21.03.1957
Neðri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

83. mál, lax- og silungsveiði

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég var við atkvgr. í Ed., þegar þetta mál kom hér fyrir, og varð aðeins of seinn að koma hér inn í deildina. En það fór vel á því, að sá maður, hv. 2. þm. Reykv., sem er þessu máli allra manna kunnugastur, með því að hann hefur haft að ýmsu leyti forgöngu um þetta mál og starfaði í þeirri n., sem undirbjó þetta mál, og lagði í það mikla vinnu, — það fór vel á því, að hann hefði framsögu um það, því að þetta er a.m.k. ekki meira en að hálfu leyti mál núverandi ríkisstj. Það er stjórnarfrumvarp frá því á síðasta þingi, eins og grg. fyrir frv. ber með sér, en þá varð samkomulag um að senda frv. til veiðifélaga og þeirra aðila, sem hafa hér hagsmuna að gæta, til þess að fá nákvæma umsögn þeirra um málið. Og nú hafa þær umsagnir fengizt, og eftir að þær lágu fyrir, — umsagnirnar eru margar, — var frv. af núverandi landbrh. sent til landbn. Ed. og óskað eftir, að hún flytti málið, sem hún gerði án skuldbindinga um afstöðu einstakra nefndarmanna. En þó að þetta mál sé undirbúið af fyrrverandi ríkisstj. og ég hafi ekki skipað þá n., sem vann að málinu, er mér það fyllilega ljóst, að til þeirrar n. var mjög mikið vandað, og þeir menn, sem að málinu unnu, hafa unnið þar að ýmsu leyti mjög gott verk, sem við var að búast, þar sem þeir eru, eins og hér var fram tekið, þeir menn, sem hafa fullkomnasta sérþekkingu á því ýmsir af þeirri sérþekkingu, sem við ráðum yfir í þessu landi.

Ég þarf ekki að bæta neinu við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Það yrðu endurtekningar, ef ég bætti við það. Breytingarnar, sem eru gerðar frá núgildandi löggjöf, eru, eins og hann gat um, fyrst og fremst þær, að það er nokkur vernd á laxveiðiánum sjálfum, stangarveiðiánum, með því að takmarka veiðitímann þar, og svo jafnframt lengdur um sólarhring friðunartími á viku hverri fyrir göngulax upp eftir jökulvatnsánum, og í þriðja lagi er leiðrétt ákvæði, sem menn höfðu misjafnan skilning á, áður en sá hæstaréttardómur gekk, sem hann minntist á, skýringin á því, hvað er árbakki. Eins og hann tók fram, var skýringin sú eftir hæstaréttardómnum, að árbakki sé eyri, þó að hún liggi langt úti í á, en við það styttist bilið milli veiðivélanna í ánum, þar sem ekki þarf að vera nema fimmföld lengd á fyrirstöðu og neti til næstu lagnar. Ef fyrirstaðan er alla leið frá bakka fram í ála og yfir eyrar, þá vitanlega lengist bilið milli lagnanna. En við það, að leggja má út af eyrum, verður fyrirstaðan svo stutt ásamt netinu, að bilið milli lagnanna styttist, eins og hefur komið greinilega fram í sumum ám, þar sem netafjöldinn hefur við þetta margfaldazt.

Það hafa verið gerðar ýmsar breytingar, eins og hann minntist á, í hv. Ed. Markverðasta breytingin er ákvæðið um skaðabótarétt þeirra, sem missa í veiði við breytingar, sem hér er fyrirhugað að gera.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar orðum um þetta frv. að sinni, en tek undir það, að eðlilegt er að vísa því til landbn. til athugunar, 2. umr. og landbn.