07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að ekki hefðu áður verið uppi till. hér á Alþingi um það, að búnaðarfélög fengju aðild að félagsheimilasjóði. Það er rétt, að frv. um það munu ekki hafa verið flutt fyrr. Hitt er annað, að fyrir liggja tilmæli frá búnaðarmálastjóra um, að búnaðarfélögum verði veittur aðildarréttur í þessu efni. Hins vegar liggja, að því er ég bezt veit, ekki fyrir neinar óskír af hálfu bandalags opinberra starfsmanna eða einstakra verzlunarfélaga um aðild að þessum sjóði.

Hv. þm. sagði, að sér væri ekki nægileg yfirlýsing mín varðandi fyrirætlanir ríkisstj. um að bæta hag félagsheimilasjóðs. Þó hygg ég mig hafa sagt efnislega séð, þó að orðalag kunni að hafa verið eitthvað annað. nákvæmlega það sama nú og ég hef sagt áður hér í þessari hv. deild, að áður en þessu þingi lýkur, mun ríkisstj. leggja fram till. um nýja löggjöf um skemmtanaskatt, sem í mun felast það, að tekjur félagsheimilasjóðs munu aukast. Þetta hef ég sagt áður, og þetta endurtek ég. Þinginu mun ekki ljúka, án þess að Alþingi fái til meðferðar till., sem munu þýða auknar tekjur félagsheimilasjóðs frá því, sem verið hefur, og þetta er auðvitað mergurinn málsins.

Hitt endurtek ég svo, sem ég sagði áðan, að það er mjög stórt spor að stíga, það er breyting á meginreglu, ef nú á við 3. umr. þessa máls, sem ekki hefur snert fjárhagshliðina, að taka upp alveg nýja stefnu að því er snertir fjárveitingar til félagsheimilasjóðsins. (GTh: Þetta er nú 2. umr.) Ég bið afsökunar á því, ég á ekki sæti í deildinni hér, svo að ég áttaði mig ekki á því, — við 2. umr. — Efni frv. er ekki um fjárhagshliðina, heldur um aðildina, og ég tel óeðlilegt, eins og málið hefur borið að, að flétta inn í það till., sem markar alveg nýja braut að því er varðar fjáröflun til sjóðsins.

Hv. þm. þótti þetta vera nokkur íhaldssemi af minni hálfu og varð fyrir vonbrigðum af því, að ég skyldi andmæla því, að nýjar leiðir væru farnar til þess að afla félagsheimilasjóði tekna. Mér fannst það aðeins vanta hjá honum, að hann segði, að nýjar og frumlegar leiðir væru farnar til að afla félagsheimilasjóði tekna. Ég veit ekki, hvort það getur kallazt ný leið við að afla sjóði tekna að leggja til, að ríkissjóður borgi í sjóðinn. Þetta er gamalt ráð og ofur einfalt og a.m.k. ekki frumlegt. Það hefði verið ný leið, það hefði verið frumleg ráðstöfun, ef hv. þm. hefði borið fram till. og bent á einhvern nýjan tekjustofn fyrir félagsheimilasjóðinn, einhvern tekjustofn, sem væri ónotaður, ef nýta mætti f þessu skyni. Það hefði verið ný leið. Þar hefði getað verið á ferðinni frumleg hugmynd, sem sjálfsagt hefði verið að taka til mjög velviljaðrar athugunar. En þetta, að bera fram till. um að bæta félagsheimilasjóðinn einfaldlega á þann hátt að láta ríkissjóð borga í hann 750 þús. kr., getur hvorki talizt nýtt né frumlegt.

Að síðustu vil ég svo endurtaka það varðandi till. á þskj. 317, að ég tel starfsmannafélög ríkis og sveitarfélaga og verzlunarmannafélögin vera aðila, sem sjálfsagt sé að taka til athugunar að fái aðild að félagsheimilasjóði, einkum ef tækist að bæta fjárhag hans nokkuð myndarlega.

Ég tel, að þessi félög séu algerlega hliðstæð ýmsum þeim félögum, sem nú er gert ráð fyrir að geti verið aðilar að sjóðnum, og þess vegna í alla staði eðlilegt, að þau verði það, þegar það má[ hefur verið rækilega undirbúið og fyrir liggja alveg ótvíræðar óskir af hálfu þessara félaga nm að gerast aðilar að sjóðnum.