgreitt í n. á eftir og er þar mjög umdeilt, svo að ég tel málið hér ranglega lagt fyrir af nefndarinnar hálfu að þessu leyti.

En úr því að forseti lætur ræða bæði málin samtímis, þá er rétt, að ég lýsi afstöðu minni til kjörbréfs Eggerts Þorsteinssonar og áskil mér þó rétt til þess að gera gleggri grein fyrir því í nál., sem mér hefur ekki enn þá unnizt tími til að semja vegna þess, hve bráðan ber nú að um fyrirtekt málsins hér. Skal ég ekki hafa á móti því, að það sé afgreitt í dag, svo lengi sem það hefur frestazt, því að það var mánud. 28. jan. s.l., að haldinn var fundur í kjörbréfanefnd, og er hér bókað um þann fund.

„Fundarefni: Haraldur Guðmundsson óskar þess bréflega, að Eggert Þorsteinsson taki sæti hans á Alþ. í fjarveru hans.

Lagt fram afrit af bréfi Haralds. Enn fremur lagt fram eftirrit af bréfi yfirkjörstjórnar, þar sem hún vísar málinu varðandi kosningu Eggerts Þorsteinssonar til Alþingis.

Tillaga frá Áka Jakobssyni: Nefndin samþykkir að leggja fyrir þingið, að Eggert Þorsteinsson verði tekinn gildur sem rétt kjörinn varaþingmaður af lista Alþýðuflokksins.

A. G. leggur til, að ofangreindri tillögu verði frestað til næsta fundar.

Formaður fellst á frestun málsins og heitir að kalla saman fund hið fyrsta. Fundi slitið.

Gísli Guðmundsson. Alfreð Gíslason.“

Hér vantar raunar í, að bæði ég og hv. 11. landsk. lýstum okkur reiðubúna til að taka afstöðu til þessa máls þegar í stað á fundinum 28. jan. En þrátt fyrir það taldi form. rétt að fresta fundinum, og þrátt fyrir loforð um að kalla n. saman hið fyrsta hefur honum ekki unnizt tími til þess fyrr en í morgun, hinn 7. febr., og veit ég þó ekki til þess, að þingmenn hafi verið mjög störfum hlaðnir þann tíma, sem síðan er liðinn. En það var fyrir sérstakan atbeina hæstv. forseta, að málið var nú tekið fyrir á fundinum í morgun. Og var þá bókað um þetta:

„Tekið fyrir mál frá síðasta fundi: Um varamann 4. þm. Reykv.

Formaður skýrði frá, að forsrh. hafi tjáð sér, að ríkisstjórnin mundi leggja fyrir Alþingi, sennilega í dag, frv. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, sem m.a. snerti þetta mál, og mundi, að því er formanni skildist, ef að lögum verður, fela í sér úrskurð Alþingis um það.

A. G. leggur fram svo hljóðandi tillögu: Kjörbréfanefnd telur það utan verksviðs síns (sbr. 4. gr. þingskapa) að fjalla um þetta mál, eins og það er fyrir hana lagt, og skilar því ekki áliti á þessu stigi.

Þessi tillaga var borin upp og felld með 2 atkvæðum gegn 1. Tveir greiða ekki atkvæði. Bjarni Benediktsson óskar bókað: Hann hefur óskað upplýst, hvort fordæmi væru fyrir því, að þingið tæki til meðferðar þingsetu kjörbréfalauss þingmanns, og þar eð hann hefði ekki fengið þær upplýsingar enn, sæti hann hjá við ofangreinda atkvæðagreiðslu.

Tillaga Áka Jakobssonar frá síðasta fundi var borin upp. Tveir greiða henni atkvæði (Gísli Guðmundsson og Áki Jakobsson). Tveir á móti (Bjarni Benediktsson og Friðjón Þórðarson). Einn greiðir ekki atkvæði (Alfreð Gíslason) og gerir grein fyrir því með tilvísun til tillögu sinnar.

Fleira var ekki tekið fyrir. Fundi slitið.“

Þetta er það, sem bókað hefur verið af því, sem gerðist í kjörbréfanefnd, og hefur þar raunar ýmislegt fleira á góma borið, sem ég skal ekki rekja hér.

