24.05.1957
Efri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

175. mál, vísindasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var við 2. umr. samþ. samhljóða af hv. d., eftir að tvær brtt., önnur frá hv. menntmn. og hin frá hv. 1. þm. N-M., höfðu verið samþ. samhljóða. Við 2. umr. komu enn fremur fram tvær aðrar brtt. varðandi skipan stjórnar hinnu tveggja deilda vísindasjóðs, þ.e. raunvísindadeildar og hugvísindadeildar. Var önnur till. frá hv. þm. V-Sk. og hv. 2. þm. Árn. varðandi stjórn hugvísindadeildar, en hin frá hv. 1. þm. N-M. varðandi stjórn raunvísindadeildar. Það var á það bent í umr., að óeðlilegt væri, að stjórn hugvísindadeildar væri þannig skipuð, að heimspekideild Háskóla Íslands tilnefndi tvo menn, en laga- og hagfræðideild einn, með þessu móti væri deildunum gert mishátt undir höfði, og lagt til, að þetta yrði jafnað þannig, að laga- og hagfræðideild tilnefndu tvo eins og heimspekideildin, en tilnefning af hálfu Félags íslenzkra fræða félli hins vegar niður.

Ég fyrir mitt leyti fellst á það sjónarmið, að óeðlilegt sé, að þær deildir háskólans, sem á annað borð eiga að tilnefna menn í stjórn hinna tveggja deilda vísindasjóðs, tilnefni ekki með sama hætti, hafi ekki sömu áhrif. Í stjórn raunvísindadeildar eiga tvær háskóladeildir að tilnefna sinn manninn hvor, læknadeildin einn mann og verkfræðideildin einn mann. Þess vegna væri eðlilegast, að þær tvær háskóladeildir, sem eiga að tilnefna menn í stjórn hugvísindadeildar, tilnefni einnig sinn manninn hvor. Þá er þeirri reglu fylgt, að þær 4 háskóladeildir, sem eiga að tilnefna menn í stjórn hinna tveggja d., eru allar jafnréttháar, tilnefna hver um sig einn mann í stjórn hinna tveggja deilda. Við þetta losnar eitt sæti í stjórn hugvísindadeildar, og virðist þá liggja mjög beint við að tilnefna í það sæti með hliðstæðum hætti og búið er að samþykkja að tilnefna skuli í fjórða sæti í raunvísindadeild, en í það sæti á að tilnefna af fundi fulltrúa frá vísindastofnunum, sem fást við rannsóknir á sviði raunvísinda. Væri með hliðstæðum hætti mjög eðlilegt, að í fjórða sæti í hugvísindadeild skuli skipa af fundi fulltrúa frá vísindastofnunum og félögum, sem fást við rannsóknir á sviði hugvísinda. Með þessum hætti væru d. skipaðar með alveg hliðstæðum hætti, tvær háskóladeildir tilnefna 2 menn í stjórn hvorrar deildar um sig, rannsóknaráð ríkisins tilnefnir einn mann í stjórn raunvísindadeildar og fulltrúar vísindastofnana á sviði raunvísinda tilnefna annan. Með hliðstæðum hætti ætti þá Félag íslenzkra fræða að tilnefna einn mann í stjórn hugvísindadeildar vegna hinnar sérstöku þýðingar íslenzkra fræða í því sambandi og einn yrði tilnefndur af fundi fulltrúa frá vísindastofnunum og félögum, sem fást við rannsóknir á sviði hugvísinda.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja fram skriflega brtt. við ákvæðin um stjórn hugvísindadeildar í þessa átt og tel, að með því móti sé skipan deildarstjórnanna með eins hliðstæðum hætti og við er að búast að geti orðið.

Þetta mál var rætt á fundi í hv. menntmn. milli funda í þessari hv. d., og töldu þeir nefndarmenn, sem á fundi voru, — einn var að vísu fjarverandi, — að þessi breyting á skipun hugvísindadeildar væri til ótviræðra bóta og að með þessum hætti væri skipan deildanna hliðstæð.

Varðandi þá till. hv. 1. þm. N-M., að í stað manns tilnefnds af rannsóknaráði ríkisins skuli koma maður tilnefndur af deildarstjórum atvinnudeildar háskólans og að í stað þess manns, sem á að tilnefna á fundi fulltrúa vísindastofnana í raunvísindum, komi fulltrúi frá deildarstjórum náttúrugripasafns, er það að segja, að ég treysti mér ekki til að mæla með þessari brtt. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir því, að rannsóknaráð ríkisins væri aðill að tilnefningu í stjórn raunvísindadeildar. Það var ein af till. beggja n., sem undirbjuggu þetta mál á sínum tíma, og ég hygg, að það mundi sæta eindregnum andmælum af hálfu þeirra, ef þessi breyting yrði gerð. Ef deildarstjóri náttúrugripasafns yrði látinn koma í staðinn fyrir fulltrúa vísindastofnana á sviði raunvísinda, yrði aftur raskað því jafnvægi, sem er í skipun deildanna á þann hátt, að fundur tilnefni einn mann í stjórn beggja deildanna. Af þessum sökum treysti ég mér ekki til að mæla með samþykkt þeirrar till.

Ég leyfi mér að vænta þess, að með þessu samkomulagi, sem ég tel að hafi orðið í menntmn., verði till. þeirra hv. þm. V-Sk. og hv. 2. þm. Árn. tekin aftur. Sú brtt., sem ég vil leyfa mér að leggja fram skriflega, herra forseti, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

Við 5. gr. B-liður orðist svo: Stjórn hugvísindadeildar er skipuð 5 mönnum. Skal einn tilnefndur af heimspekideild Háskóla Íslands, einn af laga- og hagfræðideild Háskóla Íslands, einn af Félagi íslenzkra fræða og einn af fundi fulltrúa frá vísindastofnunum og félögum, sem fást við rannsóknir á sviði hugvísinda. Menntmrh. boðar til fundarins, og skal ákveðið í reglugerð, hverja þangað skuli boða.