28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

175. mál, vísindasjóður

Fram. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér hefði nú átt að liggja fyrir nál. frá minni hl. menntmn. um þetta mál, handriti af því var skilað í gærkvöld, en því hefur ekki verið útbýtt enn, svo að ég mun rekja efni þess í höfuðdráttum og einnig brtt., sem minni hl. n. hugðist flytja við þessa umr. málsins, en þær brtt verða þá að bíða til 3 umr.

Þetta frv. er að langmestu leyti samhljóða frv., sem mþn., skipuð af fyrrv. menntmrh., hv. núverandi 1. þm. Reykv. (BBen), hafði samið. Í þeirri n. áttu sæti þeir Birgir Kjaran hagfræðingur, prófessor Ármann Snævarr, dr. Júlíus Sigurjónsson, dr. Björn Sigurðsson og Pálmi rektor Hannesson. N. vann geysimikið starf við undirbúning og samningu þessa frv. Okkur í minni hl. n. tókst að afla okkur gagna þessarar n., og voru í því mjög fróðlegar upplýsingar, sem okkur þótti rétt að þm. ættu kost á að kynna sér, og létum við því prenta þá kafla úr grg. þeirra fimmmenningana, sem ekki eru prentaðir með frv. eins og það liggur hér fyrir. Við létum prenta þá kafla ásamt frv., eins og þeir sömdu það, og skýringum við einstakar gr. sem fylgiskjal með nál. okkar.

Þær breytingar, sem frv. þessarar n. tók í ráðuneytinu, varða fyrst og fremst fjárhag vísindasjóðs og stjórn hans. Hér er gert ráð fyrir, að tekjur vísindasjóðs séu árlegt framlag úr menningarsjóði, a.m.k. 800 þús. kr. Eins og 1. gr. er orðuð, mætti líta svo á, að vísindasjóði gætu alls ekki komið tekjur annars staðar að, og væri mun heppilegra, ef í 1. gr. væri einnig ákvæði um, að tekjur sjóðsins yrðu að öðru leyti eftir því, sem nánar væri ákveðið í öðrum lögum.

2. gr. er orðrétt upp úr frv. þeirrar n., sem ég gat um áðan, sömuleiðis 3. gr.

En um 4. gr. gegnir öðru máli, því að þar er fjallað um stjórn sjóðsins. N., sem skipuð var árið 1956 af fyrrv. menntmrh., lagði til, að stjórn vísindasjóðs yrði þannig skipuð, að í henni væru þrír menn, formenn beggja sjóðsdeilda, hugvísinda- og raunvísindadeildar, og svo formaður n., sem væri skipaður af menntmrh. þennan hátt hugði n., að vísindasjóður yrði fremur óháður pólitískt, en þó í vissum tengslum við ríkisvaldið og fjárveitingavaldið, með því að formaður sjóðsins væri skipaður af menntmrh. Hins vegar teljum við í minni hl. menntmn. alveg ástæðulaust, að Alþ. skipi stjórn stofnunar eins og vísindasjóðs. Þar eiga fyrst og fremst að vera menn, sem hafa þekkingu til að bera á vísindalegu sviði og eru dómbærir um það, hve mikils fjár hverri vísindagrein er vant hverju sinni.

Úr 6. gr. frv., eins og það kom frá þessari n., hefur verið fellt í ráðuneytinu ákvæði um, að deildarstjórnum sé heimilt að ráða vísindalega menntaðan ritara til undirbúnings styrkveitinga, eftirlits með hagnýtingu styrkja og annarra tæknilegra starfa. Þetta ákvæði hefur mjög mikla þýðingu, þar eð um þetta getur ekki fjallað annar en sá, sem hefur þekkingu á viðkomandi vísindagreinum til að bera.