Ég vil fyrst taka fram út af því, sem hv. nefndarformaður, þm. N-Þ., hefur eltir hæstv. forsrh., að það eigi í dag að leggja fram frv. um breytingar á lögum um kosningar til Alþ., sem m.a. snerti þetta mál, og mundi, að því er formanni skildist, ef að lögum verður, fela í sér úrskurð Alþ. um það, að ég óskaði eftir því í morgun, að n. fengi að sjá þetta frv., en þeirri beiðni var ekki sinnt. Ég játa hins vegar, að ég gekk ekki mjög ríkt eftir því, vegna þess að það er mikil nýlunda og fáheyrt, ef lagafrumvarp sett nú ætti að geta skorið úr um það, hver var löglega kosinn til Alþ. við kosningar, sem fóru fram í júní s.l. Þá fer sannast sagt skörin að færast upp í bekkinn, ef Alþ. 1957 ætlar að fara að setja lög um það, hverjir eru rétt kjörnir við kosningar, sem fóru fram fyrir nær ári. Og er þetta þó, svo fjarlægt sem það er, lítið óskynsamlegra en að halda, að það geti komið til greina eða álita, að kjörstjórn hafi heimild til þess að taka til álita eða afskipta breytingar á listum, sem gerðar eru eftir kjördag. Vitanlega eru það kjósendur, sem skera úr um það, hver er kosinn til Alþingis. Það, sem yfirkjörstjórn á að gera, er einungis að staðreyna dóm kjósendanna, eins og hann var felldur á kjördegi. Og þá verður að miða við frambjóðendur og lista, eins og þeir voru á kjördegi, en ekki neinar breytingar, sem gerðar eru á listunum eftir kjördag, enda gefur það auga leið og þarf ekki um það að ræða, að það verður auðvitað til þess að breyta mjög útliti listans í Reykjavík og þar með væntanlegri afstöðu fjölda kjósenda, ef ungfrú Rannveig Þorsteinsdóttir hefði ekki átt sæti á listanum. Ég þori að fullyrða, að slíkt hefur aldrei fyrr komið til álita, að það geti skipt máli, þó að eitthvað hafi gerzt í þessu eftir á, enda sjáum við nú þegar af þeirri tilkynningu, sem hv. þm. N-Þ. las upp fyrir hönd forsrh. í morgun, í hvílíkar öfgar og ógöngur menn komast, ef þessi háttur er á hafður, að nú er ætlunin, að með löggjöf, sem í fyrsta lagi er sett í febr. 1957, eigi að fara að skera úr um það, hverjir séu löglega kosnir á þing 1956.

Ég skal ekki blanda öðrum málum inn í þetta. En er ekki alveg óþarft héðan í frá að vera að hafa alþingiskosningar? Getur ekki þingið úrskurðað, að allt aðrir menn séu kosnir en aumingja kjósendurnir voru að burðast við, úrskurðað hvern þann kosinn, sem því lízt; ef það þorir ekki að gera það eftir lögunum, eins og þau voru, þegar menn gengu til kosninga, þá bara breyta lögunum einu eða tveimur árum síðar og segja: En það átti allt annar maður að vera kosinn eftir þeim nýju lögum heldur en kosinn var, — við rekum þann fyrri heim og tökum þann nýja inn?

Ýmislegt geta menn nú gert, en í svona fjarstæður hélt ég sannast sagt að menn í lýðræðisþjóðfélagi mundu aldrei leggja. Og ég segi þessum hv. þingmönnum og hæstv. ríkisstjórn, sem slíkt hefur í huga, að þeir herrar eru nú þegar búnir að níðast nóg á réttlæti og sanngirni til þess, að þeir ættu að hugsa sig vandlega um, áður en þeir gengju lengra á þá braut en þeir eru búnir að gera. En ósárt er mér um það, að þeir opinberi enn betur en orðið er rangsleitni sína og fullkomna valdhyggju.

