12.02.1957
Neðri deild: 53. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

98. mál, veð

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Í frv. þessu er eitt atriði, sem er nauðsynlegt að taka til athugunar, áður en frv. verður endanlega afgreitt út úr deildinni. Í 1. gr. þess segir, að eigi veðsali heima í Rvík eða öðrum kaupstöðum, skuli þinglýsa veðbréfinu á 1., 2. eða 3. bæjarþingi, eftir að það er dagsett. Hér er ákvæði, sem stangast á við þær reglur, sem fylgt er hér i Rvík, vegna þess að hér er veðbréfum alls ekki lýst á bæjarþingum, þannig að það er óumflýjanlegt að breyta þessu atriði, þannig að það stangist ekki á við þær reglur, sem um þetta gilda og ómögulegt er að breyta vegna þeirrar skipunar, sem er á meðferð fógetaréttar og dómsmála hér í Reykjavík og skiptingar embættanna.

Um leið og ég bendi á þetta, vildi ég beina því til hæstv. forseta, hvort hann teldi ekki rétt að taka málið nú út af dagskrá, þannig að þeirri hv. nefnd, sem um mál þetta hefur fjallað, gæfist kostur á að athuga þetta til hlítar, þannig að frv. fari hér ekki út úr deildinni með þeim ótvíræða annmarka, sem á því er, ef þessu orðalagi verður haldið.