12.11.1956
Neðri deild: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

35. mál, hnefaleikar

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samhljóða frumvarpi, er ég flutti á síðasta þingi ásamt hv. þáverandi 2. þm. Rang., Helga Jónassyni lækni. Frv. var þá vel tekið og var komið til 2. umr. í síðari deild hv. Alþingis, en sökum þess að mjög var liðið á þingtímann, varð það þá ekki útrætt. Vafalaust hefði það þá verið samþykkt, ef tími hefði unnizt til. Það gerðist enginn til að andmæla frv. þá innan þings, en mótmælabréf barst frá Íþróttasambandi Íslands, sem prentað var með nál. hæstv. heilbr.- og félmn. neðri deildar. Nú er frv. flutt á ný af mér og hv. þm. N-Þ.

Sem betur fer, hafa hnefaleikar aldrei náð almennum vinsældum hér á landi, en alltaf þótt, það sem þeir eru, leiðinlegt og ógeðslegt at, miklu verra en hesta- eða nautaat, en alls engin íþrótt, því að ef íþrótt er skilgreind sem athöfn, sem sé vel fallin til að gera þá, sem hana iðka, hraustari og heilbrigðari á sál og líkama, þá eru ekki til meiri öfugmæli en að kalla hnefaleika íþrótt.

Þar sem mest kveður að hnefaleikum, í Bretlandi og Bandaríkjunum í Norður-Ameríku, verða raddirnar, sem krefjast þess að afmá þessa smán úr þjóðlífi þeirra, æ háværari, og fremstir í flokki eru þar þeir, sem vegna atvinnu sinnar eru kunnugastir því heilsutjóni, sem leikarnir valda þeim, sem iðka þá eitthvað að ráði.

Á þinginu í fyrra vitnaði ég til tveggja erlendra lækna, sem höfðu í erlendum læknatímaritum birt árangur rannsókna sinna á þessu sviði, þ.e. um skaðsemi og hættu, sem samfara væru því að iðka hnefaleika að mun. Ég ætla ekki að fara að endurtaka vitnisburð þeirra hér, en í stuttu máli var hann á þá leið, að 60 af hundraði þeirra, sem iðka hnefaleika, bíða af því varanlegt, óbætanlegt tjón. Það er meira en helmingur. Það er því ekki óeðlilegt, þó að þessum læknum hafi ofboðið og þeir og aðrir læknar telji nú sjálfsagt að hætta þessum ófögnuði og banna hnefaleika.

Erlendis er þó við rammari reip að draga en hér ætti að vera, því að hnefaleikarnir eru þar stór atvinnugrein og miklir fjármunir í húfi fyrir þá, sem undirbúa þá og sjá um þá. Þeir berjast því eðlilega á móti kröfunni um afnám leikanna.

Sumir telja, að rétt sé að hugsa vel um, áður en farið sé að lögbjóða bann við hnefaleikum eða öðru. Það, sem mestu máli skiptir um það, er, hvort líkur eru til, að bannið komi að því gagni, sem til er ætlazt. Það veltur alveg á því, hvort almenningur er fylgjandi eða mótfallinn banninu. Um þetta eru ekki til neinar tölur eða skýrslur hér á landi, en ég er viss um, að flestir Íslendingar hafa skömm á hnefaleikum og öðrum barsmíðum og fagna því, að hætt verði að styrkja þá af opinberu fé.

Alþingi hið forna bannaði hólmgöngur, þótt í þá daga þætti jafnsjálfsagt að kenna ungum mönnum vopnaburð eins og lestur og skrift nú. Bannið gafst þó vel og hefur aukið virðinguna fyrir Alþingi hinu forna. Sambandsráð Íþróttasambands Íslands telur ofstæki að ráðast á hnefaleika áhugamanna, hnefaleikar þeirra eigi ekkert skylt við hnefaleika atvinnumanna. Þeir tala eins og börn. Vita þeir ekki, að atvinnumennirnir eru valdir úr hópi áhugamannanna og að allir byrja sem áhugamenn?