Ákvæðin í núgildandi stjórnarskrá um varamenn fyrir suma þingmenn, en ekki alla, eiga rætur sínar að rekja til stjórnskipunarlaga nr. 12 19. júní 1915. Í 8. gr. þeirra sagði:

„Óhlutbundnum kosningum í sérstökum kjördæmum skulu kosnir 34 alþingismenn, en sex hlutbundnum kosningum um landið allt í einu lagi.“

Og í síðustu mgr. 9. gr. þessara stjórnskipunarlaga sagði:

„Deyi þingmaður kosinn óhlutbundinni kosningu, meðan á kjörtímanum stendur, eða fari frá, þá skal kjósa þingmann í stað hans fyrir það, sem eftir er kjörtímans. Verði á sama hátt autt sæti þingmanns, kosins hlutbundinni kosningu, tekur sæti hans varamaður sá, er í hlut á, en varamenn skulu vera jafnmargir og þingmenn, kosnir hlutbundnum kosningum, enda kosnir á sama hátt og samtímis.“

Með stjórnarskránni nr. 9 18. maí 1920 verður á þessu sú meginbreyting, að heimilað er, að með lögum megi ákveða, að þingmenn Reykjavíkur skuli kosnir hlutbundnum kosningum, og segir um þetta í 3. og 4. mgr. 26. gr. stjórnarskrárinnar frá 1920 svo:

„Óhlutbundnum kosningum í sérstökum kjördæmum skulu kosnir 34 þingmenn, en 6 hlutbundnum kosningum um land allt í einu lagi. Með lögum má ákveða, að þingmenn Reykjavíkurkaupstaðar skuli kosnir hlutbundnum kosningum, og gilda þá um kjörgengi og kosningarrétt sömu reglur sem við óhlutbundnar kosningar.“

Í 28. gr. sömu stjórnarskrár segir því næst: „Deyi þingmaður, kosinn í sérstöku kjördæmi, á kjörtímanum, eða fari frá, þá skal kjósa þingmann í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans. Verði á sama hátt autt sæti þingmanns, kosins hlutbundinni kosningu um land allt, tekur sæti hans varamaður sá, er í hlut á, en varamenn skulu kosnir jafnmargir og þingmenn, kosnir hlutbundnum kosningum um land allt, enda kosnir á sama hátt og samtímis. Sama er og, ef þingmaður, kosinn hlutbundinni kosningu um land allt, forfallast svo, að bann getur ekki setið á einhverju þingi, hvort er reglulegt þing eða aukaþing, eða það sem eftir er af því þingi.“

Þessi ákvæði giltu svo til 1934. Þá voru sett stjórnskipunarlög nr. 22 24. marz, og þau gera í 3. gr. þá meginbreytingu, að 28. gr. stjórnarskrárinnar er alveg felld niður og þau ákvæði hennar, sem þörf þótti á að væru í sjálfri stjórnarskránni, felld inn í 26. gr. hennar. Samkv. 1. gr. stjórnskipunarlaga 1934 skal 26. gr. stjórnarskrárinnar hljóða svo:

„Á Alþingi eiga sæti allt að 49 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegum kosningum, þar af

a) 32 í einmennings- og tvímenningskjördæmum þeim, sem nú eru. Kosning þeirra er óhlutbundin. Skipta má tvímenningskjördæmum með lögum. Deyi þingmaður, kosinn í þessum kjördæmum, á kjörtímanum, eða fari frá, þá skal kjósa þingmann í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans.

b) 6 í Reykjavík. Kosning þeirra er hlutbundin. Jafnmargir varamenn skulu kosnir samtímis og á sama hátt.

e) Allt að 11 þingmenn til jöfnunar milli þingflokka“ svo sleppi ég úr ákvæðum, sem ekki skipta máli, en segir að lokum: „Jafnmargir varamenn skulu kosnir jöfnunarþingsætum, samtímis og á sama hátt.“ Síðasta setningin skiptir ekki máli, að kjörtímabilið skuli vera fjögur ár.

Þessu er svo enn breytt með stjórnskipunarlögum nr. 78 1. sept. 1942, en þar segir í 1. gr.: „26. gr. stjórnarskrárinnar hljóði þannig“ — og þau ákvæði eru enn þá orðrétt í gildi:

„Á Alþingi eiga sæti allt að 52 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegum kosningum, þar af

a) 8 þingmenn í Reykjavík. Kosning þeirra er hlutbundin. Jafnmargir varamenn skulu kosnir samtímis og á sama hátt.

b) 6 þingmenn í þessum kaupstöðum, einn fyrir hvern kaupstað: Hafnarfirði, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.

e) 27 þingmenn í þeim einmennings- og tvímenningskjördæmum, sem nú eru, öðrum en kaupstöðum. Skal kosning vera hlutbundin í tvímenningskjördæmum og jafnmargir varamenn kosnir samtímis og á sama hátt. Deyi þingmaður, kosinn í einmenningskjördæmi, eða fari frá á kjörtímanum, þá skal kjósa þingmann í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans.

d) Allt að 11 þingmenn til jöfnunar milli þingflokka“ — og svo felli ég úr atriði, sem ekki skipta máli. — „Jafnmargir varamenn skulu kosnir jöfnunarþingsætum, samtímis og á sama hátt.“ — Felli einnig úr ákvæði varðandi fjögurra ára kjörtímabil.

