26.04.1957
Neðri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

16. mál, eftirlit með skipum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna þess að frsm. sjútvn. við 2. umr. er ekki viðstaddur á þessum fundi, vil ég aðeins leyfa mér að skýra frá því, að sjútvn.-menn eru sammála um þá brtt., sem fram er borin frá n. á þskj. 441. Hér er um minni háttar breytingar að ræða. Það er tvennt, sem lagt er til að breytt verði í 1. gr. frv. Í fyrsta lagi er lagt til, að á eftir orðunum „auk annarra björgunartækja, sem ákveðin eru í lögum eða reglugerðum“ komi: á hverjum tíma. Það er í raun og veru ekki efnisbreyting, heldur aðeins skýrara orðalag, þannig að greinilega er fram tekið, að miðað sé við reglugerð á hverjum tíma, en að sjálfsögðu geta reglugerðir breytzt og breytast eftir breyttum aðstæðum.

Um hina breytinguna er það að segja, að hún er á þá leið, að í staðinn fyrir, að í frvgr., eins og nú er, er kveðið á um, að stærð gúmmíbáta sé miðuð við, að þeir rúmi þá sem á skipi eru, leggur n. til, að þetta verði orðað þannig, að gúmmíbátarnir rúmi minnst þá, sem á skipi eru. Má segja, að þetta sé fremur orðalagsbreyting en efnisbreyting, eins og hin fyrri, og miðar að því að gera orðalagið skýrara.