Í sumar kom út bók í Bretlandi, The Ignoble Art, eða Svívirðilegur leikur, eftir hinn kunna lækni og stjórnmálamann Breta dr. Edith Summerskill. Í þeim ummælum um hnefaleika og upplýsingum, sem hér fara á eftir, er stuðzt við upplýsingar úr þeirri bók.

Það er kominn tími til að gera sér ljóst, að hnefaleikamót atvinnumanna eru opinberar aftökur án þeirrar afsökunar, að verið sé að fullnægja neinu réttlæti, og að horfa á keppnina er jafnóviðfelldið og að horfa á blóðvöll í sláturhúsi. En það er hvorki eins heiðarlegt né eins nauðsynlegt og þó sízt af öllu eins mannúðlegt og slátrun í sláturhúsi.

Virðulegur dómari í London kvað upp þann úrskurð fyrir um það bil tveimur árum vegna dauða hnefaleikara, er lézt að leikunum, að engum yrði um kennt, þetta væri eðlileg áhætta í ekki mjög hættulegum leik. Hinn virðulegi dómari vissi ekki, hvað hann var að segja.

Ef farið er yfir einn eða tvo áratugi af annálum hnefaleikanna, má telja dauðsföllin af völdum þeirra. Þau eru ekki eitt eða tvö, heldur skipta þau hundruðum. Fyrrverandi hnefaleikarar deyja af afleiðingum leikanna, jafnvel mörgum árum eftir að þeir hætta að leika. T.d. sýndi líkskurður á einum fyrrverandi hnefaleikara, er lézt sex árum eftir að hann hætti keppni, að banameinið var afleiðing af höggi eða höggum á höfuðið. Tvívegis hafði verið reynt að bjarga lífi hans með heilaskurði, en tókst ekki nema í svip.

Stundum deyja þeir, sem eru að byrja á þessum leik. Skozkur byrjandi féll í fjórðu lotu og dó, áður en læknir kom á staðinn. Börn deyja líka. 13 ára skólapiltur dó nokkrum dögum eftir að hnefaleikamót hafði verið meðal skólabarna, sem auðvitað teljast til áhugamanna. Sumir verða bróðurbanar. 18 ára piltur var að gamni sínu að hnefaleik heim hjá sér við 21 árs bróður sinn, gaf honum högg undir kjálkann. Bróðirinn féll við og missti meðvitund, var þegar fluttur í sjúkrahús, en var örendur, þegar þangað kom.

Ég vil ekki þreyta hv. þm. á fleiri dæmum, þótt af nógu sé að taka, því að í Bretlandi skipta dauðsföllin tugum frá lokum síðasta stríðs, og í Bandaríkjunum er vitað um 42 dauðsföll af völdum hnefaleika á þremur árum aðeins, 1946–49. Ég endurtek, að það eru þau dauðsföll, sem með vissu er vitað um. Þessir menn voru barðir í hel. Og á sama tíma gerðust sams konar atburðir annars staðar í heiminum, þar sem leikurinn er iðkaður. En það er ekki nóg með þessa menn, sem eru látnir og jarðaðir. Svo eru fjölmargir aðrir, sem enn eru ekki alveg dánir. Þeir lifa enn, þeir tala að vísu hægar en þeim var eðlilegt, þeir sjá verr, þeim er grátgjarnara, þeir drekka frekar en þeir voru vanir og verr. Þetta eru brjóstumkennanlegir menn, hræðilega breyttir. Stundum fremja þessir menn árásir og morð, en oftar eru þeir of silalegir eða óáreiðanlegir til að geta unnið og of grimmlyndir og uppstökkir, til þess að hægt sé að lynda við þá á heimili.