Eins og ég sagði, eru þessi ákvæði tekin orðrétt upp í lýðveldisstjórnarskrána frá 1944 og eru þess vegna enn í gildi.

Af þessu yfirliti er ótvírætt, að ákvæðin um tölu varamanna eru alveg ótvíræð. Þeir hafa frá upphafi átt að vera jafnmargir og aðalmenn. Þegar af þeirri ástæðu skiptir engu máli að rekja reglur kosningalaganna um þessi efni, því að alviðurkennt er, að kosningalög geta ekki breytt ótvíræðum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hitt er svo annað mál, að það er ekkert ósamræmi á milli kosningalaganna og stjórnarskrárinnar, einungis hitt, að það er óþarfi að rekja það, vegna þess að stjórnarskráin sker skýrt úr, og þá verður hennar ákvæði að standa. En það er sérstaklega athyglisvert í þessu sambandi, að þó að Reykjavík fengi þm. kosna hlutbundnum kosningum strax 1921 samkv. heimildinni, sem gefin var í stjórnarskránni frá 1920, var það ekki fyrr en með stjórnarskrárbreytingunni 1934, að hún fengi varamenn, og þess vegna þurfti a.m.k. tvisvar að kjósa upp, svo að ég muni. 1926, þegar tveir þm. Reykv., Jón Þorláksson og Jón Baldvinsson, voru kosnir landskjöri, þurfti að kjósa upp í Rvík um haustið, og voru þá kosnir þeir Jón Ólafsson og Héðinn Valdimarsson. Og eins var kosið upp 1932, þegar Einar Arnórsson gerðist hæstaréttardómari, og var þá í fyrsta skipti kosinn þm. Reykv. Pétur heitinn Halldórsson. Engir varamenn voru hér fyrir hendi, og það datt engum í hug, að leyfilegt væri að fara neðar á listana og taka þá, sem þar stóðu. Vel var hugsanlegt, t.d. við kosningarnar 1926, að hlutföll í Reykjavík yrðu slík, að t.d. Íhaldsflokkurinn, sem þá var, fengi báða mennina kosna, en skylda var til þess að kjósa, og það fór á þann veg, að það var kosinn sinn frá hvorum höfuðflokki.

Eins var 1932. Það var enginn, sem gat sagt fyrir, að frambjóðandi Sjálfstfl. yrði kosinn. Það hefði mátt segja, að eftir sanngirni hefði frambjóðandi Sjálfstfl. átt af sjálfu sér að koma inn í staðinn fyrir Einar Arnórsson og ekki hætta á það, að kosið yrði. Slíkt datt engum í hug. Varamenn voru ekki til fyrir Rvík, og þá varð að kjósa upp.

En við höfum fordæmi, sem er enn þá skýrara í þessu efni, og það er einnig frá 1926. Þá stóð þannig á, að landskjörinn þm. einn var Jón Magnússon, þáv. forsrh., og hafði verið kosinn á lista við framboð 1922. Hann var kosinn sem aðalmaður. Varamaður hans var Sigurður heitinn Sigurðsson búfræðingur, fyrrv. þm. Árn. Jón er aðalmaðurinn, Sigurður varamaður. Þriðji maður á listanum var Sveinn Benediktsson hreppstjóri á Fáskrúðsfirði, hygg ég vera. Jón Magnússon verður bráðkvaddur um mitt sumar 1926. Sigurður Sigurðsson er dáinn nokkrum mánuðum áður. Íhaldið fór með völd, og um svipað leyti fóru fram almennar kosningar til landskjörs, þar sem ég hygg að ég muni það rétt, að andstöðuflokkar Íhaldsflokksins höfðu samanlagt meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Það var því viss áhætta fyrir Íhaldsflokkinn að leggja út í kosningar og hefði getað verið viss freisting að segja: Ja, við tökum bara þriðja manninn á listanum inn, Svein Benediktsson; hann er lifandi og á að koma þarna inn af sjálfu sér. — Slíkt datt engum í hug. Það stóð í lögum: „Varamenn þingmanna eru jafnmargir aðalþingmönnum.“ Og það var boðað til kosninga, og þær fóru fram um haustið. Að vísu enduðu þær, eins og menn muna, eldri menn, á þann veg, að Jónas Kristjánsson læknir var kosinn, en samfylking Alþýðuflokks og Framsfl. fékk færri atkv.