Enn fremur gerði þessi n. till. til fjáröflunar, sem eru mun skynsamlegri en sú að taka fé vísindasjóðs af gjaldi aðgöngumiða að kvikmyndasýningum. Aðalfjáröflunarleiðin var sú, að lagt yrði einnar krónu aukagjald á hverja áfengisflösku, sem seld væri í landinu. Var talið, að sú tekjulind mundi nema nær 900 þús. kr., og enn fremur var bent á fleiri fjáröflunarleiðir, svo sem gjald af happdrættisleyfum og hlutaveltuleyfum. Þó var þessi gr. með fyrirvara af n. hálfu, sem skýrður var í mjög fróðlegri grg. um ýmsar hugmyndir um fjáröflun í þessu skyni. M.a. var þar getið um, að afla mætti vísindasjóði fjár með skattfríðindum, en hliðstæð ákvæði hafa oft gefizt mjög vel. Í heild má segja um fjárhag væntanlegs vísindasjóðs, að það hefði sannarlega verið vert að athuga hann miklu nánar, þegar þess er gætt, að það framlag, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er í raun og veru mjög lágt til þessara þarfa. Við vitum, að gífurlega margt er ógert í okkar landi einmitt á svíði vísindalegra rannsókna, bæði hugvísinda og jafnvel í enn ríkari mæli raunvísinda, og raunvísindarannsóknirnar eru mun kostnaðarsamari en hinar. Bara sjálf tækin, sem til rannsóknanna þarf, kosta oft tugi eða jafnvel hundruð þúsunda. Þannig mundi slíkur vísindasjóður, ef koma ætti að verulegu gagni, þurfa miklu meira fé en hér er gert ráð fyrir. Sú minnsta breyting, sem gera þyrfti á þessari 1. gr. um fjárhag vísindasjóðs, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir að hann verði, væri þó að setja ákvæði um, að tekjur hans mættu einnig koma frá öðrum stofnum, eftir því sem nánar væri ákveðið í öðrum lögum.

Minni hl. menntmn. telur mjög varhugavert að afgreiða þetta mál, án þess að hv. þdm. gefist kostur á að athuga gögn þeirrar n., sem bar þungann af starfinu við samningu þessa frv. Þar koma fram mjög mikilsverð atriði, sem hljóta að varða þetta mál, ef það er ekki eindregin stefna þeirra, sem standa að þessu frv., að kastað verði til höndum um afgreiðslu málsins. Þess vegna leggjum við til, að málinu verði ekki hraðað svo í gegnum deildina, að þm. gefist ekki kostur á að athuga þessi gögn, sem verða prentuð með nál. okkar.

Enn fremur vil ég geta þess, að háskólaráð sendi menntmn., ég hygg reyndar, að það hafi verið menntmn. Ed., umsögn um frv. Í bréfi háskólaráðs kom fram, að sú skipan, sem fyrirhuguð er í þessu frv. á stjórn sjóðsins, sé mjög óheppileg að þess áliti. Háskólaráð taldi, að stjórn sjóðsins þyrfti að vera í höndum ópólitískra vísindamanna, eins og upphaflega hafði verið ráðgert, og enn fremur þótti háskólaráði nauðsynlegt, að vísindasjóður gæti verið sjálfstæðari um fjárhag en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Einnig nefndi háskólaráð, að rétt væri að heimíla deildarstjórnum að ráða vísindalega menntaðan ritara, svo sem ráð var fyrir gert í upphaflega frv. Loks voru í upphaflega frv. nokkuð öðruvísi ákvæði um skipan deildarstjórnanna. Það var gert ráð fyrir, að í stjórn raunvísindadeildar væri einn fulltrúi valinn af fundi deildarstjóra atvinnudeildar, en í frv. eins og það er nú, er gert ráð fyrir, að einn fulltrúi verði valinn af fundi manna frá vísindastofnunum, sem fást við rannsóknir á sviði raunvísinda, og menntmrh. boði til þess fundar.

Háskólaráð lagði einnig til, að í stjórn hugvísindadeildar væru tveir fulltrúar frá heimspekideild háskólans og tveir fulltrúar frá laga- og hagfræðideild og einn frá guðfræðideild, að mig minnir. En eins og ég sagði áðan, hef ég því miður ekki gögnin í böndum, því að þau eru enn í prentsmiðjunni, en við munum flytja brtt. í samræmi við þau gögn við 3. umr. þessa máls.