29.05.1957
Efri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

116. mál, félagsheimili

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda um þetta mál langa ræðu, enda enginn tími til þess og ástæðulaust. En það er vitað mál, að um þetta atriði, sem um er deilt, var menntmn. Nd. algerlega sammála, og þegar þetta ákvæði var fellt út í Nd., voru aðeins 2 atkv., að mér er tjáð, á móti. Þannig stóð menntmn. algerlega einhuga að málinu án tillits til flokka og eins og menn sjá á atkvgr. nærri því öll deildin.

Það er alveg rétt, að þörfin fyrir félagsheimili er miklu meiri í þorpum og sveitum, og ég ætla ekki að reyna að andmæla því, enda er mér það sízt í huga. Þeir, sem börðust fyrir þessu máli, höfðu það einmitt í huga, eins og hv. þm. N-Ísf. hefur tekið fram. En þess ber að gæta einnig, að nýrra tekna hefur verið aflað í þennan sjóð, um 900 þús., og þó að l. verði breytt í þetta horf, sem nú er gert ráð fyrir, hygg ég, að það sé ekki ofsagt, að félagsheimilin í þorpum og kauptúnum eru a.m.k. á næstu árum eins vel sett og þau voru áður en þessi tekjuöflun var samþ. Og þess verður einnig að gæta, að við vitum allir, hvernig á að afla þessara tekna. Teknanna er aflað með skemmtanaskatti, og því fékkst samkomulag um þetta, að það er gert ráð fyrir þessari breytingu. Teknanna er aflað með skemmtanaskatti, og við vitum allir, hvaðan sá skemmtanaskattur er tekinn, hverjir það eru, sem leggja til þessar 900 þús. Þetta eru líka rök, að mér virðist, sem ekki er alveg hægt að ganga fram hjá.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál, til þess er ekki tími og ekki heldur ástæða.