Nú mætti segja: Hvað líður þá lögskýringu þeirri, sem hv. þm. Siglf. var með hér áðan, að vegna þess að það segir einungis um þá þm., sem engan varaþingmann hafa, að það eigi að kjósa, ef þeir deyja eða fara frá, var þá heimilt að fara þannig að, eins og gert var 1926? En ákvæðin varðandi þetta atriði eru nákvæmlega eins í dag og þau voru þá.

Engum kom annað til hugar en úr því að þessi eini varamaður var einnig dáinn, úr sögunni, þá yrði að viðhafa þá aðferð að kjósa upp aftur. Og kom engum til hugar sú mjög frumlega lögskýring, að af þeim sökum yrði að hafa þann hátt á að láta engan þm. koma inn. Um þetta liggur fyrir alveg ótvírætt fordæmi, sem ómögulegt er að komast fram hjá. Og ég segi það til afsökunar þeim þm., sem nú hafa verið með ráðagerðir um annað, að ég er sannfærður um, að þeir hafa ekki athugað nógu vel þau lagaákvæði, sem hér eru fyrir hendi, né þau fordæmi, enda kom það glögglega fram á kjörbréfanefndarfundinum í morgun, að þeir höfðu ekki gert það. Og þrátt fyrir mjög takmarkað traust til þeirra margra, ber ég samt það traust til þeirra, að þeir eftir skoðun málsins verði hikandi í að taka þessa ákvörðun, og ég spyr: Er nokkrum gert rangt með því að fara svona að?

Í fyrsta lagi hefur Haraldur Guðmundsson enn þá ekki sagt af sér, þannig að Alþfl. er ekki sviptur neinum þm., þó að Haraldur Guðmundsson verði af þessum sökum að halda áfram þeirri þingmennsku, sem hann var kosinn til á s.l. sumri og sannarlega átti ekki lítinn þátt í því, að fylgi Alþfl. varð þó ekki minna en það reyndist hér í bænum, þannig að Haraldur Guðmundsson og Alþfl. hafa það í hendi sér að halda þessum að mörgu leyti mjög prýðilega manni áfram sem þingmanni. En ef þeir kjósa ekki þann kost, sem þeir kjósa, þá geta þeir engum öðrum en sjálfum sér um kennt. Ég trúi því ekki, að afsögn ungfrú Rannveigar Þorsteinsdóttur hafi komið þeim á óvart eða verið gerð án þeirra samþykkis. Og þeim bar vitanlega skylda til þess að kynna sér afleiðingar þeirrar afsagnar að réttum lögum, áður en þeir gerðust hvatamenn eða samþykkjendur hennar. Hafi hún gert það aftur á móti gegn þeirra vilja og óskum, þá er þeim mátulegt, — ég vil ekki segja ljótt orð, — þá kemur þeim rétt í koll að kjósa svo lítið traustverðuga fulltrúa til þingsins. En ég er ekki með þessu að færa að þessum fyrrv. varaþm. Reykv., vegna þess að ég er sannfærður um það, að hér hafi verið um samantekin ráð að ræða.

Látum vera, að ekkert af þessu verði, þá höfum við eitt fyrirtaks ráð enn þá, og það er: Nú var fellt hér í gær að láta fara fram þingrof og almennar kosningar á næsta sumri þrátt fyrir það, þótt stjórnarliðið segði: Ja, við munum stórlega vinna á og í haldið stórkostlega tapa fylgi, — og hæstv. fjmrh. sagði: Ja, íhaldinu væri það mátulegt að láta nú kjósa, vegna þess að þá fengi það þá réttu útreið. En við gætum ekki tekið þátt í þeim skrípaleik að fara að láta rjúfa allt þingið. — Nú skulum við bara láta taka eitt dæmi, fara eftir réttum lögum og láta kjósa einn þm. hér í Rvík og sjá, hvernig reynist um dóm Reykvíkinga, höfuðstaðarbúanna, um hina hæstv. ríkisstj.