07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta mál hefur nú fengið afgreiðslu í efri deild, var flutt þar af n. eftir minni beiðni og hefur ekki verið breytt þar, svo að neinu máli skipti, frá því, sem það var lagt fyrir n., áður en það kom inn í hv. efri deild.

Þetta mál er gamalt áhugamál lærðra og leikmanna, sem áhuga hafa á kristni og kirkjumálum, og tilgangurinn, eins og oft hefur verið rakið, þegar um þetta mál hefur verið ritað á undanförnum árum og tilgangi kirkjuþings lýst af áhugamönnum á því að koma á þessari stofnun, er að auka samstarf milli leikmanna og presta um kristni og kirkjumál.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að það sé neinn ágreiningur um það hér í þessari hv. þingdeild, að það sé æskilegt, að þetta samstarf geti aukizt, heldur þvert á móti tel ég, að líklegt sé, að það muni hafa almennu fylgi að fagna að efla það samstarf, og menn telja, að ýmislegt gott geti af því leitt. Það er yfirleitt of lítið samband núna milli þess starfs, sem kirkjan innir af hendi, og leikmannanna í landinu. Nú er hugsað að ráða bót á þessu með því, að kjörnir séu fimmtán kirkjuþingsmenn. Það er tiltekið í 2. gr., að það er gert ráð fyrir 7 kjördæmum, tveir kosnir í hverju kjördæmi og 1 er tilnefndur af guðfræðideild Háskóla Íslands.

Þessu kirkjuþingi er ekki ætlað að breyta neinu um þá valdaskiptingu, sem er milli þeirra aðila og hjá þeim aðilum, sem nú ráða kirkjumálum, og vil ég vekja athygli á því, að ákvæði um þetta atriði er í 14. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að kirkjuþing hafi ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll mál, er kirkjuna varða, eins og nánar er tiltekið í þessari grein. Þetta þing verður þess vegna þing, sem aðeins gerir till. og ráð. Það er ætlazt til þess, eins og ég sagði áðan, að það verði þing presta og áhugasamra leikmanna, sem vaka yfir því að koma á stað þeim nýjungum, sem til bóta mættu verða að því er snertir starf kirkjunnar, svo sem nákvæmlega er tekið fram í 14. gr. En þessar till. eru ekki bindandi, eins og þar er líka tiltekið, fyrr en þær hafa hlotið samþykki kirkjuráðs, prestastefnu og biskups.

Þau andmæli, sem komu fram í hv. efri deild, eru sérstaklega um ákvæði 13. gr., að kirkjuþingsmenn fái greidda dagpeninga og ferðakostnað. Ýmsir þm. óttast, að með þessu frv. sé verið að stofna til fordæmis fyrir aðrar stéttir, það muni koma fleiri stéttarþing, eins og sagt hefur verið, og þeir muni krefjast þess, að fulltrúum þeirra verði greiddir dagpeningar. En við, sem erum fylgjandi þessu frv., eins og það er núna, höfum hins vegar bent á, að hér er ekki um stéttarþing að ræða og veitir þess vegna ekki neitt fordæmi öðrum stéttum, sem kynnu að óska eftir því, að fulltrúar þeirra fengju greidda þóknun fyrir að mæta á stéttarþingum, — hér er ekki um stéttarþing að ræða, heldur, eins og ég hef margsinnis tekið fram og frv. ber með sér, þing presta og leikmanna vegna þess víðtæka starfs, sem kirkjan innir af höndum í okkar þjóðfélagi, svo að samstarf geti myndazt þar milli presta og fulltrúa almennings í landinu. Hér er þess vegna ekki um stéttarþing að ræða.

Ég vonast eftir, að afgreiðslu þessa máls hér verði hraðað, eftir því sem hv. þd. sér sér fært, og legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.