08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér er ánægja að svara þessari fyrirspurn hv. 1. landsk. þm. — Ákvæðin í frv. um þetta efni eru nákvæmlega eins og þau, sem nú eru í gildi. Ég hef einmitt sérstaklega rætt þetta atriði við fulltrúa frá háskólanum, fulltrúa frá nefnd þeirri, sem samdi þetta frv., og háskólarektor. Þess er mjög eindregið óskað af hálfu háskólans, að þessi heimildarákvæði fái að standa, en því jafnframt lýst yfir, að engar fyrirætlanir séu uppi um að takmarka aðgang stúdenta að nokkurri deild háskólans, og hefur raunar aldrei verið gert. Af ýmsum ástæðum þykir háskólanum þó rétt að hafa þessa heimíld. Það ástand gæti skapazt varðandi einstakar deildir, og var mér bent á, að sérstaklega væri það hugsað einmitt til læknadeildarinnar, að allir yrðu sammála um, að til greina gæti komið að beita slíkri heimild. Eins og sakir standa núna, eru engar fyrirætlanir uppi um slíkt, og það er að mínu viti svo sem vera skal. Hér er engin breyting gerð, og það er ósk háskólans, að þetta ákvæði fái að standa. Engar fyrirætlanir eru uppi um slíkar takmarkanir, og ég hygg, að háskólinn mundi aldrei gripa til þeirra nema í fullu samráði við ríkisstj. landsins.