Að segja, að þetta séu aðeins slys og að svipuð slys geti komið fyrir t.d. í knattspyrnu, er fjarstæða. Þetta er algerlega ósambærilegt, vegna þess að i knattspyrnu er keppt að því að setja mark, en ekki að því að slasa eða helzt rota andstæðinginn, svo að hann sé algerlega óvígur, en það er takmarkið, sem hnefaleikakappinn keppir að.

Ég hef hér einkum rætt um hin sýnilegu og sannanlegu áberandi áhrif hnefaleikanna á þá, sem iðka þá eða verða fyrir barðinu á þeim. Áður en ég skilst við þetta mál, vil ég þó henda á eina ástæðu enn. Þeir, sem iðka hnefaleika eitthvað að ráði, þ.e. af verulegum áhuga, komast ekki hjá því að finna, að iðkun þessa leiks hefur áhrif á hugarfarið. Þeir verða uppstökkari, grimmari, hættir meira til að berja aðra af litlu tilefni og hafa jafnvel ánægju af að valda líkamsáverka eða sársauka. Stundum finna mennirnir þetta ekki sjálfir, en þeir, sem umgangast þá, komast ekki hjá að taka eftir því. Dómgreind sumra þessara manna ruglast svo mikið, að það er ekki óalgengt, að unglingar, sem af nýjabrumi langar til að kynnast leikunum, fá kynnin þannig, að eftir að búið er að láta þá hlaupa, hoppa o.s.frv., eins og undirbúningsþjálfun að hnefaleikum er, þá eru loksins settir á þá hnefaleikaglófar og þeim sagt að verjast. Síðan greiðir einhver, sem lengra er kominn í íþróttinni, þeim höfuðhögg, svo að þeir sjá sól og stjörnur, svimar eða rotast. Það er ekki hægt að segja verkunina fyrir, ekki hægt að skammta höfuðhögg svo, að það valdi þeim, sem fyrir því verður, neinu góðu eða eftirsóknarverðu, hvað sem um líkamlegu áhrifin má segja, og menn geta verið ósammála um, hvað hættan á þeim sé mikil. Aðallega fer það þó eftir þeirri reynslu, sem hver og einn hefur til að bera af þessum málum, þannig að þeir, sem mesta reynslu hafa, telja hættuna meiri, en þeir, sem litla eða enga reynslu hafa, telja hættuna hverfandi. En um hitt held ég að allir geti verið sammála, að ekki sé rétt að verja fé eða fyrirhöfn til þess að þjálfa menn andlega til líkamsárása, þjálfa menn til þess að berja fyrst, en hugsa síðan, eða kannske ekki einu sinni eftir á, heldur bara gleðjast yfir því að hafa getað komið „fallegu höggi“, eins og þeir orða það, á andstæðinginn óviðbúinn.

Einn misskilning margra, sem iðka hnefaleik, vil ég leiðrétta. Þeir telja, að hættuminna sé að verða fyrir höggi, sem greitt er með hnefaleikaglófa, heldur en berum hnefa. Þetta er skaðlegur misskilningur. Það er einmitt hægt að greiða miklu þyngra og hættulegra högg með glófum. Þeir eru fyrst og fremst vörn fyrir hönd þess, sem höggið greiðir, glófarnir, en alls ekki fyrir þann, sem fyrir því verður.

Um hnefaleikana hér á landi vil ég aðeins segja þetta: Við, sem höfum fengizt við lækningar síðasta aldarfjórðunginn, getum borið um það, að meðan svo að segja engir fengust hér á landi til þess að æfa hnefaleika, var miklu minna um barsmíðar og slys af þeim sökum heldur en núna á síðustu árum. Og við vitum líka, að mikill meiri hluti þeirra slysa, sem nú verða af barsmíðum, er af völdum manna úr hópi þeirra tiltölulega fáu, sem eitthvað hafa numið hnefaleik. Við getum því bent á sterkar líkur fyrir því, að þessum slysum mundi fækka, ef kennsla í hnefaleik færi ekki fram hér á landi.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.